Síðstliðinn fimmtudag (14.7.) kvað Evrópudómstóllinn upp úrskurð í því sem kallað hefur verið „fetamálið“. Í stuttu máli sagt er dönskum framleiðendum bannað að nota orðið „feta“ um hvítan mjólkurost.
Fetamálið er ekki nýtt af nálinni. Fyrir tæpum 30 árum lögðu Grikkir fram kvörtun til framkvæmdastjórnar ESB. Þar var þess krafist að orðið feta yrði skilgreint sem upprunahugtak, sem einungis Grikkjum og Kýpverjum yrði heimilt að nota. Framkvæmdastjórnin tók undir kröfur Grikkja en Evrópudómstóllinn sneri álitinu við eftir kvörtun frá Dönum. Árið 2005 úrskurðaði þessi sami dómstóll hins vegar að orðið feta mætti einungis nota um hvítan mjólkurost sem framleiddur væri í Grikklandi og á grísku landsvæði.
Salatostur innan ESB, annars feta
Danir brugðust við niðurstöðu Evrópudómstólsins árið 2005 með því að breyta um nafn á þeim hvíta mjólkurosti sem seldur var á heimamarkaði og í löndum Evrópusambandsins. Þar var hann kallaður salatostur, eða hvítur teningaostur. Ætíð í glærum krukkum þannig að ekki gæti farið á milli mála hvert innihaldið væri.
Danskir ostagerðarmenn, stórfyrirtækið Arla lang fyrirferðarmest, ákváðu hins vegar að úrskurður Evrópudómstólsins næði einungis til landa innan ESB og evrópska efnahagssvæðisins. Þannig að ostur sem fluttur væri til landa utan ESB gæti áfram heitið feta. Arla flytur út geysimikið magn af mjólkurvörum, þar á meðal umræddum osti. Miðausturlönd eru lang stærsti kaupandi hvíta ostsins, sem fram til þessa hefur einfaldlega heitið feta á þeim slóðum.
Hvað er feta?
„Ekta“ feta ostur er grískur ostur, gerður úr sauðamjólk (kindur eru líka sauðir) og stundum blandaður geitamjólk. Í dag er mjólkin sem notuð er gerilsneydd og hituð í allt að 30 gráðum og þá settur í hana ostahleypir. Eftir um hálftíma er blandan „hlaupin“ eins og það er kallað og þá skorin í litla teninga, sneiðar eða stærri stykki. Teningarnir eru svo settir í fíngerða grisju til að sía vökvann frá. Eftir þetta er osturinn lagður í saltlög í allt að þrjá mánuði, til að koma í veg fyrir að úr verði mygluostur, sem hefur allt annað bragð og útlit.
Danski osturinn, sem nú má ekki kalla feta, er framleiddur úr kúamjólk. Þá er sérstöku próteini, lipase-enzym, blandað í ostinn og hvítu litarefni,titandioxid, til að ná gula kúamjólkurlitnum úr ostinum. Ostur sem framleiddur er með þessum hætti er sagður bragðast öðruvísi en „ekta“ grískur feta.
Nýi dómurinn
Eins og áður var getið féll dómur í „fetamálinu“ sl. fimmtudag. Framkvæmdastjórn ESB, með stuðningi Grikklands og Kýpur, höfðu stefnt Danmörku fyrir Evrópudómstólinn og krafist þess að notkun orðsins feta yrði hætt, ekki bara innan landa ESB heldur hvar sem hvíti osturinn frá Danmörku (og reyndar líka Þýskalandi) er seldur. Samkvæmt dómsniðurstöðunni ber Dönum, og öðrum framleiðendum þegar í stað, eða eins og fljótt og auðið er að hlíta dómnum. Engar refsingar, sektir eða slíkt, eru tilgreindar í úrskurði dómstólsins. Ef ekki verður brugðist við og notkun feta nafnsins hætt getur framkvæmdastjórn ESB höfðað nýtt mál og krafist refsinga, í formi sekta.
Einskonar gæðastaðfesting
Tilgangurinn með því að lögfesta feta heitið og takmarka notkun þess við framleiðslu í Grikklandi og á Kýpur er að hjálpa framleiðendum í viðkomandi löndum að njóta ávaxtanna af starfi sínu ef svo mætti að orði komast. Hliðstæð dæmi um slíka takmörkun er hið franska Champagne og ítalska Parmaskinkan.
Grikkir hafa bent á, kröfum sínum til stuðnings, að feta osturinn sé aldagamall og samofinn grískri sögu. Hans sé meðal annars getið í Ódysseifskviðu sem talin er vera frá 8. öld fyrir Krist.
Dómurinn vonbrigði en hvað er til ráða?
Danskir ostagerðarmenn segja niðurstöðu Evrópudómstólsins vonbrigði. Framkvæmdastjóri samtaka danskra mjólkurvöruframleiðenda sagðist í viðtali fréttastofuna Ritzau vonast til að þessi dómur yrði endurskoðaður, þótt það væri ekki líklegt.
Eins og áður var nefnt eru Miðausturlönd lang stærsti kaupandi á hvíta danska ostinum. Þar er nafnið feta mjög þekkt og nú velta danskir ostaframleiðendur fyrir sér hvað sé til ráða. Bann Evrópusambandsins nær ekki til osts, sem framleiddur er, eða settur í umbúðir í löndum utan ESB. Hugsanlegur möguleiki er því að flytja ostinn frá Danmörku, án merkimiða, og setja miða, með feta nafninu, á krukkurnar í viðkomandi landi. Annar möguleiki er að flytja ostinn frá Danmörku í stórum pakkningum og setja á krukkur þegar komið er á „áfangastað“.
Þriðji möguleikinn er að setja upp ostagerð í einhverju Miðausturlandanna og flytja þangað danska mjólk til ostagerðar. Þessi möguleiki er þó talinn fremur ólíklegur að mati talsmanns ostaframleiðenda.
Þess má í lokin geta að fyrir tveimur árum hætti Mjólkursamsalan notkun orðsins feta á hvíta ostinum, sem kallaður var Dala Feta. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar bréfs frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Grískur þingmaður hafði þá vakið athygli á að á Íslandi væri seldur hvítur ostur, þar sem umrætt feta nafn kæmi við sögur. Mjólkursamsalan brást skjótt við og nú heitir osturinn Salatostur eða jafnvel veisluostur. Sömu leið hefur framleiðandinn Arna farið. Áðurnefndur grískur þingmaður mun líka hafa nefnt gríska jógúrt í bréfi sínu til framkvæmdastjórnar ESB. Sú mjólkurafurð hefur þó ekki breytt um nafn.