Þriðjudaginn 2. júní í fyrra vaknaði Mogens Nielsen, kennari á eftirlaunum búsettur í Holbæk, eins og hann hafði gert á hverjum morgni í rúm 80 ár. Eitthvað var samt öðruvísi, og þegar Mogens ætlaði að kveikja á útvarpinu gerðist ekkert. Það var straumlaust. Mogens leit út um gluggann og sá að í öðrum húsum loguðu ljós. Straumleysið var bundið við hans hús.
Mogens hugsaði með sér að þetta gæti fjandakornið ekki verið kórónuveirunni að kenna, þótt hún væri á þessum tíma sögð eiga sök á flestu því sem fór úrskeiðis í Danmörku. Mogens ákvað að bíða ekki þess sem verða vildi en hringdi í fyrirtækið Norlys, en þar hafði hann um nokkurra ára skeið keypt heimilisrafmagnið. Þar á bæ gátu menn komið straumnum á. Tók að vísu nokkra klukkutíma en maturinn í kæliskápnum hélst óskemmdur.
Afdrifaríkt símtal
Ástæða þess að straumurinn var tekinn af húsi Mogens Nielsen átti sér forsögu sem hófst með símtali 10. mars í fyrra. Þá hringdi sölumaður frá orkusölufyrirtækinu Velkommen. Hann sagði Mogens Nielsen að með því að hætta viðskiptum við Norlys og kaupa rafmagnið af Velkommen gæti hann sparað 13 – 14 hundruð krónur á ári, það jafngildir 26 til 27 þúsundum íslenskra króna.
Velkominn í viðskipti hjá Velkommen
Nokkrum dögum eftir áðurnefnt símtal fékk Mogens Nielsen skilaboð um að bankinn hefði ekki nema gott eitt um hann að segja. Jafnframt var hann boðinn velkominn í viðskiptamannahóp Velkommen. ,„Við erum mjög ánægð að fá þig sem viðskiptavin og hlökkum til að veita þér góða þjónustu“ stóð í póstinum frá Velkommen.
Mogens Nielsen fékk engar frekari upplýsingar, átti bara að merkja við að hann vildi gerast viðskiptavinur Velkommen „sem ég gerði ekki. Ég var búinn að ákveða að vera áfram viðskiptavinur Norlys. Hugsaði með mér að þar með væri þetta mál úr sögunni“.
Óvænt skilaboð frá bankanum
Nú leið að mánaðamótum. Þá fékk Mogens Nielsen, eins og venjulega, yfirlit þeirra reikninga sem þá yrðu á gjalddaga. Hann rak upp stór augu þegar hann sá að orkukaupasamningi hans við Norlys hafði verið sagt upp og framvegis færi gegnum greiðsluþjónustuna, um hver mánaðamót reikningur frá Velkommen. Mogens Nielsen hafði samstundis samband við Velkommen og sagði að hann hefði ekki samþykkt að kaupa þaðan rafmagn og hann myndi segja upp þessum greiðsluþjónustusamningi, sem hann hefði hvort eð er aldrei stofnað til. Svörin frá Velkommen voru þau að umþóttunartíminn væri liðinn og hann gæti ekki sagt upp samningnum. Mogens Nielsen hringdi í bankann og lokaði greiðsluþjónustunni.
Hótanir og straumrof
Velkommen hafði þegar í stað samband við Mogens Nielsen og báðu hann að endurvekja þegar í stað greiðsluþjónustusamninginn. Það gerði Mogens Nielsen ekki og þá sendi Velkommen ítrekun. Þar kom fram að ef hann ekki borgaði reikning sem Velkommen sagði gjaldfallinn hefði það afleiðingar. Mogens Nielsen vissi ekki almennilega hvað hann ætti til bragðs að taka en hafði síðan samband við Samtök aldraðra (Ældre Sagen). Þar á bæ þekktu menn vel til reglnanna og sögðu það einfaldlega ólöglegt að hringja í hugsanlega viðskiptavini, ef slíkt hefði ekki verið samþykkt fyrirfram. Hvað þá að gera mann sem ekki hefur undirskrifað samning að viðskiptavini. Mogens Nielsen hafði aftur samband við Velkommen og bað um staðfestingu á að „samningnum“ um greiðsluþjónustuna yrði rift. Því svaraði Velkommen með að senda rukkun eftir rukkun og loks hótun um að loka fyrir rafmagnið. Sem var svo gert 2. júní í fyrra, eins og áður sagði.
Ekki einn í heiminum
Mogens Nielsen varð undrandi þegar hann komst að því að mál hans var ekki einsdæmi. Umboðsmanni neytenda höfðu borist tæplega 300 kvartanir vegna fyrirtækisins Velkommen og á árunum 2012 til 2020 hafði umboðsmaður fengið rúmlega 2200 kvartanir vegna orkusölufyrirtækja. Samtals eru 50 slík fyrirtæki í Danmörku en 9 fyrirtæki skera sig úr hvað kvartanirnar varðar, Velkommen er eitt þeirra. Flest þessara fyrirtækja hafa náð einhverskonar samkomulagi við ósátta viðskiptavini í kjölfar ábendinga Umboðsmanns neytenda og Kærunefndar orkumála.
Sagður hafa tekið þátt í keppni á netinu
Mogens Nielsen lagði sitt mál fyrir Kærunefnd orkumála, sem fékk þær upplýsingar frá Velkommen að Mogens Nielsen hefði tekið þátt í smá keppni á netinu og þannig samþykkt að sölumaður mætti hafa samband við hann og bjóða honum í viðskipti. Mogens Nielsen sagðist hreint ekki hafa tekið þátt í slíkri keppni. Í reglum keppninnar stóð þar að auki að þátttakendur yrðu að vera á aldrinum 18 – 75 ára, en Mogens Nielsen er áttræður. Úrskurður Kærunefndarinnar lá fyrir í desember í fyrra. Þar kom skýrt fram að aðferðir Velkommen væru ekki í samræmi við lög og Mogens Nielsen skyldi hvorki borga eitt eða neitt. Hann taldi að málinu væri þar með lokið.
Velkommen höfðar mál
Velkommen vill ekki sætta sig við úrskurð Kærunefndar orkumála. Fyrirtækið hefur stefnt Mogens Nielsen og krefst þess að hann borgi uppsagnargjald vegna samnings um orkukaup og einnig innheimtukostnað, 1130 krónur danskar (22 þúsund íslenskar) ásamt málskostnaði. Mogens Nielsen ætlar sjálfur að flytja mál sitt fyrir réttinum í Holbæk.
Framkvæmdastjóri Velkommen vildi ekki ræða við blaðamenn Politiken en sagði í skriflegu svari að fyrirtækið SalesGroup, sem sá um að hringja í hugsanlega viðskiptavini, hefði ekki fylgt reglum sem þeim var uppálagt að gera. Þess vegna hefði Velkommen sagt upp þeim samstarfssamningi. Framkvæmdastjórinn vildi ekki svara því beint hversvegna Velkommen héldi máli Mogens Nielsen til streitu en talaði um réttaróvissu.
Réttarhöldin hefjast næstkomandi þriðjudag, 29. júní.