Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum á þriðjudag tillögu Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um að skipaður verði starfshópur sem greina muni gjaldtöku og arðsemi íslenskra viðskiptabanka og bera saman við norræna banka.
Samkvæmt heimildum Kjarnans mun Daníel Svavarsson, hagfræðingur og skrifstofustjóri verðmætasköpunar í ráðuneyti Lilju, leiða vinnu hópsins. Auk hans eiga Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Neytendasamtökin, Samtök fjármálafyrirtækja og fjármála- og efnahagsráðuneytið að tilnefna fulltrúa í hópinn.
Daníel þekki vel til í bankakerfinu, en hann stýrði hagfræðideild Landsbankans frá 2010 og þangað til í febrúar á þessu ári. Þar áður starfaði hann hjá Seðlabanka Íslands við efnahagsgreiningar. Sumarið 2007 skrifaði Daníel grein í Peningamál ásamt Pétri Erni Sigurðssyni, sem starfaði líka sem hagfræðingur hjá Seðlabankanum, þar sem varað var við mikilli skuldsetningu fyrirhruns-bankanna sem leiddi af sér hreinar erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins væru með þeim mestu í heimi. Með öðrum orðum, að íslenska útrásin og gríðarleg stækkun íslenska bankakerfisins var fjármögnuð með erlendu lánsfé, og fyrir það fé væru keyptar skuldsettar eignir sem væru ekki farnar að skila arði. Rúmu ári eftir birtingu greinarinnar hrundi íslenska bankakerfið.
Hagnaður jókst um 170 prósent milli ára
Samkvæmt heimildum Kjarnans var skipan hópsins rökstudd á ríkisstjórnarfundinum með þeim gríðarlega hagnaði sem stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, skiluðu á síðasta ári þegar þeir högnuðust samanlagt um 81,2 milljarða króna. Það er um 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020 og langmesti hagnaður sem þeir hafa skilað af reglulegri starfsemi innan árs síðan að bankarnir þrír voru endurreistir í kjölfar bankahrunsins.
Vaxtamunur bankanna þriggja var á bilinu 2,3-2,8 prósent á síðasta ári, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Mestur var hann hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent í fyrra. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.
Vaxtamunurinn jókst á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Mestur var hann hjá Arion banka var hann 3,1 prósent og hefur ekki verið meiri frá árinu 2016. Minnstur var hann hjá Landsbankanum, 2,4 prósent.
Lækkun bankaskatts skilaði sér ekki til neytenda
Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið, sem efnahagslegt viðbragð við kórónuveirufaraldrinum, að lækka bankaskatt á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna úr 0,376 í 0,145 prósent árið 2020. Sú lækkun rýrir tekjur ríkissjóðs um sex milljarða króna á ári. Ein helsta röksemdarfærsla forsvarsmanna fjármálakerfisins fyrir því að lækka bankaskattinn hefur verið sú að það skili minni vaxtamun. Að peningarnir sem ríkið gefi eftir í tekjum muni skila sér til neytenda. Það virðist þó ekki vera raunin miðað við þann vaxtamun sem er hjá bönkunum.
Hins vegar hagnast bankarnir á þóknanatekjum, stundum líka kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þóknanir fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf. Þessar tekjur uxu gríðarlega á síðasta ári.
Hjá Landsbankanum fóru þær úr 7,6 í 9,5 milljarða króna og jukust því um 25 prósent milli ára. Þar skipti meðal annars máli að samningum um eignastýringu fjölgaði um fjórðung milli ára. Þóknanatekjur Íslandsbanka hækkuðu um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna. Hreinar þóknanatekjur Arion jukust um 26,7 prósent og voru 14,7 milljarðar króna. Samtals voru því hreinar þóknanatekjur bankanna þriggja 37,1 milljarður króna.
Verðskrá vísvitandi sett fram með flóknum og óskýrum hætti
Fyrir liggur að stór hluti útgjalda heimila landsins fer í að greiða afborganir af lánum, vaxtagjöld og þjónustugjöld til banka. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, hefur ítrekað bent á að bankar setji verðskrá sína fyrir veitta þjónustu viljandi fram með flóknum og óskýrum hætti þannig að neytendur eigi ekki möguleika á að bera þær saman. Í erindi sem hann hélt á morgunverðarfundi Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2019 sagði Gylfi að þetta, og önnur óskýr starfsemi bankanna, skili rentu sem sé ekki notuð til að bæta kjör til almennings heldur til að greiða há laun til starfsfólks fjármálafyrirtækja, skila miklum hagnaði og til að byggja nýjar byggingar.
Í grein sem Gylfi skrifaði í Vísbendingu í ágúst sama ár sagði hann að listi yfir þjónustugjöld viðskiptabankanna væri 16 blaðsíðna langur og „skólabókardæmi um fákeppni“.
í mars á þessu ári kallaði Gylfi, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, eftir því í grein sem birtist í Vísbendingu að Samkeppniseftirlitið ráðist í athugun á íslenska bankakerfinu í ljósi mikillar arðsemi þeirra og fákeppnisumhverfis sem leiði til þess að bankarnir geti farið sínu fram og aukið eigin arðsemi með ógagnsæjum verðskrám og ósamhverfum upplýsingum um gjaldskrár og vaxtamun án þess að viðskiptavinir þeirra geti rönd við reist.
Ráðist verður í frumkönnun á samkeppnisaðstæðum
Starfshópur Lilju á að ráðast í skoðun á þessum málum, með vísan til samkeppnisþátta og hagsmuna neytenda. Hópurinn á að greina hvort íslensk heimili séu að borga meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili á hinum Norðurlöndunum.
Auk þess herma heimildir Kjarnans að lagt hafi verið til, og samþykkt, að ráðast í frumkönnun á því hvort samkeppnisaðstæður á bankamarkaði séu með þeim hætti að bankar geti veitt hvorum öðrum samkeppnislegt aðhald, og hvort skortur á slíku aðhaldi leiði til þess að bankarnir geti hagað framsetningu gjalda og arðsemiskrafna með þeim hætti sem þeir gera.
Í grein sem Lilja birti í Morgunblaðinu í morgun segir hún að fyrir liggi að stór hluti af útgjöldum heimilanna renni til bankanna, í formi afborgana af húsnæðis-, bíla- og neyslulánum auk vaxta og þjónustugjalda. „Samsetning þessara gjalda er oft flókin, sem gerir samanburð erfiðan fyrir almenna neytendur. Því tel ég brýnt að hlutur þessara þátta verði skoðaður ofan í kjölinn, með vísan til samkeppnisþátta og hagsmuna neytenda. Markmiðið er að kanna hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili á hinum Norðurlöndunum.“