Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og borgaryfirvöld stóðu frammi fyrir nokkrum kostum til að tryggja „viðunandi“ aðstæður selanna fjögurra sem eru þar til sýnis. Að sleppa þeim í hafið var ekki einn þeirra. Að flytja þá annað, t.d. í Klettsvík við Vestmannaeyjar líkt og einhverjir hafa stungið upp á, reyndist ómögulegt og að halda þá áfram við „óviðunandi aðstæður“ í núverandi laug óásættanlegt.
Að aflífa þá var einn möguleiki en ákveðið var hins vegar að gera það ekki heldur stækka laugina og þar með það rými sem þeir hafa til að athafna sig. Það er að mati starfsfólks garðsins sem og borgarstjórnar það „mannúðlegasta í stöðunni.“
Sumarið 1990 er Húsdýragarðurinn var opnaður með pompi og prakt, með því yfirlýsta markmiði að leyfa reykvískri æsku að kynnast lífsháttum dýra og sveitastörfum, voru að minnsta kosti þrír selir í selalauginni. Þeir höfðu allir verið veiddir sérstaklega í því skyni. Áratug síðar voru þeir orðnir sjö. Allt frá opnun hafa dýraverndunarsamtök gagnrýnt þetta dýrahald en segja má að aðeins á allra síðustu árum hafi almenningur og svo stjórnmálamenn farið að setja við það spurningarmerki.
Á átján ára tímabili frá 1997, er selir í garðinum fóru að kæpa, hafa 1-2 kópar verið aflífaðir árlega. Því var hætt árið 2016 og þeir þrír ókynþroska brimlar sem þar svamla nú um eru allir fæddir eftir það. Auk þeirra er í lauginni ein nokkuð öldruð urta sem veidd var árið 1989, ári áður en garðurinn var opnaður. Hún er kölluð Særún og er elsta dýrið í Húsdýragarðinum, orðin 33 ára og enn við góða heilsu.
Ekki er hægt að sleppa dýrunum út í náttúruna, það þykir fullreynt og lög banna ennfremur slíkt í dag, enda dýrin uppalin meðal manna og gætu ólíklega bjargað sér upp á eigin spýtur. Og þar sem markmiðið með nýju lauginni er að leyfa selunum fjórum að njóta meira rýmis og eyða því sem þeir eiga eftir ólifað í Húsdýragarðinum – en án þess að fjölga sér – þarf að grípa til aðgerða.
„Á liðnum árum hafa komið fram bættar aðferðir við afturkræfa lyfjageldingu sela með lágmarks inngripi í líf þeirra,“ segir Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri hjá Dýraþjónustu Reykjavíkur. „Ætlunin er að nýta slíkar aðferðir til þess að koma í veg fyrir að selirnir fjölgi sér og er það í undirbúningi.“
Tímaskekkja
Borgarráð samþykkti í byrjun maí að heimila útboð á framkvæmdum vegna nýrrar selalaugar og þjónustuhúss í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Í tilkynningu frá borginni sagði að nýja laugin myndi „margfalda það rúmmál sem selirnir hafa til sunds“. Þá yrði aðstaða til almennrar umhirðu og aðhlynningar dýra í þjónustuhúsinu og stórir gluggar neðan vatnsborðs laugarinnar gæfu gestum garðsins „tækifæri til að sjá selina með nýjum hætti“.
Áætlað er að framkvæmdirnar hefjist fljótlega og kosti 125 milljónir króna. Hvorki var leitað ráðgjafar sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar né Hafrannsóknarstofnunar varðandi áformin en grunnur þess að stækka laugina og með hvaða hætti byggir á ráðleggingum og viðmiðum frá EAZA (European Association of Zoos and Aquarium), segir í svörum borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
„Það er tímaskekkja í dag að halda villt dýr til sýningar, en þegar aðstæður eru þannig að ekki er hægt að sleppa dýrunum, þá er mikilvægt að búa þeim lífvænlegt umhverfi og stækkun og dýpkun laugarinnar er mjög mikilvægur þáttur í því,“ sagði í bókun meirihluta borgarráðs á fundinum.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sem fyrir nokkrum árum var á því að ekki ætti að halda seli í garðinum sagði í sinni bókun að betra væri að garðurinn héldi eingöngu húsdýr heldur en að stækka laugina. „Villt dýr þrífast best í villtri náttúru“.
Hefur mikla rýmisþörf
Og það þarf enginn að velkjast í vafa um hvorum hópnum landselir tilheyra, þessi stóru sjávarspendýr sem Náttúrufræðistofnun setti árið 2018 á válista – þar sem tegundin var komin í bráða útrýmingarhættu hér við land.
„Landselur hefur mikla rýmisþörf og fer yfir talsvert stórt svæði til fæðuöflunar og annarra athafna,“ segir í svörum sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar við fyrirspurn Kjarnans um málið. „Þeir setjast upp á landi til að þurrka sig, fella hár, til hvíldar og kæpinga en kópar eru „geymdir“ á landi milli mjólkurgjafa.“
Einnig bendir stofnunin á að urtur sæki í friðsæla staði til að kæpa því kóparnir eru varnarlausir meðan þeir eru skildir eftir einir þegar mæður þeirra afla sér fæðu. „Svo merkilegt sem það er þá hafa selirnir í Húsdýragarðinum parast og eignast afkvæmi við þau skilyrði sem þeir búa nú við; lítil laug, ónáttúrulegt umhverfi og talsverð truflun.“
Áherslan á dýptina
Gamla laugin er um 100 m3 og sú nýja verður nálægt 400 m3. Eftir stækkun verður laugin alls nálægt 500 m3, eða um 125 m3 á hvern sel, segir Þorkell hjá Dýraþjónustunni sem var til svara fyrir hönd borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans um áformin.
Í nýrri laug verður „megináherslan lögð á dýptina fremur en flatarmál“ en gamla selalaugin er einungis um 1,6 metra djúp þar sem hún er dýpst. Sú nýja verður að stórum hluta meira en 4 metra djúp. „Í eldri lauginni var lengsti hringur sem selirnir gátu synt um 35 lengdarmetrar en verður um 90 í báðum laugum til samans,“ segir í svörum Þorkels.
Hann segir starfsfólk garðsins lengi hafa talað fyrir bættri aðstöðu fyrir selina og laug í samræmi við nútímaviðmið, enda núverandi laug teiknuð 1989 þegar allt önnur viðmið voru um dýrahald.
Auk þeirra sela sem eru með lögheimili í Húsdýragarðinum hefur átta selum í hremmingum verið komið tímabundið fyrir í selalauginni. Þekktastur er líklega hann Kári sem kom árið 2020, þá nokkurra mánaða og horaður. Honum var sleppt nokkru síðar með staðsetningarbúnað límdan við bakið og synti rakleiðis tugi kílómetra að Grænlandi. Síðan hefur ekkert til hans spurst.
Þorkell segir að meirihluta veiku eða slösuðu selanna hafi verið sleppt aftur en suma þurfti að aflífa.
Með netadræsur um hálsinn
Hafrannsóknarstofnun berst að sögn Söndru M. Granquist, deildarstjóra selarannsóknarsviðs hjá Selasetrinu, töluvert af tilkynningum um seli í hremmingum, m.a. dýrum sem finnast með net í kringum hálsinn. Náttúrufræðistofnun berast árlega 1-2 tilkynningar um seli í vanda.
Engin sérstök aðstaða er í landinu til að sinna selum í neyð en þjónustuhúsið sem byggt verður við selalaugina í Húsdýragarðinum mun að mati Þorkels stórbæta möguleika til aðhlynningar þeirra í framtíðinni. Þeim verði sinnt í innilaug og ekki standi til að þeir verði til sýnis. Innilaugin er tæplega 10 fermetrar á stærð.
Með tilkomu laga um dýravelferð árið 2013 var sveitarfélögum sett sú skylda að sjá til þess að villtum dýrum í hremmingum sé komið til bjargar. Náttúrufræðistofnun segir að til að standa undir slíkum kröfum sé athvarf nauðsynlegt. Aldrei ætti að hafa særð eða veik dýr til sýnis og meðferð þeirra verður að fara fram þar sem þau fái næði og frið, bæði frá öðrum dýrum og gestum garðsins.
Brimlarnir þrír sem fæddir eru og uppaldir í selalauginni gætu átt 3-4 áratugi eftir ólifaða. Nýja laugin gæti orðið heimili þeirra þann tíma, finnist ekki önnur og betri lausn. „Húsdýragarðurinn leitast ekki eftir að fanga seli til sýningar en hins vegar viljum við tryggja núverandi dýrum í okkar umsjón fullnægjandi velferð,“ segir Þorkell.
„Ósk okkar væri að þeim selum sem nú búa í húsdýragarðinum væru komið fyrir í sjávardýraathvarfi við náttúrulegri aðstæður,“ segir í viðbrögðum Samtaka um dýravelferð á Íslandi við áformunum. Áfram ætti að leita slíkrar lausnar í stað þess að stækka selalaugina og verja því fé sem áætlað var í framkvæmdirnar frekar til dýravelferðarmála. Núverandi aðstöðu í Húsdýragarðinum ætti að nýta fyrir villt dýr í vanda „en ekki til þess að halda sjávarspendýrum föngnum einungis til afþreyingar manna“.
Starfsemi dýragarða hefur lengi verið umdeild en „ekkert sérstaklega síðustu árin í sjálfu sér, þótt sú umræða hafi verið áberandi hérlendis á köflum,“ segir Þorkell. „Tegundir sjávarspendýra eru margar og afar mismunandi hvernig einstakar tegundir aðlagast í haldi manna. Sérstaklega hefur þó verið deilt á það síðari árin að haldin séu stór sjávarspendýr eins og hvalir í dýragörðum. Mjög erfitt er að búa slíkum dýrum viðunandi aðstæður. Landselir þykja hins vegar almennt séð aðlagast vel í haldi. Hvort það sé í takti við tíðarandann að halda dýr yfir höfuð er svo spurning sem afar skiptar skoðanir eru á.“
Hann segir stefnu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins að leggja aukna áherslu á dýravelferðarmál og endurhæfingu dýra í framtíðinni. „Þetta er í samræmi við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur og í samræmi við breyttan tíðaranda.“
Rask verði sem minnst fyrir selina
Þessi þáttur í starfsemi garðsins er þegar vaxandi og tengist starfsemi Dýraþjónustunnar sem samrekin hefur verið með Húsdýragarðinum frá 2021.
Framkvæmdum við stækkun selalaugarinnar verður háttað þannig að selirnir dvelja í gömlu lauginni þar til sú nýja hefur verið steypt upp. Þá verða þeir fluttir í þá nýju á meðan gengið er frá tengingu á milli lauganna. „Að sjálfsögðu er lögð áhersla á að selirnir verði fyrir eins litlu raski og mögulegt er á meðan á framkvæmdum stendur,“ segir Þorkell.