Það var mikið húllumhæ í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn síðastliðinn þegar danska þjóðin tók á móti Jonasi Vingegaard, nýjustu þjóðhetju Dana, á Ráðhústorginu og svo í Tivoli eftir sigur kappans á hjólreiðakeppninni Tour de France. Jonas veifaði trylltum lýð af svölum ráðhússins og samkvæmt dönskum fjölmiðlum hefur enginn hlotið slíkar móttökur síðan danska karlalandsliðið varð Evrópumeistari í knattspyrnu árið 1992.
Leið Jonasar upp á stjörnuhimininn hefur verið nokkuð hröð, en þessi 25 ára gamli Jótlendingur fékk áhuga á hjólreiðum þegar faðir hans fór með hann að fylgjast með Danmerkurkeppninni þegar hún átti leið um bæinn þar sem fjölskyldan bjó á Vestur-Jótlandi. Áður hafði Jonas æft fótbolta en í viðtali hefur verið haft eftir föður hans að hann hafi alltaf verið lítill og léttur.
Jonas fór að æfa hjólreiðar af alvöru sem táningur en samkvæmt þjálfurum hans á þeim tíma bar hann ekkert sérstaklega af og átti raunar nokkuð erfitt uppdráttar. En áhuginn og ástríðan var til staðar og vann Jonas mjög hart að því að verða betri og fór hann á mála hjá Odder hjólreiðaklúbbnum 17 ára gamall. Kúbburinn fór í hjólreiðaferðir suður á bóginn í Evrópu kom þá í ljós að Jonas hafði eitthvað alveg sérstakt sem ekki hafði uppgötvast áður: hann hafði sérstakt lag á því að hjóla í bröttum brekkum.
Þar kom það sér nefnilega mjög vel að vera lítill og léttur, en vegna brekkuleysis í heimalandinu hefðu þessir hæfileikar Jonasar kannski annars aldrei komið í ljós.
Fiskur á morgnana, hjól eftir hádegi
Á miðju tímabilinu árið 2016 gekk Jonas til liðs við coloQuick, þar sem Christian Andersen þjálfari hafði mikla trú á hæfileikum Jonasar. Til þess að hjálpa Jonasi að venjast rútínu og strúktur, auk þess að byggja upp þrautsegju, lét Christian hann fá sér vinnu í fiskverksmiðju þar sem Jonas starfaði frá klukkan sex fram að hádegi, og æfði svo hjólreiðar eftir hádegið. Á meðan hann var á mála hjá coloQuick kynntist hann einnig kærustu sinni og barnsmóður, Trine Marie Hansen, sem starfaði sem yfirmaður markaðsmála fyrir liðið.
Vegna lærleggsbrots missti Jonas af stærstum hluta tímabilsins 2017 en kom sterkur til baka árið 2018 og stóð sig raunar svo vel að árið eftir gekk hann til liðs við hollenska stórliðið Jumbo-Visma og tók þátt í sinni fyrstu keppni með liðinu árið 2019. Hann vann einn áfanga keppninnar Umhverfis Pólland á sínu fyrsta tímabili en það var svo haustið 2020 sem hann virkilega komst á blað þegar hann átti stóran hlut í að tryggja liðsfélaga sínum Primoz Roglic sigurinn í Vuelta a Espana, auk þess sem hann stóð sig vel í öðrum keppnum tímabilsins.
Óvænt stjarna
Það var svo á síðasta ári sem Jonas þreytti frumraun sína í Tour de France og kom hann inn í lið Jumbo-Visma í stað hins hollenska Tom Dumoulin. Til stóð að Jonas myndi að nýju hjálpa aðalstjörnu liðsins, Primoz Roglic, að knýja fram sigur líkt og hann hafði gert á Spáni árið áður. Roglic slasaði sig hins vegar snemma í keppninni og þurfti að hætta keppni þegar hún var tæplega hálfnuð og varð Jonas þá óvænt stjarna liðsins og líklega óvæntasta stjarna keppninnar og komst nærri því að vinna keppnina og endaði í öðru sæti í sinni fyrstu Tour de France. Jonas steig á pall í París með dótturina Fridu í fanginu og þá vitneskju að líf hans yrði aldrei samt. Hann var orðinn stjórstjarna.
Væntingarnar fyrir Tour de France þessa árs voru því háar, og eftirvæntingin meðal dönsku þjóðarinnar sérstaklega há þar sem keppnin hófst í Kaupmannahöfn, og má segja að Jonas hafi staðið undir þeim og rúmlega það. Jonas atti þar kappi við sigurvegara ársins áður, Tadej Pogacar, og hafði að lokum betur. Segja má að Jonas og Pogacar hafi raunar háð sína eigin keppni í túrnum þetta ár þar sem þeir sem á eftir þeim komu voru langt, langt á eftir. Jonas stóð uppi sem sigurvegari og er fyrsti Daninn til þess að vinna Tour de France frá 1996 – einmitt árinu sem hann fæddist.
Það eru því engar ýkjur að segja að Jonas sé orðin stórstjarna og mótttökurnar í Kaupmannahöfn í vikunni styðja enn frekar við þá staðhæfingu. Fjölmiðlar um allan heim hafa dáðst að mannhafinu sem heilsaði Jonasi er hann steig út á svalir ráðhússins í Kaupmannahöfn.