Bann við þungunarrofi hefur alvarleg keðjuverkandi áhrif á aðra heilbrigðisþjónustu
Fjölgun ófrjósemisaðgerða og tilfella þar sem læknar þurfa að fresta lífsbjargandi aðgerðum fyrir þungaða sjúklinga sína með alvarlegum afleiðingum er meðal þeirra keðjuverkandi áhrifa sem bann við þungunarrofi í Bandaríkjunum hefur.
Næstum algert bann við þungunarrofi er nú í gildi í átta ríkjum Bandaríkjanna, auk þess sem fjöldi ríkja hefur hert löggjöf sína í málaflokknum. Búast má við því að fleiri ríki bætist við á næstu vikum, nú þegar um þrjár vikur eru liðnar frá því að hæstiréttur Bandaríkjanna sneri við fyrri dómi sem tryggt hafði konum og öðrum leghöfum réttinn til þungunarrofs í nærri 50 ár.
Bann við þungunarrofi hefur ekki aðeins áhrif á þungunarrof, heldur einnig á aðra heilbrigðisþjónustu. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk í ríkjum þar sem bann við þungunarrofi hefur tekið gildi eru enn að reyna að átta sig á því hvað má og hvað ekki þegar kemur að umönnun þungaðra kvenna þegar alvarleg veikindi koma upp á meðgöngunni. Þá hefur fjöldi kvenna gripið til sinna eigin ráða til þess að komast hjá því að verða fórnarlömb löggjafarinnar.
Í umfjöllun AP fréttastofunnar um eftirmála dóms hæstaréttar Bandaríkjanna, sem kveðinn var upp 24. júní síðastliðinn og kvaddi á um að réttur til þungunarrofs væri ekki stjórnarskrárvarinn, er rætt við fjölda lækna og kvenna sem nú reyna sitt besta til að takast á við þennan nýja raunveruleika.
Þegar hafa komið upp fjöldi tilfella þar sem heilbrigðisstarfsfólk hefur þurft að fresta eða jafnvel neita alvarlega veikum konum um lífsnauðsynlegar aðgerðir. Þannig fékk heilsugæsla í Ohio sem sérhæfir sig í þungunarrofi í síðustu viku símtöl frá tveimur konum sem gengu með utanlegsfóstur en hafði verið neitað um læknisþjónustu. Við þunganir þar sem fóstrið vex utan legs eru lífslíkur þess engar og geta þær verið lífshættulegar móðurinni sé ekki gripið inn í.
Þetta er aðeins eitt dæmi um þau skelfilegu áhrif sem bann við þungunarrofi hefur. Jessian Munoz, kvenna- og fæðingarlæknir í Texas, einu ríkjanna sem hefur lagt bann við þungunarrofi, sem sérhæfir sig í hááhættuþungunum, sem AP fréttastofan ræddi við, segir það skipta sköpum að læknisfræðilegar ákvarðanir séu skýrar og skilmerkilegar. Hingað til hafi það verið þannig að sé líf móður í hættu skuli fóstrið rakleiðis fjarlægt úr leginu, hvort sem það sé gert með lyfjum eða aðgerð. Nú þurfi læknar hins vegar að meta hvort sjúklingurinn sé „nægilega veikur“ til þess að hægt sé að réttlæta þungunarrofið fyrir lögunum. Þannig hafi læknavísindi tapast og þeim verið skipt út fyrir ótta.
Læknir þessi upplifði þennan ótta á eigin skinni þegar sjúklingur hans hafði þróað með sér alvarlega sýkingu í móðurkviði. Hjá fóstrinu mældist hins vegar enn hjartsláttur og hefði þungunarrof á þeirri stundu því verið ólöglegt í Texas-ríki. Kvaðst læknirinn hafa horft upp á konuna verða veikari og veikari þar til hjartsláttur fóstursins stöðvaðist loks daginn eftir. Sjúklingurinn upplifði miklar aukaverkanir, þurfti á aðgerð og öndunarvél að halda og missti blóð í lítravís vegna sólarhringsseinkunarinnar á þessu lífsnauðsynlega inngripi.
Lýsingarnar hér að ofan eru alls ekkert einsdæmi. Sjúkrahús í Texas hafa skráð alls 28 tilfelli meðal kvenna á hááhættumeðgöngu sem komnar voru styttra en 23 vikur á leið. Í öllum tilfellum þurfti að fresta þungunarrofi um níu daga vegna hjartsláttar hjá fóstrunum, og í 60% tilfella glímdu konurnar við alvarlegar aukaverkanir vegna þessa, en það er næstum tvöfalt hærra en eðlilegt er í kjölfar þungunarrofs af læknisráði. Átta fóstranna lifðu „fæðinguna“ af og sjö þeirra létust innan fáeinna klukkustunda. Það áttunda, sem fæddist á 24. viku, er alvarlega veikt og glímir meðal annars við heilablæðingar, hjartagalla, lungnasjúkdóm og garna- og lifrarvanda. Þess má geta að fram að þessu, þ.e. áður en hæstiréttur sneri við því fordæmi sem Roe v. Wade-dómurinn setti, hafði hæstiréttur bandaríkjanna aldrei heimilað einstaka ríkjum að leggja bann við þungunarrofi áður en fóstur getur talist lífvænlegt utan móðurkviðs, sem venjulega er ekki fyrr en á 24. viku meðgöngu.
Það er því engin furða að bandarískar konur, og sérstaklega þær sem búa í ríkjunum sem þegar hafa bannað þungunarrof, grípi til öþrifaráða til þess að koma í veg fyrir að lenda í þessum aðstæðum. Einn viðmælandi AP fréttastofunnar sem búsettur er í Texas sagðist hafa brugðist snemma við þegar hún sá fyrir að takmarka ætti rétt kvenna þar í ríki til þungunarrofs allverulega þegar ríkið bannaði nánast allt þungunarrof eftir sjöttu viku, meira að segja í tilfellum þar sem um nauðgun eða sifjaspell er að ræða. Julie Ann Nitsch, sem orðið hafði fyrir kynferðisofbeldi fyrr á lífsleiðinni, ákvað að fara í ófrjósemisaðgerð til þess að koma í veg fyrir að hún þyrfti hugsanlega að ganga með barn nauðgara. „Það er leitt að hugsa til þess að ég geti ekki eignast börn, en það er skárra en að vera neydd til þess,“ er haft eftir Nitsch.
Tyler Handcock, kvensjúkdómalæknir í Austin, Texas, staðfestir að hundruð kvenna hafi sett sig í samband við heilsugæsluna hans til þess að spyrjast fyrir um ófrjósemisaðgerðir í kjölfar úrskurðar hæstaréttar, ekki síst vegna þess að nú þegar rétturinn til þungunarrofs hefur verið afnuminn óttist þær að aðgengi að getnaðarvörnum gæti orðið næsta viðfangsefni þeirra sem vilja hafa stjórn yfir líkömum kvenna og annarra leghafa. Heilsugæslan ákvað að bjóða upp á hópráðgjöf þar sem farið var yfir áhættur og afleiðingar ófrjósemisaðgerða. Allar konurnar sem mættu, tuttugu talsins, bókuðu sér tíma í ófrjósemisaðgerð í kjölfarið. Handcock segir fjölda lækna trega til þess að framkvæma slíkar aðgerðir á ungum konum. Einn sjúklinga hans, 28 ára gömul kona, hafi leitað til sex kvensjúkdómalækna sem hafi neitað henni um aðgerðina, en Handcock segir ákvörðunina eiga að vera í höndum sjúklingsins. Hann muni standa vörð um réttindi sinna sjúklinga eins og hægt er.
Konur í barneignarhugleiðingum, nú eða hugleiðingum um að þær vilji alls ekki eignast börn, eru ekki þær einu sem bannið við þungunarrofi hefur áhrif á. Becky Schwarz er meðal þeirra sem varð óvænt fyrir áhrifum þess, en hún þjáist af stoðvefssjúkdómnum lúpus og þarf lyf til að halda sjúkdómnum niðri. Nú hefur henni hins vegar verið tilkynnt að hún þyrfti að hætta inntöku lyfjanna vegna aukaverkana sem geta leitt til fósturláts – í hið minnsta þar til heilbrigðisyfirvöld í Virginíu átta sig á því hvort lyf á borð við þau sem hún tekur stangist á við lög vegna þessa, því tæknilega sé hægt að framkalla þungunarrof með notkun lyfjanna.
Þetta er einmitt enn annar höfuðverkur fyrir heilbrigðisstarfsfólk í kjölfar úrskurðar hæstaréttar hinn 24. júní síðastliðinn, en læknar hafa kvartað yfir því að lögin, sem einnig eru afar mismunandi milli ríkja, séu ruglingsleg og erfið fyrir ólögfræðimenntaða að túlka og framfylgja. „Við höfum spurt löggjafann hvernig heilbrigðisþjónustan eigi að túlka lögin,“ segir Dana Stone, læknir í Ohio þar sem bann hefur verið lagt við nær öllu þungunarrofi. „Þau segja bara ‚Þið finnið út úr því‘“
Lestu meira
-
24. júlí 2022Bann við þungunarrofi hefur alvarleg keðjuverkandi áhrif á aðra heilbrigðisþjónustu
-
27. júní 2022Síðustu dagar „bleika hússins“ í Mississippi
-
5. maí 2022Ríkin þrettán sem geta bannað þungunarrof strax – verði meirihlutaálitið samþykkt
-
3. maí 2022„Mesta skerðing á réttindum Bandaríkjamanna í hálfa öld“
-
14. ágúst 2019Ákærð fyrir morð vegna fósturláts
-
6. júlí 2019Minnir á rétt lækna til að skorast undan störfum í ljósi nýrra laga um þungunarrof