Kröfur margra stéttarfélaga í yfirstandandi kjaradeilum á vinnumarkaði hljóða upp á verulega hækkun launataxta og dæmi eru um að kröfur hljóði upp á um 20 prósent hækkun lægstu launa. Staðan sem uppi er á vinnumarkaði hefur að mati peningastefnunefndar Seðlabankans verið ein helsta ástæða fyrir því að halda stýrivöxtum óbreyttum undanfarna mánuði, þrátt fyrir lága verðbólgu sem er undir 2,5 prósenta markmiði bankans. Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að mikil hækkun launa valdi almennum verðlagshækkunum, það er verðbólguskoti og tilheyrandi óstöðugleika. Hagfræðingar stéttarfélaga og atvinnuveitenda hafa aftur á móti deilt um hversu mikil áhrif launahækkana raunverulega eru á verðlagsþróun.
Óumdeilt er að miklar launahækkanir myndu hafa neikvæð áhrif á verðlagsþróun. Versta mögulega útkoman væri svo há verðbólga að kaupmáttur almennings stæði í stað eða minnki, með tilheyrandi hækkun verðtryggðra lána. Hækkun launa myndi þá engu skila til launþega því laun og þjónusta í landinu myndu einnig hækka.
Hvernig gæti það gerst? Laun eru einn helsti kostnaðarliður í flestum fyrirtækjum og helsta tekjulind flestra launþega. Launahækkanir auka því kostnað fyrirtækja og tekjur launþega. Hvoru tveggja getur ýtt undir verðhækkanir, eins og Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, fjallaði um hér. Fyrirtækin bregðast við auknum kostnaði með því að hækka verð á vörunum sínum eða þjónustu. Launahækkanir auka að sama skapi kaupgetu launþega sem einnig ýtir undir verðhækkanir vegna aukinnar eftirspurnar.
Hver er meðalvegurinn?
En hversu mikil eru þessi áhrif? Hversu mikið er hægt að hækka laun án þess að verðbólgan fari af stað? Um þetta er deilt.
Samkvæmt ofansögðu eiga laun að endurspegla framleiðslugetu, eða það sem kallað er framleiðni vinnuafls. En málið er auðvitað ekki svo einfalt, til að mynda vaxa laun einstakra hópa mishratt og launakjör geta þannig dregist aftur úr því sem telja má rétt.
Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) telja svigrúm til launahækkana vera 3 til 4 prósent, eigi að tryggja verðstöðugleika. Það mat SA byggir á þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands en Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur nefnt sama svigrúm til launahækkana. SA óttast að of miklar launahækkanir valdi því sem rakið er hér að ofan, að verðbólgan fari af stað og eyði jafnóðum auknum kaupmætti krónutöluhækkana launataxta.
Viðar Ingason, hagfræðingur VR, skrifaði grein í febrúar síðastliðnum þar sem hann segir hlutdeild launa sem áhrifavald til verðbólgu vera ofmetna á síðustu fjórum árum. Samkvæmt rannsókn hans hafi aðrir þættir en launahækkanir haft meiri áhrif verðbólguhækkana frá árinu 2011, helst gengi krónunnar og olíuverðshækkanir.
Ólafur Margeirsson, doktsorsnemi í hagfræði, fjallaði um pistil Viðars á vefsíðu sinni og sagði frá rannsókn sinni sem nær yfir tímabilið 1906 til 1985. Ólafur kannaði samband launahækkana á Íslandi og verðbólgu á þessu tímabili. Hann sýndi að verðbólga á árunum 1960 til 1985 hafi að stórum hluta til verið vegna launahækkana, en það gildi þó ekki um tímabilið allt þar sem aðrir þættir hafi vegið þyngra. „ Já, þessar niðurstöður segja okkur að launahækkanir leiða ekki sjálfkrafa til verðbólgu. Þetta slær því á ótta fólks varðandi það að hvaða launahækkanir sem er muni sjálfkrafa og óumflýjanlega leiða til verðbólgu. En þetta gefur ekki verkalýðsfélögum frítt spil: of miklar launahækkanir munu leiða til verðbólgu,“ segir Ólafur í grein sinni.