Tíðindalitlum fyrri hálfleik milli Dana og Finna var um það bil að ljúka þegar dró til tíðinda á þjóðarleikvangi Dana, Parken. Miðvallarspilarinn Christian Eriksen hneig skyndilega niður, skammt frá hliðarlínunni. Milljónir sjónvarpsáhorfenda, og 15 þúsund áhorfendur á Parken, áttuðu sig samstundis á því að eitthvað alvarlegt hafði gerst.
Læknar og hjúkrunarfólk kom á harðahlaupum, með hjartastuðtæki, og dönsku leikmennirnir mynduðu hring um Christian Eriksen sem var brátt borinn út af vellinum og fluttur á sjúkrahús. Upplýst var að hann væri lifandi, frekari upplýsingar fengust ekki fyrr en síðar.
Eftir tæplega tveggja klukkustunda hlé var leiknum haldið áfram. Sú ákvörðun var síðar harðlega gagnrýnd en leiknum lauk með sigri Finna 1-0.
Skjót viðbrögð skipta öllu
Myndir, og frásagnir af atvikinu þegar Christian Eriksen hneig niður, fóru um allan heim. Síðan tóku við fréttir af heilsufari hans og hvað hefði eiginlega gerst. Landsliðsþjálfarinn Kasper Hjulmand og Morten Boesen læknir landsliðsins héldu fréttamannafund daginn eftir atvikið á vellinum. Þjálfarinn sagði þar að Christian Eriksen, sem er 29 ára, væri hress miðað við aðstæður, hann væri vel með á nótunum og þakklátur fyrir stuðning og velvilja. Læknirinn greindi frá því að skjót viðbrögð hefðu tvímælalaust bjargað lífi Christian Eriksen, sem hefði farið í hjartastopp, og nefndi sérstaklega hjartahnoð og hjartastuðtæki.
Hjartastopp
Morten Boesen læknir útskýrði í stuttu máli hvað gerist þegar líkaminn fer í hjartastopp, sem hann sagði mjög alvarlegt ástand. Þegar hjartað hættir að slá, berst ekki súrefni og næring til líffæranna. Ef slíkt ástand varir lengur en fjórar til sex mínútur veldur það að líkindum heilaskaða. Heilinn er flókið líffæri og þarfnast stöðugs blóðflæðis. Ástæður hjartastopps geta að sögn Morten Boesen verið margar, sumar tengdar lífsstíl.
Þetta orð, lífsstíll, vakti athygli Dana.
Danski lífsstíllinn ekki sem bestur
Árið 2018 fór fram viðamikil rannsókn á lífsháttum Dana. Rúmlega 180 þúsund tóku þátt í rannsókninni og niðurstöður hennar voru ekki beinlínis uppörvandi. Æ fleiri Danir eru of þungir, þeir borða ekki nægilega hollan mat, hreyfa sig of lítið, reykja of mikið og þunglyndi og depurð fer vaxandi. Streita hrjáir um það bil 10% landsmanna.
Camilla Hersom formaður Samtaka danskra sjúklinga sagði niðurstöður rannsóknarinnar dapurlega lesningu. Sérstaklega væri sorglegt að reykingar ungs fólks skuli aukast, þrátt fyrir mikinn áróður og fræðslu. Það eina jákvæða sem lesa má úr niðurstöðum rannsóknarinnar er að áfengisneysla Dana hefur minnkað, þrátt fyrir að hún sé mikil, miðað við nágrannaþjóðirnar.
Þeim fjölgar sem vilja breyta
Nýlegar kannanir sýna að þeim Dönum sem vilja breyta um lifnaðarhætti, borða hollari mat og hreyfa sig meira, fer fjölgandi. Hópurinn sem kærir sig kollóttan um allt tal um hollustu og hreyfingu er þó enn stór og í viðtali við dagblaðið Berlingske fyrir nokkrum dögum sagði hjartalæknir að auka þurfi til muna fræðslu um nauðsyn þess að hugsa vel um líkama og sál. „Okkur miðar fram á við í þessum efnum, en þó allt of hægt.“
5 þúsund Danir fóru í hjartastopp árið 2020
Læknirinn benti á að hjarta- og æðasjúkdómar væru mjög algengir í Danmörku og í viðtalinu kom fram að þeim sem fara í hjartastopp, utan sjúkrahúsa fjölgar ár frá ári, voru um það bil 5 þúsund í fyrra. Læknirinn áðurnefndi sagði að ekki væru allir jafn heppnir og knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen. Þar hefði læknir ásamt hjúkrunarliði verið á staðnum og því getað brugðist hratt við. Læknirinn hefði einnig verið með hjartastuðtæki, sem komið hefði sér vel. Og bætti því við að tilkoma hjartastuðtækjanna hefði bjargað ótal mannslífum, þau væru mjög einföld í notkun og krefðust engrar kunnáttu „ættu að vera til á hverju heimili“.
