Í þekktu ljóði Kristjáns fjallaskálds Þorraþræl, (nú er frost á Fróni) frá árinu 1866, er lýst ástandinu á íslenskum bóndabæ þar sem allt matarkyns er brátt uppurið
„brátt er búrið autt
búið snautt“.
Hjá danska hernum er annað búr þar sem tómlegt er um að litast og hefur reyndar lengi verið. Þetta er vopnabúrið, einkum og sérílagi skotfærageymslan.
Kosningar 1. júní
Átökin í Úkraínu hafa orðið til þess að beina sjónum Dana að eigin varnar- og öryggismálum. Þingið, Folketinget, hefur ákveðið að stórauka framlög til varnarmála og ennfremur að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirvara (forsvarsforbehold) varðandi varnarsamstarf Evrópusambandsríkjanna. Sá fyrirvari er frá árinu 1993 og í honum felst að Danir taki ekki þátt í hernaðaraðgerðum á vegum ESB og eigi ekki aðild að hermálastofnunum bandalagsins. Danskir stjórnmálaskýrendur telja ástæðu þessarar stefnubreytingar og hve hratt danska þingið hefur brugðist við til marks um hve alvarlegum augum þingmenn líti innrás Rússa í Úkraínu. Skoðanakannanir benda til að meirihluti Dana styðji afnám fyrirvarans og Danir gerist fullgildir aðilar að varnarsamstarfi ESB ríkjanna.
Kúlnaskortur
Fyrir nokkrum dögum greindi dagblaðið Berlingske frá grein sem byggð var á upplýsingum úr nokkurra mánaða gömlum „innanhússpósti“ hersins. Útvarpsstöðin 24syv hafði óskað eftir, og fengið, aðgang að þessum upplýsingum. Þar kom fram að framvegis yrðu hermenn að notast við púðurskot (løst krudt) á æfingum. Í slíkum skotum er engin kúla þannig að sá sem hleypir af getur ekki vitað hvort hann hefur miðað rétt. Í september í fyrra fengu hermenn tilkynningu um þetta nýja fyrirkomulag, án þess að nánari útskýringar fylgdu.
Berlingske fór í kjölfarið að kanna málið nánar og fékk staðfest að skotfærabirgðir hersins væru í algjöru lágmarki og þannig hefði ástandið verið alllengi. Vegna niðurskurðar í fjárveitingum hefur herinn um árabil haldið skotfærabirgðum í lágmarki og keypt inn „eftir hendinni“ eins og það er kallað. Eina herdeildin sem ræður yfir umtalsverðum skotfærabirgðum er sú sem staðsett er í Slagelse á Sjálandi. Sú deild er ætíð í viðbragðsstöðu og getur haldið af stað með mjög skömmum fyrirvara ef þörf krefur.
Blaðamenn Berlingske komust að því að síðan í fyrrahaust hefur herinn nokkrum sinnum óskað eftir tilboðum í skotfæri, smáar og stórar kúlur, handsprengjur og fleira af því tagi, frá framleiðendum utan danskra landsteina. Þetta þótti blaðamönnum einkennilegt því fram til þessa höfðu nær öll skotfæri hersins, og lögreglunnar, verið framleidd í verksmiðju á Norður-Jótlandi.
Verksmiðjan í Elling
Kannski þekkja fáir smábæinn Elling á Norður-Jótlandi, skammt frá Frederikshavn. Enn færri vita líklega að í þessum litla bæ er verksmiðja sem öldum saman hefur séð danska hernum fyrir öllum þeim skotfærum sem hann þarf á að halda. Verksmiðjan er sú eina sinnar tegundar í Danmörku.
Krudten, eins og verksmiðjan hefur ætíð verið kölluð, á sér langa sögu. Hún tók til starfa árið 1676 og hafði verið í eigu danska ríkisins allar götur fram til ársins 2008. Sögusagnir eru um að Kristján IV hafi ákveðið að koma þessari verksmiðju á fót til þess að skjóta Svíum skelk í bringu. Kristján IV lést árið 1648 og hafði því hvílt í steinkistu sinni í Hróarskeldukirkju í áratugi þegar verksmiðjan tók til starfa.
Einkavæðingin, Expal og lokun
Á árunum eftir 1980 var þungt fyrir fæti í dönsku efnahagslífi. Ein afleiðing þess var að ákveðið var að selja mörg fyrirtæki, ýmist að hluta eða öllu leyti. Þessari einkavæðingu hefur verið haldið áfram allt til þessa dags.
Árið 2006 ákvað Søren Gade, þáverandi varnarmálaráðherra, að loka Krudten. Ráðherrann taldi að enginn myndi vilja kaupa verksmiðjuna en ákvað þó á endanum að kanna hvort kaupandi fyndist. Spænskt fyrirtæki, Expal, hafði sýnt áhuga á að kaupa verksmiðjuna og samningur þess efnis var undirritaður árið 2008. Þá voru starfsmenn um 300. Með í kaupunum fylgdi samkomulag um að herinn og lögreglan myndu kaupa öll sín skotfæri hjá Expal. Þótt sá samningur hafi ekki verið gerður opinber telja blaðamenn Berlingske og fleiri sem fjallað hafa um Krudten sig vita að hann hafi ekki verið bundinn við tiltekinn árafjölda. Vegna ástandsins í heiminum á síðastliðnum áratug minnkaði eftirspurn eftir skotfærum, þá jókst framboðið og verð fór lækkandi. Það varð til þess að danski herinn, og lögreglan fóru að líta til annarra landa eftir skotfærum. Verksmiðjan í Elling var lítil, samanborið við margar aðrar og gat ekki keppt við verð sem aðrir buðu. Árið 2020 tilkynnti Expal að verksmiðjunni í Elling yrði lokað og öllum starfsmönnum, sem þá voru 63, yrði sagt upp. Og sú varð raunin.
Samkomulag eða ekki samkomulag
Í umfjöllun danskra fjölmiðla síðustu daga hefur komið fram að danski herinn, lögreglan og Expal hafi árið 2017 gert samkomulag, til næstu fimm ára, um skotfærakaup. Þessu samkomulagi rifti Expal, eins og áður sagði, árið 2020 og sagði ástæðuna þá að herinn og lögreglan hafi ekki staðið við loforðið um innkaup. Innkaupadeild hersins segir að með því að segja samningnum upp hafi Expal gerst brotlegt og það mál fari fyrir dómstóla.
Best að búa að sínu
Þegar ákveðið var að selja skotfæraverksmiðjuna Krudten bentu sumir úr hópi þingmanna á að varasamt væri að selja verksmiðjuna. Ekki væri gott að þurfa að treysta á einkafyrirtæki, hvort sem það væri í Danmörku eða annars staðar. Aðrir sögðu feykinóg framboð af skotfærum og ástæðulaust að hafa áhyggjur í þeim efnum. Í dag er staðan sú að framboð skotfæra er takmarkað og verðið hefur rokið upp úr öllu valdi. Danskur þingmaður, sem ekki vildi láta nafns síns getið í viðtali við Berlingske, sagðist hafa stutt söluna á Krudten á sínum tíma en hann sæi eftir því í dag. „Ég hef komist að því að í þessu efnum, eins og mörgum öðrum, er best að búa að sínu.“