Armslengd í endalok Bankasýslu sem Bjarni vildi aldrei sjá
Bankasýsla ríkisins var stofnuð með lögum árið 2009 meðal annars til þess að tryggja að pólitíkusar væru ekki að skipta sér beint af eignarhaldi ríkisins á bönkum. Nú syngur þessi stofnun brátt hið síðasta, eftir að ríkisstjórnin rataði í vandræði. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun væntanlega leggja fram frumvarp um niðurlagningu stofnunarinnar, rétt eins og hann gerði árið 2015.
Ríkisstjórnin kynnti í gærmorgun þá ákvörðun formanna stjórnarflokkanna þriggja að leggja niður Bankasýslu ríkisins, fámenna stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og hefur frá því í ársbyrjun 2010 haft það hlutverk að fara með hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Ákvörðunin er pólitískt viðbragð leiðtoga ríkisstjórnarinnar við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á lokað útboð á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka. Angar af útboðinu eru til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu, auk þess sem Ríkisendurskoðun skoðar málið að beiðni fjármálaráðherra.
Eftir yfirlegu leiðtoga ríkisstjórnarinnar yfir páskahátíðina stendur nú til að leggja fram frumvarp um að leggja Bankasýsluna niður og innleiða „nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum“ með áherslu á „ríkari aðkomu Alþingis og að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings.“
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, sem stjórnarandstöðuþingmenn vilja sumir meina að sé á hlaupum undan pólitískri ábyrgð vegna framkvæmdar útboðsins í Íslandsbanka, mun væntanlega leggja fram stjórnarfrumvarp þar um þessar fyrirhuguðu breytingar.
Það verður ekki í fyrsta sinn sem Bjarni leggur fram frumvarp sem felur í sér að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður.
Sagði Bankasýsluna fullkomlega óþarfa árið 2011
Reyndar vildi formaður Sjálfstæðisflokksins aldrei að stofnunin yrði sett á laggirnar til að byrja með, en Bankasýslan var stofnuð árið 2009 í stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna. Frá upphafi stóð til að stofnunin yrði lögð niður árið 2015, þegar hún yrði búin að ljúka afmörkuðu hlutverki sínu.
Samkvæmt lögum stóð til að færa umsýslu þeirra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem eftir stæðu og haga þeim „með hefðbundnum hætti í gegnum skýra eigendastefnu og eftirlit fjármálaráðuneytisins.“
Sólarlagsákvæðið um að Bankasýslan ætti einungis að starfa í fimm ár var fellt á brott árið 2019, en stofnunin hafði þá reyndar starfað í rúm níu ár. Þá var nýju bráðabirgðaákvæði bætt inn í lögin þess efnis að stofnunina ætti að „leggja niður þegar verkefnum hennar er lokið.“
Bjarni sagði haustið 2011, þá sem formaður Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu, að leggja ætti niður Bankasýsluna. „Hana átti aldrei að stofna heldur vista verkefnin í fjármálaráðuneytinu," skrifaði Bjarni á Facebook og lét það fylgja stofnunin væri með öllu óþörf, þar sem fjármálaráðherra væri hvort sem er alltaf krafinn svara ef eitthvað bjátaði á.
„Leggjum þessa stofnun niður,“ skrifaði Bjarni.
Til upprifjunar má nefna að á þessum tíma stóð nokkur pólitískur styr um starfsemi stofnunarinnar. Páll Magnússon, sem ráðinn hafði verið sem forstjóri Bankasýslunnar í lok september 2011, ákvað að taka ekki við starfinu í kjölfar þess að stjórn stofnunarinnar sagði af sér í heilu lagi eftir að stjórnarþingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna gagnrýndu ráðningu Páls.
Gagnrýnin var helst sett fram á þeim grundvelli að Páll hefði verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins á þeim dögum er bankarnir voru einkavæddir í fyrra skiptið. Þessi sami Páll er í dag ráðuneytisstjóri í félags- og vinnumarkaðsráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar.
Undir lok árs 2011, þegar búið var að skipa nýja stjórn yfir Bankasýsluna, var svo Jón Gunnar Jónsson ráðinn forstjóri Bankasýslunnar. Í því starfi er Jón Gunnar enn og mun væntanlega sitja þar til Bankasýsla ríkisins verður felld á brott með nýjum lögum.
Lagði fram stjórnarfrumvarp um niðurlagningu Bankasýslunnar 2015
Sem áður segir átti Bankasýslan upphaflega einungis að starfa í fimm ár og var það beinlínis skrifað inn í lögin um stofnunina. Þegar Bjarni var fjármála- og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði hann fyrirætlanir um að leggja stofnunina niður. Frumvarp Bjarna um það efni var lagt fram 1. apríl 2015.
Með því var gert ráð fyrir að eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum yrðu færðir undir ráðherra, sem myndi setja eigendastefnu og skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd, án tilnefninga, til að veita ráðherra ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu þeirra.
Samkvæmt frumvarpinu sem Bjarni lagði fram áttu Ríkiskaup að annast sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjunum. Ráðherra átti hins vegar einn að taka ákvörðun um hvort að taka ætti tilboði í viðkomandi eignarhlut í fjármálafyrirtæki eða ekki.
Andstaða við frumvarp Bjarna var nokkur í þinginu. Steingrímur J. Sigfússon þáverandi þingmaður Vinstri grænna gagnrýndi meðal annars að með frumvarpinu væri verið leggja til breytingar sem myndu veikja „armslengdarsjónarmiðin“ sem hefðu verið veigamikil í umræðunni er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefði staðið að stofnun Bankasýslu ríkisins „í annríki daganna á vordögum 2009“.
„Armslengdin“ er einmitt töluvert í umræðunni nú og hafa þingmenn og leiðtogar í stjórnarliðinu vísað til armslengdarsjónarmiða þegar rætt er um hvort Bjarni þurfi að bera pólitíska ábyrgð á síðara útboðinu í Íslandsbanka. Vísaði Katrín Jakobsdóttir meðal annars til þessara sjónarmiða í samtali við Kjarnann í gær, er hún var spurð út í kröfur þess efnis að Bjarni léti af embætti. Framkvæmd sölunnar var jú á borði Bankasýslunnar.
Steingrímur hafði það á orði í ræðu sinni árið 2015 að sumir sjálfstæðismenn hefðu lagt mikið upp úr armslengdarsjónarmiðum er verið var að stofna Bankasýsluna árið 2009 – og að þeir hefðu talið að þau lög sem verið var að setja og enn gilda um Bankasýsluna tryggðu ekki nægilega fjarlægð á milli ráðherra og verkefna Bankasýslunnar.
„Nú kann að vera að afstaða Sjálfstæðisflokksins hafi mótast mjög af því hver var ráðherrann á þessum tíma en þá bara spyr ég: Er það málefnalegt? Er það þannig sem hlutirnir eiga að ganga fyrir sig í pólitíkinni, að löggjöfin eigi að mótast af viðhorfum manna til þess hver fer með einstök embætti þá og þá? Nei, ég ætla sjálfstæðismönnum ekki það þó að ég viti vel að þeim var ekkert öllum, og er ekki enn, hlýtt til mín. Ég ætla þeim að þetta hafi verið málefnaleg afstaða, að þeir hafi haft svona miklar áhyggjur af því að armslengdarsjónarmiðanna yrði ekki nógu vel gætt, að pólitíska valdinu yrði ekki haldið nógu skýrt frá eignarhaldi á bönkum. Ég skil það sjónarmið mjög vel og er því sammála,“ sagði Steingrímur í ræðu sinni þetta vorið.
Þrátt fyrir að málið væri einungis rætt á þingi í upphafi maí og ekki orðið að lögum fyrir sumarfrí virtist gert ráð fyrir því af hálfu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs að dagar Bankasýslunnar yrðu brátt taldir og þegar fjárlagafrumvarp Bjarna leit dagsins ljós haustið 2015 var búið að skrúfa vænt framlög til Bankasýslunnar niður í núll krónur.
Er fjárlögin voru afgreidd undir lok ársins var þó heldur betur búið að breyta um stefnu, en í breytingartillögu við fjárlögin voru framlög til Bankasýslu ríkisins þrefölduð frá fyrra ári og henni ætlað að ganga til verka við að undirbúa það sem þá var í pípunum, sala á 30 prósenta hlut í Landsbankanum, sem ekkert varð af. Bankasýslan fékk svo Íslandsbanka í fangið þegar kröfuhafar Glitnis afhentu ríkissjóði 95 prósent hlutafjár í bankanum í febrúar árið 2016.
Nú rúmum sex árum síðar hafa svo pólitísk vandræði ríkisstjórnarinnar við sölu á hlut í þeim sama banka orðið til þess að stjórnvöldum þykir fýsilegast að leggja stofnunina niður.
Lestu meira
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi