Karlar ráða íslenskum peningaheimi en konur að mestu í aukahlutverkum
Kjarninn hefur í níu ár framkvæmt úttekt á kynjahlutföllum þeirra sem stýra þúsundum milljarða króna í ýmis fjárfestingaverkefni hérlendis. Í níu ár hefur niðurstaðan verið svipuð, karlar eru allt um lykjandi. Í ár eru karlarnir 91 en konurnar 13. Þeim hefur fjölgað um sjö frá 2014.
Konur eru enn fjarri því að njóta jafnræðis við karlmenn þegar kemur að því að ákveða í hvaða verkefni peningar á Íslandi rata. Kjarninn hefur framkvæmt úttekt á því hvers kyns þeir sem stýra fjármagni á Íslandi eru árlega frá 2014. Úttektin nú er því sú níunda sem framkvæmd hefur verið.
Í ár nær hún til 104 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, verðbréfasjóða, sérhæfðra sjóða, orkufyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða.
Af þeim eru 91 karlar en 13 konur. Hlutfall kvenna sem stýra peningum á Íslandi eykst því lítillega á milli ára, fer úr ellefu prósentum í 12,5 prósent. Frá því að Kjarninn gerði úttektina fyrst hefur konunum sem hún nær til fjölgað úr sex í 13, á níu árum. Körlunum hefur hins vegar fjölgað um tólf.
Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir samtals þúsundum milljarða króna.
Ef 40 af stærstu einkafjárfestum landsins, sem eru á meðal 20 stærstu hluthafa í félögum sem eru skráð í Kauphöll eru einnig taldir með þá breytist myndin aðeins. Í þeim hópi, samkvæmt úttekt Kjarnans, ráða 33 karlar ríkjum en sjö konur. Körlunum fjölgar því í 124 en konunum í 20.
Markmið kynjakvótalaga aldrei náðst
Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Íslandi voru samþykkt árið 2010. Þau tóku að fullu gildi í september 2013. Lögin segja að fyrirtækjum sem eru með 50 eða fleiri starfsmenn þurfi að tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40 prósentum. Markmiðið með lagasetningunni var að „stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum.“
Von þeirra sem samþykktu frumvarpið – 32 þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum sem áttu þá sæti á þingi – var að fleiri konur í stjórnum myndi leiða til þess að fleiri konur yrðu ráðnar í stjórnunarstöður og það myndi fjölga tækifærum kvenna.
Hagstofa Íslands tekur árlega saman tölur um hversu margar konur sitji í stjórnum fyrirtækja. Stofnunin birti nýjustu tölur sínar, sem sýna stöðuna í lok 2021, á þriðjudag í síðustu viku. Þar kom fram að rúmlega fjórðungur, 27 prósent, allra stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum væru konur. Það hlutfall var 24 prósent árið 2010.
Í fyrirtækjum með fleiri en 50 launþega var hlutfall kvenna í stjórnum 19,5 prósent árið 2010. Árið sem lögin tóku gildi var hlutfallið orðið 30,2 prósent. Frá þeim tíma hefur lítið gerst. Hlutfallið var 34,7 prósent í fyrra.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega á milli ára og var 23,9 prósent en hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,7 prósent í lok árs 2021.
„Þetta er ekki hægt. Þetta á eftir að koma í bakið á ykkur“
Staða kvenna er afar mismunandi eftir atvinnugreinum. Í einni af undirstöðugreinum þjóðarinnar, sjávarútvegi, er hún til að mynda afar skökk. Ein birtingarmynd þess er sú að á síðasta ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var kjörin ný 19 manna stjórn. Í henni sitja 19 karlar en engin kona.
Klemens Hjartar, meðeigandi í alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Co, hélt erindi á ársfundinum og tók þessa stöðu fyrir. „Iðnaður sem ætlar að halla sér fram og breyta heiminum, búa til aðgreinanleika, getur ekki hagað sér svoleiðis. Þetta er algjörlega forkastanlegt og það liggur mér á hjarta, af því að nú vinn ég við að ráðgefa fyrirtækjum út um allan heim, þetta er ekki hægt. Þetta á eftir að koma í bakið á ykkur.“
Klemens sagðist vona að atvinnugreinin færi að skilja að það að kjósa bara karla í stjórn hagsmunagæslusamtaka hennar gangi virkilega ekki. „Ef þetta gerðist einhvers staðar annars staðar í venjulegu fyrirtæki sem er með þennan metnað sem hægt er að hafa hér, þá væri það bara alls ekki ásættanlegt.“
Heiða Kristín Helgadóttir, stofnandi sjávarútvegsfyrirtækisins Niceland Seafood, gerði stjórnarkjörið einnig að umtalsefni í grein sem birt var á Vísi 12. maí. Þar sagði hún að allir lofsöngvar og glansmyndir sem hugsast geti nái ekki að breiða yfir þá staðreynd að með stjórnarkjöri 19 karla í 19 manna stjórn afhjúpist helsti veikleiki greinarinnar. „Er það virkilega svo að SFS ætlist til þess að allar þær fjölmörgu hæfu og reynslumiklu konur sem starfa í greininni sitji penar á kantinum, styðji sína menn og bíði eftir kynslóðarskiptum? Eigi sjávarútvegurinn að tvöfalda verðmætin sem hann skapar nú þegar eru engar líkur á að það takist með einsleitum hópi karla af sama reki og með sama bakgrunn í fararbroddi. Það er ákveðin lágmarkskrafa að hleypa öðru kyni að, svo ekki sé talað um allar aðrar mannlegar breytur sem greinin myndi græða svo margfalt á að hleypa nálægt sér. En ég legg ekki meira á mína menn en þeir geta borið.“
Nær allir stjórnendur lífeyrissjóða eru karlar
Stærstu fjárfestarnir á Íslandi eru lífeyrissjóðir. Þeir eru allt um lykjandi í viðskiptalífinu. Hrein eign þeirra er um 6.647 milljarðar króna. Það er líklega rúmur þriðjungur af heildarfjármunum sem til eru á Íslandi og sá eignarhlutur mun vaxa á næstu árum. Árið 2060 munu þeir eiga tæplega 40 prósent allra fjármuna hér. Þeir eiga í dag meirihluta allra markaðsskuldabréfa á Íslandi og beint eða óbeint um helming allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni. Alls eru sjóðirnir 21 talsins en stjórnendur þeirra eru 16.
Nær allir stjórnendur lífeyrissjóða eru karlar. Stærsta breytingin í þeim efnum varð árið 2019 þegar Harpa Jónsdóttir tók við stjórnartaumunum hjá stærsta lífeyrissjóði landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þrettán sjóðum er stýrt af körlum en þremur af konum. Það er sama stað og var uppi 2021.
Þegar skyggst er undir efsta stjórnendalagið er svipuð staða uppi. Karlar eru mun fyrirferðameiri en konur í þeim stöðum sem ákveða í hvaða fjárfestingar lífeyrissjóðapeningarnir okkar rata.
Karlarnir allstaðar í verðbréfafyrirtækjunum
Stærstu viðskiptavinir íslenskra verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða eru lífeyrissjóðir.
Flestir á þeim markaði hafa stóran hluta tekna sinna upp úr því að rukka lífeyrissjóði um þóknanatekjur fyrir milligöngu í verðbréfakaupum eða annars fjárfestingum. Öllum leyfisskyldum verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfa- og sérhæfðra sjóða er stýrt af körlum. Af þeim rekstraraðilum sérhæfðra sjóða sem eru skráningarskyldir, en ekki leyfisskyldir, eru sjö undir stjórn karla en þrír undir stjórn kvenna.
Öllum eftirlitsskyldum tryggingafélögum landsins er stýrt af körlum og hjá lánafyrirtækjum eru karlarnir tveir en konan ein eftir að Jónína Gunnarsdóttir tók við hjá SaltPay 18. mars síðastliðinn af Reyni Finndal Grétarssyni sem gerðist stjórnarformaður.
Þá eru átta stór orkufyrirtæki í landinu. Lengi vel var þeim öllum stýrt af körlum en 2018 var Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastýra Orku Náttúrunnar í kjölfar mikilla átaka innan þess fyrirtækis vegna meintrar kynferðislegrar áreitni.
Loksins kom kona í Kauphöllina og önnur á leiðinni
Á Íslandi eru fjórir sparisjóðir enn starfandi. Þeim er öllum stýrt af körlum. Ein breyting varð á æðstu stjórnendum þeirra á síðastliðnu ári, þegar karlinn Sigurður Erlingsson tók við stjórnartaumunum hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Honum var áður stýrt af sparisjóðsstjóranum Gerði Sigtryggsdóttur.
Þeim er öllum stýrt af körlum. Þegar litið er yfir starfsmannalistann er ljóst að kynjahlutfallið lagast ekki mikið þegar neðar í skipuritið er komið.
Fjórir stórir bankar eru á landinu. Tveimur þeirra, Landsbankanum og Íslandsbanka, er stýrt af konunum Lilju Björk Einarsdóttur og Birnu Einarsdóttur. Báðir bankarnir sem eru að fullu í einkaeigu, Arion banki og Kvika banki, eru undir stjórn karla.
Forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem stundar útlán til fasteignakaupa, er sömuleiðis karl.
Á íslenskum hlutabréfamarkaði eru skráð 26 félög sem stendur og nokkur eru á leið á hann. Alls eru 20 félaganna skráð á Aðalmarkað og sex á First North. Öllum félögunum utan einu er stýrt af körlum. Þar varð sú breytingu á í fyrra þegar Íslandsbanki var skráður á markað, að kona stýrði skráðu félagi á Íslandi í fyrsta sinn síðan í ágúst 2016, þegar Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur var sagt upp hjá VÍS.
Þrjú félög eru á leið á markað í næsta mánuði. Ölgerðin og Nova ætla að skrá sig á aðalmarkað og Alvotech hefur hug á að skrá sig á First North. Nova er stýrt af konunni Margréti Tryggvadóttur.
Konur fjármálaráðherrar í minna en 17 mánuði frá 1944
Þegar horft er víðar á áhrifastöður í samfélaginu, þar sem peningum er auðvitað stýrt, en þó með öðrum hætti en í viðskiptalífinu, hallar víða enn á konur. Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið til að mynda enn körlum í hag.
Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.
Fjármála- og efnahagsráðherra er karlinn Bjarni Benediktsson. Alls hafa 26 einstaklingar gegnt þeirri stöðu frá því að lýðveldið Ísland var stofnað. Einungis tveir þeirra hafa verið konur. Oddný Harðardóttir varð fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra þegar hún tók við því á gamlársdag 2011.
Oddný sat í embætti í níu mánuði og þá tók flokkssystir hennar Katrín Júlíusdóttir við. Hún sat í embættinu í tæpa átta mánuði. Því hafa konur verið fjármálaráðherrar á Íslandi í minna en 17 mánuði frá árinu 1944.
Konur undir 40 prósent þeirra sem sitja á Alþingi
Seðlabankastjóri Íslands er, og hefur alltaf verið, karl en af þremur varaseðlabankastjórum eru tvær konur, Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir.
Á Alþingi voru 30 konur kjörnar í fyrra. þær voru 24 fyrir kosningarnar og fjölgaði því um sex í síðustu kosningum. Hlutfall kvenna á þingi er nú 47,6 prósent en voru 38 prósent fyrir síðust kosningar. Hlutfallið nú er það sama og var eftir kosningarnar 2016, en þá var kosið aftur ári síðar eftir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk og við það fækkaði konum á ný.
Konurnar á þingi dreifast ójafnt á flokka. Hjá Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokknum á þingi, eru þær sjö en karlarnir tíu. Hjá Framsókn eru konurnar sex en karlarnir sjö og hjá flokki forsætisráðherra, Vinstri grænum, eru konurnar fimm en karlarnir þrír.
Hjá Samfylkingunni, nú stærsta stjórnarandstöðuflokki landsins, eru konurnar fjórar en karlarnir tveir og hjá Viðreisn eru konurnar sömuleiðis í meirihluta, þrjár á móti tveimur körlum. Hjá Pírötum er kynjaskiptingin jöfn milli sex þingmanna flokksins.
Inga Sæland og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingkonur Flokks fólksins, deila þingflokki með fjórum körlum og báðir eftirstandandi þingmenn Miðflokksins eru karlar.
Því eru konur í meirihluta hjá þremur þingflokkum, kynjahlutföllin jöfn hjá einum en karlarnir í meirihluta fjórum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði