Fréttir fjölmiðla af gengi krónunnar eru tíðar, enda hefur gengi íslensku krónunnar og gengissveiflur mikil áhrif á efnahagshorfur í landinu. Í síðasta þætti af Ferð til fjár fylgdumst við með Helga Seljan stöðva upplestur Boga Ágústssonar í miðjum fréttatíma, til þess að fá ítarlegri skýringar á hvað Bogi væri eiginlega að meina með þessu öllu saman.
„Gengi krónunnar hefur ekki verið hærra frá því í maí í fyrra. Krónan hefur styrkst jafnt og þétt frá síðari hluta nóvembermánaðar. Gengisvísitala erlendra mynta hefur ekki verið lægri í 9 mánuði sem þýðir að krónan hefur ekki verið sterkari frá því í maí. Víst er að fjöldi ferðamanna hefur haft áhrif á styrkingu krónunnar en fleira kemur til,” las Bogi í fréttatímanum.
Það er ekki nema von að Helgi klóri sér í hausnum yfir öllum þessum hækkunum, lækkunum, styrkingum og veikingum. „Fyrirgefðu Bogi, hvað er gengisvísitala,“ er spurning sem fleiri en Helgi hafa velt fyrir sér.
Eins og Bogi útskýrði, þá er gengisvísitalan vísitala sem að mælir verðgildi íslensku krónunnar gagnvart öðrum myntum. Vísitalan er samsett úr þeim myntum sem Ísland á í mestum viðskiptum með og vegur evran þar þyngst eða tæplega 40%. Hækkun gengisvísitölunnar, til dæmis úr genginu 205 í 206, þýðir að krónan er að lækka. Þá er verð erlendu gjaldmiðlanna gagnvart íslensku krónunni að hækka, þ.e. við þurfum þá að nota fleiri krónur til að kaupa aðra gjaldmiðla og innflutningur verður dýrari. Þetta ferli er oft kallað veiking krónunnar. Ef gengisvísitalan aftur á móti lækkar þá er verð erlendu gjaldmiðlanna að lækka og krónan að hækka eða styrkjast.
Hækkun gengisvísitölunnar: Erlendu gjaldmiðlarnir eru að hækka í verði, fleiri krónur þarf til að kaupa sama magn og áður. Krónan er að veikjast eða lækka. Innflutningur verður dýrari í verði og verð á innfluttum varningi hækkar í verði.
Lækkun gengisvísitölunnar: Erlendu gjaldmiðlarnir eru að lækka í verði, færri krónur þarf en áður til þess að kaupa gjaldeyri. Krónan er að styrkjast eða hækka. Innfluttar vörur verða ódýrari og vöruverð lækkar.
„Þetta er einfalt,“ sagði Bogi við Helga. „Hærri gengisvísitala þýðir lægri króna, lægri gengisvísitala þýðir hærri króna.“
Styrking gagnvart evru en veiking á móti dollar
Breyting gengisvísitölunnar frá byrjun desembermánaðar |Create infographics
Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig gengisvísitalan hefur sveiflast frá byrjun desember 2014 til föstudagsins 16. janúar 2015. Gengi vísitölunnar var á föstudaginn síðasta um 208,6 samanborið við 206,2 í byrjun desembermánaðar. Vísitalan hefur því hækkað frá byrjun desember og krónan veikst, en eins og línuritið ber með sér hafa sveiflurnar verið í báðar áttir.
Eins og fyrr segir þá breytist gengisvísitalan eftir gengi einstakra gjaldmiðla. Seðlabankinn heldur um skráningu gjaldmiðla og í dag er gjaldeyrisvísitalan samsett úr 14 gjaldmiðlum. Mest vægi hefur gengi evrunnar, eða 38,4%, og því næst gengi Bandaríkjadals, eða 12,4%. Aðrir gjaldmiðlar sem vega þungt eru breska pundið (9,7%), danska krónan (9,7%) og norska krónan(9,4%).
Gengi evru gagnvart krónu frá byrjun desember 2014 |Create infographics
Gengi evrunnar gagnvart krónunni er á svipuðum stað og það var í byrjun desember, en hefur farið lækkandi að undanförnu eins og sést og línuritinu. Það þýðir að hver evra kostar færri krónur, og krónan því styrkst gagnvart evru. Gengi evrunnar er í dag um 153 krónur.
Gengi Bandaríkjadollars gagnvart krónunni frá byrjun desember |Create infographics
Aðra sögu er að segja af Bandaríkjadollar, en krónan hefur veikst gagnvart dollar að undanförnu. Í byrjun desember kostaði hver dollar minna en 125 krónu en kostar í dag um 133 krónur. Veiking krónunnar gagnvart dollar nemur um 6% frá miðjum desember. Verð varnings sem fluttur er inn frá Bandaríkjunum mun því að óbreyttu hækka í verði.
Dollarinn að styrkjast gagnvart öðrum myntum
Þessar mismunandi breytingar á gengi gjaldmiðlanna skýrast að miklu leyti af styrkingu dollarsins gagnvart evrunni. Seðlabanki Íslands hefur beitt sér fyrir því að halda gengi krónunnar stöðugu á móti evru og á síðustu misserum hefur dollarinn sótt í sig veðrið og styrkst verulega gagnvart öðrum myntum, einkum evru. Þessi styrking dollars gagnvart öðrum myntum heimsins er meðal annars skýrð með bættum efnahagshorfum vestanhafs.
Að lokum, þá er er athyglisvert að skoða samanburð á breytingum gengisvísitölunnar milli ára. Eins og Íslendingum er vel kunnugt, þá hefur krónan oft sveiflast eins og lauf í vindi. Á síðustu misserum hefur hún þó verið tiltölulega stöðug, ekki síst í samanburði við fyrri ár, eins og myndin hér að neðan sýnir.
Gengissveiflur krónunnar 2009 til 2014 |Create infographics
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 22. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.