Rússar hafa bætt Íslendingum á lista yfir þau lönd sem Rússum er nú óheimilt að flytja inn matvæli frá. Kjarninn greindi frá því í morgun, fyrstur íslenskra fjölmiðla, að Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, hefði staðfest að fimm ríkjum hefði verið bætt á slíkan lista. Löndin fimm eru Albanía, Svartfjallaland, Liechtenstein, Úkraína og auðvitað Ísland.
Fyrir voru á listanum öll aðildarríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Kanada, Noregur og Ástralía. Ástæðan fyrir veru allra þessarra ríkju á bannlistanum er einföld: það standa að eða styðja viðskiptaþvinganir á hendur Rússlandi vegna innlimunar þeirra á Krímskaga.
Ákvörðun Rússa er mikið áfall fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, og íslenskt efnahagslíf. Hún mun að öllum líkindum skerða útflutningstekjur landsins, að minnsta kosti til skamms tíma. Ákvörðunin átti samt ekki að koma mikið á óvart.
Legið í loftinu
Í raun hafði ákvörðun Rússa legið í loftinu í lengri tíma, þótt formleg ákvörðun hafi ekki verið tekin fyrr en í morgun. Það vakti mikla athygli í fyrra þegar listi Rússa var settur saman, fyrir tæpu ári síðan, að það var nokkuð tilviljunarkennt hvaða ríki lentu á honum. Þannig lentu Norðmenn á honum en ekki Íslendingar þrátt fyrir að bæði ríkin hefðu staðið með þeim viðskiptaþvingunum sem lagðar voru á Rússa í júní 2014.
Nokkrum mánuðum síðar, nánar tiltekið 15. október 2014, birti Evrópuráðið síðan formlega tilkynningu um að Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Noregur, auk Úkraínu og Georgíu, ætluðu að styðja þær viðskiptaþvinganir sem Evrópusambandið, Bandaríkin og Kanada höfðu lagt á Rússa. Frá því að þessi tilkynning birtist hefur verið órói innan íslensku stjórnsýslunnar, og ekki síður hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, vegna þess möguleika að Rússar myndu bæta Íslandi á lista yfir þau lönd sem mega ekki flytja matvæli til Rússlands. Sá listi er viðbragð við viðskiptaþvingunum vesturveldanna gagnvart Rússlandi.
Það þurfti ekki að bíða lengi eftir staðfestingu á að sá óróleiki sem var til staðar hérlendis átti fullan rétt á sér.
Mikill órói í fyrrahaust
Þann 23. október 2014 greindi Kjarninn til að mynda frá því að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hefðu verið boðaðir á fund í utanríkisráðuneytinu vegna stöðunnar sem komin var upp milli Íslands og Rússlands. Þeim höfðu þá borist upplýsingar, í gegnum viðskiptavini sína í Rússlandi, að rússnesk stjórnvöld hefðu hug á að loka á viðskipti við Ísland. Adolf Guðmundsson, þáverandi formaður LÍÚ, sagði þá í samtali við Kjarnann að hann hefði heyrt af áhyggjum sjávarútvegsfyrirtækja af því að Rússar væru að loka á viðskipti við Ísland og útvíkka innflutningsbannið.
Ekkert varð hins vegar af banninu þá. Ástæður þess hafa ekki verið útskýrðar opinberlega.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Rússa. MYND:EPA.
Medvedev boðar viðbót á listann
Í lok júli voru viðskiptaþvinganirnar gagnvart Rússlandi framlengdar um ár. Skömmu eftir að sú ákvörðun lá fyrir birti Evrópuráðið nýjan lista yfir þau ríki sem studdu aðgerðirnar, og þar á meðal voru Íslendingar.
Rússar brugðust skjótt við og Dmitri Peskov, fjölmiðlafulltrúi Vladimirs Pútin, forseta Rússlands, sagði að til greina kæmi að Rússland myndi fjölga löndunum á sínum bannlista.
Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, tilkynnti svo í síðustu viku að hann ætlaði sjálfur stýra rannsókn á því hvort Rússland ætti að útvíkka bannið þannig að það myndi ná til fleiri landa.
