Dómur Hæstaréttar, sem kveðinn var upp í síðustu viku, var staðfesting á dómi Eystri-Landsréttar í mars 2020 og þar áður dómi Bæjarréttar Kaupmannahafnar. Í Danmörku eru dómstigin þrjú og öll mál, nema í undantekningartilvikum byrja í bæjarréttinum. Bæjarrétturinn dæmdi Litháann í 60 daga fangelsi eins og áður sagði. Og brottvísun úr landi að lokinni afplánun.
Sérstakar reglur gilda um hvort hægt sé að áfrýja til æðra dómsstigs, flestir dómar í Bæjarrétti fara aldrei lengra. Þótt mál Litháans myndi í flestum tilvikum flokkast sem minni háttar eru sérstakar ástæður fyrir því að það fór alla leið í Hæstarétt. Þær ástæður eru tvær, annars vegar dönsk lagasetning frá árinu 2017, sem ekki hefur áður reynt á fyrir æðsta dómstól Danmerkur, hin ástæðan var dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í svissnesku máli (svonefndu Lacatus-máli) en þar var niðurstöðu dómstóls í Sviss snúið við.
Forsaga þess máls var að kona af austur-evrópskum uppruna hlaut, í janúar í fyrra, dóm fyrir að betla á götum Genfar. Konan hafði verið sektuð en sökum þess að hún gat ekki greitt sektina var henni gert að sæta fimm sólarhringa fangelsi. Þessari niðurstöðu var skotið til MDE, sem komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn mannréttindum konunnar, sem var nýkomin til Sviss ásamt börnum sínum. Hún talaði ekki tungumál landsmanna, gat ekki leitað aðstoðar ættingja eða vinafólks og hafði engan rétt til opinberrar aðstoðar. Í tilviki konunnar, sagði í dómi MDE, var betl eini möguleiki hennar til að draga fram lífið. Svissnesk yfirvöld ákváðu að sækja ekki um að fá málið tekið fyrir í yfirdeild MDE. Þessi dómur MDE vakti athygli í Danmörku einkum vegna þess að dönsku lögin um betl eru strangari en þau svissnesku.
Lagasetningin 2017
Árið 2017 samþykkti danska þingið, Folketinget, breytingar á lögum um betl. Samkvæmt nýju lögunum var heimilt að handtaka, án undangenginnar áminningar, fólk sem staðið var að betli á götum og torgum. Jafnframt var í nýju lögunum heimild til fangelsisdóms fyrir betl, tvær vikur að hámarki, fyrir fyrsta brot. Ástæðan fyrir þessum hertu ákvæðum laganna var stóraukinn fjöldi betlara á götum borga og bæja. Árið 2017 voru heimilislausir í Danmörku um það bil eitt þúsund og hafði fjöldinn um það bil tvöfaldast á tveimur árum.
Stærstur hluti þessa hóps hafði komið til Danmerkur frá Austur-Evrópu og dró fram lífið á betli og snöpum. Í umræðum á danska þinginu kom fram að þingmenn höfðu áhyggjur af sívaxandi fjölda betlara og þótt ýmsir úr hópi þingmanna hafi gagnrýnt herta löggjöf var hún samþykkt í þinginu, með stuðningi Sósíaldemókrata, sem þá voru í stjórnarandstöðu. Stuðningsflokkar núverandi ríkisstjórnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Síðan lögin tóku gildi árið 2017 hafa hátt í eitt hundrað hlotið fangelsisdóm fyrir betl og að minnsta kosti tuttugu til viðbótar skilorðsbundinn dóm. Í lögunum frá 2017 var svonefnt sólarlagsákvæði, sem gerði ráð fyrir að lögin féllu úr gildi árið 2020 en áður en að því kom var gildistíminn framlengdur.
Vildi ekki breyta dönsku lögunum
Eftir að dómur MDE í Lacatus málinu féll voru nokkur „betlaramál“ sett í bið hjá danska ákæruvaldinu. Sérfræðingar dómsmálaráðuneytisins vildu fara nákvæmlega yfir úrskurð MDE en fjöldi þingmanna og dönsk mannréttindasamtök höfðu hvatt dómsmálaráðherrann til að breyta dönsku lögunum, sem eru strangari en þau svissnesku. Ráðherrann tilkynnti, eftir að hafa farið ítarlega yfir málið, að ekki væri ástæða til lagabreytinga í Danmörku. Þá var rykið dustað af ákærunum.
Undir lok júlí í fyrra var tilkynnt að dómur (sá fyrsti í Danmörku eftir Lacatus-dóm MDE ) yrði kveðinn upp 12. ágúst. Um var að ræða Rúmena sem sat flötum beinum á Strikinu, með útrétta hönd. Margir veltu fyrir sér hver úrskurður Bæjarréttar Kaupmannahafnar yrði, ekki síst í ljósi ummæla dómsmálaráherra sem hafði sagt að vel gæti svo farið að Danmörk myndi tapa ef farið yrði með dóm í betlaramáli fyrir MDE í Strassborg.
Dómur Bæjarréttar Kaupmannahafnar 12. ágúst í fyrra var afdráttarlaus. Rúmeninn var fundinn sekur um betl, dæmdur í fjórtán daga fangelsi og til greiðslu sakarkostnaðar. Fjórar krónur sem lágu í lófa hans við handtökuna voru gerðar upptækar.
Aftur að manninum með pappabollann
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils var Lithái með pappabolla í hendi dæmdur í 60 daga fangelsi í Hæstarétti Danmerkur, fyrir nokkrum dögum. Ástæða þess að samþykki fékkst fyrir að láta málið ganga til æðsta dómstóls landsins var sú að nauðsynlegt þurfti að fá úr því skorið hvernig Hæstiréttur tæki á málinu, í ljósi Lacatus-málsins svissneska þar sem MDE sneri við dómi Hæstaréttar Sviss. Mál Litháans með pappabollann væri prófmál.
En úr því að Hæstiréttur Sviss var gerður afturreka með Lacatus-dóminn var þá ekki einsýnt að Hæstiréttur Danmerkur tæki mið af því og sýknaði Litháann mætti spyrja. Svarið við þeirri spurningu var eins og áður sagði nei. Og fyrir því eru ástæður sem raktar eru í dómsniðurstöðunni.
Margt ólíkt með Danmörku og Sviss
Níu hæstaréttardómarar úrskurðuðu í máli Litháans með pappabollann. Niðurstaða þeirra var að 60 daga fangelsi og brottvísun úr landi að afplánun lokinni væri ekki mannréttindabrot. Í rökstuðningi þeirra fyrir dómsniðurstöðunni kom fram að í Danmörku væri „öryggisnetið“ til staðar og það væri eingöngu í „algjörum undantekningatilvikum“ að manneskja væri í slíkri neyð að betl væri eina leiðin til að komast af. Opinberir aðilar sjá til þess að allir fái lágmarksaðstoð. Af þessum sökum telji Hæstiréttur ekki að leyfi til að betla flokkist undir mannréttindi.
Dómur Hæstaréttar hefur sætt gagnrýni danskra mannréttindasamtaka sem segja niðurstöðuna vonbrigði. Lögfræðingur sem dagblaðið Information ræddi við sagði nauðsynlegt að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Í dómi Hæstaréttar væru alltof mörg vafaatriði sem brýnt sé að fá skorið úr um.