Jakob Jakobsson arkitekt

Fólk trúir að það geti haft áhrif á sitt nánasta nágrenni

Almenningur vill láta sig skipulagsmál varða, en mörgum þykja þau flókin og óaðgengileg. Fagfólk telur litla háværa hópa stundum hafa of mikil áhrif. Kjarninn ræðir samráð í skipulagsmálum við Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur forstjóra Skipulagsstofnunar.

Sam­ráð í skipu­lags­málum hefur verið nokkuð ofar­lega á baugi í sam­fé­lags­um­ræð­unni upp á síðkast­ið. Í Reykja­vík­ur­borg stendur nú yfir sam­ráðs­ferli um til­lögu að hverf­is­skipu­lagi í Bústaða­hverfi, sem hefur leitt til heitra umræðna. Í Kópa­vogi hefur síðan verið stofnað sér­stakt félag bæj­ar­búa sem segja bæinn fara með offorsi fram við skipu­lagn­ingu nýrrar íbúða­byggðar í Hamra­borg og raunar víð­ar.

Af þessum dæmum má ráða að margir láti sig nærum­hverfi sitt varða og reyni að hafa áhrif á það með þeim leiðum sem til þess eru fær­ar, en ein­ungis lít­ill hluti almenn­ings telur sig þó hafa þekk­ingu á því hvernig sam­ráð við almenn­ing um skipu­lag og umhverf­is­mat fram­kvæmda fer fram, sam­kvæmt nýlegri könn­un, sem Félags­vís­inda­stofnun Háskóla Íslands fram­kvæmdi fyrir Skipu­lags­stofn­un.

Í úttekt sem Félags­vís­inda­stofnun gerði um þetta efni kom einnig fram að fag­fólki og hags­muna­að­ilum í skipu­lags­geir­anum finnst það almennt skipta mjög miklu máli að gefa almenn­ingi kost á að koma á fram­færi athuga­semdum og hug­myndum áður en ákvarð­anir eru teknar um skipu­lag og fram­kvæmd­ir.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar.

Tæp­lega 70 pró­sent þeirra fag­að­ila sem svör­uðu spurn­inga­lista sögðu hins vegar að þeir teldu erfitt fyrir almenn­ing að skilja gögn sem eru lögð fram við skipu­lags­breyt­ingar og umhverf­is­mat fram­kvæmda.

Í frek­ari við­tölum sem tekin voru við fag­að­ila í úttekt Félags­vís­inda­stofn­unar komu þau við­horf fram að ef til vill þyrfti að eiga sér þýð­ing efnis sem varðar skipu­lags yfir á íslenskt „manna­mál“, sam­hliða þýð­ingum yfir á önnur tungu­mál en íslensku fyrir þær tug­þús­undir inn­flytj­enda sem búa á Íslandi.

Ásdís Hlökk Theo­dórs­dóttir for­stjóri Skipu­lags­stofn­unar segir við Kjarn­ann að það sé við­var­andi verk­efni hjá þeim sem standa að skipu­lags­gerð og sam­ráði við almenn­ing að átta sig á því hvernig best verði náð til fólks, með hvaða hætti og á hvaða vett­vangi. „Þetta er sífellt við­fangs­efni, sem og hvernig gögn eru sem skýr­ast og best sett fram, þannig að þau séu áhuga­verð og skilj­an­leg hverjum sem er,“ segir Ásdís Hlökk í sam­tali við blaða­mann.

Hún segir að það sé algjör lyk­il­þáttur í skipu­lags­vinnu sveit­ar­fé­laga að hags­muna­að­ilar og íbúar hafi aðkomu að und­ir­bún­ingi þeirrar byggða­mót­unar sem fer fram, bæði vegna stað­þekk­ingar sem þeir búi yfir og hug­myndum um hvernig hlut­irnir eigi að vera – og svo auð­vitað líka svo þeir geti varið sína hags­muni.

Ásdís Hlökk segir það hafa komið skýrt fram í nið­ur­stöðum Félags­vís­inda­stofn­unar að þrátt fyrir að stór hluti fólks telji sig hafa tak­mark­aða þekk­ingu á því hvernig sam­ráð um skipu­lags­verk­efni fari fram, hafi fólk trú á þeim kerfum sem eru til stað­ar, en fáir svar­endur höfðu þó tekið þátt í sam­ráði.

„Það telur að rödd þeirri eigi að geta heyrst og eigi að geta haft áhrif. Það er áber­andi þegar það er spurt um skipu­lag í þeirra nærum­hverfi. Fólk greini­lega hefur til­trú á að það eigi að geta og geti haft áhrif. En hjá fæstum aðspurðum hefur reynt á það,“ segir Ásdís Hlökk.

Áskorun nútím­ans, segir hún, er að finna heppi­leg­asta vett­vang­inn til þess að ná beint til fólks. Upp­lýs­ingar um skipu­lags­á­ætl­anir og -til­lögur eru birtar til dæmis á vef Skipu­lags­stofn­unar og svo á vef­síðum allra sveit­ar­fé­laga lands­ins, en það er ekki víst að slíkar aug­lýs­ingar nái augum margra.

„Þetta var að mörgu leyti svo miklu auð­veld­ara hér áður fyrr, þegar það var ein sjón­varps­stöð og fjögur flokks­mál­gögn sem komu út dag­lega. Eitt­hvert þeirra rataði inn á öll heim­ili í land­inu, mátti gefa sér, og var flett. En núna er þetta flók­ið, hvar er vett­vang­ur­inn þar sem þú nærð eyrum fólks og augum og athygl­i?“ segir Ásdís Hlökk.

Hún segir að vissu­lega séu skipu­lags­mál flókin í fram­setn­ingu. „Það er hug­taka­heimur þarna sem fólk hefur ekki á tak­tein­un­um,“ segir for­stjór­inn og bætir við að það þurfi að vera mikið af laga­til­vís­unum í form­legum aug­lýs­ingum um skipu­lags­til­lögur „sem virka ekki mjög hvetj­andi eða aðlað­andi fyrir hinn almenna borg­ara.“

Þeir sem setji fram skipu­lags­til­lögur í aug­lýs­ingu geti gætt þess að hafa slíkt ekki í for­grunni, heldur fyrst og fremst það að vekja athygli á því um hvaða stað til­lagan fjallar og hvað hún felur í sér. „Og hvað er verið að bjóða fólki til leiks að gera, er verið að bjóða ykkur að kynna ykkur þetta, eða til sam­tals og ein­hvers­konar áhrifa?“

Allt um skipu­lag og fram­kvæmdir á einum stað

Í sumar voru sam­þykktar laga­breyt­ingar á Alþingi þar sem auk ann­ars var kveðið á um að Skipu­lags­stofnun skuli halda úti vett­vangi sem veiti heild­ar­yf­ir­sýn yfir skipu­lag, umhverf­is­mat og fram­kvæmda­leyfi í land­inu. Þessi nýi vett­vangur hefur verið kall­aður skipu­lags­gátt. Ásdís Hlökk segir hana hugs­aða til að takast á við marga af þeim inn­byggðu veik­leikum sem eru til staðar við kynn­ingu á skipu­lags­málum og umhverf­is­mati fram­kvæmda.

Í gátt­inni eiga borg­arar og aðrir hags­muna­að­ilar að geta nálg­ast bæði til­lögur sem eru í vinnslu og alla opin­bera umfjöll­un, „allar umsagn­ir, öll gögn og allt þvíum­líkt“ sem mál­unum tengj­ast. „Þetta er að mörgu leyti svo­lítið sam­bæri­legt við það sem stjórn­völd og fólk sem teng­ist opin­berri umræðu er farið að þekkja í sam­ráðs­gátt stjórn­valda,“ segir Ásdís Hlökk.

