Íslensk stjórnvöld hafa ekki ennþá mótað nýja húsnæðisstefnu en Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sagt að uppbygging ríkisins á 2.300 íbúðum fram til ársins 2019 sé hluti af henni, sem og aukning bóta til leigjenda og almenn styrking leigumarkaðar. Frumvörp sem lögð voru fram á síðasta þingvetri, um breytingar á húsaleigulögum, húsnæðisbætur og um húsnæðissamvinnufélög, hafa ekki verið afgreidd í þinginu, og það sama á við um hugmyndir um stofnframlög.
Engin ný húsnæðisstefna liggur því fyrir af hálfu stjórnvalda, eða hefur verið samþykkt af ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á þessi mál fyrir kosningarnar 2013, samhliða því að leiðrétta verðtryggðar skuldir heimila og afnema verðtryggingu, og hefur Eygló Harðardóttir sagt, að ný húsnæðisstefna muni líta dagsins ljós. Verðtrygging lána er vinsælasta lánafyrirkomulagið um þessar mundir, og virðist fólk velja það umfram óverðtryggð lán, einkum og sér í lagi þar sem greiðslubyrði er léttari á þeim lánum.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ekki gengið vel að koma tillögum að úrbótum á húsnæðismarkaði í gegnum ríkisstjórnina sem hún situr í.
Bretar einblína á húsnæðismarkaðinn
Líkt og hér á landi, þá kom upp mikill vandi á fasteignamarkaði í Bretlandi í kjölfar efnahagsþrenginga árin 2007 til 2009. Meðalaldur fólks sem kaupir sína fyrstu íbúð hefur hækkað nokkuð, og stjórnvöld hafa skynjað erfiðleika hjá fólki þegar kemur að fá lánafyrirgreiðslu, vegna þess að bankastofnanir hafa hert á greiðslumati og eiginfjárkröfum. Lán banka eru í Bretlandi víðast hvar að hámarki um 75 prósent, en hér á landi eru hámarkslánin til fasteigna kaupa 85 prósent. Í undantekningatilvikum fer hlutfallið í 90 prósent.
Ríkisstjórn Davids Cameron forsætisráðherra hefur einblínt á endurmótun húsnæðismálastefnunnar, með það að markmiði að auðvelda fólki að eignast húsnæði, með opinberri fyrirgreiðslu og hjálp (Help to Buy Equity Loan). Grundvallaratriði þeirrar stefnu er um 20 prósent lán frá ríkinu, á niðurgreiddum vöxtum, sem kemur á móti 75 prósent láni frá banka. Fólk sem er að kaupa húsnæði þarf því að koma fram með eigin fé sem nemur um fimm prósent af kaupverði, þegar það er ganga frá fyrstu íbúðar kaupum. Lán ríkisins, upp á 20 prósent af kaupverði, er í boði fyrir alla þá sem eru að kaupa sér eignir upp á 600 þúsund pund, eða sem nemur um 117 milljónum króna. Þessi leið er hluti af húsnæðisstefnu sem sniðin var að þörfum fasteignamarkaðarins, meðal annars vegna þess hve erfitt það reyndist að selja nýjar íbúðir, þar sem kaupendur útfylltu ekki skilyrði fyrir lánveitingu. Í fyrstu voru lán ríkisins sérstaklega ætluð þeim sem voru að kaupa nýjar íbúðir en nú hefur verkefnið verið útfært þannig, að þeir sem eru að kaupa fyrstu eign geta einnig fengið þessi lán.
Leiga og ódýrar íbúðir á Íslandi
Hér á landi virðast hugmyndir eins og þær, sem ríkisstjórn Camerons hefur hrint í framkvæmd, ekki vera upp á borðum. Eins og mál standa nú er ekki hægt að segja til um hvernig ný húsnæðisstefna stjórnvalda verður, en samkvæmt heimildum Kjarnans hefur verið töluverður ágreiningur um það hvaða leiðir skuli farnar milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Boðuð hefur verið endurskoðun á starfsemi Íbúðalánasjóðs, sem í dag hefur litla markaðshlutdeild við veitingu nýrra lána, en kjörin verri en hjá bönkunum og vöruframboðið minna. Einungis eru í boði verðtryggð lán en bankarnir hafa boðið verðtryggð, óverðtryggð og blönduð lán í meira en fimm ár núna, eða frá því eftir hrun. Óverðtryggð húsnæðislán eru að hámarki með fimm ára binditíma á vöxtum.
Rekstur Íbúðalánasjóðs hefur auk þess verið erfiður, meðal annars vegna þess að sjóðurinn hefur litlu hlutverki að gegna við útlán. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að endurskipuleggja hlutverk sjóðsins, og það sama á við um Seðlabanka Íslands. Stjórnvöld hafa enn fremur sagt að nauðsynlegt sé að taka hlutverkið til endurskoðunar, en ekkert róttækt hefur þó verið gert enn í þeim efnum, eða nýjar línur lagðar um hvað gera skuli til framtíðar litið.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna steig í byrjun mánaðarins stórt skref þegar sjóðurinn hækkaði lánshlutfall í 75 prósent, og býður nú lægstu vexti sem í boði eru á húsnæðislánamarkaði á Íslandi, eins og taflan hér að ofan sýni. Bankarnir hafa ekki ennþá brugðist við þessu útspili né heldur aðrir lífeyrissjóðir.
Vandi stjórnvalda
Hvernig sem verður, þegar líður að kosningum vorið 2017, þá er ljóst að stjórnvöldum er nokkur vandi á höndum við að móta nýja húsnæðisstefnu. Tíminn vinnur ekki með þeim, enda virðist það vaxandi vandamál á markaði hversu erfitt er að koma þaki yfir höfuðið og safna sparnaði. Nýjar tölur staðfesta enn fremur að íbúðafjárfesting er í sögulegu lágmarki, þrátt fyrir að hagkerfið hafi verið sýna skýr merki um bata, eins og bent var á í Hagsjá Landsbankans á dögunum. Í fyrri helmingi þessa árs dróst íbúðafjárfesting saman um 13,3 prósent, þrátt fyrir að vaxandi eftirspurn sé eftir húsnæði og þörf fyrir að auka framboð, einkum á litlum og meðalstórum íbúðum.
Eygló hefur talað fyrir nauðsyn þess að auka samstarf allra þeirra sem hagsmuni hafa af því að byggja upp sjálfbæran húsnæðismarkað, meðal annars með því að draga úr byggingarkostnaði. Fundur hefur verið boðaður um þessi mál á næstunni, en ekki liggur fyrir hvenær hann verður. Fundarefnið verður þó almenn staða á bygginga- og fasteignamarkaði, og hvernig megi bæta umgjörð fólki til heilla, af því er fram komi í máli Eyglóar í viðtali við Viðskiptablaðið.