Síðan þá hefur verið mikill órói hérlendis. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði við Morgunblaðið að ráðuneyti hans og ríkisstjórnin hefðu haft áhyggjur af því „allan tímann“ að lenda á viðskiptabannlista Rússa. Jón Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði á sama stað að viðskiptabann gæti sett mikla hagsmuni Íslands í uppnám. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri samtakanna, kvartaði yfir skort á samráði við hagsmunaaðila.
Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, stýrði rannsókn á því hvaða lönd ættu að fara á listann.
Margir ósáttir
Margir stigu fram og viljað að íslensk stjórnvöld breyti afstöðu sinni gagnvart viðskiptaþvingunum sem Rússar eru beittir. Á meðal þeirra var Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, sem sagði þátttöku Íslands í aðgerðunum vera vanhugsaða. Með þátttöku eru gríðarlegir hagsmunir þjóðarbúsins lagðir að veði. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, steig fram og sagði að Íslendingar ættu að hætta að styðja þvinganirnar. Jón Bjarnason, fyrrum sjávarútvegsráðherra, tók opinberlega í sama streng.
Þverpólitísk samstaða var hins vegar um það í utanríkismálanefnd að standa áfram með sögulegum bandamönnum Íslands og styðja aðgerðirnar gegn Rússum. Framferði þeirra gegn Úkraínu væri ólíðandi og gegn því yrði að standa.
Gríðarlega miklir hagsmunir undir
Það var ekki að ástæðulausu að allt nötraði og skalf út af hinu yfirvofandi banni. Íslendingar stunda gríðarlega mikil viðskipti við Rússa og mikið af þeim auknu útflutningstekjum sem við höfum fengið eftir hrun, og hafa skipt lykilmáli í að rétta við íslenskt efnahagslíf, eru tilkomnar vegna sölu á makríl til Rússlands.
Um fimm prósent útflutningsverðmæta Íslands á síðasta ári komu til vegna útflutnings til Rússlands. Á árinu 2014 voru aðeins fimm lönd sem keyptu meira af útflutningsafurðum Íslands, en alls nam verðmæti útflutnings til Rússlands um 29 milljörðum króna á síðasta ári af samtals um 590 milljarða króna útflutningsverðmætum. Í minnisblaði sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lögðu fram á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis á mánudag kom fram að áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands í ár nemi 37 milljörðum króna, eða um átta milljörðum króna til viðbótar við það sem þau skiluðu í fyrra. Uppistaðan í þessum tekjum er sala á makríl, en um helmingur þess makríls sem veiðst hefur við Íslandsstrendur undanfarin ár hefur farið á Rússlandsmarkað.
Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðaniðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar er heildarmagn makríls meira en nokkru sinni fyrr á Íslandsmiðum, eða frá því að athuganir hófust árið 2009.
Lokast hefur fyrir aðra markaði
Mikilvægi Rússlandsmarkað fyrir íslenskan fiskútflutning, sérstaklega á makríl, hefur aukist mikið á undanförnum árum. Ástæðan er meðal annars sú að Ísland getur ekki selt makríl inn á innri markað Evrópusambandsins án þess að greiða tolla. Ástæðan er sú að fyrir rúmu ári gerðu Norðmenn, Færeyjar og Evrópusambandið samkomulag um makrílveiðar í Atlantshafi án aðkomu og vitundar Íslands.
Auk þess hefur lokast fyrir sölu á makríl til Nígeríu eftir að yfirvöld þar kynntu nýverið um bann á innflutningi á fiski og fjölmörgum fleiri vöruflokkum. Í fyrra fluttu íslensk fyrirtæki yfir 20 þúsund tonn af makríl til Nígeríu og landið voru stærstu kaupendur af afurðinni, utan Rússa. Ástæðan fyrir þessum aðgerðum Nígeríumanna eru meðal annars höft á gjaldeyrisviðskipti og útgáfa handahófskenndra innflutningskvóta til að efla innlenda framleiðslu. Ofan á allt saman er Úkraínumarkaður, sem hefur lengi verið mikilvægur markaður fyrir íslenskan uppsjávarfisk, verið sem lamaður vegna þeirra átaka sem átt hafa sér stað í landinu.
