Tilfærsla á verkefnum við umsýslu og sölu eigna Seðlabanka Íslands til einkahlutafélags í eigu bankans, Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ), var gerð í samráði við fjármálaráðuneytið undir lok árs 2009, þegar Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra. Umboðsmaður Alþingis opinberaði þá niðurstöðu sína í vikunni að Seðlabankinn hefði ekki haft skýra lagaheimild til að flytja verkefnin til ESÍ með þessum hætti.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var ákvörðunin um að færa umsýslu og sölu eigna sem bankinn sat uppi með eftir hrunið yfir í ESÍ tekin undir lok árs 2009. Utanaðkomandi sérfræðingar voru fengnir til að gefa álit sitt á gerningnum og héldu kynningu um málið fyrir fjármálaráðuneytið í desember 2009. Í kjölfarið var ákveðið að flytja verkefnin til ESÍ. Nú hefur komið í ljós að ekki var skýr lagaheimild fyrir þeirri aðgerð.
Afleiðingum hrunsins hrúgað inn í eignarhaldsfélag
Við fall bankanna í október 2008 varð Seðlabanki Íslands fyrir verulegu tjóni, meðal annars vegna veðlána til lánastofnana. Seðlabankinn eignaðist einnig umtalsverðar kröfur á innlend fjármálafyrirtæki sem ógjörningur var að vita hversu verðmætar yrðu þegar fram liðu stundir. Hluti þessar krafna var færður yfir til ríkissjóðs í árslok 2008.
Að mestu leyti var um veðkröfur Seðlabankans að ræða, sem oft hafa verið kölluð ástarbréf í daglegu tali. Umfang þeirra var um 345 milljarðar króna og algjör óvissa ríkti á þeim tímapunkti um hversu mikið, ef eitthvað, myndi innheimtast af þeim. Seðlabankinn afskrifaði 75 milljarða króna af upphæðinni og ríkissjóður yfirtók afganginn, um 270 milljarða króna með sérstöku samkomulagi sem gert var 12. janúar 2009. Til viðbótar við veðlánin yfirtók ríkissjóður einnig svokölluð tryggingabréf vegna samninga við aðalmiðlara ríkisbréfa upp á 98 milljarða króna.
Ríkissjóður greiddi fyrir yfirteknu kröfurnar með skuldabréfi upp á sömu upphæð. Hann afskrifaði síðan tapið í ríkisreikningi 2008. Það er því þegar búið að bókfæra tap vegna þessara eigna. Ef þær skila einhverju til baka mun það bókfærast sem hagnaður.
Í febrúar 2010 náðist samkomulag milli ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands um að ESÍ myndi fá allar yfirteknu kröfurnar til baka, ári eftir að þær voru fluttar í hina áttina. Miða skyldi yfirtökuna við árslok 2009. Samhliða þessu var sett á fót rekstarfélagið Sölvhóll ehf. sem hafði það hlutverk að hámarka virði þeirra eigna sem voru í ESÍ og koma þeim í verð þegar markaðsaðstæður leyfðu.
Í ársreikningi Seðlabankans vegna ársins 2009 segir að með þessu skipulagi myndi nást „betri aðgreining á þeim rekstri og þeim eignum sem tengjast bankahruninu og síðan hefðbundinni starfsemi Seðlabankans.“
Eignir sem metnar eru á hundruð milljarða króna
ESÍ var risavaxið félag og ein verðmætasta eign sem íslenska ríkið á. Eignir þess í lok árs 2009 námu 491 milljarði króna og voru 42 prósent af heildarefnahagi Seðlabanka Íslands. Félagið hefur gegnt, og mun áfram gegna, lykilhlutverki þegar slitabú gömlu bankanna verða gerð upp. Félagið er enda sá innlendi aðili sem heldur á langstærstum hluta krafna í bú þeirra.
Í lok árs 2012 átti ESÍ bókfærðar eignir upp á 326 milljarða króna. Stjórnendur félagsins hafa verið duglegir við að selja eignir undanfarin ár og um síðustu áramót voru eignir þess metnar á 209 milljarða króna. Þær munu lækka enn meira á næstunni þegar gengið verður frá sölu dótturfélagsins Hildu. Það félag á 364 fasteignir sem metnar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna. Hilda á alls sex dótturfélög og hjá félaginu starfa 13 manns. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins og munaði þar langmestu um hreinar rekstrartekjur, sem eru sala eigna og lána á tímabilinu. Auk þess námu leigutekjur 139 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Ekki skýr lagaheimild
Nú liggur hins vegar fyrir að umboðsmaður Alþingis telur að það hafi ekki verið skýr lagaheimild til að færa eignir, og verkefni tengd umsýslu og sölu þeirra, frá Seðlabankanum til ESÍ. Þessi niðurstaða hans kom fram í bréfi sem hann sendi fjármála- og efnahagsráðherra, bankaráði Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í síðustu viku, vegna athugunar sem hann hefur unnið á síðustu árum vegna atriða tengdum athugunum og rannsóknum Seðlabanka Íslands um ætluð brot á reglum um gjaldeyrishöft.
Tilefni þessarrar athugunar umboðsmanns voru meðal annars ábendingar um að þeir sem komið hefðu fram fyrir hönd bankans og ESÍ „hefðu gert það með áþekkum hætti og um væri að ræða einkaaðila en ekki ríkisstofnun. „Er það afstaða umboðsmanns að skýringar bankans um lagaheimild til flutnings verkefnanna hafi ekki verið fullnægjandi. Umboðsmaður leggur áherslu á að auk þess sem fullnægjandi lagaheimild þurfi að vera fyrir hendi til slíks flutnings opinberra verkefna frá ríkisstofnun sé líka mikilvægt að þeir starfsmenn sem fjalli um þessi mál, viðsemjendur um þessar eignir og kröfur og almennir borgarar séu ekki í vafa um eftir hvaða reglum, svo sem um meðferð valds og upplýsinga, hæfi og málsmeðferð að öðru leyti, eigi að fara í þessum tilvikum.“
Viðbrögð verða að koma í ljós
Kjarninn beindi fyrirspurn til Seðlabankans um málið og spurði meðal annars hvort einhver verði látinn bera ábyrgð á því að ekki var skýr lagaheimild til að framkvæma tilfærslu verkefna við umsýslu og sölu eigna til ESÍ og hvort niðurstaðan muni hafa einhverjar afleiðingar fyrir starfsemi ESÍ. Í svari Seðlabankans er því ekki svarað beint.
Þar stendur: „Bréf umboðsmanns Alþingis barst í lok síðustu viku. Það er með ýmsum ábendingum og er nú til skoðunar í bankanum, m.a. hver grundvöllur þess sé þar sem ekki er um frumkvæðisathugun að ræða samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis heldur almennar athugasemdir Tryggva Gunnarssonar umboðsmanns Alþingis. Vegna þessa hefur hann ekki aflað frekari upplýsinga eða skýringa hjá stjórnvöldum og unnið úr þeim eins og hann bendir skýrt á í bréfi sínu. Umboðsmaður óskar sjálfur eftir að fá viðbrögð stjórnvalda við ábendingum sínum fyrir 15. apríl á næsta ári. Það verður að koma í ljós eftir yfirferð á bréfinu hvort það muni í framtíðinni hafa einhver áhrif á fyrirkomulag mála og hver önnur viðbrögð verða. Hvað stofnun Eignasafns Seðlabanka Íslands varðar þá átti hún sér langan aðdraganda og það var alls ekki ljóst í upphafi að þeim verkefnum yrði komið fyrir í Seðlabanka Íslands enda sóttist Seðlabankinn ekkert sérstaklega eftir því. Það varð hins vegar niðurstaðan og var það gert í samráði við stjórnvöld.“
Kjarninn spurði í kjölfarið við hvaða stjórnvöld samráð hefði verið haft við. Í síðara svari Seðlabankans sagði að um hafi verið að ræða fjármálaráðuneytið og að ákvörðunin hafi verið tekin undir lok árs 2009. Þá var Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.