Það er alls ekki sjálfgefið að miklar nafnlaunahækkanir skili sér í auknum kaupmætti, en það er nokkuð víst að þróun nafnlauna eins og hún var 2011 er líkleg til að kynda undir verðbólgu, leiða af sér vaxtahækkanir, hækka fjármagnskostnað almennings og fyrirtækja, lækka rauntekjur ríkis og sveitarfélaga og draga úr samkeppnishæfni hagkerfisins í gegnum sterkara raungengi.
Þetta er mat greiningardeildar Arion banka sem fjallar um stöðuna á vinnumarkaði í grein sem ber yfirskriftina „Hvað má læra af fyrri kjarasamningum?“. Í greininni segir að frá sjónarhóli launþega skipti mestu máli að komandi kjarasamningar skili ásættanlegri kaupmáttaraukningu. Á móti vilji atvinnurekendur ekki sjá hækkun launakostnaðar umfram verðmætasköpun, enda versni afkoma af rekstri sem því nemur og verði aðeins komið í veg fyrir verri afkomu með hækkun verðlags eða fækkun starfa. „Þar gildir einu hvort atvinnurekandinn er einkageirinn eða hið opinbera. Það sem enginn vill sjá er að kjarabæturnar glatist í hækkun verðlags, að verðbólguskot leiði af sér hækkun verðtryggðra skulda og að Seðlabankinn telji sig nauðbeygðan til að hækka vexti ofan í viðkvæman hagvöxt. Það er því vert að skoða þann lærdóm sem draga má af síðustu tveimur kjarasamningum og að hve miklu leyti launahækkanir hafi skilað sér í auknum kaupmætti,“ segir greiningardeild bankans.
Meiri kaupmáttur í fyrra en 2011
Rifjað er upp að kjarasamningarnir 2011 fólu í sér 11,4 prósenta almenna launahækkun yfir þriggja ára tímabil. Frá maí 2011 til maí 2013 hækkaði launavísitalan um 17,1 prósent. Til samanburðar byggðu samningarnir 2014 á 2,8 almennri launahækkun yfir eitt ár. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 6,6 prósent.
Samanburður á kaupmáttaraukningu á þessum tveimur tímabilum sýnir að kaupmáttur jókst að meðaltali um 2,9 prósent á ári frá 2011 til 2013 en um 3,7 prósent árið 2014. Að mati greiningardeildarinnar þarf hækkun nafnlauna að vera í takt við framleiðnivöxt í hagkerfinu til lengri tíma litið, að öðrum kosti er verðstöðugleika ógnað.
Hægir á bata við miklar launahækkanir
Nýlegar tölur úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar eru til umfjöllunar í greininni og eru sagðar góðar fréttir. „Þar kemur fram að fjöldi starfandi á vinnumarkaði í janúar jókst um 5,4% frá sama tíma í fyrra. Einnig jókst meðalvinnutími um 1,8% frá síðasta ári og heildarvinnustundum fjölgaði því um 7,3% frá janúar í fyrra. Þetta eru jákvæð tíðindi og merki um að öflugur bati sé á vinnumarkaði í byrjun árs þótt vissulega geti verið sveiflur í mánaðarlegum tölum. Tölurnar benda til þess að þó nokkur eftirspurn sé eftir vinnuafli en aukning heildarvinnustunda gefur vísbendingar um aukin umsvif í hagkerfinu og er ágæt vísbending um undirliggjandi hagvaxtarþróun.“
Miklar launahækkanir geti þó orsakað verðbólguþrýsting, velti fyrirtækin launakostnaði út í verðlagið. „Önnur afleiðing af miklum launahækkunum kann því að sú að fyrirtæki dragi úr ráðningum eða jafnvel segi upp starfsfólki til að draga úr kostnaði í stað þess að ýta auknum launakostnaði út í verðlag. Það getur því orðið bakslag á þeim bata á vinnumarkaði sem við höfum séð undanfarin misseri. Eftir kjarasamninga 2011 hægði nokkuð á fjölgun vinnustunda og fjölda starfandi á vinnumarkaði líkt og sést á myndinni að ofan. Upp úr áramótum 2013 tók heildarvinnustundum svo aftur að fjölga og hefur verið nokkuð öflugur bati síðan þá. Niðurstaða kjarasamninga mun því ekki einungis hafa áhrif á verðstöðugleika og raungengi heldur einnig fjölgun starfa á vinnumarkaði og atvinnuleysi. Of miklar launahækkanir geta því hægt á þeim bata sem við höfum séð undanfarið og við samningsgerð þarf að hafa í huga þau áhrif sem niðurstaða kjarasamninga mun hafa á verðlag, raungengi og þróun vinnumarkaðar.“