Mynd: Bára Huld Beck Samkeppniseftirlitið

Sektir sem samkeppnisyfirvöld hafa lagt á fyrirtæki nema samtals 10,4 milljörðum króna

Á síðustu tíu árum hefur Samkeppniseftirlitið lagt á sektir á fyrirtæki upp á 6,5 milljarða króna. Á sama tímabili hefur rekstrarkostnaður eftirlitsins verið um 4,2 milljarðar króna. Því hafa sektargreiðslurnar skilað 2,3 milljörðum krónum meira í ríkissjóð á áratug en það hefur kostað að reka Samkeppniseftirlitið.

Fjárhæð stjórnvaldssekta sem lagðar hafa verið á fyrirtæki af samkeppnisyfirvöldum frá upphafi nema 10,4 milljörðum króna. Frá því að Samkeppniseftirlitið var stofnað – áður var starfandi svokallað samkeppnisráð – um mitt át 2005 nemur samantekin fjárhæð sekta 8,8 milljörðum króna. 

Ef horft er til síðastliðins áratugar, frá byrjun árs 2011, hefur Samkeppniseftirlitið lagt á sektir upp á rúmlega 6,5 milljarða króna. Á sama tímabili var rekstrarkostnaður eftirlitsins rúmlega 4,2 milljarðar króna. Á þessum tíu árum var því 2,3 milljarða króna „hagnaður“ á rekstri eftirlitsins ef kostnaður við rekstur þess er dregin frá þeim sektum sem hafa verið álagðar. 

Tölurnar eru ekki framreiknaðar með tilliti til vísitölu. 

Þetta kemur fram í svari Samkeppniseftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um álagðar sektir og rekstrarkostnað stofnunarinnar. 

Auglýsing

Eina sektin sem gæti enn gengið til dómstóla er 200 milljón króna sekt sem lögð var á Símann í upphafi árs. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti þá fyrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að Síminn hefði brotið gegn sátt með því að bjóða betri viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum til þeirra sem eru með Heimilispakka Símans í byrjun þessa árs að hluta. Nefndin lækkaði hins vegar sekt fyrirtækisins verulega, úr 500 í 200 milljónum króna.

Kjarninn greindi frá því í um helgina að Síminn sé búinn að stefna Samkeppniseftirlitinu í málinu og vilji fá hluta af niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar ógilda.

Nýjasta sektin sú langhæsta

Hæsta einstaka sektin sem fyrirtæki hefur greitt er þeir 1,5 milljarðar króna sem Eimskip samþykkti að greiða vegna ólöglegs samráðs, en greint var frá því í þarsíðustu viku að sátt hefði náðst milli Eimskips og Samkeppniseftirlitsins um þá niðurstöðu. 

Eimskip játaði alvarleg brot gegn samkeppnislögum og EES-samningum sem framin voru í samráði við Samskip, aðallega á árunum 2008 til 2013. 

Fyrirtækið viðurkenndi einnig að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip áður en stórtækara samráð á milli fyrirtækjanna tveggja hófst sumarið 2008.

Að auki viðurkenndi Eimskip að hafa brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa ekki veitt nauðsynlegar eða réttar upplýsingar eða afhent gögn í þágu rannsóknar málsins, en félagið hefur á fyrri stigum rannsóknar málsins neitað því að hafa gerst brotlegt við lög.

Í sáttinni fólst að Eimskip skuldbatt sig til að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni.

Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Mynd: Hringbraut

Brot félaganna tveggja gegn samkeppnislögum hafa verið til rannsóknar árum saman, en Samkeppniseftirlitið sagði fyrr í þessum mánuði frá því að Eimskip hefði leitað eftir sáttum í málinu. Tekið var fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að Samskip sé enn til rannsóknar vegna þessara mála. 

Fari svo að Samskip geri einnig sátt, eða að niðurstaða Samkeppniseftirlits verði sú sama og í máli Eimskips, þá mun heildarumfang stjórnvaldssekta sem greiddar hafa verið í ríkissjóð vegna rannsókna Samkeppniseftirlitsins hækka umfram þær fjárhæðir sem nefndar voru hér að ofan. 

Sektin sem Eimskip samþykkti að greiða er næstum þrisvar sinnum hærri en hæsta sekt sem eitt fyrirtæki hafði áður greitt fyrir samkeppnislagabrot, í krónum talið. 

Þar er um að ræða þá sekt sem Olís fékk fyrir sinn hlut í olíusamráðinu svokallaða, sem var ólögmætt verðsamráð þriggja stóru olíufélaganna á Íslandi sem stóð árum saman. Olís var upprunalega gert að greiða 880 milljónir króna með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins árið 2004  en Hæstiréttur Íslands lækkaði þá upphæð niður í 560 milljónir króna. 

Hin tvö olíufélögin, Skeljungur og Olíufélagið (sem síðar rann inn í N1), fengu líka háar sektir. Það fyrrnefnda greiddi 450 milljónir króna og það síðarnefnda 496 milljónir króna. 

Valitor og MS

Þriðja hæsta sektin var lögð á  kortafyrirtækið Valitor en Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu árið 2013 að það hefði gerst sekt um að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust að keppinautum félagsins á markaði fyrir færsluhirðingu. Upphafleg sektarfjárhæð var ákveðin 400 milljónir króna en Valitor ákvað að fara með málið fyrir dómstóla. Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu eftirlitsins með dómi sem féll í apríl 2016 og hækkaði auk þess sektina úr 400 í 500 milljónir króna. 

Auglýsing

Hæstiréttur Íslands lokaði öðru stóru samkeppnismáli fyrr á þessu ári. Í mars síðastliðnum féll dómur hans þess efnis að Mjólkursamsalan ehf. (MS) hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og mismunað viðskiptaaðilum sínum með því að að selja hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar og tengdra aðila. MS var gert að greiða alls 480 milljónir króna í ríkissjóðs vegna þeirra samkeppnislagabrota. 

Kallað eftir stjórnsýsluúttekt

Samkeppniseftirlitið hefur árum saman verið mikið gagnrýnt af hagsmunavörðum atvinnulífsins og í viðskiptablöðum sem koma út á prenti hérlendis. Samtök atvinnulífsins (SA) hafa meðal annars kallað eftir stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu. Í umfjöllun Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, um þá kröfu í mars síðastliðnum var haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA, að „stjórnarformenn skráðra fyrirtækja hafa undanfarið gert samskipti sín við Samkeppniseftirlitið að umtalsefni í ávörpum á aðalfundum, sem lýsir því öngstræti sem samskipti eftirlitsstofnunarinnar og fyrirtækja hafa lent í. Á þann hnút verður að höggva. Fullt tilefni er til þess að Alþingi kalli eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Samkeppniseftirlitinu og einstökum ákvörðunum þess. Eftirlitsstofnunin ætti að fagna slíkri úttekt.“

Auglýsing

Um miðjan maí lögðu nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks fram beiðni um skýrslu um Samkeppniseftirlitið frá ríkisendurskoðanda. Fyrsti flutningsmaður málsins var Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks. Skýrslubeiðnin var samþykkt á Alþingi tveimur dögum eftir að beiðnin var lögð fram með öllum greiddum atkvæðum. 

Reynt að fella úr gildi áfrýjunarheimild

Þetta er ekki í eina skiptið sem málefni Samkeppniseftirlitsins rataði inn í þingsal á þessu kjörtímabili. Samkeppniseftirlitið hefur, samkvæmt lögum, haft heimild til þess að áfrýja niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. 

Síðla árs 2019 lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, fram drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda þar sem þar sem lagt var til að þessi áfrýjunarheimild yrði felld út. Í greinargerð var því haldið fram að beiting heimildarinnar gæti skapað „fyrirtækjum hér á landi ákveðna réttaróvissu“.

Frumvarpið var gagnrýnt víða. Gylfi Magn­ús­son, forseti Við­­skipta­fræðideildar Háskóla Íslands og fyrr­ver­andi efna­hags- og við­­skipta­ráð­herra, birti meðal annars stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann gagnrýndi afnám málskotsréttarins og aðrar breytingar sem lagðar voru til á starfsumhverfi eftirlitsins í frumvarpi ráðherrans. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands.
Mynd: Bára Huld Beck

Í stöðuuppfærslunni sagði Gylfi: „Einfalda framkvæmd samkeppnislaganna og auka skilvirkni“ hljómar einhvern veginn betur en „Láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi eins og frekast er unnt“. Nú á að koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti borið niðurstöður áfrýjunarnefndar undir dómstóla og gætt þannig m.a. hagsmuna brotaþola. Jafnframt á að koma í veg fyrir að eftirlitið geti þvingað fram breytingar á skipulagi fyrirtækja þegar ekkert annað virðist duga til að ná fram eðlilegri samkeppni. Þetta eru ekki ný baráttumál mógúlanna, hugmyndir í þessa veru hafa oft verið viðraðar áður en ekki fengið brautargengi vegna harðrar andstöðu. Nú sjá þeir hins vegar greinilega lag til að knýja þetta fram.“ 

Þegar mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi í fyrravor var afnám málskotsheimildarinnar ekki lengur á meðal efnisatriða þess.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar