Mynd: Pexels

Þegar Mjólkursamsalan braut lög til að koma Mjólku út af markaði

Árið 2012 var afrit af reikningum sent til fyrrverandi eiganda Mjólku. Í reikningunum kom fram að Kaupfélag Skagfirðinga, einn eigenda Mjólkursamsölunnar, þurfti ekki að borga sama verð fyrir hrámjólk og þeir sem fóru í samkeppni við það. Rúmum níu árum síðar var það endanlega staðfest að Mjólkursamsalan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína til að hnekkja á samkeppnisaðila og henni var gert að borga tæpan hálfan milljarð króna í sekt.

Árið 2005 hóf afurðastöðin Mjólka starfsemi með framleiðslu á fetaosti. Á bakvið verkefnið stóð Ólafur M. Magnússon. Skömmu síðar færði hún út kvíarnar og hóf framleiðslu á öðrum mjólkurafurðum á borð við jógúrt, sýrðum rjóma, rifnum osti, skyri og skyrtertum. 

Þessi rekstur var erfiður, enda samkeppnisumhverfið í mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi mjög á forsendum risans sem þegar var fyrir á þeim markaði, Mjólkursamsölunnar. Mjólka sameinaðist á endanum Kaupfélagi Skagfirðinga sem varð eigandi fyrirtækisins að öllu leyti. 

Ólafur var þó ekki að baki dottinn. Hann stofnaði nýtt fyrirtæki, Mjólkurbúið Kú sem hóf starfsemi á árinu 2010. 

Síðla árs 2012 fékk stjórnandi hjá Kú í pósti afrit reikninga frá Mjólkursamsölunni sem stílaðir voru á Mjólku, en áttu að berast til Kaupfélags Skagfirðinga, þáverandi eigenda þess félags. Kaupfélagið átti einnig 15 prósent hlut í Mjólkursamsölunni á móti Auðhumlu, stærsta eiganda hennar. Um var að ræða kreditreikninga fyrir kaupum Mjólku á hrámjólk, sem notuð er í vinnslu ýmissa mjólkurafurða og fæst nær einvörðungu hjá Mjólkursamsölunni, fyrir tímabilið 2009 til 2012. 

Auglýsing

Þegar Ólafur og aðrir hjá Kú skoðuðu reikningana sáu þeir að Kaupfélag Skagfirðinga hafði verið að fá hrámjólkina á 77,69 krónur á lítra á sama tíma og Mjólka, sem þeir neyddust síðar til að selja til Kaupfélagsins, þurfti að borga 90,74 krónur á hvern lítra. Munurinn á verðinu var um 17 prósent. 

Ólafur sendi ábendingu til Samkeppniseftirlitsins með þessum upplýsingum þann 18. desember 2012. Eftirlitið hóf rannsókn og málarekstur, sem átti eftir að standa árum saman, hófst. Honum lauk endanlega í síðustu viku þegar Hæstiréttur Íslands staðfesti að Mjólkursamsalan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og henni var gert að greiða 480 milljónir króna í ríkissjóð vegna þessa.

Taka eitt

En dveljum aðeins við upphaf málsins. Í stefnu sem stofnendur Mjólku létu lögmann vinna í fyrra kemur fram að Mjólkursamsalan hafi fyrst borið það fyrir sig, þegar Samkeppniseftirlitið falaðist eftir útskýringum á þessum verðmun, að verðið hefði verið ákvarðað af verðlagsnefnd búvara. Það reyndist röng staðhæfing. Það sem raunverulega átti sér stað var að Mjólka var ekki látin greiða hrámjólkurverð heldur það verð sem gilti fyrir gerilsneydda nýmjólk, sem er unnin mjólkurvara. 

Síðar sagði Mjólkursamsalan að mismunur á verði væri svokölluð verðtilfærsla sem væri heimil samkvæmt búvörulögum. Þessi staðhæfing var þó dregin til baka.

Samkeppniseftirlitið tók málið til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu 22. september 2014 að Mjólkursamsalan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína í málinu og þar með brotið gegn samkeppnislögum. Vegna alvarleika brotsins ætti Mjólkursamsalan að greiða 370 milljóna króna sekt í ríkissjóð. 

Neytendur borgar milljarða króna á ári fyrir að flytja ekki inn mjólk

Í júní 2015 var gerð opinber skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mjólk­ur­vöru­fram­leiðslu á Íslandi. Þar kom fram að kerfið sem viðhaft er við mjólk­ur­fram­leiðslu gerði það að verkum að íslenska ríkið og eig­endur þess, íslenskir neyt­end­ur, þyrftu að borga um átta millj­örðum krónum meira fyrir fram­leiðslu á henni en ef mjólkin hefði ein­fald­lega verið flutt inn frá öðru fram­leiðslu­landi á árunum 2011 til 2013. Ríkið og neyt­endur borg­uðu 15,5 millj­arða króna fyrir mjólk­ina á tíma­bil­inu en inn­flutt mjólk, með flutn­ings­kostn­aði, hefði kostað 7,5 millj­arða króna. Reyndar er það svo að á tíma­bil­inu sem um ræðir var fram­leitt meira af mjólk hér­lendis en neytt var af henni. Neysla Íslend­inga hefði ein­ungis kostað tæp­lega 6,5 millj­arða króna á ári. Offram­leiðsla á nið­ur­greiddri mjólk­inni kost­aði neyt­endur og ríkið því millj­arð til við­bót­ar.

Skýrsluhöfundar lögðu til að magn­tollar af mjólk­ur­vörum verði afnumdir og verð­tollar lækk­aðir úr 30 pró­sentum í 20 pró­sent. Það ætti að nægja „til þess að ýmsar erlendar mjólk­ur­vörur verði boðnar til sölu hér, en íslenskar mjólk­ur­vörur verða þó áfram sam­keppn­is­fær­ar. Neyt­endur hafa þá úr fleiri vörum að velja en nú og íslenskir fram­leið­endur fengju aukið aðhald.“ Á sama tíma vildu skýrslu­höf­undar afnema und­an­þágu mjólk­ur­fram­leiðslu­iðn­að­ar­ins frá sam­keppn­is­lög­um. Hugmyndin var að gjörbreyta kerfinu, neytendum í vil.

Engin þessara tillagna hefur orðið að veruleika.

Niðurstöðunni var áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Við munnlegan málflutning fyrir henni hefði Mjólkursamsalan lagt fram áður óframkominn samning milli sín og Kaupfélags Skagfirðinga, eins eigenda sinna, og byggt málflutning sinn fyrir nefndinni á þeim samningi. Þar hélt Mjólkursamsalan því fram einfaldlega fram að aðgerðirnar hefðu verið löglegar þar sem hún og Kaupfélag Skagfirðinga hefðu verið að skipta með sér verkum í hagræðingarskyni. Ekki fengist staðist að aðilar utan þess samstarfs ættu að fá hlutdeild í þeim ábata sem af yrði. 

Vegna þess að Mjólkursamsalan hafði látið undir höfuð leggjast að upplýsa um þennan samning milli sín og eins eiganda hennar, Kaupfélags Skagfirðinga, komst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að fella yrði fyrri úrskurð Samkeppniseftirlitsins úr gildi og rannsaka málið aftur. 

Taka tvö

Sú rannsókn hófst aftur í desember 2014 og ákvörðun eftirlitsins lá svo fyrir 7. júlí 2016. Hún var sú að alls ætti Mjólkursamsalan að greiða alls 480 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna þess að fyrirtækið hafði mis­notað mark­aðs­ráð­andi stöðu sína og mis­munað við­skipta­að­ilum sínum með því að að selja hrá­mjólk til vinnslu mjólk­ur­af­urða á hærra verði til keppi­nauta en til eigin fram­leiðslu­deildar og tengdra aðila. Í ákvörðuninni sagði að háttsemi Mjólkursamsölunnar hefði verið til þess fallin að veita Kaupfélagi Skagfirðinga verulegt samkeppnisforskot. Hluti sektarinnar, 40 milljónir króna, var vegna brots á samkeppnislögum sem snýr að upplýsingagjöf til Samkeppniseftirlitsins. 

Auglýsing

Málinu var þó fjarri því lokið. Mjólkursamsalan skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi í nóvember 2016 úr gildi ákvörðun eftirlitsins að öðru leyti en því að Mjólkursamsalan þyrfti að greiða 40 milljónirnar vegna brots á ákvæði laga um upplýsingagjöf. Nefndin, sem telur þrjá einstaklinga, klofnaði í afstöðu sinni.

Niðurstaðan byggði á því að hagræðingarsamkomulagið sem Mjólkursamsalan hafði gert við annan eiganda sinn, Kaupfélag Skagfirðinga, rúmaðist innan búvörulaga. Þess vegna þyrfti Mjólkursamsalan ekki að fara eftir samkeppnislögum sem öðrum er gert að fara eftir.

Taka þrjú

Báðir aðilar skutu málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í byrjun árs 2018 sendi Mjólkursamsalan frá sér tilkynningu þar sem hún ásakaði Samkeppniseftirlitið um óhlutdrægni í málinu. „Ljóst er af afskiptum sam­keppn­is­yf­ir­valda af mál­efnum mjólkur­iðn­að­ar­ins, að Sam­keppn­is­eft­ir­litið fjallar ekki um mál­efni MS og mjólkur­iðn­að­ar­ins af þeirri hlut­lægni, sem gera verður kröfu um til stofn­unar á vegum rík­is­ins,“ sagði þar. 

Héraðsdómur féllst hins vegar á málatilbúnað Samkeppniseftirlitsins í dómi sem féll 29. maí 2018. Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Landsréttar sem komst að sömu niðurstöðu 27. mars í fyrra. Enn var málinu áfrýjað og nú til Hæstaréttar. Hann kvað upp endanlegan úrskurð í síðustu viku, þann sama önnur dómstig höfðu kveðið upp. 

Ólafur M. Magnússon, fyrst kenndur við Mjólku og síðar Kú, er hér til hægri á myndinni.
Mynd: Aðsend

Í dómi Hæsta­réttar sagði að telja verði brot Mjólkursamsölunnar gegn sam­keppn­is­lögum alvar­legt „auk þess sem það stóð lengi og var aug­ljós­lega mjög til þess fallið að raska sam­keppn­is­stöðu. Þá laut það að mik­il­vægri neyslu­vöru og snerti á þann hátt almenn­ing í land­in­u.“

Reynt að afnema málskotsrétt eftirlitsins

Málið fékk pólitískan vinkil á meðan að á málsmeðferð þess stóð yfir. Samkeppniseftirlitið hefur, samkvæmt lögum, haft heimild til þess að áfrýja niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. 

Síðla árs 2019 lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, fram drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda þar sem þar sem lagt var til að þessi áfrýjunarheimild yrði felld út. Í greinargerð var því haldið fram að beiting heimildarinnar gæti skapað „fyrirtækjum hér á landi ákveðna réttaróvissu“.

Frumvarpið var gagnrýnt víða. Gylfi Magn­ús­son, forseti Við­­skipta­fræðideildar Háskóla Íslands og fyrr­ver­andi efna­hags- og við­­skipta­ráð­herra, birti meðal annars stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann gagnrýndi afnám málskotsréttarins og aðrar breytingar sem lagðar voru til á starfsumhverfi eftirlitsins í frumvarpi ráðherrans. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir lagði fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum.
Mynd: Bára Huld Beck

Í stöðuuppfærslunni sagði Gylfi: „Einfalda framkvæmd samkeppnislaganna og auka skilvirkni“ hljómar einhvern veginn betur en „Láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi eins og frekast er unnt“. Nú á að koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti borið niðurstöður áfrýjunarnefndar undir dómstóla og gætt þannig m.a. hagsmuna brotaþola. Jafnframt á að koma í veg fyrir að eftirlitið geti þvingað fram breytingar á skipulagi fyrirtækja þegar ekkert annað virðist duga til að ná fram eðlilegri samkeppni. Þetta eru ekki ný baráttumál mógúlanna, hugmyndir í þessa veru hafa oft verið viðraðar áður en ekki fengið brautargengi vegna harðrar andstöðu. Nú sjá þeir hins vegar greinilega lag til að knýja þetta fram.“ 

Þegar mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrir um ári var afnám málskotsheimildarinnar ekki lengur á meðal efnisatriða þess. 

Stofnendur Mjólku stefna

Í fyrrasumar, eftir að niðurstaða Landsréttar í málinu lá fyrir, stefndu Ólafur M. Magnússon og aðrir stofnendur Mjólku Mjólkursamsölunni vegna ofangreindra brota. Með stefnunni fóru þeir fram á að Mjólkursamsalan viðurkenndi skaðabótaskyldu gagnvart þeim. 

Þegar Hæstiréttur hafði kveðið upp sína niðurstöðu fyrr í þessum mánuði sendi Mjólkursamsalan frá sér tilkynningu þar sem fyrirtækið sagðist hafa verið „„í góðri trú og taldi sig vera að vinna í sam­ræmi við lög“ með við­skipta­háttum sín­um. 

Auglýsing

Þegar málið hafi komið upp fyrir tæpum ára­tug síðan hafi skipu­lagi og fram­kvæmd á sam­starfi afurða­stöðva í mjólkur­iðn­aði og sölu á hrá­mjólk til aðila utan sam­starfs­ins verið breytt. „Dóms­nið­ur­staðan snýr því að afmörk­uðum ágrein­ingi um túlkun laga í liðnum tíma, en hefur ekki bein áhrif á starf­sem­ina í dag. Við blasir að hag­ræð­ing í mjólkur­iðn­aði hefur náð þeim mark­miðum sem að var stefnt með laga­breyt­ingum sem heim­il­uðu verka­skipt­ingu og sam­starf afurða­stöðva í mjólkur­iðn­aði. Þær breyt­ingar eru for­senda fram­leiðni­aukn­ingar sem skilað hefur millj­arða króna ávinn­ingi til sam­fé­lags­ins á hverju ári.“

Þetta með undanrennuduftið

Félag atvinnurekenda, sem gætir hagsmuna ýmissa aðila í verslunarrekstri á Íslandi, voru ekki alveg sammála þessari túlkun Mjólkursamsölunnar, að þessar breytingar væru að skila milljarða króna ávinningi til samfélagsins á hverju ári. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins, skrifaði grein daginn eftir að dómur Hæstaréttar birtist þar sem hann benti til að mynda á að í krafti einokunarstöðu sinnar væri Mjólkursamsalan eini seljandi mjólkur- og undanrennudufts á Íslandi. „Hún hefur enga innlenda samkeppni. Í skjóli tollverndarinnar eiga önnur innlend matvælafyrirtæki, sem nota mjólkurduft í framleiðslu sína, í raun ekki annan kost en að kaupa vörurnar af MS og hún hefur því enga erlenda samkeppni heldur. Í búvörusamningi stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem var undirritaður í febrúar 2016, var samið um að stjórnvöld myndu hækka tolla á innfluttu mjólkurdufti duglega og þeir tækju síðan árlegum hækkunum til samræmis við gengisþróun. Það er einsdæmi í seinni tíð að atvinnugrein hafi samið þannig við stjórnvöld um að hækka skattana á keppinautum sínum.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Mynd: Skjáskot/Hringbraut

Tollar á innflutt mjólkur- og undanrennuduft, sem notað er í margs konar vörur, gerðu það að verkum að kíló af undanrennudufti, sek kosti 340 krónur á erlendum mörkuðum, þrefaldist vegna tolla og endi í 1.091 krónum. 

Mjólkursamsalan selji hins vegar öðrum matvælafyrirtækjum nýmjólkurduft á 623 krónur kílóið og undanrennuduft á 608 krónur, sem sé langt yfir heimsmarkaðsverði en langt undir því verði sem þarf að borga fyrir innflutta duftið eftir að verndartollar hafa verið lagðir á það. 

En þetta verð á einungis við ef viðskiptavinurinn er íslenskt fyrirtæki. Ólafur bendir á, og vitnar í tölur frá Hagstofu Íslands, að Mjólkursamsalan flytji einnig út um 500 tonn af undanrennudufti á ári. Meðalverðið sem það er selt á er 333 til 345 krónur á kíló. Verðið á duftinu til íslenskra fyrirtækja er því 87 prósent hærra en það sem erlend fyrirtæki geta keypt það á.

Mjólkursamsalan í útrás

Mjólkursamsölunni var skipt upp í þrjú félög í nóvember í fyrra. innlend starf­semi verður áfram í Mjólk­ur­sam­söl­unni en Ísey útflutn­ingur og eign­ar­hlutur í móð­ur­fé­lagi Ísey Skyr Bars fær­ast í félagið MS erlend starf­semi ehf. og eign­ar­hlutur í banda­ríska skyr­fyr­ir­tæk­inu Icelandic Provisions í félagið MS eign­ar­hald ehf.

Ísey er í útrás.
Mynd: Mjólkursamsalan

Ari Edwald, sem verið hafði for­stjóri Mjólk­ur­sam­söl­unnar frá árinu 2015, og  fram­kvæmda­stjóri Ísey útflutn­ings sam­hliða því starfi, færði sig alfarið yfir í erlendu starf­sem­ina og stýrir nú MS erlendri starf­semi og MS eign­ar­hald­i. Pálmi Vil­hjálms­son, fyrrverandi aðstoð­ar­for­stjóri, varð for­stjóri Mjólk­ur­sam­söl­unn­ar.

Í fyrra varð líka sú breyting á að Kaupfélag Skagfirðinga jók eignarhlut sinn í Mjólkursamsölunni og á nú 20 prósent á móti Auðhumlu, samvinnufélagi kúabænda, sem á 80 prósent. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar