Fjármagnstekjur þeirra sem búa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ eru miklu hærri en annarra á höfuðborgarsvæðinu
Þeir sem tilheyra viðskipta- og atvinnulífselítunni eru mun líklegri til að búa á Seltjarnarnesi eða í Garðabæ en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar þessara tveggja sveitarfélaga eru enda með mun meiri tekjur af nýtingu fjármagns til fjárfestinga en nágrannar þeirra.
Meðaltalsfjármagnstekjur íbúa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ voru umtalsvert hærri á síðasta ári en í öðrum stærri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á Seltjarnarnesi voru þær 1.585 þúsund krónur á hvern íbúa í fyrra en 1.556 þúsund krónur í Garðabæ. Á sama tíma voru þær 679 þúsund krónur á hvern íbúa Reykjavíkur, 746 þúsund krónur á íbúa í Kópavogi, 554 þúsund krónur á íbúa í Mosfellsbæ og 525 þúsund krónur í Hafnarfirði.
Alls var meðaltal fjármagnstekna á landinu 709 þúsund krónur og því voru meðalfjármagnstekjur á íbúa á Seltjarnarnesi tæplega 124 prósent hærri en hjá meðal Íslendingnum og næstum 130 prósent hærri en hjá íbúum Reykjavíkur, Þess sveitarfélags sem liggur að Nesinu.
Þetta kemur fram í nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands.
Til útskýringar eru fjármagnstekjur þær tekjur sem einstaklingar hafa af eignum sínum. Þær eru til að mynda vextir, arður, söluhagnaður eða leigutekjur af lausafé og af útleigu á fasteignum. Þeir sem fá mestar fjármagnstekjur á Íslandi eru því sá hópur einstaklinga sem á flest hlutabréf og flestar fasteignir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eignum.
Af stærri sveitarfélögum, þeim sem eru með fleiri en fjögur þúsund íbúa, sker eitt sig úr þegar kemur að hækkun á fjármagnstekjum í fyrra, Vestmannaeyjar. Fjármagnstekjur á mann þar fóru úr 377 í 3.608 þúsund krónur að meðaltali á mann á árinu 2021. Sennilegasta skýringin á þessari miklu hækkun felst í sölunni á útgerðarfyrirtækinu Berg Huginn til Síldarvinnslunnar fyrir 4,9 milljarða króna, en þau viðskipti voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í febrúar í fyrra, og í kjölfarið var gengið frá greiðslu kaupverðs. Auk þess eru stór útgerðarfélög, sem skiluðu methagnaði í fyrra, með heimilisfesti í Vestmannaeyjum. Þar má helst nefna Ísfélag Vestmannaeyja og Vinnslustöðina, sem skiluðu methagnaði og greiddu hluthöfum sínum mikinn arð.
Eigendur Ísfélagsins eiga einnig umtalsvert magn af skráðum hlutabréfum í óskyldum greinum og fasteignum víða um land, sem hækkuðu mikið í virði á síðasta ári.
Sterk búsetueinsleitni á meðal elítuhópa
Þeir sem búa á Seltjarnarnesi eða í Garðabæ hafa í gegnum árin verið mun líklegri til að hafa helstu tekjur sínar af nýtingu fjármagns en íbúar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa líka verið líklegri til að vera í áhrifastöðum í viðskiptalífinu en nágrannar þeirra.
Árið 2007, þegar bankagóðærið var í algleymingi, náði meðaltal fjármagnstekna á hvern íbúa á Seltjarnarnesi til að mynda 3.738 þúsund krónum og 3.165 þúsund krónum í Garðabæ. Þá var heildarmeðaltalið 775 þúsund krónur og meðaltal fjármagnstekna á Seltjarnarnesi því næstum fjórfalt hærra en hjá meðal Íslendingnum.
Þegar bankabólan sprakk með látum drógust þessar tekjur mest saman í þessum tveimur sveitarfélögum.
