Í hálfsársuppgjöri Landsbankans, sem birt var í lok síðasta mánaðar, kom fram að stefnt sé að því að aðalmeðferð í Borgunarmálinu svokallaða, þar sem ríkisbankinn telur sig hlunnfarinn um tvo milljarða króna, muni fara fram í janúar 2022. Þá verða liðin rúm sjö ár frá því að Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu á undirverði og fimm ár frá því að mál var höfðað gegn gegn Borgun hf., fyrrverandi forstjóra Borgunar Hauki Oddssyni, BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. vegna þessa.
Borgun er raunar ekki til lengur í þeirri mynd sem það var þegar fyrirtækið var selt. Í fyrra var gengið frá sölu þess til alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækisins Salt Pay Co Ltd., sem er með skráð aðsetur á Caymaneyjum.
Eignarhaldsfélagið Borgun, sem keypti 31,2 prósent eignarhlut Landsbankans í nóvember 2014, var á meðal seljenda. Upphaflega greiddi félagið 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn en rúmlega tvöfaldaði þá fjárfestingu á tæpum sex árum með arðgreiðslum, sölunni til Salt Pay og með því að fá bréfi í félagi sem heldur á bréfum í Visa Inc.
Grunsemdir um að virði hafi verið falið
Kaupin á hlut Landsbankans í Borgun áttu sér þann aðdraganda að maður að nafni Magnús Magnússon, með heimilisfesti á Möltu, setti sig í samband við ríkisbankann og falaðist eftir eignarhlutnum fyrir hönd fjárfesta.
Á meðal þeirra sem stóðu að kaupendahópnum voru þáverandi stjórnendur Borgunar. Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip, félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson), og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar).
Fljótlega vöknuðu grunsemdir um að Borgun væri mun verðmætara fyrirtæki en ársreikningar þess gáfu til kynna, sérstaklega vegna þess að á meðal eigna Borgunar var hlutur í Vísa Europe, sem var keyptur af Visa Inc. skömmu eftir að kaupin gengu í gegn. Þessi eignarhlutur var marga milljarða króna virði en hafði ekki verið metin þannig við söluna á eignarhlut Landsbankans. Enn fremur var ekki gerður neinn fyrirvari í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc., en slíkur fyrirvari var til að mynda verið gerður þegar Arion banki keypti hlut Landsbankans í öðru greiðslumiðlunarfyrirtæki sem átti hlut í Visa Europe, Valitor.
Mikill hagnaður og háar arðgreiðslur
Næstu árin hagnaðist Borgun verulega. Greiddar voru út 800 milljónir króna í arð til eigenda á árinu 2015 vegna frammistöðu fyrra árs. Ári síðar nam arðgreiðslan 2,2 milljörðum króna og árið 2017 voru greiddir út 4,7 milljarðar króna vegna frammistöðu ársins 2016, þegar hlutirnir í Visa Europe voru seldir.
Á rúmum þremur árum fengu fjárfestarnir sem keyptu 31,2 prósent hlut ríkisbankans Landsbankans því allt útlagt kaupverð til baka og græddu til viðbótar 218 milljónir króna í reiðufé. Árið 2017 var hagnaðurinn svo 350 milljónir króna en engin arður greiddur út.
Ofan á það áttu þeir auðvitað enn hlutinn í Borgun.
Halla fer undan fæti og Borgun selt
Á árunum 2018 og 2019 fór reksturinn hins vegar að versna til muna. Samanlagt tap á þeim árum nam um tveimur milljörðum króna og á fyrri hluta ársins 2020 var tapið 635 milljónir króna.
Á því ári samþykktu svo eigendur 96 prósent hlutafjár í Borgun, þar á meðal stærsti eigandinn Íslandsbanki og Eignarhaldsfélagið Borgun, að selja hluti sína til alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækisins Salt Pay. Formlega var gengið frá sölunni 7. júlí í fyrra.
Kaupverðið var sagt trúnaðarmál en Fréttablaðið greindi frá því viku síðar að það hafi verið samtals 27 milljónir evra, um 4,3 milljarðar króna á þeim tíma. Það hafði lækkað um átta milljónir evra, um 1,3 milljarða króna, frá því að kaupsamningur var undirritaður 11. mars 2020. Helsta ástæða þess að verðið lækkaði voru áhrif COVID-19 faraldursins á starfsemi Borgunar. Sé það rétt er hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar í kaupverðinu ætti samkvæmt því að vera um 1,3 milljarðar króna.
Áður en að gengið var frá sölunni á Borgun var hlutafé í félaginu lækkað. Sú lækkun fór fram þannig að forgangshlutabréf í Visa Inc, sem Borgun eignaðist árið 2016 við að selja hlut sinn í Visa Europe, voru færð inn í félagið Borgun-VS ehf. Fráfarandi eigendur Borgunar eignuðust svo það félag. Virði forgangshlutabréfanna er sagt vera rúmlega 3,1 milljarður króna í árshlutauppgjöri Íslandsbanka. Hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar í Borgun-VS ehf. ætti því að vera um eins milljarðs króna virði.
Matsmenn styðja málatilbúnað Landsbankans
Í nóvember 2016 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær harðlega. Á meðal þeirra er salan á hlut í Borgun. Tíu dögum síðar var Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, sagt upp störfum. Sú ákvörðun var rakin beint til Borgunarmálsins. Nokkrum vikum síðar, í janúar 2017, höfðaði Landsbankinn mál gegn Borgun hf., þáverandi forstjóra fyrirtækisins, BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. Bankinn taldi sig blekktan og hlunnfarinn við söluna á hlut sínum í Borgun og vill fá 1,9 milljarða króna greiddar frá stefndu auk vaxta.
Haukur Oddsson, sem var forstjóri Borgunar þegar kaupin áttu sér stað og er einn þeirra sem Landsbankinn stefndi, hætti störfum hjá Borgun í október 2017.
Málið hefur svo mallað í kerfinu árum saman. Matsmenn sem lögðu mat á ársreikning Borgunar hf. fyrir árið 2013, og skiluðu matsgerð haustið 2019, komust að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar í Visa Europe Ltd til Visa Inc., skilmála hans og mögulegar greiðslur til Borgunar á grundvelli hans hafi verið mikilvægar við gerð, framsetningu og þar af leiðandi endurskoðun ársreiknings Borgunar árið 2013. Þá hefði Borgun átt að upplýsa um eignarhlut sinn í Visa Europe Ltd. og að félagið væri aðili að Visa Europe Ltd. í ársreikningnum.
Borgun hefði jafnframt átt að gera grein fyrir valréttinum þar í samræmi við ákvæði alþjóðlegs reikningsskilastaðals og upplýsa um óvissu um hann í skýrslu stjórnar samkvæmt lögum auk þess sem að matsmenn telja að ársreikningur Borgunar fyrir árið 2013 hafi ekki uppfyllt allar kröfur laga um ársreikninga og alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
Yfirmatsmenn telja líka að upplýsingar hafi vantað
Við fyrirtöku málsins 24. janúar 2020 lagði Borgun og ónefndur annar stefndi fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna.
Í nýbirtu hálfsársuppgjöri Landsbankans kemur fram að þeir hafi skilað matsgerð í apríl síðastliðnum. Yfirmatsmenn töldu meðal annars að „upplýsingar um tilvist og skilmála valréttarins hefðu getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings félagsins fyrir árið 2013, að sú skylda hafi hvílt á stjórnendum félagsins að greina frá tilvist og eftir atvikum skilmálum valréttarins í skýringum í ársreikningnum og að ársreikningurinn hafi ekki uppfyllt allar kröfur um upplýsingagjöf um eignarhlut félagsins í Visa Europe Ltd. og/eða valréttinn samkvæmt þágildandi lögum og reglum.“
Í árshlutauppgjörinu kemur enn fremur fram að til standi að aðalmeðferð í málinu fari fram í janúar næstkomandi.