Útgjöld ríkissjóðs munu hækka um 50,6 milljarða króna frá því sem gert var ráð í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar það var lagt fram í september. Því er ljóst að útgjöld ríkissjóðs munu rjúfa 1.300 milljarða króna múrinn.
Hin auknu útgjöld skiptast niður á nokkra mismunandi málaflokka. Athygli vekur að málaflokkurinn nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar þarf að fá 5,5 milljarða króna til viðbótar við þá 14,4 milljarða króna sem reiknað var með að láta renna til hans í fjárlagafrumvarpinu í september. Það er aukning um 38,2 prósent á framlögum til þess málaflokks.
Stóra ástæðan er sú að sú að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi kalla á fjóra milljarða króna umfram þann rúmlega 1,7 milljarð króna sem ætlaður var í þær í september. Framlög til málaflokksins verða því rúmlega þrisvar sinnum meiri en ríkisstjórnin reiknaði með fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan.
Sá kostnaður kemur til viðbótar við það fjármagn sem þarf að sækja á fjáraukalögum til að greiða til kvikmyndaframleiðenda, aðallega erlendra, fyrir að vinna verkefnin sín á Íslandi. Kjarninn greindi frá því fyrr í nóvember að það þurfi að sækja tæplega 1,8 milljarð króna þar til viðbótar við þann tæplega 1,5 milljarð króna sem gert var ráð fyrir að eyða af opinberu fé í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í ár á gildandi fjárlögum. Kostnaður vegna endurgreiðslnanna er því rúmlega tvöfaldur það sem hann var áætlaður í ár og verður samanlagt, að óbreyttu, um 5,7 milljarðar króna á næsta ári.
Styrkir vegna rannsókna og þróunar aukast líka
Þá þarf að sækja 1,3 milljarð króna til viðbótar við það sem áður var áætlað vegna uppfærslu á áætlun um styrki til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.
Nýsköpunarverkefni sem hlotið hafa staðfestingu frá Rannís eiga rétt á sérstökum skattfrádrætti vegna rannsókna og þróunar. Með opinberum stuðningi er átt við skattfrádrátt og styrki frá opinberum aðilum, samanlagt. Njóti verkefnið opinberra styrkja hafa þeir áhrif á fjárhæð skattfrádráttar sem fæst endurgreiddur. Endurgreiðsluhlutfallið er 35 prósent í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25 prósent í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark skattafrádráttar er 385 milljónir króna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og 275 milljónir króna hjá stórum fyrirtækjum.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs var gengið út frá því að endurgreiðslu vegna rannsóknar og þróunar yrði 11,8 milljarðar króna, en hún verður þá væntanlega 13,1 milljarður króna. Samkvæmt frumvarpi sem Bjarni Benediktsson hefur lagt fram og dreift var á þingi fyrr í þessum mánuði, á ekki að gera endurgreiðslurnar varanlegar heldur framlengja þær út árið 2025. Þar segir að búast megi við því að kostnaður ríkissjóðs verði 14,5 milljarðar króna árið 2024 og 15,3 milljarðar króna árið 2025.
Stuðningskerfi við nýsköpunarfyrirtæki er til skoðunar og úttektar af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og er niðurstöðu hennar að vænta á árinu 2023.
Fimm milljarða aukning vegna flóttafólks
Þá er lagt til að framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækki um 3,7 milljarða króna en þar af fari 1,1 milljarðar króna til að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200 þúsund krónur á mánuði.
Alls er gert ráð fyrir að hækkun vegna ýmissa verkefna sem tengjast fjölgun flóttafólks og umsækjendum um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningi við Úkraínu, nemi um fimm milljarða króna, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi var reiknað með rúmlega 1,3 milljörðum króna í málaflokkinn. Því er um gríðarlega aukningu að ræða.
Hún kemur til viðbótar við þá 1,4 milljarð króna sem þarf að sækja á fjáraukalögum í ár til að mæta ýmsum útgjöldum sem tengjast fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og málefnum Úkraínu. Til viðbótar við þá upphæð er gert ráð fyrir að ráðstafa 3,2 milljörðum króna úr almennum varasjóði vegna fjölgun flóttafólks og umsókna um alþjóðlega vernd. Heildaraukning það sem af er ársins nemur því um 4,6 milljörðum króna, en á fyrstu tíu mánuðum ársins sóttu alls 3.467 um vernd hérlendis. Það eru rúmlega þrisvar sinnum fleiri en hafa áður sótt um vernd á Íslandi innan heils árs. Langflestir, eða 58 prósent allra umsækjenda, koma frá Úkraínu eftir boð íslenskra stjórnvalda þar um. Þá eru 22 prósent umsækjenda frá Venesúela, sem koma hingað á grundvelli ákvörðunar stjórnvalda þar um frá árinu 2018. Því koma átta af hverjum tíu umsækjendum um vernd frá þessum tveimur löndum.
Stærstur hlutinn í heilbrigðismál
Ekki kemur mikið á óvart að stærstur hluti viðbótarútgjalda sem bætast við fjárlagafrumvarpið milli umræðna á að rata í heilbrigðismál, eða 12,2 milljarðar króna til viðbótar við það sem þegar ratar þangað. Þar af fara 4,3 milljarðar króna í Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna.
Í umsögnum Landspítalans um fjárlagafrumvarpið kom skýrt fram að honum vantaði milljarða króna í rekstur sinn umfram þá 85 milljarða króna sem þegar var búið að heita til reksturs hans á þessu ári í frumvarpinu. Þar kom raunar fram að spítalinn glímdi við undirliggjandi rekstrarvanda og að hann þyrfti að skerða þjónustu sína ef hann fengi ekki meira fjármagn á næsta ári. Viðbótarframlag til Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslunnar er því áætlað um 7,5 prósent hærra en það sem ætlað er til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.
Hálfur milljarður til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi
Lögreglan fær 900 milljónir króna aukin framlög til að ná markmiðum um viðbragðstíma, málsmeðferðarharða og öryggisstig og hálfan milljarð króna hækkun „í aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.“
Milljarður króna fer í tillögu um stuðning við kaup bílaleiga á hreinorkubílum og 550 milljónir króna af málefnasviði umhverfismála verður flutt til að styrkja Orkusjóð tímabundið í tengslu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og 150 milljónir króna tímabundið til þriggja ára í jarðhitaleitarátak.
Þá er lagt til að styrkja Landhelgisgæsluna með 600 milljóna króna hækkun, meðal annars vegna aukins eldsneytiskostnaðar, endurnýjunar búnaðar og leigu nýs flugskýlis.