Í grein sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla árið 2017 var fjallað um elítur á Íslandi og innbyrðis tengsl þeirra. Rannsókn greinarhöfunda, sem voru fræðimenn úr ýmsum deildum Háskóla Íslands, sýndi að sterk tengsl væru á milli elítuflokka innan viðskipta-og atvinnulífsins annars vegar, og félags- og hagsmunasamtaka hins vegar. Einnig voru vísbendingar um önnur tengsl, en valdamiklir einstaklingar í fjölmiðlum og stjórnsýslu virtust tengjast elítuhópum úr mörgum atvinnugreinum.
Greinarhöfundarnir athuguðu líka samþjöppun einstaklinga sem mynduðu viðskiptaelítuna eftir póstnúmerum. Þar kom í ljós að sterk búsetueinsleitni ríkti meðal þeirra, þ.e. meðlimir í framkvæmdastjórnum fyrirtækja voru líklegri til að velja nágranna sína með sér í stjórn. Þegar litið var á búsetu meðlima viðskiptaelítunnar kom í ljós að búsetueinsleitnin var sérstaklega áberandi ef einstaklingarnir bjuggu á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Þessi tvö sveitarfélög skáru sig úr, en þar bjuggu 150 prósent fleiri einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni en vænta hefði mátt út frá íbúafjölda á árunum 2014 til 2015.
Íbúar þessara tveggja sveitarfélaga eru einnig mun líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Sá flokkur er með hreinan meirihluta Á Seltjarnarnesi og í Garðabæ, þar sem hann fékk um helming allra greiddra atkvæða, á meðan að stuðningur við hann er rúmlega 24 prósent í Reykjavík og á bilinu 27 til 33 prósent í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Aðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka lykilatriði
Á árinu 2019, áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á, voru fjármagnstekjur á mann á Íslandi að meðaltali 520 þúsund krónur á ári. Í lok árs 2021, þegar takmörkunum vegna faraldursins var að mestu lokið og efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda vegna hans voru að mestu komnar til áhrifa, voru fjármagnstekjurnar orðnar 709 þúsund krónur að meðaltali. Þær höfðu hækkað um 36,3 prósent á tveimur árum.
Fjármagnstekjurnar drógust saman á árinu árinu 2020. Sú heildaraukning sem varð á þeim átti sér því öll stað, og rúmlega það, í fyrra. Raunar hækkuðu meðaltals fjármagnstekjur um heil 47 prósent frá árslokum 2020 og fram að síðustu áramótum. Meðaltalið hækkaði þó minna en heildartekjurnar, líkt og komið verður inn á síðar í þessari umfjöllun.
Þessi aukning á fjármagnstekjum á rætur sínar að stóru leyti að rekja til aðgerða stjórnvalda, sem kynntar voru sem viðbragð við efnahagslegum áhrifum faraldursins. Á árunum 2020 og 2021 greip ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands til margháttaðra aðgerða sem hleyptu súrefni inn í hagkerfið. Má þar nefna miklar stuðningsgreiðslur til fyrirtækja, sem höfðu þau hliðaráhrif að verja hlutabréfaeign fjármagnseigenda frá höggi, ákvörðun Seðlabankans að lækka stýrivexti niður í 0,75 prósent, sem gerði lánsfjármagns ódýrara en nokkru sinni áður, og afnám sveiflujöfnunaraukans, sem jók svigrúm viðskiptabanka til útlána um mörg hundruð milljarða króna. Það svigrúm nýttu þeir að uppistöðu í ný húsnæðislán, sem bjó til villta vesturs ástand á húsnæðismarkaði og blés þar upp bólu.
Afleiðingarnar hafa verið meðal annars verið þær að fasteignaverð og virði verðbréfa hefur hækkað mikið, og eigendur slíkra eigna á sama tíma ávaxtað fé sitt vel.
81 prósent fjármagnstekna til efsta lagsins
Kjarninn greindi frá því í júlíað í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári. Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Fjármagnstekjur dreifast mun ójafnar en launatekjur. Þær lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins, sem eiga mestar eignir. Alls um níu prósent þeirra sem telja fram skattgreiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur er líka 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.
Í minnisblaði um áðurnefnda greiningu sem lagt var fyrir ríkisstjórn í síðasta mánuði var þetta staðfest. Þar kom fram að hækkandi skattgreiðslur efstu tekjutíundarinnar séu fyrst og síðast tilkomnar vegna þess að fjármagnstekjur þeirra hafa stóraukist, enda greiðir þessi hópur 87 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti.
Rúmur helmingur af nýjum auði fór til efstu tíundarinnar
Í tölum sem Hagstofa Íslands birti í júlí kom fram að af þeim 608 nýju milljörðum króna sem urðu til í fyrra fóru 331 milljarður króna til efstu tíundarinnar. Það er hlutfallslega mun meira en ríkasta lagið tók til sín árin á undan.
Ástæður þess að fjármagnstekjur hafa aukist svona mikið eru fyrst og síðast þær að virði hlutabréfa hefur aukist gríðarlega á kórónuveirutímanum og fasteignaverð hefur rokið upp um tugi prósenta. Ríkustu tíu prósent Íslendinga juku eign sína í verðbréfum um 93,4 milljarða króna á árinu 2021. Þessi eign er þó metin á nafnvirði, ekki markaðsvirði, og því var hún vanmetin um síðustu áramót.
Heildaraukning í eign á verðbréfum, sem eru að uppistöðu hlutabréf og skuldabréf, á meðal allra landsmanna var upp á 105,3 milljarða króna. Því eignaðist efsta tíundin, rúmlega 23 þúsund einstaklingar, í tekjustiganum 89 prósent af virði nýrra verðbréfa á síðasta ári.
Þessi hópur fékk líka miklar arðgreiðslur út úr fyrirtækjunum sem hann átti hlutabréf í og, líkt og áður sagði, var hann duglegur við að selja bréfin á háu verði í fyrra fyrir mikinn söluhagnað sem myndaði fjármagnstekjur.
Flestir landsmenn eiga eina tegund eigna sem hefur vaxið mikið í virði, fasteignina sem þeir búa í. Það er enda þannig að tæplega 76 prósent af þeirri aukningu sem orðið hefur á aukningu á eigin fé frá 2010 er vegna hækkandi fasteignaverðs. Slík hækkun hefur þá hliðarverkun að stjórnvöld geta stært sig af því að skuldastaða heimilanna sé að batna. Hlutfallslega er hún lægra hlutfall af uppblásnu markaðsvirði.
Þessi staða er hins vegar ekki staða í hendi hjá þeim sem eiga eina eign, og þurfa að búa í henni, þótt auður verði til á blaði samhliða miklum hækkunum. Flestir þurfa að kaupa sér nýja eign ef þeir selja gömlu, og nýju eignirnar hafa líka hækkað að jafnaði jafn mikið í virði.
Í tölum frá Þjóðskrá Íslands kemur fram að næstum 53 þúsund íbúðir á Íslandi eru í eigu aðila sem eiga fleiri en eina íbúð. Þ.e. einhverra sem geta haft tekjur af útleigu annarrar íbúðar en þeirrar sem viðkomandi býr í. Í svörum sem Kjarninn fékk frá Þjóðskrá í lok síðasta árs kom fram að á fimmta þúsund áttu fleiri en tvær íbúðir og 453 einstaklingar eða lögaðilar áttu fleiri en sex íbúðir. Þetta er hópurinn sem hefur hagnast mest á hækkandi húsnæðisverði.
Afar sennilegt er að þorri þessa hóps tilheyri þeim tíu prósent landsmanna sem eru með hæstu tekjurnar. Sá hópur hefur aukið eigið fé sitt í fasteignum um 1.551 milljarð króna frá árinu 2010. Það þýðir að 45 prósent af allri aukningu á eigin fé heimila vegna hækkunar á fasteignaverði fór til þessa hóps.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði