Fólk trúir að það geti haft áhrif á sitt nánasta nágrenni
Almenningur vill láta sig skipulagsmál varða, en mörgum þykja þau flókin og óaðgengileg. Fagfólk telur litla háværa hópa stundum hafa of mikil áhrif. Kjarninn ræðir samráð í skipulagsmálum við Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur forstjóra Skipulagsstofnunar.
Samráð í skipulagsmálum hefur verið nokkuð ofarlega á baugi í samfélagsumræðunni upp á síðkastið. Í Reykjavíkurborg stendur nú yfir samráðsferli um tillögu að hverfisskipulagi í Bústaðahverfi, sem hefur leitt til heitra umræðna. Í Kópavogi hefur síðan verið stofnað sérstakt félag bæjarbúa sem segja bæinn fara með offorsi fram við skipulagningu nýrrar íbúðabyggðar í Hamraborg og raunar víðar.
Af þessum dæmum má ráða að margir láti sig nærumhverfi sitt varða og reyni að hafa áhrif á það með þeim leiðum sem til þess eru færar, en einungis lítill hluti almennings telur sig þó hafa þekkingu á því hvernig samráð við almenning um skipulag og umhverfismat framkvæmda fer fram, samkvæmt nýlegri könnun, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi fyrir Skipulagsstofnun.
Í úttekt sem Félagsvísindastofnun gerði um þetta efni kom einnig fram að fagfólki og hagsmunaaðilum í skipulagsgeiranum finnst það almennt skipta mjög miklu máli að gefa almenningi kost á að koma á framfæri athugasemdum og hugmyndum áður en ákvarðanir eru teknar um skipulag og framkvæmdir.
Tæplega 70 prósent þeirra fagaðila sem svöruðu spurningalista sögðu hins vegar að þeir teldu erfitt fyrir almenning að skilja gögn sem eru lögð fram við skipulagsbreytingar og umhverfismat framkvæmda.
Í frekari viðtölum sem tekin voru við fagaðila í úttekt Félagsvísindastofnunar komu þau viðhorf fram að ef til vill þyrfti að eiga sér þýðing efnis sem varðar skipulags yfir á íslenskt „mannamál“, samhliða þýðingum yfir á önnur tungumál en íslensku fyrir þær tugþúsundir innflytjenda sem búa á Íslandi.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar segir við Kjarnann að það sé viðvarandi verkefni hjá þeim sem standa að skipulagsgerð og samráði við almenning að átta sig á því hvernig best verði náð til fólks, með hvaða hætti og á hvaða vettvangi. „Þetta er sífellt viðfangsefni, sem og hvernig gögn eru sem skýrast og best sett fram, þannig að þau séu áhugaverð og skiljanleg hverjum sem er,“ segir Ásdís Hlökk í samtali við blaðamann.
Hún segir að það sé algjör lykilþáttur í skipulagsvinnu sveitarfélaga að hagsmunaaðilar og íbúar hafi aðkomu að undirbúningi þeirrar byggðamótunar sem fer fram, bæði vegna staðþekkingar sem þeir búi yfir og hugmyndum um hvernig hlutirnir eigi að vera – og svo auðvitað líka svo þeir geti varið sína hagsmuni.
Ásdís Hlökk segir það hafa komið skýrt fram í niðurstöðum Félagsvísindastofnunar að þrátt fyrir að stór hluti fólks telji sig hafa takmarkaða þekkingu á því hvernig samráð um skipulagsverkefni fari fram, hafi fólk trú á þeim kerfum sem eru til staðar, en fáir svarendur höfðu þó tekið þátt í samráði.
„Það telur að rödd þeirri eigi að geta heyrst og eigi að geta haft áhrif. Það er áberandi þegar það er spurt um skipulag í þeirra nærumhverfi. Fólk greinilega hefur tiltrú á að það eigi að geta og geti haft áhrif. En hjá fæstum aðspurðum hefur reynt á það,“ segir Ásdís Hlökk.
Áskorun nútímans, segir hún, er að finna heppilegasta vettvanginn til þess að ná beint til fólks. Upplýsingar um skipulagsáætlanir og -tillögur eru birtar til dæmis á vef Skipulagsstofnunar og svo á vefsíðum allra sveitarfélaga landsins, en það er ekki víst að slíkar auglýsingar nái augum margra.
„Þetta var að mörgu leyti svo miklu auðveldara hér áður fyrr, þegar það var ein sjónvarpsstöð og fjögur flokksmálgögn sem komu út daglega. Eitthvert þeirra rataði inn á öll heimili í landinu, mátti gefa sér, og var flett. En núna er þetta flókið, hvar er vettvangurinn þar sem þú nærð eyrum fólks og augum og athygli?“ segir Ásdís Hlökk.
Hún segir að vissulega séu skipulagsmál flókin í framsetningu. „Það er hugtakaheimur þarna sem fólk hefur ekki á takteinunum,“ segir forstjórinn og bætir við að það þurfi að vera mikið af lagatilvísunum í formlegum auglýsingum um skipulagstillögur „sem virka ekki mjög hvetjandi eða aðlaðandi fyrir hinn almenna borgara.“
Þeir sem setji fram skipulagstillögur í auglýsingu geti gætt þess að hafa slíkt ekki í forgrunni, heldur fyrst og fremst það að vekja athygli á því um hvaða stað tillagan fjallar og hvað hún felur í sér. „Og hvað er verið að bjóða fólki til leiks að gera, er verið að bjóða ykkur að kynna ykkur þetta, eða til samtals og einhverskonar áhrifa?“
Allt um skipulag og framkvæmdir á einum stað
Í sumar voru samþykktar lagabreytingar á Alþingi þar sem auk annars var kveðið á um að Skipulagsstofnun skuli halda úti vettvangi sem veiti heildaryfirsýn yfir skipulag, umhverfismat og framkvæmdaleyfi í landinu. Þessi nýi vettvangur hefur verið kallaður skipulagsgátt. Ásdís Hlökk segir hana hugsaða til að takast á við marga af þeim innbyggðu veikleikum sem eru til staðar við kynningu á skipulagsmálum og umhverfismati framkvæmda.
Í gáttinni eiga borgarar og aðrir hagsmunaaðilar að geta nálgast bæði tillögur sem eru í vinnslu og alla opinbera umfjöllun, „allar umsagnir, öll gögn og allt þvíumlíkt“ sem málunum tengjast. „Þetta er að mörgu leyti svolítið sambærilegt við það sem stjórnvöld og fólk sem tengist opinberri umræðu er farið að þekkja í samráðsgátt stjórnvalda,“ segir Ásdís Hlökk.
En skipulagsgáttin mun einnig verða landfræðileg, sem þýðir að það verður bæði hægt að nálgast mál í gegnum venjulegt textaviðmót, en líka í gegnum landakort. „Svo þú getur áttað þig á hvað er að gerast til dæmis í nánd við þitt heimili eða í kringum annan stað á landinu sem þú vilt fylgjast með, sumarbústað, átthaga eða einhverjar gersemar í náttúrunni sem þér er annt um.“
Hugmyndin er sú, segir Ásdís Hlökk, að í gáttinni verði hægt að vakta mál, eða ákveðin svæði, þannig að tilkynning berist með tölvupósti ef verið er að setja einhver mál í kynningu á stöðum sem notandinn vill fylgjast með. Hún segist vonast til þess að skipulagsgáttin, sem áætlanir gera ráð fyrir að verði komin í gagnið undir lok næsta árs, verði bylting í því hvernig Íslendingar fylgjast með framgangi skipulagsmála.
„Þegar gáttin hefur verið opnuð þarf hún að vinna sér sess á meðal landsmanna, sem þessi vettvangur þar sem þú getur alltaf leitað þessara upplýsinga. Það verður áskorun fyrst í stað að kynna hana,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að hún vonist til að gáttin „verði svona eins og „covid.is-staðurinn“ til að fara á, þannig séð, ef þú þarft að vita eitthvað um skipulag,“ og vísar þar til tölfræðivef yfirvalda um kórónuveirufaraldurinn sem bæði fjölmiðlar og almenningur hafa legið yfir löngum stundum undanfarin misseri.
„Þarna er hugmyndin að takast á við þann veruleika að við erum ekki lengur með flokksblöðin fjögur og einu sjónvarpsstöðina og útvarpsstöðina, við erum með þessa óteljandi mörgu miðla og vettvanga sem fólk er á. Við erum að tryggja að það sé einn vettvangur þar sem þetta er allt á einum stað og aðgengilegt öllum,“ segir Ásdís Hlökk.
En þrátt fyrir að hún telji að skipulagsgáttin verði bylting í upplýsingamiðlun um skipulagsmál og framkvæmdir, þarf meira að koma til. „Gáttin ein og sér breytir ekki framsetningu skipulagstillagna og það er áfram áskorun að gera þau gögn sem aðgengilegust og læsilegust og skiljanlegust fólki,“ segir Ásdís Hlökk og bætir því við að rafræn miðlun muni heldur ekki komi í stað mannlegra samskipta – skoðanaskipti og samtal þurfi áfram að geta átt sér stað.
„Samráðsgátt á vefnum mun aldrei koma í staðinn fyrir kynningarfundi, opin hús, rýnihópa og ýmislegt annað sem þarf að efna til í svona ferli.“
Tími ungs fólks fari í annað en skipulagsmál
Það hefur vakið athygli að undanförnu að í samráði um hverfisskipulagstillögur í Bústaða- og Háaleitshverfi í Reykjavík hefur Reykjavíkurborg boðað að til standi að setja út netkönnun til að ná til breiðari hóps en þeirra sem höfðu mætt á opna fundi og lýst andstöðu við fyrirhugaðar framkvæmdir.
„Við ætlum að fara af stað með könnun á næstunni til að kanna viðhorf fólks, því það verður alveg að segjast eins og er, þessi viðhorf sem komin eru fram endurspegla ekki alla íbúa. Þetta er fyrst og fremst eldra fólk,“ sagði Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags borgarinnar við mbl.is á dögunum.
Ásdís Hlökk segir allir sem sýsli við skipulagsmál viti vel að það eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem auðveldara sé að ná til en annarra, er kemur að samráði um málin. „Það er vel þekkt að þátttakendur á kynningar- og samráðsfundum fyrir skipulagsgerð og umhverfismat er fólk á miðjum aldri og eldra. Það er gjarnan svolítil áskorun að ná til yngra fólks og það helgast af ýmsu, kannski miðlunum, kannski áhugasviði og kannski því að ungt fólk, fólk með börn er bara upptekið. Tími þess er bara tekinn í annað.“
Hún segir skipulagsgáttina ákveðið skref í að ná jafnar til allra. Það að Ísland sé að verða meira fjölmenningarsamfélag sé líka önnur áskorun og að í tilteknum byggðum landsins sérstaklega séu stórir hópar íbúa sem ekki séu vel talandi á íslensku.
„Þetta er nýtt viðfangsefni fyrir okkur, en við höfum séð skipulagsyfirvöld í nágrannalöndum okkar takast á við þetta. Þar er þetta orðinn veruleikinn mikið fyrr. Það þarf að hafa efni aðgengilegt á fleiri tungumálum og halda fundi á fleiri tungumálum. Þetta er eitthvað sem við erum að byrja að fóta okkur í.“
Stóra viðfangsefnið að meta rökin sem fram koma
Þegar blásið er til samráðs um skipulagsmál gerist það gjarnan að mjög háværir hópar eða hagsmunaaðilar láta mikið að sér kveða og yfirtaka umræðuna um skipulagstillögur eða framkvæmdir á sínum forsendum. Í könnun Félagsvísindastofnunar á meðal fagaðila voru flestir sem nefndu þetta sem galla við samráð við almenning.
Ásdís Hlökk segir að það sé sífelld áskorun að reyna að haga samráði með þeim hætti að rödd sem flestra nái að heyrast, líka þeirra sem eru valdaminni eða ólíklegri til að hafa sig í frammi – og að til þess séu ákveðin tól til, eins og íbúaþing, rýnihópar og kannanir.
„Það eru alls konar aðferðir sem hægt er að beita. Það fer hins vegar eftir stærð og umfangi skipulagsverkefna hversu mikið og flókið samráð er hægt að fara í. Það eru til aðferðir sem fagfólk á að þekkja til að reyna að vinna gegn því að það séu einhverjir sem yfirtaki umræðuna. En það breytir því ekki, ef það eru hópar, litlir eða stórir, sem brenna fyrir einhverju málefni þá mun það heyrast sterkt í viðkomandi skipulagsferli. Og það verður alltaf úrlausnarefni og matsatriði viðkomandi skipulagsyfirvalda að greina þau sjónarmið sem þarna koma fram,“ segir Ásdís Hlökk.
Að lokum segir forstjóri Skipulagsstofnunar að það sé kannski alltaf stóra viðfangefnið, við ákvaðanatöku í skipulagsmálum, að greina hvað er sagt, en ekki hver segir það. „Og í rauninni, hvað er sagt en ekki endilega hversu margir segja það.“
Lesa meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu