Mynd: Bára Huld Beck

Fjármagnstekjur þeirra sem búa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ eru miklu hærri en annarra á höfuðborgarsvæðinu

Þeir sem tilheyra við­skipta- og atvinnulífselítunni eru mun líklegri til að búa á Seltjarnarnesi eða í Garðabæ en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar þessara tveggja sveitarfélaga eru enda með mun meiri tekjur af nýtingu fjármagns til fjárfestinga en nágrannar þeirra.

Með­­al­tals­fjár­­­magnstekjur íbúa á Sel­tjarn­­ar­­nesi og í Garðabæ voru umtals­vert hærri á síð­asta ári en í öðrum stærri sveit­­ar­­fé­lögum á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­in­u. Á Sel­tjarn­ar­nesi voru þær 1.585 þús­und krónur á hvern íbúa í fyrra en 1.556 þús­und krónur í Garða­bæ. Á sama tíma voru þær 679 þús­und krónur á hvern íbúa Reykja­vík­­­ur, 746 þús­und krónur á íbúa í Kópa­vogi, 554 þús­und krónur á íbúa í Mos­­fellsbæ og 525 þús­und krónur í Hafn­­ar­­firð­i. 

Alls var með­­al­­tal fjár­­­magnstekna á land­inu 709 þús­und krónur og því voru með­­al­fjár­­­magnstekjur á íbúa á Sel­tjarn­­ar­­nesi tæp­­lega 124 pró­­sent hærri en hjá meðal Íslend­ingn­um og næstum 130 pró­sent hærri en hjá íbúum Reykja­vík­ur, Þess sveit­ar­fé­lags sem liggur að Nes­in­u. 

Þetta kemur fram í nýlegum tölum frá Hag­stofu Íslands. 

Til útskýr­ingar eru fjár­­­magnstekjur þær tekjur sem ein­stak­l­ingar hafa af eignum sín­­um. Þær eru til að mynda vext­ir, arð­­ur, sölu­hagn­aður eða leig­u­­tekjur af lausafé og af útleigu á fast­­eign­­um. Þeir sem fá mestar fjár­magnstekjur á Íslandi eru því sá hópur ein­stak­linga sem á flest hluta­bréf og flestar fast­eign­ir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eign­um. 

Af stærri sveit­ar­fé­lög­um, þeim sem eru með fleiri en fjögur þús­und íbúa, sker eitt sig úr þegar kemur að hækkun á fjár­magnstekjum í fyrra, Vest­manna­eyj­ar. Fjár­magnstekjur á mann þar fóru úr 377 í 3.608 þús­und krónur að með­al­tali á mann á árinu 2021. Senni­leg­asta skýr­ingin á þess­ari miklu hækkun felst í söl­unni á útgerð­ar­fyr­ir­tæk­inu Berg Hug­inn til Síld­ar­vinnsl­unnar fyrir 4,9 millj­arða króna, en þau við­skipti voru sam­þykkt af Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu í febr­úar í fyrra, og í kjöl­farið var gengið frá greiðslu kaup­verðs. Auk þess eru stór útgerð­ar­fé­lög, sem skil­uðu met­hagn­aði í fyrra, með heim­il­is­festi í Vest­manna­eyj­um. Þar má helst nefna Ísfé­lag Vest­manna­eyja og Vinnslu­stöð­ina, sem skil­uðu met­hagn­aði og greiddu hlut­höfum sínum mik­inn arð.

Eig­endur Ísfé­lags­ins eiga einnig umtals­vert magn af skráðum hluta­bréfum í óskyldum greinum og fast­eignum víða um land, sem hækk­uðu mikið í virði á síð­asta ári. 

Sterk búsetu­eins­leitni á meðal elítu­hópa

Þeir sem búa á Sel­tjarn­ar­nesi eða í Garðabæ hafa í gegnum árin verið mun lík­legri til að hafa helstu tekjur sínar af nýt­ingu fjár­magns en íbúar ann­arra sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þeir hafa líka verið lík­legri til að vera í áhrifa­stöðum í við­skipta­líf­inu en nágrannar þeirra.

