Mynd: Bára Huld Beck Steingrímur J. Sigfússon
Mynd: Bára Huld Beck

Forseti Alþingis á hlut í Marel en skráði hann ekki í hagsmunaskrá vegna „athugunarleysis“

Steingrímur J. Sigfússon hefur um margra ára skeið átt hlut í Marel og eign hans í félaginu er nú metin á sjö milljónir króna. Hann skráði þá eign ekki í hagsmunaskrá þingsins fyrr en nýverið. Alls eiga fimm þingmenn hlutabréf í Icelandair Group. Á meðal þeirra hefur líka verið sleifarlag á hagsmunaskráningu.

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Alþingis og fyrr­ver­andi for­maður Vinstri grænna, er sá þing­maður sem á verð­mætastan hlut í skráðu félagi á Íslandi. Alls á Stein­grímur 7.900 hluti í Marel sem eru um sjö milljón króna virð­i. 

Þing­menn þurfa að gera grein fyrir ákveðnum eignum sínum í hags­muna­skrán­ingu þeirra. Á meðal þeirra eigna er hluta­fjár­eign þar sem verð­mæti hlutar nemur að mark­aðsvirði meira en einni milljón króna miðað við 31. des­em­ber ár hvert.

Rann­sókn Kjarn­ans sýnir að Stein­grímur hafði ekki gert grein fyrir hluta­fjár­eign sinni í hags­muna­skránni um miðjan síð­asta mánuð – nánar til­tekið 18. maí 2021 – þrátt fyrir að virði hlutar hans í Marel sé vel umfram það við­mið um mark­aðsvirði sem reglur um hags­muna­skrán­ingu segja til um.

Síðan þá hefur hags­muna­skrá Stein­gríms verið upp­færð – það var gert 23. maí 2021 – og þar kemur nú fram að hlutur hans í Marel sé 7,1 milljón króna virði. Kjarn­inn sendi fyr­ir­spurn á Stein­grím og spurði hvort hann hefði keypt hlut­ina í Marel í vor.

Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um málið segir Stein­grímur að hann hafi átt lít­ils háttar hlut í Marel í árarað­ir, allt frá því að það var upp­renn­andi sprota­fyr­ir­tæki sem hann hafði mikið álit á og vildi styðja. „Sú eign mín var opin­ber og aðgengi­leg á heima­síðu VG um ára­bil, en þar gerðum við þing­menn og sveit­ar­stjórn­ar­full­trúar flokks­ins grein fyrir okkar hags­muna­tengslum löngu áður en slíkt var skylt sam­kvæmt lög­um.“

Auglýsing

Síðan hafi það gerst hvort tveggja að eign­ar­hlutur hans í Marel jókst tals­vert og að gengið á félag­inu hafi tekið sprett. „Þar kom að mér bar að færa það inn í hags­muna­skrán­ingu mín sem þing­manns. Á því varð reyndar nokkur dráttur sökum athug­an­ar­leysis af minni hálfu, en sem nú hefur verið úr bætt fyrir nokkru.“

Stein­grímur seg­ist telja að hann geti full­yrt að mál­efni Marel hafi aldrei borið upp sér­tækt á þingi, né á neinn hátt annan þannig að hann hafi þar haft aðkomu að.

Vildi taka það til alvar­legrar skoð­unar ef skrán­ingu yrði ekki sinnt

For­sætis­nefnd Alþingis sam­þykkti reglur um hags­muna­skrán­ingu þing­manna í mars 2009. Á meðal þeirra reglna sem sam­þykktar voru þá, og gilda áttu frá 1. maí sama ár, var að þing­mönnum var gert að skrá hluta­bréfa­eign þar sem verð­mæti hlutar væri að mark­aðsvirði yfir einni milljón króna.

Stein­grímur átti alls 4.100 hluti í Marel að nafn­virði árið 2006 sam­kvæmt hags­muna­skrán­ingu á heima­síðu Vinstri grænna á þeim tíma. Í des­em­ber 2008 átti hann hins vegar 7.900 hluti, eða sama magn og hann á nú. Það liggur því fyrir að nafn­virði hluta Stein­gríms í Marel hefur verið hið sama frá því að reglur um hags­muna­skrán­ing­una voru inn­leiddar fyrir tólf árum síð­an.

Virði hluta í Marel hefur stór­auk­ist á und­an­förnum árum og þeir sem eiga hluta­bréf í félag­inu hafa ávaxtað pund sitt vel. Mark­aðsvirði þess hlutar sem Stein­grímur á fór yfir eina milljón króna á árinu 2014 og hefur hald­ist yfir því virði alla tíð síð­an. Virðið fór því yfir það við­mið sem kallar á hags­muna­skrán­ingu sjö árum áður en að Stein­grímur skráði hlut­inn. Virði hlut­ar­ins var, líkt og áður sagði, 7,1 milljón króna í lok síð­asta árs og er nú um 6,7 millj­ónir króna.

Stein­grímur hættir á þingi í haust eftir að hafa setið þar sleitu­laust frá árinu 1983. Hann hefur oft tekið þátt í umræðum um hags­muni þing­manna úr pontu. Eitt slíkt skipti átti sér stað 13. apríl 2016, í kjöl­far þess að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra eftir að Pana­ma-skjölin höfðu opin­berað að hann hefði átt aflands­fé­lagið Wintr­is. 

Þann dag tók Svan­dís Svav­ars­dótt­ir, sam­flokks­maður Stein­gríms og nú heil­brigð­is­ráð­herra, til máls undir liðnum fund­ar­stjórn for­seta og óskaði eftir svörum við til­teknum spurn­ingum sem lúta að túlkun þing­manna á reglum um hvernig skrá skuli hags­muni þing­manna. 

Síðar í umræð­unni tók Stein­grímur til máls og sagði meðal ann­ars að ef upp kæmu „rök­studdar grun­semdir um brot á réttri skrán­ingu þá verður að taka það til alvar­legrar skoð­un­ar, rann­saka það, því að ann­ars væru regl­urnar merk­ing­ar­lausar — ef það gerð­ist ekk­ert — ef fyrir lægi að þing­menn, ég tala nú ekki um ráð­herr­ar, hefðu ekki sinnt réttri skrán­ingu. Þessar reglur eru í eðli sínu lág­marks­regl­ur. Það liggur í hlut­ar­ins eðli. Það er ekk­ert sem bannar þing­mönnum að veita ítar­legri upp­lýs­ingar eins og við þing­menn VG höfum gert frá byrj­un, frá stofnun þess flokks. Á heima­síðu flokks­ins höfum við birt miklu ítar­legri upp­lýs­ingar um tekjur okk­ar, eignir og hags­muna­tengsl.“

Þegar Stein­grímur flutti þessa ræðu hafði virði bréfa hans í Marel verið yfir einni milljón króna í tvö ár og var tæp­lega tvær millj­ónir þennan dag í apríl 2016.

Hægt er að sjá ræðu Stein­gríms hér að neð­an.

Fimm eiga í Icelandair Group

Jón Gunn­ars­son, þing­maður og rit­ari Sjálf­stæð­is­flokks­ins, á hluta­bréf í fjórum skráðum félögum í eigin nafni, sem voru í upp­hafi þessa mán­aðar verð­metin á hátt í fjórar millj­ónir króna. Tveir hlutir í eigu Jóns eru meira en milljón króna virði, ann­ars vegar í Icelandair og hins vegar í sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­inu Brimi.

Auglýsing

Einnig er Jón skráður hlut­hafi í Arion banka og Reit­um, sam­kvæmt síð­ustu sam­stæðu­reikn­ingum þess­ara félaga, en vert er að taka fram að síð­asti útgefni sam­stæðu­reikn­ingur Reita er frá 2019. Þeir hlutir eru minna en milljón króna virði.

Stundin greindi nýverið frá því að Jón hefði ekki skráð hluta­bréfa­eign sína í Icelandair Group í hags­muna­skrá í sam­ræmi við gild­andi regl­ur. Sömu sögu er að segja um eign hans í Brim­i. 

Frá því að frétt Stund­ar­inn­ar, sem birt­ist 31. maí síð­ast­lið­inn, fór í loftið hefur Jón bætt úr þessu og eign hans í félög­unum tveimur er nú til­greind í hags­muna­skránni. Þar kemur hins vegar ekki fram hvert virði eign­anna sé. Hann sagði í sam­tali við mið­il­inn að um yfir­sjón hefði verið að ræða að hans hálf­u. 

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og ritari flokksins.
Mynd: Bára Huld Beck

Í frétt Stund­ar­innar var einnig greint frá því að Inga Sæland, for­maður Flokks fólks­ins, hefði sömu­leiðis ekki skráð eign sína í Icelandair Group í sam­ræmi við gild­andi regl­ur. Inga sagð­ist hafa keypt hlut í Icelandair vorið 2020 og að hún hafi þynnst niður í hluta­fjár­aukn­ingu Icelandair Group í sept­em­ber í fyrra. 

Fleiri þing­menn eiga hlut í Icelandair Group en þau Jón og Inga. Njáll Trausti Frið­berts­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks og nýr odd­viti flokks­ins í Norð­aust­ur­kjör­dæmi, átti 800 þús­und hluti í félag­inu sem voru um 1,3 milljón króna virði í lok árs í fyrra. Sú eign er og hefur verið skráð und­an­farna mán­uði, en Njáll hafði ekki skráð neina eign í Ícelandair Group í hags­muna­skrán­ingu í nóv­em­ber í fyrra. 

Flugfélagið Icelandair Group er vinsælt á meðal þingmanna sem eiga hlutabréf.
Mynd: Facebook-síða Icelandair

Krist­ján Þór Júl­í­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra og þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks, á svo 100.000 hluti í Icelandair Group sem voru 164 þús­und króna virði um síð­ustu ára­mót, og þar af leið­andi undir þeim mörkum sem þarf að skrá. Guð­jón S. Brjáns­son, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar átti líka lít­inn hlut í Icelandair Group um síð­ustu ára­mót, alls 13 þús­und hluti sem metnir voru á rúm­lega 21 þús­und krón­ur. 

Ný lög leiddu til birtingar á hluthafalistum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um ársreikninga í fyrra sem átti að stuðla að auknu gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi og tóku lögin svo gildi í upphafi árs 2021.

Á meðal þess sem lögin leiddu af sér var að öll skráð félög á hlutabréfamarkaði þurftu, í fyrsta sinn, að birta heildarhluthafalista sína opinberlega í samstæðureikningum sem þau skiluðu inn til ársreikningaskrár. Áður hafði einungis verið hægt að sjá hverjir 20 stærstu eigendur hvers félags voru. Því var um mikla breytingu að ræða.

Önnur breyting sem varð þegar lögin tóku gildi er sú að aðgangur að ársreikningum er gjaldfrjáls á vef Ríkisskattstjóra. Því var, allt í einu, hægt að nálgast upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni þúsunda einstaklinga, þar án greiðslu.

Á undanförnum árum hafa verið stigin skref í sem skylda ákveðna hópa til að skrá skilgreinda hagsmuni sína og gera þá skráningu opinbera. Tilgangur þess er að auka traust í samfélaginu. Þannig þurfa þingmenn, sumir sveitarstjórnarmenn og embættismenn til dæmis að gera grein fyrir ákveðnum eignum sínum í hagsmunaskráningu. Þar á meðal er hlutafjáreign. Til viðbótar liggur fyrir að aðrir, til dæmis blaða- og fréttamenn, geta skapað hagsmunaárekstra með því að eiga hlut í skráðum félögum sem þeir svo fjalla um í starfi sínu.

Kjarninn hefur undanfarnar vikur greint þá hluthafalista sem birti voru í samstæðureikningum skráðra félaga með það fyrir augum að ganga úr skugga hvort settum reglum um hagsmunaskráningu sé fylgt, og hvort mögulegir hagsmunaárekstrar séu til staðar.

Telur birt­ing­una fara gegn lögum

Ekki er víst hvort heild­ar­hlut­haf­alist­arnir sem not­aðir voru til að finna hluta­bréfa­eign þing­manna verði aðgengi­legir í langan tíma, en líkt og Kjarn­inn fjall­aði um á dög­unum telur Per­sónu­vernd birt­ingu þeirra fara gegn lög­um.

Í áliti sem stofn­unin birti í þar­síð­ustu viku segir að orða­lag laga­breyt­ing­anna feli að óbreyttu ekki í sér nægi­lega skýra heim­ild til birt­ing­ar­lista yfir alla hlut­hafa félaga sem undir lögin falla með árs­reikn­ingum þeirra. Þess má geta að árið 2018 fetti stofn­unin fingur út í það að Kaup­höllin sjálf birti reglu­lega upp­færðar upp­lýs­ingar um 20 stærstu hlut­hafa skráðra félaga á vef sín­um.

Per­sónu­vernd lagði fyrir rík­is­skatt­stjóra að láta af slíkri birt­ingu upp­lýs­inga innan mán­aðar frá ákvörð­un­inni, það er að segja fyrir 18. júlí næst­kom­andi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar