Hann er notaður til að byggja húsin okkar, í vegina og brýrnar sem við ökum, gluggana sem við horfum út um og í snjallsímana sem við störum á daginn út og inn. Sandur er eftirsóttasta auðlind jarðar á eftir vatni. Eftirspurnin er umfram framboðið sem orðið hefur til þess að ólögleg vinnsla hans, með tilheyrandi eyðileggingu vistkerfa og þjáningum fólks – jafnvel morðum – hefur komið til sögunnar á síðustu árum.
Það kann að hljóma undarlega að skortur sé á sandi í heiminum. Hann virðist alls staðar. Í fjöllunum, á ströndunum, í eyðimörkunum. Hann er undir hverju okkar fótspori.
Staðreyndin er hins vegar sú að þegar kemur að því að nýta þessa auðlind er sandur ekki bara sandur. Hann þarf að hafa ákveðna eiginleika til að bera til að henta til ákveðinnar framleiðslu. Það er dýrt að hreinsa sand og það er líka dýrt að mylja grjót til sandframleiðslu.
Það er ómögulegt að vita hversu mikill sandur er notaður í heiminum á hverju ári. Að því komst umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna sem skoðaði málið árið 2019. Til að reyna að átta sig á umfanginu skaut hún á að 50 milljarðar tonna af sandi væru notaðir til sementsframleiðslu árlega. Óljóst er hversu mikið af af honum er svo notað til annarrar framleiðslu. Slíkar tölur liggja almennt ekki fyrir.
„Vandamálið er að við skiljum þetta efni ekki nógu vel,“ segir Louise Gallagher sem starfar hjá rannsóknarsetri í Sviss sem sérhæfir sig í að kortleggja vinnslu á sandi og notkun. „Við áttum okkur ekki nægilega á áhrifunum á þau svæði þar sem við tökum sandinn. Stundum vitum við ekki einu sinni hvaðan hann kemur, hversu mikið kemur til dæmis úr árfarvegum. Við vitum það ekki. Við einfaldlega vitum það ekki.“
Margvísleg áhrif
En eitt er víst, að fjarlægja sand úr sínu náttúrulega umhverfi, hefur áhrif. Áhrif á vistgerð þess ákveðna svæðis en jafnvel einnig á heilu vistkerfin. Þá hefur vinnslan einnig áhrif á samfélög fólks, bæði staðbundið og til lengri tíma litið á alþjóðavísu. Sandur sem er unninn úr árfarvegum mengar árnar sem aftur hefur áhrif á lífríki þeirra og afkomu fólks sem treystir á veiðar úr þeim. Þá eru ár heimsins mikilvægt vatnsból fyrir milljónir manna. Sandur er einnig unninn á strandsvæðum, á svæðum sem oft eru þegar í vanda vegna hækkunar sjávarborðs sem er vandamál sem skapast hefur vegna loftslagsbreytinga. „Vinnsla sands hefur svo einnig margvísleg önnur áhrif sem eru aldrei tekin með í reikninginn,“ segir Kiran Pereira, óháður rannsakandi, sem skrifað hefur bók um sandframleiðslu í heiminum. „Og þessi áhrif koma alls ekki fram í verði á sandi.“
Fágæt krókódílategund við Ganges-fljót á Indlandi er við það að deyja út vegna sandvinnslu á búsvæðum hennar. Talið er að aðeins 250 fullorðin dýr sé nú þar að finna. Svo mikil vinnsla er víða við Mekong-fljótið í Suðaustur-Asíu að árbakkarnir eru orðnir óstöðugir sem ógnar bæjum og þorpum sem standa við þá og lífsviðurværi margra. Fleira spilar þar inn í eins og virkjanir og aðrar framkvæmdir.
Í Marokkó er sandvinnsla á strandsvæðum farin að ógna ferðaþjónustu. Fallegu sandstrendurnar sem draga milljónir ferðamanna til landsins á hverju ári eru sumar hverjar farnar að láta á sjá. Auk þess hefur hún áhrif á lífríkið og eykur álagið á innviði við strendurnar þar sem sjórinn á greiðari leið að þeim.
Ekki óþrjótandi auðlind
Sandur er svo hversdagslegt fyrirbæri að fæstir gefa honum nokkru sinni gaum. Hann er þó, líkt og allt annað sem á jörðu finnst, ekki óþrjótandi auðlind. En sú staðreynd að hann er allt í kringum okkur hefur líklega orðið til þess að neikvæð áhrif umfangsmikillar vinnslu hans hefur hingað til ekki fengið mikla athygli. Vandamálið er falið þótt sandurinn sé „fyrir allra augum,“ segir Chris Hacnkey, landfræðingur við háskólann í Newcastle sem skrifaði grein um neikvæð áhrif vinnslunnar í vísindatímaritið Nature. „Spyrðu fólk hvert það telji mikilvægasta hráefni jarðar. Sandur verður líklega ekki nefndur.“
Mette Bendixen, aðstoðarprófessor við McGill-háskóla í Montreal, er einnig meðal þeirra sem rannsakað hafa viðskipti með sand. „Í fleiri ár höfum við unnið meiri sand en náttúran skapar,“ segir hún. Sandnotkun fari stöðugt vaxandi þar sem sprenging hafi orðið í byggingariðnaði. „Nú þegar er þetta farið að eyðileggja vistkerfi ánna þaðan sem sandurinn er unninn. Einnig hefur fjöldi fólks misst heimili sín,“ segir hún í viðtali við danska ríkisútvarpið.
Þriðjungur lands á jörðinni er skilgreindur sem eyðimörk. Sandur eyðimarkanna er þó ekki hentugt byggingarefni eins og hann kemur af kúnni. Þegar hinn 830 metra hái skýjakljúfur Burj Khalifa var til að mynda byggður í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem eru í Mið-Austurlöndum þar sem eyðimerkur eru víðfeðmar, var sandurinn til verksins fluttur inn frá Kanada og Ástralíu. Sandkornin í eyðimörkinni eru svo veðruð, yfirborð þeirra svo slétt að sandurinn er ekki með það grip sem til þarf til að búa til steypu. Sandur í farvegum áa, á ströndum og á hafsbotni, er ákjósanlegri til slíks brúks.
Og hann er brúkaður af miklum móð. Síðustu ár hefur eftirspurnin í Asíu og Kína margfaldast með miklum búferlaflutningum fólks úr sveitum í borgir. Borgir sem breiða orðið úr sér yfir gríðarleg landflæmi og eiga aðeins eftir að stækka á næstu árum og áratugum. Kínverjar eru taldir hafa notað meiri sand árin 2011 til 2014 en notaður var í Bandaríkjunum alla tuttugustu öldina, tekur Mette Bendixen sem dæmi.
Jarðarbúar eru meira en tvisvar sinnum fleiri nú en í byrjun áttunda áratugarins. Því er spáð að um miðja öldina verði þeir orðnir tíu milljarðar. Þetta er ein helsta ástæða þess að mannkynið hefur vaxandi þörf til að nota „litlu sandkornin,“ segir Bendixen. Þótt vöxturinn sé ekki sambærilegur í hinum vestræna heimi og í Asíu og Afríku er notkunin þar gríðarleg og með auknum efnahagsumsvifum í ríkari löndum heims er sífellt verið að byggja nýtt – og stærra.
En sandur er notaður í fleira en steypu. Hann er t.d. notaður í landfyllingar. Manngerðar eyjur í Singapúr, þess landlitla og þéttbýla ríkis, voru búnar til úr sandi sem var fluttur inn frá Kambódíu, Víetnam og Indónesíu. Manngerðu eyjurnar í Dubaí, Pálma-eyjar, sem eru svo stórar að þær sjást utan úr geimnum, voru búnar til úr sandi sem dælt var upp af botni Persaflóans.
Verð á sandi hefur því farið hækkandi á markaðstorgi hins alþjóðlega hagkerfis. Og þegar skortur er á einhverju segir reynslan okkur að einhverjir muni nýta sér hann og níðast á öðrum í leiðinni.
Þær eru kallaðar sand-mafíurnar, glæpagengin sem hafa brennt blaðamenn lifandi, brytjað aðgerðasinna í spað og ekið yfir lögreglumenn. Sand-mafíur er að finna víða um heim, m.a. í Mexíkó og Suður-Afríku en ástandið er þó talið einna verst á Indlandi þar sem ólögleg sandvinnsla er mjög umfangsmikil. Í Suðausturhluta Asíu er talið að í það minnsta 193 hafi dáið í tengslum við slíka vinnslu, aðallega vegna hræðilegra aðstæðna í hinum ólöglegu námum, en margir hafa líka verið drepnir. Í Marokkó er talið að um helmingur alls sands sem notaður er í landinu á hverju ári sé unninn með ólögmætum hætti.
Barnaþrælkun tíðkaðist einnig í þessum námum á Indlandi og í árafjöld litu yfirvöld einfaldlega fram hjá því sem og annarri ólöglegri starfsemi námufyrirtækjanna. Í febrúar á þessu ári breyttist það er yfirmaður stærsta námufyrirtækis Indlands, V.V. Minerals, var dæmdur í fangelsi í Delí fyrir mútur er hann greiddi skólagjöld fyrir son embættismanns sem hafði með leyfisveitingar fyrir sandvinnsluna að gera. Fyrirtækið er sagt hafa stundað ólöglega námuvinnslu í áratugi.
Til að koma böndum á sandvinnslu heimsins þurfa leiðtogar að koma á betra eftirliti með þessum iðnaði og hafa mun meira aðhald í leyfisveitingum til námuvinnslu. Nýsköpun í byggingariðnaði er ennfremur nauðsynleg svo draga megi úr eftirspurn eftir sandi. Þá eru einnig vannýtt tækifæri í endurvinnslu byggingarefnis, s.s. til landfyllinga og vegagerðar. Pereira segir að geta manna til byggingar húsa þurfi ekki að standa og falla með sandi. Hægt sé að fara leiðir sem hafi minni áhrif á vistkerfi jarðar. Þeirra verði að leita og þróa áfram.