Það landslag sem birtist í kvikmyndinni Mad Max: Fury Road, sem frumsýnd var á Cannes-hátíðinni á fimmtudag, er landslag framtíðarinnar ef við aðhöfumst ekki vegna hnattrænnar hlýnunnar. Þetta lét suður-afríska leikkonan Charlize Theron hafa eftir sér á frumsýningarhátinni.
Myndin á að gerast eftir 45 ár, eftir atburð sem ætti að hafa bundið enda á jarðlíf mannsins. Þarna stjórna grimmir alvalda kóngar öllu vatni sem er af skornum skammti, hneppa menn í þrældóm og fangelsa konur. Sögusviðið er sandur, ekki stingandi strá vex úr jörðinni.
„Ég upplifði þetta sem byggt á raunveruleikanum,“ sagði Theron. „Hugmyndin um hnattvæðinguna, hlýnun jarðar, þurrka og raunverulegt virði vatns, þar sem stjórnvöld fara langt framúr sér.“
„Ég velti fyrir mér hvort þetta væri ekki svolítið langsótt, þessir sandstormar, en áttaði mig á að svona er raunveruleikinn. Það eru myndir á Google sem sýna sandstorma í Sahara, og allstaðar í Afríku. Það er ógnvekjandi og það er enn meira ógnvekjandi að hugsa til þess að þetta er ekki fjarlæg framtíð ef við grípum ekki til aðgerða,“ sagði leikkonan.
Theron gæti hafa hitt naglan á höfuðið þarna því þurrkar eru þegar farnir að hafa áhrif á jarðvist fólks, ekki bara í Afríku. Þurrkarnir sem ríkja á vesturströnd Bandaríkjanna hafa orðið til þess að umræða um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar hefur komist í almennari umræðu, einkum vestanhafs.
Vísindamenn hafa til dæmis reiknað það út að ef vatnsnotkun í heiminum verður áfram sú sama miðað við aukna fólksfjölgun mun eftirspurn eftir vatni verða 40 prósent meiri en framboðið árið 2030. Það er eftir 15 ár. Mad Max á að gerast 30 árum síðar og það má rétt ímynda sér hvernig ástandið verður þá.
Of seint í rassinn gripið í Kaliforníu?
Eins og Kjarninn greindi meðal annars frá í apríl eru þurrkarnir í Kaliforníuríki orðnir að miklu vandamáli. Ríkisstjórnin er farin að skammta vatni enda er ráðgert að vatnsbólin verði þurrausin strax á næsta ári. Til vara reiða íbúar sig á grunnvatn sem fer þó jafnframt þverrandi.
Íbúar Kaliforníu eru því farnir að finna fyrir áhrifum hnattrænnar hlýnunnar. Verð á vatni hefur til að mynda aldrei verið jafn hátt í ríkinu og uppistöðulón eins og Lake Oroville, sem venjulega er iðandi af sprikklandi fiski, eru ekki fyllt lengur til að bæta vatnsstöðuna. Oroville-virkjun, næst stærsta raforkuvirkjun í Kaliforníu, framleiðir lítið rafmagn á meðan.
Brúin yfir Fether-á í Kaliforníu stendur nú yfir gilinu þar sem áður var gríðar stórt uppistöðulón fyrir Oroville-virkjun.
Í byrjun árs tilkynntu umsjónarmenn vatnslinda alríkisins að vatni verði ekki lengur skammtað til landbúnaðar í Central Valley, annað árið í röð. Svæðið í Central Valley var talið eitt mikilvægasta landbúnaðarsvæði í Bandaríkjunum en er nú ónothæft ræktarland. Almenningur upplifir takmarkanir á vatnsnotkunn þannig að þeir til dæmis mega ekki vökva garðinn sinn, nema undir vissum kringumstæðum.
Annar staðar í Bandaríkjunum fylgjast stjórnvöld með vatnsbólum sínum. Í Nevada, Kaliforníu, Arizona, Utah og Colorado er allt afl lagt í að finna nýjar leiðir til að nýta og framleiða vatn, til að leysa þá krísu sem óumflýjanlega verður með aukinni fólksfjölgun og meiri vatnsnotkunn á hverju ári.
Illa farið með gott vatn
Í Bandaríkjunum hefur verið bent á að þar sem vatn er af skornum skammti virðist því vera furðulega deilt. 80 prósent af vatni í Kaliforníu hefur til dæmis verið notað til landbúnaðar. Til að undirstrika hversu mikið vatn „fer til spillis“ í landbúnaði má benda á að til að framleiða lífeldsneyti, sem yfirleitt er framleitt úr korni, þarf 100 lítra af vatni til að framleiða einn lítra af eldsneyti.
Samkvæmt könnun á vatnsnotkun almennings kemur í ljós að fólk drekkur eitt prósent þess kranavatns sem dælt er inn á heimili. Restin fer í að sturta niður í klósettum, böð og þvotta.
Singapúr er það land sem helst er litið til þegar hugað er að betri leiðum til að nýta vatn og framleiða drykkjarhæft vatn. Þar í landi var það neyðin sem fékk fólk til að hugsa vatnsnotkun sína upp á nýtt. Nýtt vatnskerfi, sem fólst í því að fá fólk til að vera umhugaðra um vatnsnotkun sína, hefur sparað um 10 prósent af vatnsnotkun á dag. Þetta hefur jafnframt alið af sér meiri áhuga á vatni og nú starfa þar um 130 fyrirtæki í vatnsiðnaði og 26 rannsóknarsetur rannsaka vatnsnotkun á einhvern hátt.
Vatnskerfið í Singapúr er umfangsmikið og flókið en það sinnir um 30 prósent af vatnsþörf íbúa þar. Mynd: EPA
Hluti af þeirri lausn sem sett var upp í Singapúr var að safna regnvatni í þéttbýli sem rennur svo til hreinsunarstöðva í flóknu neti röra, affalla, skurða og lóna. Í þessu kerfi hefur tekist að safna allt að 90 prósent regnvatns sem fellur innan borgarinnar, sem leggur til um 30 prósent af vatnsframboði landsins.
Vatn er forsenda lífsins því ef við hefðum ekki vatn gætum við auðvitað ekki lifað. Sá vandi sem plagað hefur stór landsvæði í Afríku er nú að gera vart við sig á þéttbýlum svæðum á vesturlöndum og hefur vakið mikla athygli. Og það er einmitt það sem vandamál þurfa svo úr þeim megi leysa.