Færeyjaáætlun skæruliðadeildarinnar
Undanfarna mánuði hafa starfsmenn og ráðgjafar Samherja velt vöngum yfir því hvernig ætti að bregðast við fréttum færeyska Kringvarpsins af málefnum fyrirtækisins. Fulltrúi Samherja kom sér í samband við ritstjóra blaðsins Dimmalætting í þeim yfirlýsta tilgangi að reyna að rægja færeyskt fréttafólk sem kom að gerð þáttanna Teir ómettiligu. Þetta er sagt hafa vakið kátínu æðstu stjórnenda Samherja.
Teymið sem hefur frá árslokum 2019 staðið í því að verja orðspor Samherja með ýmsum leiðum hefur ekki eingöngu beitt kröftum sínum í að reyna að rétta af almenningsálitið hér á Íslandi. Undanfarna tvo mánuði hefur nokkuð púður einnig farið í það, hjá þessum hópi fólks, að hugsa um hvernig takast skuli á við fréttaflutning Kringvarpsins, ríkissjónvarpsins í Færeyjum, af umsvifum Samherja. Þetta má lesa út úr samskiptagögnum fólks innan Samherja sem Kjarninn hefur undir höndum.
Fulltrúi fyrirtækisins, skipstjórinn Páll Steingrímsson, kom sér til dæmis í samband við ritstjóra færeyska blaðsins Dimmalætting þann 8. apríl í þeim yfirlýsta tilgangi að reyna að koma á framfæri einhverjum upplýsingum sem gætu dregið úr trúverðugleika tveggja fréttamanna Kringvarpsins, þeirra Jan Lamhauge og Barböru Holm. Þau tvö leiddu gerð heimildaþáttanna Teir ómettiligu, sem fjallaði um tengsl Samherjamálsins til Færeyja.
Páll sagðist geta sýnt ritstjóranum fram á að fréttamennirnir í Færeyjum hefðu gengið óheiðarlega fram í sinni vinnu. Stjórnarformaður Samherja, lögfræðingur Samherja, utanaðkomandi almannatengslaráðgjafi og forstjóri útgerðarfyrirtækisins Framherja í Færeyjum voru því næst tengd beint við ritstjóra blaðsins í tölvupóstsamskiptum.
Tekið skal fram að þessi samskipti náðu ekki lengra, samkvæmt því sem ritstjóri færeyska miðilsins segir við Kjarnann. Æðstu stjórnendur hjá Samherja eru þó sagðir hafa vitað af þessum tilraunum. Páll gortaði sig nánast af því í samtali við lögfræðinginn Örnu McClure að Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri hefði lýst yfir ánægju með að greiðlega hefði gengið að koma á sambandi við færeyskan fjölmiðil. Það hefði Björgólfur Jóhannsson fyrrverandi forstjóri sömuleiðis gert — „Bubba fannst þetta sturlað“.
Teir ómettiligu
Umfjöllun Kringvarpsins í Færeyjum, sem sett var fram í tveimur þáttum í mars og apríl, hefur haft það í för með sér nú þegar að Samherji hefur fallist á að greiða jafnvirði hátt í 350 milljóna íslenskra króna til færeyska ríkisins.
Í fyrri þættinum af Teir ómettiligu var ljósi nefnilega varpað á að samstæðan hefði árum saman verið að fá skattaafslætti í Færeyjum með því að skrá sjómenn sem voru í reynd við veiðar í Namibíu sem starfsmenn á fraktskipum færeysks dótturfélags síns.
Þættirnir voru teknir til sýninga á RÚV um miðjan apríl, með viku millibili. Af samtölum á milli starfsmanna og ráðgjafa Samherja má ráða að bæði hafi verið hugsað um hvernig mætti taka til varna í Færeyjum og hér heima gagnvart því sem fram kom í umfjöllun Kringvarpsins.
Lítið virðist hafa verið hugsað um að koma athugasemdum á framfæri við efni þáttanna sem slíkra, en Samherji brást ekki við spurningum sem færeysku fréttamennirnir sendu fulltrúum fyrirtækisins vegna þeirra atriða sem sagt var frá í þáttunum.
Mikill „höggstaður“ talinn á ritstjóra Kjarnans
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var fenginn til þess að vera álitsgjafi í seinni þætti Kringvarpsins. Þar sagði hann meðal annars að mál Seðlabankans gegn Samherja vegna meintra brota gegn reglum um gjaldeyrismál hefði verið látið niður falla vegna annmarka sem í ljós kom að höfðu verið á setningu reglna um gjaldeyrismál árið 2008. Hann benti á að það hefði vantað undirskrift ráðherra á reglugerðina. Einnig sagði Þórður í þættinum að fáir á Íslandi vissu hvernig Seðlabankamálið hefði í raun verið vaxið, ekki síst vegna áralangrar almannatengslaherferðar Samherja gegn Seðlabankanum. Tekist hefði að þvæla málið fram og til baka.
Frekari umfjöllun Kjarnans um skæruliðadeild Samherja
Þessi ummæli Þórðar, sem eru í fullum takti við niðurstöðu dóms Hæstaréttar og opinberar yfirlýsingar Seðlabankans um málið, fóru öfugt ofan í lögmanninn Örnu McClure. „Það er bull,“ sagði Arna einfaldlega þegar Páll vakti athygli á orðum ritstjórans um annmarkana sem voru til staðar við setningu reglugerðarinnar, í samtali þeirra.
Páll sagðist, eftir að þátturinn var tekinn til sýningar í Færeyjum, hafa komið því áleiðis til forstjórans Þorsteins Más Baldvinssonar að það væri ljóst Þórður Snær gæfi „gríðarlegan höggstað á sér“ með framkomu sinni í færeyska heimildaþættinum.
Í spjallþræði sögðu svo annað hvort Arna eða Þorbjörn Þórðarson þann 14. apríl að Þórður Snær hefði með orðum sínum í þættinum talað niður til íslensku þjóðarinnar. „Allir eru vitlausir, nema hann sjálfur.“
Stjórnarformaður Samherja tengdur við færeyskan ritstjóra
Eftir sýningu seinni þáttarins í Færeyjum fór Páll á stúfana og hafði samband við ritstjóra blaðsins Dimmalætting, sem er elsta blað Færeyja og hóf göngu sína síðla á 19. öld. Það kemur í dag út sem vikublað. Þann 8. apríl sendi Páll ritstjóranum, Sveinur Tróndarson, tölvupóst og sagði að hann hefði fengið upplýsingar um það frá frænda sínum sem þekkti til í færeyska fjölmiðlageiranum að ritstjórinn væri „ekki aðdáandi“ fréttamanna Kringvarpsins, þeirra Jans og Barböru.
„Ef fyrirtækið mitt Samherji myndi senda þér upplýsingar sem sýna að það sem Barbara og Jan eru að gera er ekki það sem heiðvirðir blaðamenn ættu að gera, hefðir þú áhuga á að skoða skjölin[?] Ég kem þér í samband við alla innan fyrirtækisins sem þú vilt,“ skrifaði Páll til færeyska ritstjórans, sem svaraði um hæl.
„Auðvitað hef ég áhuga á upplýsingunum. Ég þekki stíl Jan og Barböru og er algjörlega ekki aðdáandi. Láttu mig bara vita hvenær þú er tilbúinn að senda skjölin,“ sagði ritstjórinn í svari sínu. Í kjölfarið þakkaði Páll ritstjóranum fyrir að vilja „vinna með“ Samherja og tengdi hann við þá einstaklinga innan Samherja sem hann sagði að myndu sjá um málið frá þeirra hlið, með því að setja umrædda einstaklinga inn í tölvupóstþráðinn í cc.
„Hr. Eiríkur Jóhannsson er stjórnarformaður Samherja hf., móðurfélags Samherjasamstæðunnar. Arna McClure er innanhússlögfræðingur, Hr. Anfinn Olsen gætir þú þekkt, hann stýrir starfseminni í Færeyjum og Þorbjörn Þórðarson er utanaðkomandi almannatengslaráðgjafi,“ skrifaði Páll. Þessi upptalning er reyndar frá Örnu McClure komin, en hún setti hana fram til Páls á spjallþræði fyrr um daginn.
Ritstjórinn segist ekki hafa fengið upplýsingar – en segist ekki líta á fréttamenn KvF sem blaðamenn
Kjarninn bar þessi samskipti undir Sveinur, ritstjóra Dimma, eins og blaðið er jafnan kallað í daglegu tali. Honum var boðið að koma sinni sýn á samskiptin fram. Hann staðfestir að þessi samskipti hafi átt sér stað, „fulltrúi Samherja“ hafi sett sig í samband og boðið fram einhver gögn um þau Jan og Barböru og meint óheiðarleg vinnubrögð þeirra.
Færeyski ritstjórinn dregur ekki dul á að honum mislíki aðferðir fréttamanna Kringvarpsins. Þau eru að hans mati á lágu plani í sinni blaðamennsku og segir hann að sum þeirra nýjustu mál í Færeyjum hafi ekki einungis reynst „tilhæfulaus og röng“ heldur hafi þau Barbara og Jan „valið sér hliðar í flóknum umfjöllunum,“ sakað fólk um lögbrot og sömuleiðis opinberað heimildarmenn til lögreglu.
„Svo auðvitað langaði mig að sjá gögnin,“ segir Sveinur í skriflegu svari til Kjarnans.
Hann segist síðan hafa misst áhugann á málinu síðar sama dag, þegar hann var tengdur við „eitthvað fólk“ hjá Samherja. „Ég missti áhugann, því það var greinilega ekki áætlunin að ég fengi gögnin send, það var búist við því af mér að ég hefði samband við íslenska fyrirtækið og myndi síðan fá einhverjar upplýsingar.“
„Ég er fullorðinn maður og þarf ekki að láta neinn halda í höndina á mér á meðan ég les efni, svo ég sleppti þessu bara,“ segir Sveinur og bætir við: „Það breytir þó ekki tilfinningum mínum í garð vinnu þeirra Jans og Barböru. Að mínu mati eru þau ekki blaðamenn. Þau eru aktivistar og aðferðir þeirra skaða allar fréttir sem þau snerta. Því er engin ástæða fyrir nokkurn mann að ófrægja Jan og Barböru, þau hafa ófrægt sig sjálf með fjölda greina og þátta í færeyskum fjölmiðlum.“
Sveinur hnykkir út með því að segjast engan áhuga hafa á máli Samherja – hann hafi ekki notað svo mikið sem eina mínútu af tíma sínum í að skoða það.
Varðhundar valdsins séu víða í Færeyjum
Barbara Holm, fréttamaður Kringvarpsins, segir í skriflegu svari til Kjarnans að það komi henni ekki á óvart að heyra af því að Samherji hafi verið með einhverjar áætlanir um að bregðast við því sem fram kom í Teir ómettiligu með „óvenjulegum aðferðum“.
Kjarninn bar áðurnefnd samskipti fulltrúa Samherja og ritstjóra Dimmalætting undir hana og einnig svar ritstjórans, sökum þess hve harðlega hann kaus að gagnrýna hana og Jan Lamhauge.
„Að mínu mati hefði verið heiðarlegra af Samherja að svara spurningum okkar, í stað þess að reyna að kokka upp leiðir til að draga úr trúverðugleika okkar. Við reyndum ítrekað að hafa samband við Samherja þegar við vorum að vinna heimildarþættina. Það virtist sem Samherji hefði hundsað spurningarnar. En nú er það ljóst að þau tóku vel á eftir okkur bakvið tjöldin, þar sem það virðist hafa verið áætlun þeirra að svara með óvenjulegum aðferðum,“ segir Barbara.
Þetta segir hún ekki með öllu óviðbúið, „þar sem við höfum öll tekið eftir þeirri öfgafullu meðferð sem Helgi Seljan og aðrir blaðamenn á Íslandi hafa fengið frá Samherja.“
Kjarninn beindi þeirri spurningu til Barböru hvort hún hefði orðið vör við einhvern þrýsting eða ómaklega gagnrýni sem hún teldi að mætti rekja til Samherja, beint eða óbeint, eftir að þættirnir birtust í mars og apríl. Sumir færeyskir fjölmiðlar voru afar gagnrýnir á seinni þáttinn af Teir ómettiligu og eftir því tók fólkið sem kallar sig „skæruliðadeild Samherja“ sín á milli.
Í spjalli á milli Páls og Örnu var meðal annars vísað í nafnlausan dálk í færeyska vefmiðlinum Vágaportalnum sem birtist 10. apríl undir fyrirsögninni „Stormur í einum snapsaglasi“ en þar voru efnistökin í Teir ómettiligu og þau Barbara og Jan gagnrýnd harðlega. Þótti Samherjafólkinu fyrirsögnin segja alla söguna um það sem hefði komið fram í færeysku fréttaþáttunum.
Barbara segir það ekki einsdæmi að hjólað sé persónulega í fréttamenn í Færeyjum.
„Reynsla okkar á undanförnum árum er því miður sú að það er fólk í Færeyjum, bæði í fjölmiðlum og í stjórnmálaelítunni, sem sjálfkrafa stendur með fyrirtækjum og fólki í valdastöðum, þegar við setjum fram gagnrýnar fréttir. Því er það ekki óalgengt að sjá bæði blaðamenn og stjórnmálafólk reiða fram ódýr högg gegn blaðamönnunum sem segja fréttirnar, og koma þeim ríku og valdamiklu til varnar umsvifalaust. Reynslumiklir blaðamenn hafa jafnvel tekið að sér skammtímastöður í almannatengslum fyrir stór fyrirtæki með þann eina tilgang að draga úr trúverðugleika blaðamannanna sem fjalla um þau.“
Þetta segir Barbara að sé orðinn hluti af því að flytja gagnrýnar fréttir eins og þær sem sagðar voru af Samherja og félögum tengdum fyrirtækinu í Færeyjum á dögunum. Hún segist hafa tekið eftir því að Sveinur, ritstjóri Dimmalætting, hafi lagt sig sérstaklega fram við að tortryggja hana sjálfa og Kringvarpið síðustu vikur. Hún segir ennfremur „augljóst“ að fréttirnar sem voru fluttar í þáttum Kringvarpsins hafi ekki verið stoðlausar.
„Skattayfirvöld tilkynntu Samherja til lögreglunnar og Samherji sjálfur hefur þegar greitt 17 milljónir danskra króna [tæpar 350 milljónir íslenskra króna] til skattayfirvalda síðan þættirnir fóru í loftið fyrr á árinu. Þetta veit Sveinur Tróndarson.“
„Ef til vill ætti Sveinur að horfa með gagnrýnum hætti á sjálfan sig og spyrja sig spurninga — af hverju er hann einn sá fyrsti sem Samherji setur sig í samband við þegar þau vilja dreifa drullu um blaðamenn sem fjalla um þau, án þess að óhreinka hendur sínar sjálf?“ segir Barbara.
Hvað átti að gera með yfirlýsingu Anfinn?
Anfinn Olsen, forstjóri og aðaleigandi útgerðarfyrirtækisins Framherja, sem Samherji á tæpan fjórðungshlut í, sagði í seinni þætti Teir ómettiligu, að hann hefði ekki haft vitneskju um að peningar hefðu verið fluttir á milli Framherja og dótturfélags Samherja á Kýpur. Í alls 16 skipti. Þetta olli nokkrum kurr í færeyskum stjórnmálum, enda eiga færeysk lög að koma í veg fyrir að útlendingar fari með stjórn þarlendra sjávarútvegsfyrirtækja.
Það að forstjórinn og aðaleigandinn sjálfur gæfi til kynna að hann vissi ekki af ítrekuðum millifærslum til Kýpurfélags þótti gefa vísbendingu um að hann færi hreint ekki með stjórnartaumana í öllum tilvikum.
Anfinn dró síðan ummæli sín til baka, sagði þau hafa verið tekin úr samhengi, sakaði fréttamenn Kringvarpsins um að afbaka það sem satt og rétt væri og hélt því fram að myndavélar Kringvarpsins hefðu verið látnar rúlla þegar hann sjálfur hefði talið viðtalinu lokið. Þá sagðist hann harma að hafa ekki undirbúið sig betur fyrir viðtalið, en umræddir fjármagnsflutningar á milli Kýpur og Færeyja hefðu tengst skipaviðskiptum.
Þetta kom allt saman fram í fréttatilkynningu frá Anfinn sem birtist á vef Framherja og Samherjafólk lét snara yfir á íslensku, en Þorsteinn Már leitaðist sjálfur eftir því að fá tilkynningu Framherja þýdda og spurði Pál í samtali þeirra á milli hvort hann vissi um einhvern sem gæti þýtt hana.
Umfjöllun um önnur verk almannatengslahóps Samherja
Þegar fréttatilkynningin var komin yfir á íslensku voru þó áhöld um hvað ætti að gera við hana, en á sameiginlegum spjallþræði i Þorbjörns, Örnu og Páls kom meðal annars fram að ef til vill væri óheppilegt að birta hana á vef Samherja. Þessar umræður áttu sér stað um það leyti sem taka átti seinni hluta færeysku heimildarmyndarinnar til sýninga á RÚV, en það var gert 21. apríl.
„Senda þýðinguna til starfsfólks Samherja? Og valinna blaðamanna?“ var ein tillaga sem kom fram í spjallinu. Lykilatriði þótti að koma því á framfæri að færeysku fréttamennirnir hefðu látið myndavélarnar rúlla eftir að Anfinn hefði haldið að viðtalið væri búið.
Bent var á að það væri margir valkostir í boði og margt sem þyrfti að huga að, til dæmis væri lítið áhorf á RÚV eftir kl. 22:20 á kvöldin. Kannski myndi þátturinn ekki vekja mikla athygli. Í spjallinu komu fram sjónarmið um að ef til vill væri hyggilegt að vekja ekki „óþarfa athygli“ á því að RÚV væri með færeyska þáttinn á dagskrá.
Ellefu spurningar sendar á Stefán Eiríksson útvarpsstjóra
Í samskiptum þeirra Þorbjörns, Örnu og Páls í aprílmánuði er lagt á ráðin um að senda Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins spurningar í nafni Páls, sem almenns borgara úti í bæ. Skjal með þessum spurningum er að finna í nokkrum útgáfum í þeim gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum, en þær beinast helst að því að láta Stefán svara því hvort fréttamenn RÚV séu að starfa í samræmi við siðareglur og vinnureglur fréttastofunnar.
Vikið er sérstaklega að aðkomu RÚV að færeysku þáttunum í þremur spurningum þremenninganna og meðal annars spurt af hverju Kringvarpið fái að hagnýta sér efni frá RÚV, á meðan Samherji fái ekki að gera það. Athygli vekur einnig að sérstaklega er spurt um kostnað RÚV við framleiðslu staks þáttar af Krakkafréttum þann 19. nóvember 2019. Þessar spurningar sendi Páll svo til Stefán Eiríkssonar 16. apríl undir yfirskriftinni „Spurningar til útvarpsstjóra frá áhyggjufullum skattgreiðanda“.
Í ljósi þess að rekstur Ríkisútvarpsins ohf. er að miklu leyti fjármagnaður með beinum framlögum frá ríkissjóði þá finnst mér eðlilegt í þágu gagnsæis að Ríkisútvarpið veiti upplýsingar um neðangreint:
1. Hefur Ríkisútvarpið ohf. greitt fyrir skoðanakannanir þar sem afstaða almennings til Samherja er könnuð? Ef svo er, hvers vegna var það gert? Og hefur það gerst áður að Ríkisútvarpið kanni afstöðu almennings til einstakra fyrirtækja í einkaeigu?
2. Þrír starfsmenn Ríkisútvarpsins skrifuðu bókina „Ekkert að fela: á slóð Samherja í Afríku“ sem kom út í nóvember 2019. Voru þessir starfsmenn á launum hjá RÚV meðan þeir skrifuðu bókina eða voru þeir í launalausu leyfi?
3. Ef starfsmennirnir voru á launum hjá RÚV meðan þeir skrifuðu bókina, hvernig samræmist það siðareglum Ríkisútvarpsins og vinnureglum fréttastofu Ríkisútvarpsins?
4. Hinn 19. nóvember 2019 sýndi Ríkisútvarpið þátt undir dagskrárliðnum „Krakkafréttir“ um útgerð sem tengdist Samherja í Namibíu. Hver var kostnaður Ríkisútvarpsins vegna umrædds þáttar?
5. Tveir starfsmenn Ríkisútvarpsins unnu að færeysku kvikmyndinni „Teir ómettiligu“ sem sýnd var í Kringvarp Føroya nýlega. Höfðu þeir leyfi Ríkisútvarpsins til að sinna þessari vinnu fyrir annan fjölmiðil, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 5. gr. vinnureglna fréttastofu Ríkisútvarpsins?
6. Voru fréttamennirnir á launum hjá Ríkisútvarpinu á meðan þeir unnu að myndinni „Teir ómettiiligu“? Kom Ríkisútvarpið að greiðslu kostnaðar í tengslum við þáttinn, svo sem ferðalögum, leigu á fundaraðstöðu og þess háttar?
7. Í myndinni „Teir ómettiligu“ er mikið af myndefni úr safni Ríkisútvarpsins sem þar er sýnt stytt og breytt. Fékk Kringvarp Føroya leyfi Ríkisútvarpsins fyrir þessari notkun? Var greitt fyrir það eða látið í té án endurgjalds? Hver er munurinn á þessari styttu og breyttu framsetningu á myndefninu og notkun Samherja á myndefni úr safni RÚV? Hvaða skýrir ólíka nálgun Ríkisútvarpsins þegar Samherji óskar eftir myndefni og þegar færeyska ríkisútvarpið gerir það?
8. Tveir fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu hafa síðastliðinn vetur skrifað greinar í namibíska dagblaðið The Namibian. Fengu þeir leyfi fréttastjóra Ríkisútvarpsins fyrir þessum skrifum? Og voru umræddir starfsmenn á launum hjá Ríkisútvarpinu þegar þeir skrifuðu þessar greinar?
9. Ef svar við spurningu nr. 8 um launagreiðslur er jákvætt, samræmist það siðareglum Ríkisútvarpsins og vinnureglum fréttastofu að Ríkisútvarpið greiði fyrir vinnu starfsmanna stofnunarinnar í þágu annarra fjölmiðla?
10. Hver er kostnaður Ríkisútvarpsins vegna ferðalaga og dagpeninga starfsmanna sem vinna við fréttaskýringaþáttinn Kveik á árunum 2019-2021, öll árin meðtalin?
11. Hefur Ríkisútvarpið greitt Þórði Snæ Júlíussyni eða Kjarnanum fyrir innslög í miðlum Ríkisútvarpsins á undanförnum árum? Ef svo er, hversu mikið var greitt í krónum talið og á hvaða tímabili fékk Kjarninn eða Þórður Snær greitt fyrir þessi innslög? .
Ekki var heldur algjör sátt með íslensku þýðinguna á fréttatilkynningu Anfinn. Afmarkaður hluti hennar þótti ekki endilega hjálpa Samherja. „Ég merkti með rauðu texta í þýðingu á grein Anfinns sem mér finnst ekki endilega hjálpa okkur. Það er neðst á bls. 3. Við þurfum helst að fá leyfi Anfinns til að bæta þar við setningu um að þessi ólöglegu og ósiðlegu viðskipti hafi hreinlega ekki átt sér stað enda fer hann ítarlega yfir það framar í greininni að viðskiptin voru á allan hátt eðlileg,“ segir í spjallinu.
Rauðletraði textinn í grein Anfinn var svona, samkvæmt skjali sem Kjarninn hefur undir höndum: „Það hefur verið íþyngjandi fyrir mig, fjölskyldu mína og okkur öll í Framherja að vera svert á þennan hátt í sjónvarpinu og vera ásökuð um að taka þátt í einhverjum ólöglegum og ósiðlegum viðskiptum, sem ég á enga aðild að.“
Þarna vildi Samherjafólk að Anfinn tæki sterkar til orða og vísaði því á bug að um nokkurs konar ólögleg eða ósiðleg viðskipti gæti verið að ræða.
„Ég held að það sé rétt að senda þýðinguna til starfsfólks en ekki birta á heimasíðunni. Ástæðan er sú að við viljum viðhalda fjarlægð milli Samherja og Framherja enda er beinn eignarhlutur Samherja í Framherja aðeins 24%. Ef við birtum þetta á heimasíðunni þá gæti það verið vatn á myllu þeirra sem fullyrða að tengslin milli fyrirtækjanna séu meiri en eignarhaldið gefi til kynna,“ sagði þar einnig. Yfirlýsing Anfinn Olsen hefur ekki birst í íslenskri þýðingu á opinberum vettvangi.
Ánægja í efstu lögum: „Bubba fannst þetta sturlað“
Þetta Færeyjamál allt saman hefur verið töluvert rætt í samskiptum þeim sem Kjarninn hefur séð innan úr Samherja. Það leyndi sér ekki að nokkur ánægja var með hversu vel Páli gekk að komast í samskipti við fjölmiðil í Færeyjum. Frá því segir hann að minnsta kosti sjálfur, en sama dag og tengsl komust á við færeyska miðilinn sagði Páll við Örnu hann hefði verið að ræða við bæði Björgólf Jóhannsson og Þorstein Má Baldvinsson, ef til vill til að tjá þeim tíðindin.
„Þmb [Þorsteinn Már] er nú ekki þekktur fyrir að hæla fólki en honum fannst þetta flott vinna hjá okkur að hafa greint heilan sjónvarpsþátt og komið fyrirtækinu í sambandi við fjölmiðil [í] öðru landi,“ sagði Páll um viðbrögð Þorsteins Más.
Þorsteinn Már Baldvinsson virtist reyndar ekki hafa verið áfjáður um að setja neitt út til þess að bregðast við færeysku þáttunum. „Held við skoðum gögnin og skrifum niður okkar comment varðandi þau og sjaum svo til,“ sagði Þorsteinn Már í samtali við Pál 7. apríl, degi eftir að þátturinn var sýndur í Færeyjum.
„Bubba fannst þetta sturlað að starfsmenn hafi greint einn þátt úr öðru landi og verið búnir að finna samstarfsaðila á innan við 36 klukkutímum hvað er hægt að biðja um meira honum fannst þetta algjörlega sturlað og á sama tíma og aðrir yfirmenn sitja með hendur í skauti,“ sagði Páll um viðbrögð Björgólfs.
Vert er að halda því til haga að Björgólfur Jóhannsson lét af störfum sem forstjóri Samherja 12. febrúar, eftir að hafa gegnt starfinu frá því skömmu eftir að umfjöllun um starfshætti Samherja í Namibíu kom fram í nóvember árið 2019. Hann er þó enn í ráðgjafastörfum fyrir félagið og hefur líka verið kjörinn formaður svokallaðrar hlítingarnefndar, en það er nefnd sem hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja.
Ein af mörgum spurningum Kjarnans sem Samherji hefur kosið að svara ekki í tengslum við umfjöllun um almannatengslaherferð fyrirtækisins, er sú hvernig það samræmist að vera yfir hlítingarnefnd fyrirtækisins og taka á sama tíma þátt í því að starfa með þeim hætti sem lýst hefur verið hér að ofan og í öðrum umfjöllunum Kjarnans.
Lesa meira
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
11. nóvember 2022Samherji hótaði Forlaginu málsókn erlendis ef bók um Namibíumálið yrði ekki innkölluð
-
27. október 2022„Áhrifin á ásýnd íslensks sjávarútvegs eru gríðarleg innan lands sem utan“
-
27. október 2022Það sem helst sé vandræðalegt við Samherjamálið sé að þingmenn vilji ræða það