Skipulagsstofnun segir að í umhverfismatsskýrslu sem verið er að vinna vegna fyrirhugaðrar vikurvinnslu þýska fyrirtækisins STEAG Power Minerals (SPM) við Hafursey á Mýrdalssandi þurfi að gera ítarlega grein fyrir fyrirkomulagi á þeim umfangsmiklu flutningum sem fyrirhugaðir eru frá námunni og til lagersvæðis, sem ráðgert er að verði við Þorlákshöfn.
Í áliti sínu um tillögu að matsáætlun fyrirtækisins, sem Kjarninn fjallaði um í september, segir Skipulagsstofnun að gera þurfi grein fyrir stærð og þyngd flutningabíla og fjölda, tíðni og tímasetningu ferða, ásamt akstursleiðum. Þá segir að meta þurfi áhrif flutninganna á umferðarmannvirki, umferð og umferðaröryggi og gera grein fyrir því hvar flutningarnir kalli á breytingar á umferðarmannvirkjum og mótvægisaðgerðir, ef það eigi við.
Mikið umfang til langrar framtíðar
Að um umfangsmikla flutninga sé að ræða er heldur betur ekki ofsagt, en áætlanir gera ráð fyrir því að þegar vinnslan verði komin á full afköst verði farnar 120 ferðir með Kötluvikurinn um það bil 180 kílómetra leið frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar, 249 daga ársins. Árleg efnistaka er áætluð 1,43 milljónir rúmmetrar.
Þetta magn þýðir að ef ekið væri látlaust með vikurinn til Þorlákshafnar og með tóma bíla til baka allan sólarhringinn færi vörubíll í aðra hvora áttina á 6 mínútna fresti að meðaltali þá daga sem flutningar færu fram. Gert er ráð fyrir því að nægt efni sé á staðnum til að halda vikurnáminu gangandi á þessum hraða í rúma öld.
Eins og vegakerfið á Suðurlandi er í dag liggur beinast við að þessir flutningar fari í gegnum fjóra þéttbýlisstaði á leiðinni frá Mýrdalssandi vestur í Þorlákshöfn; Vík í Mýrdal, Hvolsvöll, Hellu og Selfoss, en með tilkomu nýrrar brúar sem til stendur að byggja yfir Ölfusá yrði þó mögulegt að sneiða hjá Selfossi og aka með hlössin um Ölfusið á leið til Þorlákshafnar.
„Geturðu sýnt okkur mynd af svona bíl?“
Vörubílarnir sem SPM sér fyrir sér að notaðir verði til verksins eru af stærri gerðinni, en þeir eiga að geta borið heila 48 rúmmetra af efni, samkvæmt tillögu að matsáætlun. Starfsmaður hjá Skipulagsstofnun virtist undrast þá tölu og sendi verkfræðingi hjá Eflu, sem kom að gerð tillögunnar fyrir hönd framkvæmdaaðila, tölvupóst með beiðni um frekari útskýringar.
„Er þetta rétt tala? Geturðu sýnt okkur mynd af svona bíl?“ sagði í tölvupóstinum frá sérfræðingi Skipulagsstofnunar, sem sendur var þann 20. september.
Í svarinu frá starfsmanni Eflu, sem barst samdægurs, sagði að ekki það væri ekki búið að taka ákvörðun um hvaða framleiðandi eða útfærsla nákvæmlega yrði fyrir valinu, en að líklega yrði notast við flutningabíla með tengivagni.
Verkfræðingurinn lét síðan fylgja með tengla á nokkrar myndir af bílum af þessari stærðargráðu af erlendum vefsíðum og einnig skýringarmyndir úr viðauka við reglugerð um stærð og þyngd ökutækja, til þess að sýna fram á að „slík ökutæki eru leyfð á vegum landsins“.
Umhverfismatið þurfi að taka til flutninganna líka
Skipulagsstofnun hnykkir á því í áliti sínu að umhverfismat framkvæmdarinnar þurfi ekki einungis að taka til efnisvinnslunnar sjálfrar á Mýrdalssandi, heldur líka flutninganna á efninu til lagersvæðisins, sem reiknað er með að verði líklega um 2,5 kílómetrum vestan við Þorlákshöfn, og þaðan til hafnar.
Umhverfisáhrif sjálfra flutninganna voru gerð að umtalsefni í nokkrum umsögnum sem bárust til Skipulagsstofnunar um málið. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sagði auk annars að flutningarnir kæmu til með að valda ónæði fyrir íbúa þéttbýlisstaðanna þar sem umferðin færi um og auka hættu á mengunarslysum, þar sem um þungaflutninga væri að ræða á farartækjum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Uppskipun frá Mýrdalssandi ófýsileg og Landeyjar bara fyrir Vestmannaeyjaferju
Í sumum athugasemdum um málið, eins og til dæmis þeirri sem barst frá Mýrdalshreppi, var lagt til að skoðað rækilega hvort mögulegt væri að skipa efninu beint út frá ströndinni, enda væri það umhverfisvænna og í meira samræmi við bæði áherslur sveitarfélagsins og ríkisins í umhverfismálum.
Í athugasemdum við innsendar umsagnir sem bárust Skipulagsstofnun frá verkfræðistofunni Eflu, sem starfar sem áður sagði fyrir hönd framkvæmdaaðilans í skipulagsferlinu, sagði að í undirbúningi framkvæmdarinnar hefði verið skoðað að ráðast í hafnargerð í grennd við efnistökustaðinn á Mýrdalssandi, en það væri mjög erfiður kostur.
Grunn fjara, sandburður, vond veður og óheft úthafsalda væru þættir sem gerðu það að verkum að öll mannvirkjagerð væri mjög erfið og umfangsmikil. Auk þess teldi framkvæmdaaðilinn það ekki til vinsælda fallið að byggja mannvirki í fjörunni við Hjörleifshöfða, þann vinsæla ferðamannastað. Þó var fallist á að fjallað yrði um þennan valkost í umhverfismatsskýrslu.
Landvernd sagði í sinni umsögn um málið að það kæmi á óvart að Landeyjahöfn hefði ekki verið sett fram sem valkostur fyrir útskipun vikursins, í ljósi þess að hún væri mun nær Mýrdalssandi en Þorlákshöfn.
Í athugasemdunum frá Eflu segir að það hafi vissulega verið skoðað hvort Landeyjahöfn kæmi til greina, en að lög og hafnarreglugerð um Landeyjahöfn komi í veg fyrir að hægt sé að nota höfnina í nokkuð annað en áætlunarsiglingar á milli lands og Vestmannaeyja.
Að aka með efnið sem leið liggur frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar er því talinn fýsilegasti kosturinn á þessum tímapunkti.