Árið 2007, þegar banka­­góð­ærið var í algleym­ingi, náði með­­al­­tal fjár­­­magnstekna á hvern íbúa á Sel­tjarn­­ar­­nesi til að mynda 3.738 þús­und krónum og 3.165 þús­und krónum í Garða­bæ. Þá var heild­­ar­­með­­al­talið 775 þús­und krónur og með­­al­­tal fjár­­­magnstekna á Sel­tjarn­­ar­­nesi því næstum fjór­falt hærra en hjá meðal Íslend­ingn­­um. 

Þegar banka­bólan sprakk með látum dróg­ust þessar tekjur mest saman í þessum tveimur sveit­ar­fé­lög­um. 

Í grein sem birt­ist í tíma­rit­inu Stjórn­­­mál og Stjórn­­­sýsla árið 2017 var fjallað um elítur á Íslandi og inn­­­byrðis tengsl þeirra. Rann­sókn grein­ar­höf­unda, sem voru fræði­menn úr ýmsum deildum Háskóla Íslands, sýndi að ­sterk tengsl væru á milli elítu­flokka innan við­­skipta-og atvinn­u­lífs­ins ann­­ars veg­­ar, og félags- og hags­muna­­sam­­taka hins veg­­ar. Einnig voru vís­bend­ingar um önnur tengsl, en valda­­miklir ein­stak­l­ingar í fjöl­miðlum og stjórn­­­sýslu virt­ust tengj­­ast elítu­hópum úr mörgum atvinn­u­­grein­­um. 

Grein­­ar­höf­und­arnir athug­uðu líka sam­­þjöppun ein­stak­l­inga sem mynd­uðu við­skipta­el­ít­una eftir póst­­­núm­er­­um. Þar kom í ljós að sterk búset­u­eins­­leitni ríkti meðal þeirra, þ.e. með­­limir í fram­­kvæmda­­stjórnum fyr­ir­tækja voru lík­­­legri til að velja nágranna sína með sér í stjórn. Þeg­ar litið var á búsetu með­­lima við­skipta­el­ít­unnar kom í ljós að búset­u­eins­­leitnin var sér­­stak­­lega áber­andi ef ein­stak­l­ing­­arnir bjuggu á Sel­tjarn­­ar­­nesi og í Garða­bæ. Þessi tvö sveit­­ar­­fé­lög skáru sig úr, en þar bjuggu 150 pró­sent fleiri ein­stak­l­ingar í við­­skipta- og atvinnu­lífsel­ít­unni en vænta hefði mátt út frá íbú­a­­fjölda á árunum 2014 til 2015. 

Íbúar þess­ara tveggja sveit­ar­fé­laga eru einnig mun lík­legri til að kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn en í öðrum sveit­ar­fé­lögum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Sá flokkur er með hreinan meiri­hluta Á Sel­tjarn­ar­nesi og í Garða­bæ, þar sem hann fékk um helm­ing allra greiddra atkvæða, á meðan að stuðn­ingur við hann er rúm­lega 24 pró­sent í Reykja­vík og á bil­inu 27 til 33 pró­sent í öðrum sveit­ar­fé­lögum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Aðgerðir stjórn­valda og Seðla­banka lyk­il­at­riði

Á árinu 2019, áður en að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á, voru fjár­magnstekjur á mann á Íslandi að með­al­tali 520 þús­und krónur á ári. Í lok árs 2021, þegar tak­mörk­unum vegna far­ald­urs­ins var að mestu lokið og efna­hags­legar aðgerðir stjórn­valda vegna hans voru að mestu komnar til áhrifa, voru fjár­magnstekj­urnar orðnar 709 þús­und krónur að með­al­tali. Þær höfðu hækkað um 36,3 pró­sent á tveimur árum. 

Fjár­magnstekj­urnar dróg­ust saman á árinu árinu 2020. Sú heild­ar­aukn­ing sem varð á þeim átti sér því öll stað, og rúm­lega það, í fyrra. Raunar hækk­uðu með­al­tals fjár­magnstekjur um heil 47 pró­sent frá árs­lokum 2020 og fram að síð­ustu ára­mót­um. Með­al­talið hækk­aði þó minna en heild­ar­tekj­urn­ar, líkt og komið verður inn á síðar í þess­ari umfjöll­un.

