Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 21. september 2021
Enid Mary Blyton hefur verið lýst sem ritvél á yfirsnúningi. Hún skrifaði upp undir 10 þúsund orð á dag. Á hverjum einasta degi. Afköstin voru slík að ýmsir héldu því fram að hún hefði fjölda manns í vinnu við skriftirnar en öllu slíku neitaði Enid Blyton. Eitt árið voru bækurnar 50. Til viðbótar bókunum 762 sem hún sendi frá sér um ævina skrifaði hún óteljandi blaðagreinar um nánast allt milli himins og jarðar. Um árabil var hún ritstjóri, og jafnframt aðalhöfundur barnatímaritsins Sunny Stories. Afköstin voru með ólíkindum. Bækur Enid Blyton hafa selst í hundruðum milljóna eintaka og verið gefnar út á að minnsta kosti 90 tungumálum.
Enid Blyton var fædd í suðurhluta Lundúna 11. ágúst 1897, elst þriggja systkina. Faðirinn var sölumaður, seldi búsáhöld og föt, móðirin var heimavinnandi. Nokkurra mánaða gömul veiktist Enid alvarlega af kíghósta og vart hugað líf. Í minningum sínum sagði Enid eftir foreldrum sínum að hún ætti lífgjöfina föðurnum að þakka. Í æviminningunum kemur líka fram að faðirinn hafi haft mikinn áhuga á blómum, fuglum, tónlist og myndlist. Og iðinn við að uppfræða dótturina og kennt henni að spila á píanó.
Íþróttir og píanó frekar en bækur
Þegar Enid Blyton var tveggja ára flutti fjölskyldan til Beckham, sem þá var lítið þorp sunnan við London. Enid lauk prófi frá St. Christopher skólanum í Beckham átján ára gömul. Hún hafði ekki sérlega mikinn áhuga fyrir bóklega náminu en því meiri fyrir íþróttum. Hún varð skólameistari í tennis og fyrirliði skólaliðsins í háfleik, lacrosse ( líkist hokkí og íshokki, leikinn með priki með poka á endanum). Enid var einnig efnilegur píanóleikari og íhugaði að sækja um í Guildhall tónlistarskólanum. Sagði síðar að hún hefði ekki haft nægan áhuga fyrir að verða tónlistarmaður. Þegar Enid hafði lokið leikskólakennaranámi starfaði hún sem leikskólakennari. Þar uppgötvaði hún hve auðvelt hún átti með að segja börnum sögur, sem hún samdi jafnóðum.
Barnahvísl
Fyrsta bók Enid Blyton kom út árið 1922, ljóðabókin Child Whispers, Barnahvísl. Hún hafði þá margoft fengið birt ljóð, og smásögur, í tímaritum en ekki fram til þessa tekist að fá útgefanda að heilli bók. Phyllis Chase, vinkona Enid frá skólaárunum myndskreytti Barnahvísl og hún átti síðar eftir að að myndskreyta allmargar bækur sem Enid sendi frá sér. Enid hafði þegar þarna var komið ákveðið að helga sig ritstörfum og sendi á næstu árum frá sér allmargar barnabækur. Flestar stuttar og ríkulega myndskreyttar. Sumar þeirra vöktu talsverða athygli, enn var þó talsvert í að henni tækist að festa sig í sessi sem rithöfund.
Bókaflóð
Í stuttum pistli sem þessum verður að fara hratt yfir sögu. Fyrsta skáldsaga Enid Blyton í fullri lengd kom út árið 1938. Það var The Secret Island, Ævintýraeyjan eins og hún hét á íslensku. Bókin fékk ágæta dóma, einn breskur gagnrýnandi sagði hana „einskonar Robinson Cruso bók sem þó gerðist í Englandi“. Ævintýrabækurnar áttu eftir að njóta mikilla vinsælda og á árunum fram til 1950 komu út samtals 6 bækur í þessum flokki. Til marks um afköstin má nefna að árið 1940 komu út 11 bækur undir hennar nafni og auk þess tvær undir dulnefninu Mary Pollock (millinafn Enid og eftirnafn þáverandi eiginmanns). Ugglaust hefur Enid verið skemmt þegar gagnrýnandi nokkur sagði að „þessar bækur hennar Mary Pollock væru svo vinsælar að nú mætti Enid Blyton fara að vara sig“. Síðar voru bækurnar sem fyrst voru gefnar út undir nafni Mary Pollock , samtals 6 talsins endurútgefnar undir nafni Enid Blyton.
Þrátt fyrir að Enid Blyton væri orðin þekktur rithöfundur sló hún ekki slöku við. Bækurnar streymdu frá henni: Fimm bækurnar (Famous Five) urðu 21, Dularfullu bækurnar (Five find-Outers and Dog) urðu 15, Leynifélagið Sjö Saman (Secret Seven) sömuleiðis 15 bækur. Margar fleiri mætti nefna, t.d Baldintátubækurnar (The Naughtiest Girl) að ógleymdum Doddabókunum, sem urðu vel á þriðja tuginn. Sú fyrsta Doddi í Leikfangalandi (Noddy goes to Toyland) kom út 1949. Doddabækurnar voru ríkulega myndskreyttar og Doddi og Eyrnastór vinur hans urðu góðkunningjar milljóna barna um allan heim. Enid Blyton lést 28. nóvember 1968.
Hugmyndir og vinnuaðferðir
Enid Blyton var ekki mikið fyrir að útskýra hvernig sögur hennar urðu til. Í blaðaviðtali sagði hún einhverju sinni „ég loka augunum í nokkrar mínútur, með ritvélina á hnjánum, reyni að tæma hugann. Og þá lifna persónurnar í huga mér, rétt eins og þær standi fyrir framan mig. Fyrsta setningin kemur upp í hugann og þá þarf ég ekki að hugsa neitt, allt kemur af sjálfu sér“.
Vinnuaðferðir Enid Blyton breyttust lítið gegnum tíðina. Hún byrjaði yfirleitt fljótlega eftir morgunmat með litlu ritvélina á hnjánum og litskrúðuga sjalið frá Marokkó sér við hlið. Sagði að litirnir í sjalinu gæfu sér innblástur. Eftir stutt matarhlé var haldið áfram við skrifin, iðulega til klukkan fimm síðdegis. Þá voru venjulega komin 6 til 10 þúsund orð á blað.
Hundruð milljóna bóka
Enid Blyton var einn vinsælasti barnabókahöfundur 20. aldarinnar. Bækur hennar eru þekktar um allan heim, hafa selst í rúmlega 600 milljónum eintaka og verið þýddar á meira en 90 tungumál. Fjölmargar bækur hennar hafa verið þýddar og gefnar út á íslensku. Sú fyrsta kom út árið 1945. Hún nefndist Sveitin heillar og er úr bókaflokknum um Leynifélagið Sjö Saman. Sumar þeirra bóka sem út hafa komið á íslensku hafa verið prentaðar margoft og eru enn fáanlegar.
Mismunandi sjónarmið
Á síðari árum hafa margir orðið til að gagnrýna bækur Enid Blyton, fyrir þau viðhorf sem þar koma fram. Stéttaskipting, kynjahlutverk, kynþáttaviðhorf, útlendingahatur, skort á bókmenntalegu gildi og fleira og fleira. Söguhetjur bókanna eru yfirleitt af miðstétt. Reyndar er þessi gagnrýni ekki ný af nálinni, árið 1960 neitaði útgefandi Enid Blyton að gefa út eina bóka hennar vegna orðalagsins. Annað forlag gaf hins vegar út bókina, sem seldist vel og var endurprentuð tvisvar.
Aðrir segja að í bókum Enid Blyton sé að finna boðskap um bjartsýni og börn og unglingar um allan heim hafi lesið bækurnar sér til ánægju og afþreyingar og að uppeldishlutverk bóklesturs verði seint ofmetið.
Höfundur þessa pistils, fæddur um miðja síðustu öld, gleypti í sig bækur Enid Blyton. Lifði sig inn í þann ævintýraheim sem þar var að finna og var ekki að velta fyrir sér bókmennta- og uppeldisgildi textans. Líklega dæmigerður lesandi.
Enid Blyton er hluti af sögu Englands og bækur hennar seljast enn í stórum stíl. Þess má geta að aðeins verk William Shakespeare, Agöthu Christie og Jules Verne hafa verið þýdd á fleiri tungumál en bækur Enid Blyton.
Skildir og styttur
Víða um heim er að finna styttur og minningarskildi um einstaklinga sem á einhvern hátt hafa sett mark sitt á söguna. Stjórnmálamenn, oft í yfirstærð, eru fyrirferðarmiklir á fótstöllunum, þjóðhöfðingjar sömuleiðis. Rithöfundar, lista- og vísindamenn komast líka oft á stall. Minningaskildir eru af sama meiði, gjarna settir á hús þar sem þekktir einstaklingar fæddust, bjuggu einhverntíma á ævinni eða síðustu æviárin.
Á allra síðustu árum hefur orðið mikil breyting á viðhorfi almennings víða um um lönd varðandi slík minnismerki. Þessa viðhorfsbreytingu rekja margir til Black Lives Matter hreyfingarinnar sem stofnuð var í Bandaríkjunum árið 2013. Þótt hreyfingin hafi fyrst og fremst verið stofnuð til að vekja athygli á ofbeldi lögreglunnar gagnvart þeldökkum og margs konar mismunun í garð þeirra hafa áhrifin náð langt út fyrir þessar raðir.
Enid Blyton minningarskildirnir
Í London og nágrenni er að finna nokkra minningarskildi með nafni Enid Blyton. Á húsum þar sem hún bjó um lengri eða skemmri tíma. Suma skildina hafa viðkomandi sveitarfélög sett upp og gjarna tiltekið hvenær Enid Blyton bjó á þessum stað. Einn slíkur skjöldur er á húsi í Chessington sunnan við London og þar bjó Enid Blyton í upphafi rithöfundarferils síns. Skildinum var komið þar fyrir að tilhlutan stofnunar sem nefnist English Heritage. Sú stofnun er hálfopinber og hefur á sinni könnu menningarminjar vítt og breitt um England. Í London og nágrenni eru 950 minningarskildir, bláir postulínsskildir með hvítri áletrun og merki English Heritage.
Með sérstöku smáforriti (app) er hægt að nálgast ýmsar upplýsingar um einstaklinginn á viðkomandi skilti. English Heritage hefur undanfarið í sumum tilvikum breytt upplýsingum, eða bætt við þær. Meðal annars upplýsingunum um Enid Blyton. Í þessum viðbótarupplýsingum má lesa að höfundurinn hafi verið gagnrýndur, meðal annars fyrir rasisma. Sömuleiðis er nefnt að Konunglega myntsláttan hafi árið 2016 hafnað því að slá sérstaka 50 pensa mynt til heiðurs Enid Blyton. English Heritage segir ennfremur: „sumir segja að ekki sé hægt að neita þessum ásökunum en vilja jafnframt benda á að bækur hennar hafa glatt kynslóðir barna um allan heim og verið þeim hvatning til að lesa.“