Þess ber þó að geta að öll þessi lönd eru fjarri því að vera mikilvægustu viðskiptalönd Íslendinga. Alls fer á bilinu 75 til 80 prósent af útflutningi Íslendinga inn á Evrópska efnahagssvæðið. Þá kemur 63 prósent af öllum innflutningi til landsins þaðan og um tíu prósent frá Bandaríkjunum. Í þeim skilningi eru íslensk stjórnvöld því að veðja á réttan hest með því að standa samhliða sögulegum samherjum landsins í aðgerðum þeirra gegn Rússum. Langmestu viðskiptahagsmunir Íslendinga eru hjá þeirri blokk.
Íslandi bætt á listann
Í gær virtist einboðið að Rússar myndu bæta löndum við á bannlistann sinn. Eina óvissan var hversu mörg þau yrðu. Íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar vonuðu fram á síðustu stundu að Ísland yrði þar undanskilið og miklar skeytasendingar áttu sér augljóslega stað milli íslenskra og rússneskra stjórnvalda til að reyna að tryggja að svo yrði.
En allt kom fyrir ekki. Í morgun var birtur listi yfir þau fimm lönd sem bætt yrði á bannlistann. Þau voru Ísland, Albanía, Svartfjallaland, Liechtenstein og Úkraína.
Hvað þýðir þetta?
Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur komið skýrar í ljós hvað vera Íslands á listanum þýðir. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kom fram að bannið feli í sér að íslenskum fyrirtækjum verður ekki lengur unnt að markaðssetja sjávarafurðir í Rússlandi auk þess sem bannið tekur til landbúnaðarvara að frátöldu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti í dósum. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins liggur fyrir að íslenskar vörur verði ekki tollafgreiddar og hætta sé á að vörum verði fargað á landamærunum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hitti sendiherra Rússlands á Íslandi í dag til að ræða þá stöðu sem er uppi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra, ræddi við sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton V. Vasiliev, á óformlegum fundi í dag. Þar sagði sendiherrann að ákvörðunin frá því í morgun beindist ekki sérstaklega gegn Íslandi, heldur væru Rússar að svara í sömu mynt fyrir þær aðgerðir sem beitt hefði verið gegn þeim. Aðgerðir sem Rússar telji ólöglegar. Sendiherrann sagðist ekki hafa upplýsingar um hversu víðtækt innflutningsbannið væri, en það væri tímabundið og nauðsynlegt að vinna að sameiginlegri lausn.
Viðbrögðin eftir bókinni
Viðbrögð við ákvörðuninni í dag hafa verið eftir bókinni. Gunnar Bragi sendi frá sér tilkynningu þar sem hann sagði ákvörðun Rússa vera gríðarleg vonbrigði. „Við höfum leitað allra leita til að útskýra afstöðu okkar fyrir rússneskum stjórnvöldum og þá hagsmuni sem undir eru.“
HB Grandi, eina sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð er á markað. Sendi frá sér tilkynningu til Kauphallar til að greina frá áhrifum bannsins á starfsemi sína. Þar sagði að í fyrra hafi sautján prósent tekna HB Granda frá viðskiptum við rússneska aðila. Gróflega áætlað mun innflutningsbann Rússlands á matvöru frá Íslandi lækka tekjur félagsins um um það bil tíu til fimmtán milljónir evra á ársgrundvelli. Félagið á nú um 6 milljónir evra í útistandandi kröfum í Rússlandi. Tekið var fram að erfitt sé að meta fjárhagsleg áhrif bannsins á HB Granda. Tíu til fimmtán milljónir evra eru jafnvirði um 1.470 til 2.200 milljóna króna. Hlutabréf í HB Granda lækkuðu um 2,64 prósent í dag í 607 milljóna króna viðskiptum.
Þá greindi vefurinn Undercurrent News, sem sérhæfir sig í fréttum af sjávarútvegi,frá því að þremur sendingum með vörum frá Íslandi á leið til Rússlands hafi í dag verið snúið við.
Önnur áhrif bannsins munu síðan koma fram á næstu dögum.