Ríkisstjórn Íslands kynnti til leiks fjölmörg úrræði til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Mörg þeirra úrræða höfðu á endanum jákvæð áhrif á tækifæri fjármagnseigenda til að ávaxta pund sitt.
Mynd: Bára Huld Beck

Þessi aukn­ing á fjár­magnstekjum á rætur sínar að stóru leyti að rekja til aðgerða stjórn­valda, sem kynntar voru sem við­bragð við efna­hags­legum áhrifum far­ald­urs­ins. Á árunum 2020 og 2021 greip rík­is­stjórnin og Seðla­­­banki Íslands til marg­hátt­aðra aðgerða sem hleyptu súr­efni inn í hag­­­kerf­ið. Má þar nefna miklar stuðn­ings­greiðslur til fyr­ir­tækja, sem höfðu þau hlið­ar­á­hrif að verja hluta­bréfa­eign fjár­magns­eig­enda frá höggi, ákvörðun Seðla­bank­ans að lækka stýri­vexti niður í 0,75 pró­sent, sem gerði láns­fjár­magns ódýr­ara en nokkru sinni áður, og afnám sveiflu­jöfn­un­ar­aukans, sem jók svig­rúm við­skipta­banka til útlána um mörg hund­ruð millj­arða króna. Það svig­rúm nýttu þeir að uppi­stöðu í ný hús­næð­is­lán, sem bjó til villta vest­urs ástand á hús­næð­is­mark­aði og blés þar upp bólu. 

Afleið­ing­­­arnar hafa verið meðal ann­­­ars verið þær að fast­eigna­verð og virði verð­bréfa hefur hækkað mik­ið, og eig­endur slíkra eigna á sama tíma ávaxtað fé sitt vel.

81 pró­sent fjár­magnstekna til efsta lags­ins

Kjarn­inn greindi frá því í júlíað í grein­ingu á álagn­ingu opin­berra gjalda ein­stak­l­inga eftir tekju­­tí­undum sem Bjarni Bene­dikts­­son, fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra, kynnti á rík­­is­­stjórn­­­ar­fundi 22. júní síð­­ast­lið­inn, hafi komið fram að þau tíu pró­­sent lands­­manna sem höfðu mestar fjár­­­magnstekjur á síð­­asta ári hafi tekið til sín 81 pró­­sent allra fjár­­­magnstekna ein­stak­l­inga á árinu 2021. Alls höfðu ein­stak­l­ingar 181 millj­­arð króna í fjár­­­magnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíund­in, sem telur nokkur þús­und fjöl­­skyld­­ur, var með tæp­­lega 147 millj­­arða króna í fjár­­­magnstekjur á síð­­asta ári. Heild­­ar­fjár­­­magnstekjur ein­stak­l­inga hækk­­uðu um 57 pró­­sent milli ára, eða alls um 65 millj­­arða króna. Mest hækk­­­aði sölu­hagn­aður hluta­bréfa sem var 69,5 millj­­­arðar króna á árinu 2021. 

Fjár­­­magnstekjur dreifast mun ójafnar en launa­­tekj­­ur. Þær lendi mun frekar hjá tekju­hæstu hópum lands­ins, sem eiga mestar eign­­ir. Alls um níu pró­sent þeirra sem telja fram skatt­greiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjár­magnstekj­ur. Fjár­magnstekju­skattur er líka 22 pró­­­sent, sem er mun lægra hlut­­­fall en greitt er af t.d. launa­­­tekj­um, þar sem skatt­hlut­­­fallið er frá 31,45 til 46,25 pró­­­sent eftir því hversu háar tekj­­­urnar eru. 

Í minn­is­­blaði um áður­nefnda grein­ing­u sem lagt var fyrir rík­­is­­stjórn í síð­asta mán­uði var þetta stað­­fest. Þar kom fram að hækk­­andi skatt­greiðslur efstu tekju­­tí­und­­ar­innar séu fyrst og síð­­­ast til­­komnar vegna þess að fjár­­­magnstekjur þeirra hafa stór­­aukist, enda greiðir þessi hópur 87 pró­­sent af öllum fjár­­­magnstekju­skatti.

Rúmur helm­ingur af nýjum auði fór til efstu tíund­ar­innar

Í tölum sem Hag­stofa Íslands birti í júlí kom fram að af þeim 608 nýju millj­­örðum króna sem urðu til í fyrra fóru 331 millj­­arður króna til efstu tíund­­ar­inn­­ar. Það er hlut­­falls­­lega mun meira en rík­­asta lagið tók til sín árin á und­an.

Ástæður þess að fjár­magnstekjur hafa auk­ist svona mikið eru fyrst og síð­ast þær að virði hluta­bréfa hefur auk­ist gríð­ar­lega á kór­ónu­veiru­tím­anum og fast­eigna­verð hefur rokið upp um tugi pró­senta. Rík­­­­­ustu tíu pró­­­sent Íslend­inga juku eign sína í verð­bréfum um 93,4 millj­­arða króna á árinu 2021. Þessi eign er þó metin á nafn­virði, ekki mark­aðsvirði, og því var hún van­metin um síð­ustu ára­mót.

Heild­­­ar­aukn­ing í eign á verð­bréf­um, sem eru að upp­­i­­­­stöðu hluta­bréf og skulda­bréf, á meðal allra lands­­­manna var upp á 105,3 millj­­­arða króna. Því eign­að­ist efsta tíund­in, rúm­­­lega 23 þús­und ein­stak­l­ing­­­ar, í tekju­­­stig­­­anum 89 pró­­­sent af virði nýrra verð­bréfa á síð­­­asta ári.

Þessi hópur fékk líka miklar arð­greiðslur út úr fyr­ir­tækj­unum sem hann átti hluta­bréf í og, líkt og áður sagði, var hann dug­legur við að selja bréfin á háu verði í fyrra fyrir mik­inn sölu­hagnað sem mynd­aði fjár­magnstekj­ur.

Flestir lands­­menn eiga eina teg­und eigna sem hefur vaxið mikið í virði, fast­­eign­ina sem þeir búa í. Það er enda þannig að tæp­­lega 76 pró­­sent af þeirri aukn­ingu sem orðið hefur á aukn­ingu á eigin fé frá 2010 er vegna hækk­­andi fast­eigna­verðs. Slík hækkun hefur þá hlið­ar­verkun að stjórn­völd geta stært sig af því að skulda­staða heim­il­anna sé að batna. Hlut­falls­lega er hún lægra hlut­fall af upp­blásnu mark­aðsvirð­i. 

Þessi staða er hins vegar ekki staða í hendi hjá þeim sem eiga eina eign, og þurfa að búa í henni, þótt auður verði til á blaði sam­hliða miklum hækk­­un­­um. Flestir þurfa að kaupa sér nýja eign ef þeir selja gömlu, og nýju eign­­irnar hafa líka hækkað að jafn­­aði jafn mikið í virði.

Í tölum frá Þjóð­skrá Íslands kemur fram að næstum 53 þús­und íbúðir á Íslandi eru í eigu aðila sem eiga fleiri en eina íbúð. Þ.e. ein­hverra sem geta haft tekjur af útleigu ann­arrar íbúðar en þeirrar sem við­kom­andi býr í. Í svörum sem Kjarn­inn fékk frá Þjóð­skrá í lok síð­asta árs kom fram að á fimmta þús­und áttu fleiri en tvær íbúðir og 453 ein­stak­lingar eða lög­að­ilar áttu fleiri en sex íbúð­ir. Þetta er hóp­ur­inn sem hefur hagn­ast mest á hækk­andi hús­næð­is­verð­i. 

Afar senn­i­­legt er að þorri þessa hóps til­­heyri þeim tíu pró­­sent lands­­manna sem eru með hæstu tekj­­urn­­ar. Sá hópur hefur aukið eigið fé sitt í fast­­eignum um 1.551 millj­­arð króna frá árinu 2010. Það þýðir að 45 pró­­sent af allri aukn­ingu á eigin fé heim­ila vegna hækk­­unar á fast­eigna­verði fór til þessa hóps. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar