Flugfreyjur og flugþjónar sem starfa hjá flugfélaginu PLAY hafa engan fulltrúa í stjórn eigin stéttarfélags, ÍFF, auk þess sem kjarasamningur félagsins við PLAY var gerður án aðkomu þeirra. ASÍ segir ÍFF bera þess merki um að vera „gult“ stéttarfélag, en ÍFF segir þó flugfreyjur og flugþjóna munu eignast fulltrúa í stjórn þess í kjölfar aðalfundar þess seinna í mánuðinum.
Meinað um inngöngu í norræn samtök stéttarfélaga
ASÍ greindi frá því í gær að ÍFF hafi verið neitað um inngöngu í Norræna flutningamannasambandið, sem er samband stéttarfélaga í fluggreinum á Norðurlöndum. Íslensku stéttarfélögin sem eiga aðild að sambandinu (Flugfreyjufélag Íslands, Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugvirkjafélag Íslands) lögðust gegn því að aðild ÍFF yrði endurnýjuð, þar sem kjarasamningur félagsins fyrir hönd flugfreyja og flugþjóna hjá PLAY var gerður án aðkomu þeirra.
Í samtali við Kjarnann segir Snorri Már Skúlason, upplýsingafulltrúi ASÍ, að ÍFF virðist vera svokallað „gult“ stéttarfélag sem gengur erinda atvinnurekenda. Því til stuðnings nefnir hann að kjarasamningurinn við PLAY hafi verið undirritaður á skrifstofu fyrirtækisins.
Hafa fundað tvisvar á síðustu tveimur árum
Kjarninn hafði samband við ÍFF til að fá frekari upplýsingar um félagið og fékk svör frá Vigni Erni Guðnasyni, formanni þess, ásamt Friðriki Má Ottesen, varaformanni félagsins. Samkvæmt þeim eru félagsmenn nú 81 talsins, en þeir eru ýmist flugmenn, flugfreyjur og flugþjónar.
Vignir og Friðrik segja félagið hafa haldið tvo fundi á undanförnum tveimur árum – annan í september 2019 og hinn í mars 2021 – en bæta við að starfsemin hafi verið í algjöru lágmarki á þessum tíma sökum faraldursins og lægðar í flugsamgöngum.
Engin fulltrúi í stjórn, en þó trúnaðarmenn
Aðspurðir hvort félagsmenn ÍFF komu að gerð kjarasamningana svöruðu þeir að stjórn ÍFF hafi farið fyrir samninganefnd flugmanna. Hins vegar voru fyrrum flugliðar WOW air, sem áður gegndu trúnaðarstörfum fyrir önnur stéttarfélög, með samningsumboð fyrir hönd flugfreyja og flugþjóna PLAY.
Þessir einstaklingar voru hvorki meðlimir ÍFF né starfsmenn PLAY á þessum tíma, en fengu samningsumboðið sitt frá stjórn ÍFF. Enn hafa flugþjónar og flugfreyjur sem starfa hjá PLAY engan fulltrúa í stjórn ÍFF, en félagið segir þó að starfsstéttin eigi fulltrúa í sérstakri samstarfsnefnd á vegum stéttarfélagsins, sem var skipuð við upphaf flugreksturs.
Samstarfsnefnd flugfreyja og flugþjóna fundar mánaðarlega með vinnuveitenda, en í henni eiga fulltrúar þeirra að gæta hagsmuna félagsmanna og starfa sem trúnaðarmenn. Stjórn ÍFF bætir svo við að hún hafi boðað til aðalfundar þann 24. nóvember næstkomandi. Á þeim fundi muni annars vegar flugmenn og hins vegar flugfreyjur og flugþjónar eignast fulltrúa í stjórn.
Segir samningana gerða í góðri trú
Stjórn ÍFF hefur opinberlega hafnað ásökunum um að vera „gult“ stéttarfélag, en í yfirlýsingu frá því í maí segir hún að þær séu særandi og móðgun við það sem stéttarfélagið stendur fyrir.
Stjórnin steig einnig fram með annarri yfirlýsingu sem birt var á vef Vísis í kjölfar umræðu um lögmæti kjarasamninga félagsins. Þar segir hún að samningarnir hafi verið gerðir í góðri trú af löglega kosinni stjórn og fulltrúum þeirra, á þeim tíma sem fá störf voru að finna í flugrekstri hérlendis. Stjórnin greindi þó frá að ekki allir þeir sem skrifuðu undir samningana séu í vinnu hjá PLAY.
Stéttarfélög sem ganga erinda atvinnurekenda
Sagnfræðingurinn Sigurður Pétursson fór yfir skilgreiningu og sögu „gulra“ stéttarfélaga í hlaðvarpsþætti á vegum ASÍ fyrr í sumar. Samkvæmt Sigurði er hugtakið komið frá verksmiðjudeilu í Frakklandi upp úr 1890, þar sem verkfallsbrjótar settu gulan pappír í rúðurnar á verksmiðjunni til að það sæist ekki inn í hana.
„Gul“ stéttarfélög eru skilgreind sem stéttarfélög sem ganga erinda atvinnurekenda í stað félagsmanna sinna. Sigurður segir slík félög yfirleitt bera sömu einkennin; þau grípi ekki til verkfalla og standi aldrei í samstöðu með öðrum stéttarfélögum.
„Hér á landi þekktist fyrirbærið í upphafi 20. aldarinnar þegar verkalýðsfélög voru að hasla sér völl,“ segir Sigurður, en bætir við að þau hafi horfið þegar vinnulöggjöfin var sett fram árið 1938. Upp úr 1990 hafi svo aftur byrjað að bera á að atvinnurekendur reyndu að búa til sambærileg stéttarfélög, en samkvæmt Sigurði hafa þau ekki orðið neitt vandamál fyrr en núna í flugrekstrinum. Sigurður segir ÍFF bera „öll þess merki“ um að vera „gult“ stéttarfélag.