Hjartahlaupararnir
Í maí árið 2019 birtist hér í Kjarnanum pistill um óformleg samtök sem Danir kalla hjartahlaupara (hjerteløbere).
Tryg tryggingafélagið stofnaði hjartahlauparasamtökin haustið 2017. Hjartahlaupararnir voru fyrst í stað eingöngu á suður- og vesturhluta Sjálands en eru nú nánast um allt land. TrygFonden, sjóður á vegum Tryg hefur gefið hundruð hjartastuðtækja til stofnana í Danmörku.
Þeir sem gerast hjartahlauparar þurfa að vera fúsir til að hlaupa af stað þegar kall kemur, þeir fá enn fremur þjálfun í „hjálp í viðlögum“. Danir sýndu þessu mikinn áhuga og í maí 2019 voru hjartahlaupararnir um það bil 56 þúsund. TrygFonden hefur enn fremur unnið að því að skrá staðsetningu hjartastuðtækja og nú er staðsetning um það bil 23 þúsund slíkra tækja að finna í gagnagrunni TrygFonden. Auk þessara skráðu tækja eru þúsundir hjartastuðtækja til í landinu.
Hvernig virkar þetta?
Í áðurnefndri grein frá því í maí 2019 er birt tilbúið dæmi um „hjartahlauparaútkall“. Þetta dæmi skýrir vel hvernig hjartahlauparakerfið virkar og er því endurtekið hér.
Maður, staddur í afmælisveislu í húsi í efri byggðum Kópavogs fær hjartaáfall. Strax er hringt í neyðarnúmerið eftir sjúkrabíl og um leið er staðsetningin, heimilisfang í efri byggðum Kópavogs, sjálfkrafa tilkynnt til Hjartahlauparanetsins. Samtímis er sent út sms boð, gegnum næsta endurvarpsmastur, til fimmtán til tuttugu hjartahlaupara, sem staddir eru á svæðinu, innan 1500 metra. Ef enginn þeirra svarar er svæðið stækkað í 3 kílómetra. Pípið í símanum er öðruvísi en venjulegt sms merki og hjartahlaupararnir rjúka upp til handa og fóta til aðstoðar manninum með hjartaáfallið en heimilisfangið fá þeir líka sent með sms skilaboðunum. Jafnframt fá hjartahlaupararnir boð um hvar næsta hjartastuðtæki sé að finna. Hjartahlaupari sem staddur er í nágrenni tækisins grípur það með sér og kemur svo til aðstoðar.
Reynslan frá Danmörku sýnir að venjulega eru fimm til tíu hjartahlauparar sem bregðast við.
Í stuttu máli sagt hefur þetta virkað mjög vel. Í nær helmingi tilvika hafa hjartahlaupararnir verið komnir talsvert á undan sjúkrabílnum og það hefur skipt sköpum.
Fjöldi hjartahlaupara hefur tvöfaldast
Hér að framan var nefnt að árið 2019 voru 56 þúsund skráðir hjartahlauparar í Danmörku. Í grein sem birtist fyrir nokkrum dögum á vef Danska útvarpsins, DR, kom fram að nú eru skráðir hjartahlauparar tæplega 114 þúsund og fjölgar dag frá degi. Talsmaður Tryg tryggingafélagsins sagði í viðtali við danska útvarpið að síminn stoppi ekki allan daginn. Fólk vilji skrá sig á námskeið um hjálp í viðlögum og fá upplýsingar um hjartahlauparasamtökin. Önnur tryggingafélög og fyrirtæki sem annast sjúkraflutninga segja sömu sögu.
Eins og nefnt var í upphafi voru það skjót, og rétt, viðbrögð sem björguðu lífi Christian Eriksen. Nýjustu fréttir af honum eru þær að hann sé við góða heilsu og græddur hafi verið í hann svonefndur bjargráður.