Alls 22,5 prósenta hlutur í Íslandsbanka seldur með 2,25 milljarða króna afslætti
Bjarni Benediktsson er búinn að ákveða að ríkissjóður selji stóran hlut í Íslandsbanka fyrir 52,65 milljarða króna. Ríkið mun eiga 42,5 prósent hlut í bankanum og hefur selt bréf í honum fyrir 108 milljarða króna frá því í fyrrasumar. Fyrirkomulag sölunnar var knappt og stóð yfir í nokkra klukkutíma eftir að það var tilkynnt. En það var í samræmi við þá leið sem boðuð hafði verið frá því að söluferlið var sett formlega af stað á ný 11. febrúar.
Útboði á stórum hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka lauk klukkan 21:30 í gærkvöldi. Í tilkynningu sem birt var í Kauphöll Íslands um 40 mínútum síðar kom fram að Bankasýsla ríkisins myndi mæla með því að 22,5 prósent hlutur í bankanum yrði seldur til þeirra sem buðu og að verðið í útboðinu yrði 117 krónur á hlut. Það er 4,2 prósent undir dagslokagengi í gær og þýðir veittur yrði 2,25 milljarða króna afsláttur á hlutum í bankanum og 22,5 prósent hluturinn seldur á 52,65 milljarða króna.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók ákvörðun um að fara að tillögu Bankasýslunnar og klukkan 6:18 í morgun var tilkynnt að salan væri frágengin. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands sagði að „veruleg umfram eftirspurn var í útboðinu og bæði innlendir og erlendir hæfir fjárfestar sýndu útboðinu mikinn áhuga.“
Fyrir hefur legið að sitjandi ríkisstjórn ætlaði sér að selja eftirstandandi 65 prósent hlut í Íslandsbanka, að ferlið yrði í höndum Bankasýslu ríkisins og að það yrði Bjarna að samþykkja sölur áður en þær eru framkvæmdar. Þann 20. janúar síðastliðinn sendi Bankasýslan tillögu og minnisblað um hvernig hefja ætti næstu skref í sölunni á hlut ríkisins í bankanum. Þann 11. febrúar birti Bjarni greinargerð á vef stjórnarráðsins þar sem kom fram að skynsamlegast væri að næsta skref í sölu Íslandsbanka væri með útboði á hlutabréfamarkaði, þar sem hæfir fagfjárfestar fengju möguleika á að kaupa hluti í bankanum á afslætti.
Umsagnir fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um framhald sölunnar á Íslandsbanka lágu svo fyrir fyrr í þessum mánuði. Þar gagnrýndu þingmenn Pírata, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins áform um fyrirhugaða sölu en sú gagnrýni var af ýmsum toga. Í efnahags- og viðskiptanefnd gagnrýndi til að mynda fulltrúi Samfylkingarinnar það að Bjarni fengi að selja Íslandsbanka, í ljósi tengsla hans við fyrirrennara bankans. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd kallaði hins vegar meðal annars eftir frekari stefnumótun, lagði áherslu á í athugasemdum sínum að fengnir yrðu ábyrgir erlendir langtímafjárfestar að borðinu, að það yrði ekki endurtekið að bankinn yrði seldur á undirverði og að gætt yrði að samkeppnissjónarmiðum.
Eftir að athugasemdir þingnefnda lágu fyrir var tilkynnt um það síðdegis á föstudag að Bjarni hefði ákveðið að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins frá 20. janúar síðastliðnum. Ráðherrann sendi Bankasýslunni bréf um ákvörðunina þann dag.
Mælt með því að selja til „hæfra fjárfesta“
Bankasýslan hafði mælti með því í tillögu sinni frá 20. janúar að bankinn yrði fyrst seldur með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi í þessum sölufasa. Slíkt fyrirkomulag fæli í sér að söluráðgjafar könnuðu áhuga svokallaðra „hæfra fjárfesta“ til að athuga áhuga þeirra á að taka þátt í útboði. Ef slíkur áhugi væri til staðar myndi þeir fá möguleika á að kaupa hlutabréf í bankanum á gengi sem væri nokkru undir markaðsverði þeirra daginn fyrr. Í greinargerð Bjarna frá 11. febrúar sagði að ástæða þess að „hæfir fjárfestar“ myndu fá afslátt væri vegna þess að þeir kaupi stærri hlut í bankanum en aðrir, auk þess sem óvissa væri um nákvæma þróun hlutabréfaverðsins á vikunum eftir útboðið.
En hvað eru „hæfir fjárfestar“? Samkvæmt lögum verða fjárfestar sem hyggjast fara með virkan eignarhlut í banka að standast hæfismat sem byggist á ítarlegri greiningu og gagnaöflun. Þeir þurfa að hafa gott orðspor og búa við sterka fjárhagsstöðu, en auk þess ætti eignarhaldið ekki að torvelda eftirliti eða leiða til peningaþvættis eða annarrar ólöglegrar starfsemi.
Fyrir liggur að það eru að uppistöðu þrír hópar sem ættu að uppfylla þessi skilyrði. Í fyrsta lagi íslenskir lífeyrissjóðir, sem hafa verið að stækka við sig í Íslandsbanka frá síðasta sumri. Þeir eiga nú um sex prósentustigum meira en þá, eða rúmlega 15 prósent hlut. Í öðru lagi erlendir langtímafjárfestar, t.d. á borð við aðra banka. Í þriðja lagi erlendir fjárfestingarsjóðir sem sérhæfa sig í fjárfestingum í fjármálafyrirtækjum. Þeir geta verið bæði skammtíma- og langtímafjárfestar. Þegar 35 prósent hlutur í Íslandsbanka var seldur í fyrrasumar á 55,3 milljarða króna keyptu tveir erlendir sjóðir til að mynda samanlagt 10,5 prósent hlut. Í byrjun árs 2022 hafði annar þeirra selt sig út og sameiginlegur hlutur erlendu fjárfestanna minnkað um 30 prósent á örfáum mánuðum, niður í 7,4 prósent.
Hluturinn sem íslenska ríkið seldi er nú um 30 milljörðum króna meira virði en þegar það seldi hann í júní í fyrra. Sú virðisaukning hefur lent hjá nýjum eigendum hans.
Selt á nokkrum klukkutímum
Næsta skref í sölu Íslandsbanka hófst svo formlega, nokkuð óvænt, ellefu mínútum eftir lokun markaða í gær þegar tilkynning barst um að minnsta kosti 20 prósent hlutur í Íslandsbanka yrði seldur fyrir opnun markaða daginn eftir. Citigroup, Fyrirtækjaráðgjöf og Verðbréfamiðlun Íslandsbanka og J.P. Morgan höfðu umsjón með viðskiptunum og HSBC Continental Europe og Fossar markaðir höfðu aðkomu að viðskiptunum sem söluráðgjafar. Þá störfuðu ACRO verðbréf, Íslensk verðbréf, og Landsbankinn sem söluaðilar í útboðinu.
Um þremur klukkutímum síðar lá fyrir að þegar voru komin ásættanleg tilboð í þann hlut og klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi, sex klukkutímum eftir að tilkynnt var um söluferlið og 40 mínútum eftir að frestur til að skila inn tilboðum rann út, birtist ný tilkynning um að seldur yrði 22,5 prósent hlutur á 52,65 milljarða króna, með 2,25 milljarða króna afslætti, ef fjármála- og efnahagsráðherra samþykkti söluna á miðvikudagsmorgun. Tilkynning um að búið væri að selja hlutinn var svo birt í Kauphöll Íslands klukkan 6:18 í morgun.
Ekkert liggur enn fyrir um hverjir eru að kaupa þennan risastóra hlut í kerfislega mikilvægum banka á Íslandi og sennilega mun það ekki verði gert opinbert fyrr en viðskiptin verða gerð upp. Það verður gert á mánudag, 28. mars.
Eftir það mun blasa við nýr veruleiki. Í fyrsta sinn frá bankahruni verður meirihluti eignar í kerfislega mikilvægu bönkunum þremur (Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka) í eigu einkaaðila, ekki ríkisins eða þrotabúa fallinna banka. Hlutur ríkisins í Íslandsbanka fer niður í 42,5 prósent. Fyrir samtals 57,5 prósent hlut mun ríkissjóður fá alls tæplega 108 milljarða króna.
Mikill hagnaður í fyrra og stefnt á tugmilljarða útgreiðslur
Íslandsbanki hagnaðist um 23,7 milljarðar króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 14,2 prósent og sem var vel yfir tíu prósent markmiði bankans. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 54,3 prósent í 46,2 prósent milli ára.
Eigið fé Íslandsbanka var 203,7 milljarðar króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall bankans 25,3 prósent. Útlán til viðskiptavina Íslandsbanka jukust um 7,9 prósent á síðasta ári. Þá aukningu má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðismarkaði. Vaxtamunur bankans var 2,4 prósent. Hreinar vaxtatekjur voru 34 milljarðar króna og hækkuðu um tvö prósent milli ára. Þóknanatekjur hækkuðu hins vegar um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna.
Á grundvelli þessarar afkomu var ákveðið að greiða hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð. Þar af fóru 65 prósent til stærsta einstaka eigandans, íslenska ríkisins, eða rúmlega 7,7 milljarðar króna. Þeir sem eiga 35 prósent hlut í bankanum fengu svo samanlagt tæpa 4,2 milljarða króna í arðgreiðslu. Auk þess stefnir stjórn bankans að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé á næstu 12-24 mánuðum. Sú vegferð hófst með því að aðalfundur bankans samþykkti að hefja endurkaup á bréfum fyrir 15 milljarða króna á næstu mánuðum.
Almenningur á móti sölu
Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að ekki sé meirihlutavilji hjá almenningi fyrir því að selja eignarhluti ríkisins í bönkum. Í hvítbók um fjármálakerfið sem birt var í lok árs 2018 var ein helsta niðurstaðan að traust þyrfti til svo fjármálakerfið myndi virka sem skyldi. Í könnun sem gerð var við gerð Hvítbókarinnar kom fram að 61,2 prósent landsmanna væri jákvæður gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Einungis 13,5 prósent þeirra voru neikvæðir gagnvart því og 25,2 prósent höfðu ekki sérstaka skoðun á því.
Styrktu greinandi og upplýsinga rannsóknarblaðamennsku sem stendur með almenningi:
Í könnun sem Gallup gerði snemma á síðasta ári fyrir ASÍ kom fram að kjósendur eins flokks, Sjálfstæðisflokks, væru fylgjandi sölu Íslandsbanka. Kjósendur allra annarra flokka voru að meirihluta á móti henni. Um 56 prósent landsmanna voru á móti henni og 23 prósent þeirra fylgjandi.
Í könnun sem Gallup gerði um traust til helstu stofnana samfélagsins og birt var í byrjun mánaðar kom fram að bankakerfið nýtur næst minnst trausts af þeim sem spurt var um, en 23 prósent landsmanna sögðust bera traust til þess. Traustið dróst saman milli ára.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði