Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 17. janúar 2021.
Stofnandi Boney M fæddist í Þýskalandi árið 1941, skírnarnafn hans var Franz Reuther. Hann hafði frá unga aldri mikinn áhuga á tónlist en taldi vissara að læra eitthvað sem hann gæti lifað af, eins og hann sagði síðar í viðtali, og lauk námi sem matreiðslumaður.
Tónlistin átti þó hug hans allan og hann lagði kokkahúfuna á hilluna fljótlega eftir að náminu lauk. Árið 1967 sendi hann frá sér, á smáskífu, lagið „Will You Ever Be Mine“. Þá hafði hann tekið upp nafnið Frank Farian.
„Will You Ever Be Mine“ vakti litla athygli, en árið 1976 urðu straumhvörf í lífi Frank Farian. Það ár kom út fyrsta smáskífa söngsveitar sem Frank Farian hafði ákveðið að kalla Boney M. Á þessari smáskífu var að finna lagið „Baby Do You Wanna Bump“ sem var umskrifun á lagi jamaíska söngvarans Prince Buster en hjá honum hét lagið „Al Capone“. Þetta var ekki í síðasta skipti sem Frank Farian leitaði í smiðju söngvara og tónlistarmanna frá eyjum í karabíska hafinu.
„Baby Do You Wanna Bump“ naut talsverðra vinsælda í Hollandi og Belgíu en þegar hollenska sjónvarpið óskaði eftir að söngsveitin flytti lagið í sjónvarpinu þurfti Frank Farian að hafa hraðar hendur. Þetta sem hann hafði kallað söngsveit var nefnilega bara hann sjálfur, hann hafði sungið allar raddirnar á plötunni. En honum tókst að hóa saman fjórum söngvurum, þremur konum og einum karli, Boney M flokkurinn var orðinn til. Og kom fram í hollenska sjónvarpinu. Þeir sem horfðu á þáttinn vissu ekki að aðalsöngvarinn sást ekki á skjánum, Frank Farian var nefnilega ekki ánægður með söng karlsins í hópnum, Bobby Farrell, og söng því sjálfur þótt Bobby Farrell hreyfði varirnar. Bobby Farrell var hins vegar góður dansari og féll að því leyti vel inn í hópinn.
Í áðurnefndum sjónvarpsþætti flutti hópurinn meðal annars lagið „Daddy Cool“. Í september 1976, skömmu eftir áðurnefndan hollenskan sjónvarpsþátt, kom Boney M fram í tónlistarþættinum Der Musikladen sem sýndur var í þýska sjónvarpinu.
„Daddy Cool“ sló í gegn og komst hátt, og sumsstaðar efst, á vinsældalista útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu. Boney M var orðið nafn og fyrsta stóra“ plata sveitarinnar sem kom út sumarið 1976 seldist ágætlega. Í umsögnum blaða frá þessum tíma má lesa að sviðsframkoma sveitarinnar sé mjög lífleg og tónlistin grípandi. Sönghæfileikar fjórmenninganna séu greinilega misjafnir en aðalsöngvarinn Liz Mitchell fær mjög góða dóma. Þess má geta að fjórmenningarnir í Boney M eiga allir rætur að rekja til eyja í karabíska hafinu.
Nafnið sótt í ástralska sjónvarpsþætti
Frank Farian hafði lengi velti fyrir sér hvað söngsveitin sem hann hafði sett saman ætti að heita. Kvöld eitt kveikti hann, sem oftar, á sjónvarpinu og þá var að ljúka einum þætti í ástralskri þáttaröð. Það fyrsta sem hann sá þegar myndin birtist á skjánum (sem tók drjúga stund á þeim árum) var nafnið Boney, sem var heiti þáttanna.
„Boney, Boney“ sagði Frank Farian við sjálfan sig, „Boney, Boney, Boney, Boney M“ og slökkti á sjónvarpinu. Í viðtali mörgum árum síðar sagðist hann strax hafa verið viss um að Boney M væri rétta nafnið.
Rivers of Babylon og Brown Girl in the Ring
Í apríl 1978 sendi Boney M sveitin frá sér smáskífu með tveimur lögum. Á þessari skífu voru tvö lög: „Rivers of Babylon“ og „Brown Girl in the Ring“. Forráðamenn útgáfufyrirtækisins voru handvissir um að lagið „Rivers of Babylon“ yrði sölulag plötunnar og settu það á A-hliðina. Fljótlega kom í ljós að það var lagið á B-hliðinni „Brown Girl in the Ring“ sem naut meiri vinsælda og þá ákváðu útgefendurnir, í skyndi, að senda nýtt upplag (aðra pressun) á markaðinn og nú var „Brown Girl in the Ring“ komið á A-hliðina. Plötusafnarar og aðdáendur Boney M kvörtuðu sumir hverjir, yfir því að þurfa að kaupa sömu plötuna tvisvar, ef svo mætti segja.
Bæði lögin á þessari smáskífu náðu miklum vinsældum og voru vikum saman í efstu sætum vinsældalista evrópskra útvarpsstöðva. Þetta sama ár sendi Boney M frá sér breiðskífuna „Nightflight to Venus“. Á þeirri plötu voru 10 lög, þar á meðal bæði „Rivers of Babylon“ og „Brown Girl in the Ring“.
Árið 1978 var tvímælalaust hátindurinn á ferli Boney M. Á næstu árum sendi sveitin frá sér nokkrar plötur en engin þeirra náði sama flugi og „Nightfligt to Venus“. Samtals hafa plötur sveitarinnar selst í tugum milljóna eintaka. Boney M er oft sögð einskonar samnefnari diskó tímabilsins, glimmer og stuð.
Saga sveitarinnar verður ekki frekar rakin hér en sumir fjórmenninganna hafa haldið áfram í tónlistinni, allt til þessa dags. Sama er að segja um Frank Farian, manninn á bakvið sveitina.
Að eigna sér tónlist annarra
Fljótlega eftir að smáskífan með „Brown Girl in the Ring“ og „Rivers of Babylon“ kom á markaðinn fóru að heyrast raddir um að þessi tvö lög væru hreint ekki samin af Frank Farian. Þetta væru lög sem hann hefði tekið traustataki og gert að sínum, þau hefðu bæði orðið til á eyjum í karabíska hafinu. „Brown Girl in the Ring“ væri leikur sem krakkar á Jamaíku hefðu kunnað áratugum saman. „Rivers of Babylon“ væri hins vegar áratuga gamall söngur Rastafaratrúarhreyfingarinnar, ættaður frá Afríku og Jamaíka. Bæði þessi lög hafa reyndar verið hljóðrituð áður, en vinsældirnar sem þau náðu í flutningi Boney M urðu til þess að að beina athyglinni að þeirri staðreynd að tónlistarmenn, austan hafs og vestan, hafa árum saman tekið án heimildar lög, sem til hafa orðið í fátækari löndum, og gert að sínum.
Um þetta eru mýmörg dæmi, þar á meðal suðurafríska lagið „Mbube“, samið 1939, höfundur þess Solomon Linda. Fáir kannast kannski við þetta nafn, en því betur við „The Lion Sleeps Tonight“, sem Disney fyrirtækið notaði í kvikmyndinni The Lion King. Eftir löng og kostnaðarsöm réttarhöld greiddi Disney fyrirtækið erfingjum Solomon Linda skaðabætur.
20 ára deila
Árið 1974, fjórum árum áður en Boney M sendi frá sér smáskífuna með metsölulögunum tveimur „Brown Girl in the Ring“ og „Rivers of Babylon“ hafði fyrrnefnda lagið komið út á plötu söngvarans Malcolm Magaron. Þar var höfundurinn sagður Peter Herbolzheimer, þýskur tónlistarmaður og hljómsveitarstjóri.
Hann var ósáttur við að Frank Farian skyldi eigna sér lagið og í kjölfarið tóku við réttarhöld, sem stóðu yfir í um það bil 20 ár. Þýskir fjölmiðlar sögðu að þegar dómarinn, Wolfgang Neuschild, hefði fengið málið í sínar hendur hefði hann verið dökkhærður en orðinn gráhærður þegar því lauk. Dómarinn lýsti því yfir þegar málaferlin hófust að hann væri vita laglaus, en þegar málinu lauk nefndi hann sérstaklega að sitt slaka tóneyra væri ekki ástæða þess hve langan tíma málið tók. Sérkennilegt þótti að hvorki stefnandinn né hinn stefndi höfðu samið lagið sem deilt var um og í raun veit enginn hver er höfundur lagsins. En málinu lauk með einhvers konar sátt, en innihald þeirrar sáttar hefur ekki verið gert opinbert.
Réttarhöldin vegna „Brown Girl in the Ring“ vöktu athygli á þeirri staðreynd að höfundar frá fátækum löndum eiga erfitt með að leita réttar síns gagnvart fjársterkum útgáfufyrirtækjum.
Mörg fleiri mál
Í Þýskalandi eru nú í gangi nokkur mál sem varða lög sem tónlistarmenn hafa tekið „traustataki“. Í Danmörku eru í gangi nokkur slík mál og mörg fleiri væri hægt að nefna.
Ekki er hægt að slá botn í þennan pistil án þess að nefna Jóhann Helgason. Hann hefur um nokkurra ára skeið átt í málaferlum gegn erlendu fjársterku erlendu fyrirtæki, Universal Music og norska lagahöfundinum Rolf Løvland. Þau snúast um lagið „Söknuð“. Ekki sér fyrir endann á því máli en þar á Davíð sannarlega í höggi við Golíat.