En skipu­lags­gáttin mun einnig verða land­fræði­leg, sem þýðir að það verður bæði hægt að nálg­ast mál í gegnum venju­legt texta­við­mót, en líka í gegnum landa­kort. „Svo þú getur áttað þig á hvað er að ger­ast til dæmis í nánd við þitt heim­ili eða í kringum annan stað á land­inu sem þú vilt fylgj­ast með, sum­ar­bú­stað, átt­haga eða ein­hverjar ger­semar í nátt­úr­unni sem þér er annt um.“

Hug­myndin er sú, segir Ásdís Hlökk, að í gátt­inni verði hægt að vakta mál, eða ákveðin svæði, þannig að til­kynn­ing ber­ist með tölvu­pósti ef verið er að setja ein­hver mál í kynn­ingu á stöðum sem not­and­inn vill fylgj­ast með. Hún seg­ist von­ast til þess að skipu­lags­gátt­in, sem áætl­anir gera ráð fyrir að verði komin í gagnið undir lok næsta árs, verði bylt­ing í því hvernig Íslend­ingar fylgj­ast með fram­gangi skipu­lags­mála.

„Þegar gáttin hefur verið opnuð þarf hún að vinna sér sess á meðal lands­manna, sem þessi vett­vangur þar sem þú getur alltaf leitað þess­ara upp­lýs­inga. Það verður áskorun fyrst í stað að kynna hana,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að hún von­ist til að gáttin „verði svona eins og „covid.is-­stað­ur­inn“ til að fara á, þannig séð, ef þú þarft að vita eitt­hvað um skipu­lag,“ og vísar þar til töl­fræði­vef yfir­valda um kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn sem bæði fjöl­miðlar og almenn­ingur hafa legið yfir löngum stundum und­an­farin miss­eri.

„Þarna er hug­myndin að takast á við þann veru­leika að við erum ekki lengur með flokks­blöðin fjögur og einu sjón­varps­stöð­ina og útvarps­stöð­ina, við erum með þessa ótelj­andi mörgu miðla og vett­vanga sem fólk er á. Við erum að tryggja að það sé einn vett­vangur þar sem þetta er allt á einum stað og aðgengi­legt öll­u­m,“ segir Ásdís Hlökk.

En þrátt fyrir að hún telji að skipu­lags­gáttin verði bylt­ing í upp­lýs­inga­miðlun um skipu­lags­mál og fram­kvæmd­ir, þarf meira að koma til. „Gáttin ein og sér breytir ekki fram­setn­ingu skipu­lags­til­lagna og það er áfram áskorun að gera þau gögn sem aðgengi­leg­ust og læsi­leg­ust og skilj­an­leg­ust fólki,“ segir Ásdís Hlökk og bætir því við að raf­ræn miðlun muni heldur ekki komi í stað mann­legra sam­skipta – skoð­ana­skipti og sam­tal þurfi áfram að geta átt sér stað.

„Sam­ráðs­gátt á vefnum mun aldrei koma í stað­inn fyrir kynn­ing­ar­fundi, opin hús, rýni­hópa og ýmis­legt annað sem þarf að efna til í svona ferli.“

Tími ungs fólks fari í annað en skipu­lags­mál

Það hefur vakið athygli að und­an­förnu að í sam­ráði um hverf­is­skipu­lags­til­lögur í Bústaða- og Háa­leits­hverfi í Reykja­vík hefur Reykja­vík­ur­borg boðað að til standi að setja út net­könnun til að ná til breið­ari hóps en þeirra sem höfðu mætt á opna fundi og lýst and­stöðu við fyr­ir­hug­aðar fram­kvæmd­ir.

Húsfyllir var í safnaðarheimili Kópavogskirkju í liðinni viku er bæjarmálafélagið Vinir Kópavogs var stofnað.
Vinir Kópavogs

„Við ætl­­um að fara af stað með könn­un á næst­unni til að kanna við­horf fólks, því það verður al­­veg að segj­­ast eins og er, þessi við­horf sem kom­in eru fram end­­ur­­spegla ekki alla íbúa. Þetta er fyrst og fremst eldra fólk,“ sagði Ævar Harð­ar­son deild­ar­stjóri hverf­is­skipu­lags borg­ar­innar við mbl.is á dög­un­um.

Ásdís Hlökk segir allir sem sýsli við skipu­lags­mál viti vel að það eru ákveðnir hópar í sam­fé­lag­inu sem auð­veld­ara sé að ná til en ann­arra, er kemur að sam­ráði um mál­in. „Það er vel þekkt að þátt­tak­endur á kynn­ing­ar- og sam­ráðs­fundum fyrir skipu­lags­gerð og umhverf­is­mat er fólk á miðjum aldri og eldra. Það er gjarnan svo­lítil áskorun að ná til yngra fólks og það helg­ast af ýmsu, kannski miðl­un­um, kannski áhuga­sviði og kannski því að ungt fólk, fólk með börn er bara upp­tek­ið. Tími þess er bara tek­inn í ann­að.“

Hún segir skipu­lags­gátt­ina ákveðið skref í að ná jafnar til allra. Það að Ísland sé að verða meira fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag sé líka önnur áskorun og að í til­teknum byggðum lands­ins sér­stak­lega séu stórir hópar íbúa sem ekki séu vel talandi á íslensku.

„Þetta er nýtt við­fangs­efni fyrir okk­ur, en við höfum séð skipu­lags­yf­ir­völd í nágranna­löndum okkar takast á við þetta. Þar er þetta orð­inn veru­leik­inn mikið fyrr. Það þarf að hafa efni aðgengi­legt á fleiri tungu­málum og halda fundi á fleiri tungu­mál­um. Þetta er eitt­hvað sem við erum að byrja að fóta okkur í.“

Stóra við­fangs­efnið að meta rökin sem fram koma

Þegar blásið er til sam­ráðs um skipu­lags­mál ger­ist það gjarnan að mjög háværir hópar eða hags­muna­að­ilar láta mikið að sér kveða og yfir­taka umræð­una um skipu­lags­til­lögur eða fram­kvæmdir á sínum for­send­um. Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar á meðal fag­að­ila voru flestir sem nefndu þetta sem galla við sam­ráð við almenn­ing.

Ásdís Hlökk segir að það sé sífelld áskorun að reyna að haga sam­ráði með þeim hætti að rödd sem flestra nái að heyrast, líka þeirra sem eru valda­minni eða ólík­legri til að hafa sig í frammi – og að til þess séu ákveðin tól til, eins og íbúa­þing, rýni­hópar og kann­an­ir.

„Það eru alls konar aðferðir sem hægt er að beita. Það fer hins vegar eftir stærð og umfangi skipu­lags­verk­efna hversu mikið og flókið sam­ráð er hægt að fara í. Það eru til aðferðir sem fag­fólk á að þekkja til að reyna að vinna gegn því að það séu ein­hverjir sem yfir­taki umræð­una. En það breytir því ekki, ef það eru hópar, litlir eða stór­ir, sem brenna fyrir ein­hverju mál­efni þá mun það heyr­ast sterkt í við­kom­andi skipu­lags­ferli. Og það verður alltaf úrlausn­ar­efni og mats­at­riði við­kom­andi skipu­lags­yf­ir­valda að greina þau sjón­ar­mið sem þarna koma fram,“ segir Ásdís Hlökk.

Að lokum segir for­stjóri Skipu­lags­stofn­unar að það sé kannski alltaf stóra við­fan­gefn­ið, við ákvað­ana­töku í skipu­lags­mál­um, að greina hvað er sag­t, en ekki hver segir það. „Og í raun­inni, hvað er sagt en ekki endi­lega hversu margir segja það.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent