Mynd: Skjáskot/Samherji Þorsteinn Már Baldvinsson

Skriður á rannsókn saksóknara og skattayfirvalda á meintum brotum Samherja

Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hafa yfirheyrt stjórnendur Samherja. Embættin hafa fengið aðgang að miklu magni gagna, meðal annars frá fyrrverandi endurskoðanda Samherja og úr rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi fyrirtækisins. Í niðurstöðum Wikborg Rein kemur fram að greiðslur hafi verið inntar af hendi fyrir „ráðgjöf“ sem veitt var til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu.

Samherji birti í gær hluta af niðurstöðum norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein sem framkvæmdi rannsókn á starfsemi fyrirtækisins í Namibíu og víðar. Rannsóknin var pöntuð eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu að grunur væri á að Samherji hefði greitt mútur, meðal annars til háttsettra stjórnmálamanna, til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upplýsingar sem bentu til þess að Samherji væri mögulega að stunda stórfellda skattasniðgöngu og peningaþvætti. 

Í yfirlýsingunni þar sem farið var yfir valdar niðurstöður úr skýrslu Wikborg Rein, og þær túlkaðar af stjórnendum Samherja á þann hátt að einn maður – Jóhannes Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu og uppljóstrari – bæri ábyrgð á því aflaga fór, var viðurkennt að margt hefði verið í ólagi. Sérstaklega kemur fram í yfirlýsingunni að greiðslur sem inntar hafi verið af hendi hafi verið fyrir „ráðgjöf“ sem veitt hefði verið fyrir hjálp til að komast yfir fiskveiðikvóta en því hafnað að um mútugreiðslur hafi verið að ræða. Samherji tekur þó undir „þá gagnrýni að við þær aðstæður sem uppi voru hefði átt að gæta betur að því hvernig greiðslur voru framkvæmdar, hverjir tóku við þeim og á hvaða grundvelli, hverjir höfðu heimildir til að gefa fyrirmæli um þær og hvert þær skyldu berast. Einnig er ljóst að samningar á bak við greiðslurnar hefðu átt að vera nákvæmir og formlegir.“

Auglýsing

Samhliða þessu birti Samherji afsökunarbeiðni sem var undirrituð af Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja. Hún var birt í tveimur prentmiðlum í gærmorgun og endurtekin á heimasíðu fyrirtækisins. 

Sú afsökunarbeiðni hefst á því að það sé „eindregin afstaða“ Þorsteins að hvorki hann, Samherji eða aðrir stjórnendur fyrirtækisins en Jóhannes hafi framið refsiverð brot í Namibíu. Þau vinnubrögð sem hafi verið látin viðgangast hafi engu að síður „valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, vinum, fjölskyldum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víðar í samfélaginu. Mér þykir mjög leitt að svo hafi farið og bið ég alla þá sem hlut eiga að máli, einlæglega afsökunar á mistökum okkar, bæði persónulega og fyrir hönd félagsins.“ 

Afsökunarbeiðnin snýr því sértækt að starfsfólki Samherja, vinum þeirra og fjölskyldum, samstarfsaðilum og viðskiptavinum fyrirtækisins, en óljóst að öðrum sem hafa orðið fyrir skaða vegna framferði fyrirtækisins, stjórnenda þess og starfsmanna.

Af hverju núna?

Tímasetningin á yfirlýsingunni og afsökunarbeiðninni vakti athygli. Eftir að hafa beitt mikilli hörku í öllum viðbrögðum í málinu mánuðum saman, meðal annars í gegnum draugaskrif á umræðusíðum fjölmiðla, með birtingu fjölmargra yfirlýsinga á heimasíðu Samherja og með því að láta framleiða alls þrettán myndbönd þar sem ráðist var að þeim sem um fyrirtækið höfðu fjallað, breyttist tónninn í lok síðasta mánaðar. 

Það gerðist eftir að Kjarninn og Stundin höfðu opinberað starfsemi svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja. Í yfirlýsingu sem Samherji birti í lok maí, en enginn sérstakur var skrifaður fyrir, sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“.

„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki var útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið sé að biðjast afsökunar á.

En fleira kemur til en vilji til að breyta um tón. Heimildir Kjarnans herma að rannsóknir yfirvalda hérlendis, bæði embættis héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra, séu komnar á umtalsvert skrið. Þær rannsóknir hafa staðið yfir frá lokum árs 2019.

Umfangsmiklar rannsóknir í gangi

Í fyrrasumar voru sex einstaklingar boðaðir í yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara vegna málsins. Þar var þeim greint frá því að til rannsóknar væru atvik sem tengjast Samherja hf., Samherja Holding ehf. (sem heldur utan um erlenda starfsemi samstæðunnar) og öðrum félögum í samstæðu Samherja, einkum í tengslum við starfsemi í Namibíu og Angóla, á tímabilinu 2011 og fram til dagsins í dag. Á meðal þeirra var Þorsteinn Már, sem var yfirheyrður í byrjun júlí 2020.

Þar var fólkinu greint frá því að til rannsóknar væru meintar mútugreiðslur starfsmanna og fyrirsvarsmanna Samherja til opinberra starfsmanna í Namibíu og Angóla, eða til annarra sem gátu haft áhrif á ákvörðunartöku slíkra manna, í tengslum við úthlutun á fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla.

Auglýsing

Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“

Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.

Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár. 

Fókus á Kýpur

Embætti skattrannsóknarstjóra, sem verður lagt niður í núverandi mynd um komandi áramót og verður eftir það deild innan Skattsins, er síðan að rannsaka hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annarsstaðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga. 

Kýpur hefur verið nokkurs konar heimahöfn alþjóðlegrar starfsemi Samherja um margra ára skeið. Fyrir nokkrum árum síðan birti Stundin meðal annars umfjöllun um tölvupóst frá árinu 2009 frá Baldvini Þorsteinssyni, þáverandi framkvæmdastjóra Afríkuútgerðar Samherja og núverandi forstjóra Samherja í Evrópu, þar fjallað var um hagfræði af því að vera með starfsemina skráða í Kýpur. Þar stóð: „Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við myndum gera upp. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“ 

Ári síðar færði Samherji umfangsmikla fisksölu til Kýpur og hafði mikla starfsemi þar næstu árin, en skattar á fyrirtæki þar í landi eru mun lægri en t.d. á Íslandi. 

Í Kveiksþætti sem sýndur var fyrr á þessu ári voru umsvif tveggja Kýpurfélaga Samherja, Esju Seafood og Esju Shipping, og fjölmargra dótturfélaga þeirra rakin. Félögin  tvö eru með umsvif og tuga milljarða króna eignir út um allan heim. Þegar Kveikur bankaði upp á skrifstofu þeirra í Limassol á Kýpur var hins vegar enginn þar. Og skrifstofan, sem líktist frekar herbergi, virðist að mestu vera til málamynda samkvæmt því sem fram kom í Kveik.

Átti að borga miklu hærri skatta á Íslandi?

Í minnisblaði sem embætti skattrannsóknarstjóra sendi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 18. nóvember 2019, sex dögum eftir að umfjöllun um starfshætti Samherja í Namibíu hófst, kom fram að í ljósi „mikilvægi málsins og umfangs þess“ teldi embættið rétt að fara þess á leit við ráðuneytið að embættinu yrði „gert kleift að auka mannafla embættisins tímabundið til að geta sinnt þessu afmarkaða verkefni á sem skjótastan og farsælastan hátt.“ Í kjölfarið var viðbótarfjármagni veitt til skattrannsóknarstjóra úr ríkissjóði. 

Auglýsing

Það sem embætti skattrannsóknarstjóra er meðal annars að rannsaka er hvernig töku ákvarðana var háttað innan samstæðu Samherja. Upphafspunktur þeirrar rannsóknar er skýrsla sem KPMG, þáverandi endurskoðandi Samherja, vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014.

Umrædd skýrsla KPMG fyrir Samherja, eða öllu heldur drög að henni, var meðal annars til umfjöllunar í bókinni Ekkert að fela eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán A. Drengsson sem kom út í nóvember 2019. Skýrslan er eins konar greining á því hvernig skipulag Samherjasamstæðunnar var á þessum tíma.

Samkvæmt mati sérfræðinga KPMG, sem byggði m.a. á viðtölum við starfsfólk Samherjasamstæðunnar, var forstjórinn og stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson nær einráður í fyrirtækinu og með alla þræði í hendi sér. Engin formleg framkvæmdastjórn var sögð innan Samherja hf., samkvæmt þessum drögum sérfræðinga KPMG. 

Athugasemdir voru gerðar við ýmislegt af því sem fram kom í mati KPMG af hálfu Samherja og í síðari drögum að skýrslunni var búið að draga úr umfjöllun um hlutverk og áhrif stjórnarformannsins. Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hefur talið að vert sé skoða þessa skýrslugerð sérstaklega. 

Með mikið magn gagna sem ná mörg ár aftur í tímann

Umtalsverð gagnaöflun hefur átt sér stað af hendi þeirra sem rannsaka málefni Samherja. Þar er um að ræða þau gögn sem umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og WikiLeaks í nóvember 2019 byggði á auk ýmissa gagna sem rannsóknaraðilar hafa fengið frá yfirvöldum í Namibíu og fleiri löndum. 

Auk þess var KPMG, sem sá um bókhald Samherja árum saman og þar til í fyrra, skyldað af dómstólum í desember til þess að aflétta þeim trúnaði sem ríkir milli endurskoðenda og viðskiptavina þeirra, en kveðið er á um þagnarskyldu endurskoðenda í lögum og láta embætti héraðssaksóknara í té upplýsingar og gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherjasamstæðunnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þurfti fyrirtækið að láta héraðssaksóknara hafa upplýsingar og gögn sem varða áðurnefnda skýrslu sem KPMG vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014.

Samherji krafðist skaðabóta úr hendi Seðlabankans í nýlegu dómsmáli. Þar var efnislegt innihald Seðlabankamálsins svokallaða opinberað með skýrari hætti en nokkru sinni áður.
Mynd: Kjarninn

Þrátt fyrir miklar mótbárur Samherja, jafn tæknilegar og efnislegar, þá var þeirri ákvörðun ekki hnekkt. 

Í vikunni var svo birtur úrskurður Persónuverndar um kvörtun Þorsteins Más, sem hann lagði fram í október 2020, vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann. Þar kemur fram að gögnin sem Þorsteinn er ósáttur með meðferðina á eru þrír diskar, með samtals um sex þúsund gígabæti af gögnum, sem lagt var hald á við húsleit gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í höfuðstöðvum Samherja árið 2012. 

Þorsteinn Már taldi að eyða hefði átt gögnunum eftir að málarekstri Seðlabankans gegn Samherja lauk, en lesa má um þau málalok hér. Gögnunum var hins vegar ekki eytt. Þvert á móti voru þau borin undir hann í skýrslutöku hjá embætti skattrannsóknarstjóra og þar upplýst um að þeirra hefði verið aflað frá héraðssaksóknara sem hafði fengið þau frá Seðlabanka Íslands.

Héraðssaksóknari fékk gögnin eftir að hafa lagt fram beiðni um afhendingu á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna þess að embættið mat það sem svo „að gögnin gætu haft sönnunargildi við yfirstandandi rannsókn.“

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að stofnunin telur að miðlun persónuupplýsinga um Þorstein Má til embættis héraðssaksóknara hafi samrýmst lögum. Á meðal gagna sem þarna um ræðir eru tölvupóstar, upplýsingar um fjármál Þorsteins og ýmislegt fleira.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar