Ríkasta eitt prósent landsmanna átti 995 milljarða króna í lok síðasta árs í eigið fé og jók slíkt um 93,5 milljarða króna í fyrra. Það þýðir að um 16 prósent alls nýs eigin fjár sem varð til í fyrra var aflað af þessum hóp. Ríkasta 0,1 prósent landsmanna, alls 244 fjölskyldur, átti 325 milljarða króna og jók sitt eigið fé um 32,2 milljarða króna á árinu 2021, sem þýðir að þær öfluðu tæplega sex prósent alls nýs eigin fjár sem var varð til á Íslandi í fyrra. Það er mesta aukning í milljörðum talið á einu ári síðan á árinu 2016, þegar mesti hagvöxtur í áratugi var á Íslandi, en hann mældist 6,2 prósent. Þar áður þarf að leita aftur til bankagóðærisáranna 2006 og 2007 til að finna meiri aukningu á eigin fé innan árs í milljörðum talið.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur ríkasta hóps landsmanna á síðasta ári. Svarið var birt á vef Alþingis síðdegis á föstudag.
Eigið fé allra framteljenda var 5.876 milljarðar króna um síðustu áramót, samkvæmt svarinu. Það eru 578 milljörðum krónum meira en til var í eigin fé á íslenskum heimilum í lok árs 2020.
Af þeim fóru 218 milljarðar króna til þeirra fimm prósent landsmanna sem áttu mest eigið fé allra, eða 38 prósent af því nýja eigið fé sem varð til á árinu 2021.
Hlutfallslega eiga ríkustu fimm, eitt og 0,1 prósent landsmanna mjög svipað hlutfall af hreinum eignum heildarinnar og í fyrra. Hlutfallið stendur í stað hjá 0,1 prósent hópnum en lækkar um 0,1-0,2 prósentustig hjá hinum.
Kjarninn greindi frá því í sumar að alls 54,4 prósent af þeim nýja auð sem varð til í fyrra hafi lent hjá ríkustu tíund landsmanna. Þegar þróun á eignum og skuldum þjóðarinnar er skoðað aftur í tímann kemur í ljós að á árunum 2010 til 2020, á einum áratug, tók þessi efsta tíund að meðaltali til sín 43,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á ári. Því átti sú þróun sér stað á síðasta ári að ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín mun hærra hlutfall af nýjum auð en hópurinn hefur að jafnaði gert áratuginn á undan.
Við það jókst misskipting í íslensku samfélagi.
Heimatilbúin bóla á eignarmörkum
Ástæðu þessa ástands má að stóru leyti finna í viðbragði á árunum 2020 og 2021 vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands gripu til margháttaðra aðgerða sem hleyptu súrefni inn í hagkerfið. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér margháttaðar styrktargreiðslur til fyrirtækja og veitingu á vaxtalausum lánum í formi frestaðra skattgreiðslna. Þá afnam Seðlabanki Íslands hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka sem jók útlánagetu banka landsins um mörg hundruð milljarða króna og stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent. Þeir höfðu aldrei verið lægri. Þessar örvunaraðgerðir leiddu til mikillar tilfærslu á fjármunum til fjármagnseigenda, enda skapaðist bóluástand á íbúða- og hlutabréfamarkaði. Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli áranna 2020 og 2021, eða alls um 65 milljarða króna, og voru 181 milljarðar króna í heild.
Flestir landsmenn, utan þeirra sem tilheyra eignarmesta hópnum, eiga þó að uppistöðu eina tegund eigna sem hefur vaxið mikið í virði, fasteignina sem þeir búa í. Frá byrjun árs 2020 hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um meira en 50 prósent og á árinu 2021 einu saman hækkaði það um 20 prósent. Heildarvísitala hlutabréfa hækkaði um 40 prósent í fyrra. Öll félögin á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands hækkuðu í verði. Arion banki, sem hækkaði mest, tvöfaldaðist í virði.
Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti fyrr á þessu ári var tæplega 76 prósent af þeirri aukningu sem varð á eigin fé í fyrra vegna hækkandi fasteignaverðs. Slík hækkun eru ekki peningar í hendi hjá þeim sem eiga eina eign, og þurfa að búa í henni, þótt auður verði til á blaði samhliða miklum hækkunum. Flestir þurfa að kaupa sér nýja eign ef þeir selja gömlu, og nýju eignirnar hafa líka hækkað að jafnaði jafn mikið í virði. Þótt eiginfjárstaðan batni í opinberum tölum þá fjölgar krónunum sem eru til ráðstöfunar og fjárfestingar ekki, nema að viðkomandi skuldsetji nýju eignamyndunina til að losa um fé.
Þeir sem geta leyst út hækkandi eignarverð
Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum, sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, að heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu alls um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021. Það eru peningar sem eigendur bréfanna gátu losað og ráðstafað á ný.
Þeir sem eiga fleiri en eina fasteign, og stunda áhættufjárfestingar með slíkar, geta líka hagnast vel á svona ástandi. Og losað um þann ávinning en samt átt þak yfir höfuðið.
Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá voru það á fimmta þúsund einstaklingar og lögaðilar, sem áttu á milli sín um 53 þúsund íbúðir í lok síðasta árs. Þá áttu alls 71 einstaklingar og 382 lögaðilar fleiri en sex íbúðir, 155 einstaklingar og 101 lögaðilar áttu fimm íbúðir og 579 einstaklingar og 165 lögaðilar áttu fjórar íbúðir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem áttu þrjár íbúðir var 2.974 og fjöldi lögaðila sem áttu sama magn íbúða var 285. Þá áttu 16.501 einstaklingur og 688 lögaðilar tvær íbúðir.
Það sem af er árinu 2022 hefur fjöldi þeirra íbúða sem eru í eigu aðila sem eiga fleiri en eina slíka aukist um 735, og hlutfallslega um 0,2 prósentustig af heildaríbúðareign. Nú eru 14,6 prósent allra íbúða í eigu einhverra sem eiga fleiri en eina íbúð. Ef farið er 15 ár aftur í tímann, til ársins 2006, þá var það hlutfall 10,6 prósent og fyrir árið 2003 var það ætið undir tveggja stafa tölu, allt niður í 8,1 prósent árið 1994.
Hlutfall ríkasta 0,1 prósentsins í tekjum ekki verið hærra síðan 2007
Í tölum sem birtar voru fyrir helgi var einnig farið yfir tekjur allra ríkustu hópa landsins á síðasta ári.
Kjarninn greindi frá því á laugardag að hlutfall heildartekna með fjármagnstekjum hjá tekjuhæsta hluta framteljenda hafi aukist gríðarlega á árinu 2021. Það fór úr því að vera 2,6 prósent 2020 í 4,2 prósent í fyrra. Hlutfallið hefur ekki verið hærra síðan á árinu 2007, þegar íslenska bankagóðærið var á hápunkti sínum. Það hrundi svo til grunna ári síðar með miklum afleiðingum fyrir margt venjulegt fólk á Íslandi.Ef frá eru talin árin 2003, 2005, 2006 og 2007, þegar íslenska bankakerfið þandist út af erlendu lánsfé sem var svo velt áfram, að mestu til þröngs hóps fjárfesta úr viðskiptamannahópi bankanna, þá hefur hlutdeild ríkustu 0,1 prósent landsmanna í heildartekjum á einum ári aldrei verið hærri.
Ríkasta 0,1 prósent landsmanna, alls um 244 fjölskyldur, jók tekjur sínar um 40 milljarða króna á árinu 2021. Þær voru 54 milljarðar króna árið 2020 en 94 milljarðar króna í fyrra. Langstærstur hluti þessara tekna voru fjármagnstekjur, sem hópurinn hafði af því að ávaxta fjármuni sína til dæmis í hlutabréfum eða fasteignum. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra. Það þýðir að ríkasta 0,1 prósent landsmanna tók til sín 20 prósent allra fjármagnstekna sem urðu til á síðasta ári á meðan að 99,9 prósent þjóðarinnar þénaði hin 80 prósentin.
Verðbréfaeign vanmetin
Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í sumar átti ríkasta tíund landsmanna 86 prósent allra verðbréfa sem voru í eigu heimila um síðustu áramót.
Í tölum Hagstofu Íslands um eigið fé landsmanna er ekki tekið tillit til eigna þeirra í lífeyrissjóðum landsins, sem sameiginlega halda á 6.565 milljörðum króna af eignum landsmanna, og eiga stóran hluta af öllum verðbréfum sem gefin eru út hérlendis.
Þá er virði hlutabréfa í innlendum og erlendum hlutafélögum líka reiknað á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Það þýðir t.d. að ef einstaklingur keypti hlut í skráðu félagi sem hefur tífaldast í verði fyrir einhverjum árum á 100 milljón króna þá er það virðið sem reiknað er inn í tölur Hagstofunnar, ekki einn milljarður króna, sem er verðið sem viðkomandi myndi fá ef hann seldi hlutabréfin. Þetta skekkir eðlilega mjög allar uppgefnar tölur um eigið fé, enda verðbréf að meginuppistöðu í eigu þess hluta þjóðarinnar sem á mestar eignir.
Það sást skýrt í áðurnefndri greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í sumar.
Þar kom fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári tóku til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári.
Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði