Arnar Þór Ingólfsson

„Við finnum hér fyrir bræðralagi mannanna“

Þúsundir sjálfboðaliða í Póllandi hafa undanfarinn mánuð lyft grettistaki við móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Þeir koma hvaðanæva að. Blaðamaður Kjarnans er í Varsjá og hitti þar Abdul, flóttamann frá Afganistan og sjálfboðaliða, sem veit af eigin raun hvað þau sem hann aðstoðar við komuna á lestarstöð í miðborg Varsjár eru að ganga í gegnum.

Abdul er afganskur flótta­maður í Pól­landi og sjálf­boða­liði við mót­töku flótta­fólks frá Úkra­ínu í Var­sjá. Hann er rúm­lega þrí­tugur og starf­aði eitt sinn sem túlkur fyrir sér­sveit pólska hers­ins, sem var hluti af liði NATÓ í Afganist­an. Eftir ítrek­aðar hót­anir og árásir talí­bana komst Abdul til Pól­lands fyrir um tveimur mán­uðum síð­an, þar sem hann er nú að aðlag­ast nýju lífi í Var­sjá, með dval­ar­leyfi af mann­úð­ar­á­stæð­um.

Fjöl­skylda hans varð eftir við ótryggar aðstæður og eig­in­kona hans, sem fæddi þeim dóttur í upp­hafi vik­unn­ar, tjáði honum að hún væri mögu­lega í lífs­hættu eftir barns­burð­inn. Hann á þannig auð­velt með að setja sig í spor fólks­ins sem hann starfar nú að því að hjálpa, dag­ana langa, við aðal­lest­ar­stöð­ina í mið­borg Var­sjár.

„Ég er búinn að vera hér á gisti­heim­ili um hríð en mér hefur verið sagt að ég þurfi að fara. Ég veit ekki hvar ég mun geta komið mér fyrir og ég er atvinnu­laus. Ég horf­ist í augu við allskyns vanda­mál en ég er samt stoltur og glaður af því að geta hjálpað fólk­inu frá Úkra­ínu. Því við erum að takast á við það sama,“ segir Abdul í sam­tali við Kjarn­ann.

„Þegar ég hugs­aði til ástands­ins í Afganistan og svo til þess sem er að ger­ast í Úkra­ínu leið mér eins og ég yrði að gera eitt­hvað. Ég vakna fyrr á morgn­ana og er hérna 12, 14 og stundum 16 tíma á dag,“ segir Abdul, sem var falið að tala við íslenska blaða­mann­inn sem fal­að­ist eftir við­tali um um skipu­lag og stoðir sjálf­boða­starfs­ins sem fer fram á lest­ar­stöð­inni í Var­sjá þessa dag­ana.

Lest­ar­stöðin er ein meg­in­mið­stöð mann­úð­ar­starfs í borg­inni, sem hefur tekið á móti senni­lega yfir 400 þús­und flótta­mönnum frá því að inn­rás Rússa hófst fyrir rúmum mán­uði síð­an.

„Við erum að fæða úkra­ínska flótta­menn og yfir dag­inn er stans­laus straum­ur. Hér á lest­ar­stöð­inni erum við með þjón­ustu, pólska fólkið er að leggja svo mikið á sig til þess að hjálpa Úkra­ínu­mönn­um. Þau eru að veita mat, lyf, hjálpa þeim með gist­ingu. Við höfum þús­undir sjálf­boða­liða sem eru að taka þátt í þessu átaki, að hjálpa úkra­ínsku flótta­mönn­un­um,“ segir Abdul.

Aðspurður segir hann að senni­lega njóti yfir tíu þús­und manns þeirrar aðstoðar sem er veitt af honum og kol­legum hans á lest­ar­stöð­inni, sem ein mistöð mann­úð­ar­starfs­ins í borg­inni, á hverjum degi. Boðið er upp á mat, aðstoð við skipu­lagn­ingu ferða­laga áfram til ann­arra Evr­ópu­landa eða innan Pól­lands og aðstoð við að finna gist­ingu.

„Það eru margir að leggja sitt af mörk­um. En þetta er ekki nóg. Við erum að von­ast til þess að ríki Evr­ópu­sam­bands­ins, Bret­land og Banda­ríkin komi til með að taka meiri þátt í að takast á við vanda úkra­ínsku flótta­mann­anna. Því núna er þetta í okkar hönd­um, aðstoð við meira en tvær millj­ónir flótta­manna,“ segir Abdul.

„Það er gríð­ar­lega mikið af fólki sem eru hér sem flótta­menn. Og það er pólska fólkið sem er að hjálpa þeim. Alþjóða­sam­fé­lag­ið, góð­gerða­stofn­anir og aðrir þurfa að sam­ein­ast um að hjálpa þessu fólki,“ bætir hann við.

Abdul starfaði sem túlkur fyrir pólska herinn í Afganistan.
Úr einkasafni

Abdul segir að úkra­ínskt flótta­fólk sem er með gist­ingu hjá ein­hverjum í Var­sjá, jafn­vel til lengri tíma, sé á meðal þeirra sem leiti til sjálf­boða­liða á lest­ar­stöð­inni þessa dag­ana, því þrátt fyrir að margir íbúar borg­ar­innar hafi skotið skjóls­húsi yfir Úkra­ínu­menn hafi þeir ekki endi­lega mikið meira að gefa. „Þau hafa aðgang að mat, við tökum vel á móti þeim og veitum mat, drykki, lyf og fleira,“ segir Abdul.

„Við erum með um þrjú­þús­und sjálf­boða­liða og þau eru að vinna á vökt­um. En flest hafa þau vinnu líka og eru svo að reyna að koma hingað til að hjálpa fólki. Það sem mér finnst merki­leg­ast er að sjálf­boða­lið­arnir koma hvaðanæva að. Það eru sjálf­boða­liðar frá Asíu, Suð­ur­-Afr­íku, Afr­íku, Banda­ríkj­un­um, Kanada að koma hingað til starfa og það veitir okkur enn meiri orku. Takk fyrir að koma til Pól­lands og hjálpa okkur að takast á við að taka á móti öllu þessu fólki. Við finnum hér fyrir bræðra­lagi mann­anna.“

Ótt­ast um eig­in­kon­una í Afganistan en getur ekk­ert gert

Abdul rekur að hann hafi um nokk­urra ára skeið starfað sem þýð­andi fyrir sér­sveit á vegum pólsku rík­is­stjórn­ar­innar sem var hluti af her­liði Atl­ants­hafs­banda­lags­ins í Afganist­an. „Ég fékk nýlega dval­ar­leyfi af mann­úð­ar­á­stæðum hér, en því miður er fjöl­skyldan mín enn föst í óör­uggu umhverfi, enn sem komið er. En ég er þakk­látur fyrir hjálp­ina sem ég hef fengið frá pólskum stjórn­völd­um.“

„En ástandið í Afganistan er hræði­legt, eins og þú veist eru hryðju­verka­menn við völd,“ segir Abdul en hann og fleiri sem störf­uðu fyrir pólska her­inn komust þó frá land­inu. „Við von­umst til að fjöl­skyldur okkar kom­ist líka þaðan og ég óska eftir því að yfir­völd hér og önnur beiti sér fyrir því að svo verði. Ég á bræð­ur, systur og eig­in­konu og börn.“

Adbul hér t.v. að túlka orð pólsks hermanns fyrir hóp afganskra hermanna.
Úr einkasafni

Abdul segir að eftir að talí­banar náðu völdum í Afganistan síð­asta sumar hafi honum og fjöl­skyldu hans borist hót­an­ir. Sjálfur hafði hann þá starf sem fjár­mála­stjóri en eftir að talí­banar komust til valda og alþjóð­aliðið hvarf frá Kabúl bár­ust honum og vinnu­veit­anda hans hót­an­ir, sem leiddu til þess að hann missti starf­ið. Í kjöl­farið skráði hann sig í nám í Amer­íska háskól­anum í Kabúl en þurfti einnig að hverfa þaðan eftir hót­anir talí­bana. Svo var skotið á bif­reið fjöl­skyldu hans af víga­mönnum talí­bana er þau voru á ferð­inni – og í kjöl­farið sá hann að það væri engin leið fyrir hann að reyna að vera áfram í land­inu.

En hann skildi mikið eftir í Afganist­an. „Konan mín var ólétt og var að eign­ast barn í gær [á mánu­dag]. Það er ynd­is­legt og ég elska dóttur mína, en konan mín missti mikið blóð í fæð­ing­unni og eins og þú kannski veist eru ekki miklar bjargir í afganska heil­brigð­is­kerf­inu. Hún hringdi í mig og sagð­ist kannski vera dauð­vona. Það er engin aðstaða fyrir þá þjón­ustu sem konur þurfa eftir barns­burð. Hún hringdi í mig og sagð­ist vera í vanda. Ég sagði henni að vera sterk, en ég er svo langt í burtu og get ekk­ert gert. Ég er leiður og ég bara vona það besta. En ég get ekk­ert gert til að hjálp­a,“ segir Abdul.

Kjarn­inn hitti Abdul á lest­ar­stöð­inni á þriðju­dags­kvöld. Í gær var ástand eig­in­konu hans enn tví­sýnt, að hans sögn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal