Seðlabanki Íslands býst við því að hagvöxtur verði 5,9 prósent í ár, sem er 1,3 prósentustigi meiri hagvöxtur en bankinn spáði í maí. Breytingin er að mestu tilkomin vegna þess að heimili landsins hafa eytt meira í neyslu síðan þá en Seðlabankinn hafði reiknað með. Verðbólguhorfur bankans gætu þó verið of bjartsýnar, sérstaklega ef fyrirtæki fara í vaxandi mæli að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag og víxlverkun launa og verðlags fer af stað í kjölfar kjarasamningagerðar í haust.
Þetta kemur fram í ritinu Peningamál sem Seðlabankinn birti í dag.
Þar segir að neysluútgjöld heimila hafi aukist um 8,8 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, en Seðlabankinn hafði spáð því að þau myndu einungis aukast um 3,8 prósent. Þar munar heilum fimm prósentustigum.
Einkaneyslan vel umfram það sem spáð var
Heimilin virðast því hafa dregið hraðar úr sparnaði en gert hafði verið ráð fyrir, en sparnaður jókst gríðarlega á meðan að kórónuveirufaraldurinn stóð yfir þar sem fólk gat ekki eytt með í sömu hluti og áður. Má þar nefna ferðalög, matsölustaði og bifreiðarkaup. Í júli var til að mynda greint frá því að fólksbifreiðarkaup hefðu aukist um 50 prósent milli ára.
Þessi mikla eyðsla á sparnaði er vel umfram það sem Seðlabankinn reiknaði með. „Vegna kröftugs vaxtar einkaneyslu á fyrri hluta ársins er útlit fyrir að vöxturinn á árinu öllu verði meiri en áður var spáð. Gert er ráð fyrir að hún aukist um 7, prósent í ár en í maí var spáð 3,1 prósent vexti. Hins vegar er talið að hægja muni á vextinum á seinni hluta ársins enda hefur verðbólga aukist hratt og fjármálaleg skilyrði þrengst. Heimilin eru því svartsýnni nú um efnahagshorfur en þau voru fyrr á árinu. Þá eru horfur á hægari vexti einkaneyslu á næsta ári en í maíspá bankans.“
Nánast allt er að hækka í verði
Þau fjármálalegu skilyrði sem hafa þrengst eru margskonar. Greiðslubyrði húsnæðislána hefur til að mynda hækkað gríðarlega, samhliða miklum vaxtahækkunum en Seðlabankinn hefur hækkað vexti úr 0,75 prósent í 5,5 prósent frá því í maí í fyrra. Á þessu ári einu saman hafa stýrivextir hækkað um 3,5 prósentustig.
Þá er verðbólga vitanlega komin í 9,9 prósent og Seðlabankinn reiknar með því að hún verði komin í 10,8 prósent fyrir árslok. Verðbólguhorfur fara auk þess versnandi vegna töluvert kröftugri vaxtar á innlendri eftirspurn en búist var við í vor og hægari hjöðnun á verðhækkunum á húsnæðisverði, en það er enn að hækka þótt hægt hafi á. Þar skipta miklar vaxtahækkanir Seðlabankans og þrengri lánaskilyrði sem hann hefur sett lykilmáli. Það er erfiðara, og minna eftirsóknarvert, að taka húsnæðislán nú en fyrir nokkrum mánuðum síðan.
Það er þó margt annað sem hefur hækkað. Verð á almennri þjónustu hefur hækkað um 8,5 prósent á einu ári, og vega miklar hækkanir á fluggjöldum þar þyngst. Innlendar vörur hafa hækkað um 8,7 prósent á sama tíma, en þar vegur verðhækkun á matvöru þyngst. Eldsneytisverð hækkaði líka skarpt á fyrri hluta ársins, eða alls um 41 prósent milli ára. Það hefur þó tekið að lækka undanfarnar vikur. Það hefur hrávöruverð á alþjóðamörkuðum líka gert.
Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 8,4 prósent, eða minna en ofangreindir útgjaldaliðir. Á mannamáli þýðir það að ef fólk ætlaði að eyða því sama, eða meira, og það gerði fyrir ári þá þarf það annað hvort að ganga á sparnað eða fá eyðsluna lánaða.
Spá því að 1,7 milljón ferðamanna komi í ár
Hin stóra ástæða þess að hagvöxtur verður að öllum líkindum meiri en reiknað var með er fjölgun ferðamanna. Seðlabankinn spáir því nú að tæplega 1,7 milljónir ferðamanna komi til Íslands á þessu ári. Það eru umtalsvert fleiri en bankinn bjóst við að myndu koma hingað þegar hann spáði því í maí að fjöldinn yrði 1,3 milljónir. Þá hefur bankinn breytt spá sinni um komu ferðamanna á næsta ári á þann veg að hann býst nú við 1,9 milljón ferðamanna árið 2023, sem er um 200 þúsund fleiri en hann spáði í vor.
Fjöldi ferðamanna sem heimsóttu Ísland náði hámarki árið 2018 þegar rúmlega 2,3 milljónir slíkra komu hingað til lands. Erlendir farþegar voru um tvær milljónir árið 2019 en fjöldi þeirra hrundi með kórónuveirufaraldrinum og árið 2020 náðu þeir ekki hálfri milljón. Fara þarft aftur til ársins 2012 til að finna ár sem jafn fáir erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland. Í fyrra voru þeir svo um 700 þúsund alls, enda faraldurinn enn á fullu gasi með tilheyrandi ferðatakmörkunum.
Horfur í vöruútflutningi hafa á móti versnað. Þar skiptir minni framleiðsla í laxeldi á öðrum fjórðungi lykilmáli en hún er rakin til veirusýkingar sem kom upp á Austurlandi í vor. Þá greindir blóðþorri í sjókvíum á Reyðarfirði og í Berufirði. Slík sýking leiðir til þess að slátra þarf öllum laxi og hvíla svo eldisstöðvarnar í töluverðan tíma eftir á.