Sýrland er eitrað epli í alþjóðastjórnmálunum í augnablikinu. Þolendur þeirrar stöðu eru íbúarnir, sem í lok árs 2013 voru 22 milljónir, samkvæmt gögnum Alþjóðabankans, en nú er talið að allt að 9,5 milljónir íbúa landsins séu á flótta, þar af um fimm milljónir ennþá innan landamæra Sýrlands. Meirihluti íbúa landsins þarf aðstoð og er fjölgunin hröð í þeim hópi, enda landið að breytast í stóran blóðugan vígvöll.
Að minnsta kosti hafa rúmlega 4,5 milljónir manna hafa þegar flúið landið og hafa í örvæntingu reynt að komast til Evrópu, sum hver alla leið til Mið-Evrópu, meira en tvö þúsund kílómetra leið. Þessi átakanlega staða hefur birst Evrópuríkjum beint og milliliðalaust, þegar fólkið nær áfangastað. Mörg hundruð þúsund manns í hverri viku freista þess á fá að hefja nýtt líf á nýjum stað, og kemur stór hluti þessa fólks frá Sýrlandi.
Umræðurnar á allsherjarþinginu eru í beinni útsendingu á Youtube rás Sameinuðu þjóðanna.
https://www.youtube.com/watch?v=S-YO6wabsLQ
Pútín og allir hinir
Í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, sem nú fer fram í sjötugasta skipti, beinist kastljósið að Sýrlandi ekki síst. Þjóðarleiðtogar ríkja sem hafa nú þegar látið sig hernaðarátök í landinu varða hafa mismundandi sýn á hlutina, og er afstaða Rússa til deilunnar ekki síst það sem deilt erum. Vladímir Pútín, forseti Rússlands, talar fyrir því að þjóðir heimsins myndi samstöðu gegn uppgangi Íslamska ríkisins, sem hefur farið fram með skeytingarlausu ofbeldi og eyðileggingu í Sýrlandi, og nágrannaríkjum einnig, ekki síst Írak og Afganistan. Þetta kom skýrlega fram í ræðu hans í dag.
Aðrir uppreisnarhópar, sem starfa sjálfstætt en með stuðningi Íslamska ríkisins, gera það sama. Stjórnarher Sýrlands, sem forsetinn Bashar al-Assad stýrir, er með stuðning Rússa og hefur notið góðs af vopnabúri rússneska hersins, einkum undanfarin misseri. Rússneskar herþotur hafa gert loftárásir á valin skotmörk í landinu, þar sem talið er að Íslamska ríkið sé með bæki- og birgðastöðvar. „Það þarf að mynda samstöðu um að berjast gegn Íslamska ríkinu og uppgangi þess,“ lét Pútín hafa eftir sér í viðtali við CBS, í tengslum við opinbera heimsókn hans á allsherjarþingið til New York, þá fyrstu í tíu ár. Pútín styður stjórnvöld í Sýrlandi og segir herinn þar í landi vera þann eina sem hafi lögformlega stöðu til þess að beita sér af afli gegn hryðjuverkasamtökum. Þess vegna þurfi að þjóðir heimsins að „stilla sér upp með stjórnarhernum í Sýrlandi“ eins og hann sagði orðrétt í ræðu sinni í dag.
Einangraður í Austur-Evrópu og Sýrlandi
Viðvarandi viðskiptaþvinganir alþjóðasamfélagsins, með Evrópusambandsríki og Bandaríkin í fremstu röð, hafa sett Rússa í þrönga stöðu. Ekki aðeins efnahagslega heldur ekki síður pólitískt. Framferði Rússa gagnvart Úkraínu hefur verið harðlega mótmælt af Vesturlöndum og eru efnahagslegar þvinganir teknar að bíta í rússneskan efnahag. Ofan í mikla lækkun á olíuverði hafa þvinganirnar reynst landinu þungar í skauti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn metur þær á eitt til eitt og hálft prósent í árlegum hagvexti.
Þjóðarleiðtogar helstu hernaðarstórvelda á meðal Vesturlanda sjá hlutina í öðru ljósi en Rússar og vilja að Assad fari frá völdum. Honum er ekki treyst, og telja þeir að hann geti aldrei orðið hluti af pólitískri lausn á borgarstríðinu í Sýrlandi. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ítrekaði þessa skoðun sína í morgun, en Francois Hollande, forsætisráðherra Frakklands, tók í sama streng í gær þegar hann staðfesti þátttöku franska hersins í hernaðaraðgerðum gegn Íslamska ríkinu í austurhluta Sýrlands. Leiðtogar Bandaríkjanna, bæði Barack Obama forseti og John Kerry utanríkisráðherra, hafa margítrekað þá afstöðu að Assad sé ekki treystandi til að stýra hernaðaraðgerðum í Sýrlandi. Það hafi sannað sig, og mikilvægt að hann fari frá.
Obama opens the door to a Syria deal with Russia and Iran report @ColumLynch and @John_hudson http://t.co/zXpFFTXQpD pic.twitter.com/eCWBVLQYzT
— Foreign Policy (@ForeignPolicy) September 28, 2015
Einblína á lausnir
Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, var ákveðinn þegar hann ávarpaði þingið í morgun, og sagði að alþjóðasamfélagið gæti ekki horft framhjá hörmulegum glæpum í Sýrlandi. Aðgerðir þyldu enga bið, sagði hann alvarlegur í bragði, samkvæmt endursögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Mikil spenna einkennir umræðu á sjötugasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sýrland og borgarastyrjöldin þar er forgangsumræðuefni. Mynd: EPA.
Nú þegar er orðið ljóst, að alþjóðasamfélagið hefur brugðist of seint við átökunum í Sýrlandi og þeim hörmungum sem þau hafa kallað yfir milljónir óbreyttra borgara. Fjölskyldufólk flýr í örvæntingu aðstæður sem það bera enga ábyrgð á, á meðan stórþjóðir deila um hvernig haga á aðgerðum í landinu. Nú þegar hafa í það minnsta 250 þúsund manns látið lífið og yfir 800 þúsund slasast, stór hluti alvarlega. Tölurnar hækka hratt og er hættan á því að átökin harðni og breiðist enn meira út en þau hafa þegar gert talin mikil. Spenna við landamæri Austur-Evrópuríkja, þar sem fólk freistar þess að komast að, er til marks um að áhrifa gæti með áþreifanlegum hætti í Evrópu.
Niðurstaða þingsins getur skipt sköpum
Hernaðarpólitíkin er flókin og erfið, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eins og mál standa nú gagnvart Sýrlandi er ekki augljóst að bandalag verði myndað gegn Íslamska ríkinu, þar sem Rússar og Bandaríkin - og önnur hernaðarstórveldi - taka höndum saman. Allt frá því að staða mála versnaði mikið í Sýrlandi, seinni hluta ársins 2011, hafa öll spjót staðið á Assad forseta. Bandaríkin hafa staðið fyrir sjálfstæðum hernaðarðgerðum í Sýrlandi, án þess að taka þátt í baráttu stjórnarhersins. Það sama má segja um Breta og Frakka. Ómönnuð loftför, árásardrónar svonefndir, hafa framkvæmt loftárásir sem hafa verið vandlega valin til að valda sem mestu tjóni. Bretar og Bandaríkjamenn hafa beitt slíkum árásum ítrekað.
Sáttaflöturinn, verði hann fundinn, virðist öðru fremur snúa að hinum sameiginlega óvini, sem er ógnin sem stafar af uppgangi Íslamska ríkisins. Það á engan bandamann þegar kemur að alþjóðasamfélaginu og Sameinuðu þjóðunum. En samstöðuleysi hefur þegar leitt af sér gríðarlegt tjón og hörmungar fyrir Sýrlendinga.
Pútín lagði í ræðu sinni fyrr í dag mikla áherslu á að ná að mynda bandalag sem geti gripið inn í atburðarásina í Sýrlandi. Samstaða sé lykillinn að árangri, allir þurfi að leggjast á eitt.