Fóru inn í tölvupósta Sólveigar Önnu og Viðars
Þá starfandi formaður Eflingar hafði aðgang að tölvupósthólfum fyrirrennara síns, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, og fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, Viðars Þorsteinssonar, frá því í janúar á þessu ári og fram í apríl. Aðgangurinn var virkur eftir að Sólveig Anna var endurkjörin sem formaður Eflingar og eftir að hún tók aftur við því embætti. Í álitsgerð lögmanns segir að athæfið sé brot á persónuverndarlögum og Sólveig Anna ætlar að tilkynna málið til Persónuverndar.
Agnieszka Ewa Ziólkowska, þá starfandi formaður Eflingar, óskaði þann 11. janúar 2022 eftir því að fá aðgang að tölvupósthólfum Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem hafði hætt sem formaður stéttarfélagsins í nóvember 2021, og Viðars Þorsteinssonar, sem hafði hætt sem framkvæmdastjóri Eflingar á sama tíma. Í tölvupósti sem hún sendi til upplýsingatækniþjónustuaðila Eflingar stóð: „Can you setup for með the access to Sólveig and Viðar email? It should be connected to my outlook account.“
Til stuðnings beiðninni var vísað í álit lögmanns sem var dagsett sama daga. Í álitinu hafði umræddur lögmaður svarað spurningu Ólafar Helgu Adolfsdóttur, þáverandi varaformanns Eflingar, um hvort stjórnendur félagsins hefðu „leyfi til að fara inn í tölvupóstana þeirra eða þurfum við að fá leyfi frá þeim til þess?“. Svar lögmannsins var að þau hefðu „til þess leyfi, þ.e. til þess að nálgast tölvupósta sem tilheyra félaginu.“
Sá sem meðtók beiðnina hjá upplýsingatækniþjónustuaðila Eflingar hafnaði beiðninni. Hún var hins vegar endurnýjuð degi síðar og þá með vísun í álit lögmanns Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem jafnframt er persónuverndarfulltrúi Eflingar.
Í kjölfar þessa var tölvupósthólf bæði Sólveigar Önnu og Viðars hjá Eflingu tengt við tölvupóstkerfi Agniezku. Tölvupóstur þeirra var því opinn til vinnslu fyrir hana að minnsta kosti frá 12. janúar til 13. apríl 2022, samkvæmt upplýsingum frá upplýsingatækniþjónustuaðilanum, án þess að nokkrar hömlur væru á aðgengi Agniezku að pósthólfunum og án þess að Sólveig Anna og Viðar vissu að því að aðgengið hefði verið veitt.
Á þessu tímabili, nánar tiltekið 15. febrúar, var Sólveig Anna endurkjörin sem formaður Eflingar eftir baráttu við lista sem Ólöf Helga leiddi. Hún tók aftur við stjórnartaumunum 8. apríl 2022. Því var tölvupósthólf hennar opið Agniezku í tæplega tvo mánuði eftir að Sólveig Anna var endurkjörin og í að minnsta kosti fimm daga eftir að hún tók við sem formaður Eflingar á ný þann 8. apríl síðastliðinn.
Þetta kemur fram í álitsgerð sem lögmaður vann fyrir Eflingu og er dagsett í gær, 5. október. Kjarninn hefur álitsgerðina undir höndum.
Í niðurstöðu álitsgerðarinnar segir lögmaðurinn það vera skoðun sína að brotið hafi verið gegn rétti Sólveigar Önnu og Viðars „við vinnslu persónuupplýsinga úr tölvupósthólfi þeirra, þegar starfandi formanni Eflingar var veitt óheft aðgengi að pósthólfi fyrrverandi starfsmanna Eflingar.“ Hann gerir líka sérstaka athugasemd við ákvörðun persónuverndarfulltrúa Eflingar þar sem hann úrskurðar um lögmæti þeirrar vinnslu sem farið var fram á, enda hafi hann aukið líkur á hagsmunaárekstrum með því að taka beina ákvörðun um vinnsluna án þess að rannsaka hvort vinnslan væri lögmæt. „Þannig hafi hann útilokað að hann gæti tekið ákvörðun síðar um lögmæti vinnslunnar ef hinn skráði myndi kvarta til hans vegna vinnslunnar.“
Það sé því mat lögmannsins að tilkynna eigi málið til Persónuverndar. Þá sé rétt að Efling yfirfari verklag sitt vegna meðferðar tölvupósts starfsmanna og setji upp skýrt og og upplýsandi verklag í samræmi við lög og reglur um persónuvernd.
Komust að málinu fyrir tilviljun
Í tölvupóstunum voru ýmsar persónu- og trúnaðarupplýsingar um bæði Sólveigu Önnu og Viðar og ekki síður um ýmsa einstaklinga sem sett höfðu sig í samband við þau frá vorinu 2018, þegar þau hófu störf hjá Eflingu.
Sólveig Anna segir að hún hafi komist að því að farið hafi verið inn í tölvupóstinn hennar fyrir tilviljun. „Á stjórnarfundi í Eflingu 22. september vitnaði Ólöf Helga í tölvupóstsamskipti milli mín og Drífu Snædal. Ég og aðrir urðum hálf undrandi og spurðum hvernig hún vissi hvað ég hefði verið að skrifa í tölvupóstsamskiptum við Drífu? Það kemur á hana og Ólöf Helga segist ekkert þurfa að segja okkur það.“
Sólveig Anna segir að hún hafi ekki hugsað meira um málið á þessum tímapunkti heldur einfaldlega dregið þá ályktun að Ólöf Helga og Drífa hefðu verið í miklum samskiptum í fyrravetur.
Fyrir viku síðan hafi hún, ásamt starfsmanni Eflingar, þurft að nálgast gögn á skrifstofu varaformanns Eflingar, Agnieszku Ewu. Þar hafi meðal annars verið öll frumrit af kjarasamningum, ráðningarsamningar við starfsfólk og fleira. Þegar verið var að fara í gegnum vinnutengd skjöl hafi Sólveig Anna fundið útprentaða tölvupósta frá sér sem sendir voru frá 20 til 25. október 2020. „Þetta voru tölvupóstar milli mín og tveggja starfsmanna sem hvorugir eru Agnieszka. Þetta var útprentað og ég verð mjög undrandi.“
Degi síðar hafði hún samband við umsjónaraðila upplýsingatæknimála hjá Eflingu og spurði hvort það gæti verið að Agnieszka hefði fengið aðgang að tölvupósti sínum. Á endanum fékk hún þau svör að svo hafi verið og að einnig hafi verið veittur aðgangur að tölvupósti Viðars Þorsteinssonar.
Sent á alla meðlimi miðstjórnar ASÍ
Sólveig Anna segir að eftir að hún sagði af sér í fyrrahaust hafi bæði hún og Viðar afhent öll gögn sem tilheyrðu Eflingu. Þar á meðal voru vinnutengd gögn á USB-lyklum. Samhliða fengu þau tækifæri til að sækja persónulega muni á starfsstöð Eflingar. Samhliða hafi hún látið loka aðgangi sínum að ýmsum kerfum og spurt sérstaklega hvað myndi gerast ef einhver myndi reyna að komast inn í tölvupósthólfið hennar. „Ég fékk þau svör að það myndi ekki gerast, og ef það gerðist væri um grafalvarlegt persónuverndarmál að ræða.“
Að sögn Sólveigar Önnu hefur verið tekin ákvörðun um að tilkynna málið til Persónuverndar á næstu dögum. Hún segist ekki vera viss um hvað annað hún ætli að gera vegna þessa. „Ég er ekki komin þangað.“
Málið var rætt á miðstjórnarfundi í ASÍ í gær að frumkvæði Sólveigar Önnu. Á meðal þeirra sem sitja í miðstjórn er Agnieszka, en hún mætti ekki á fundinn.
Eftir að fundinum lauk sendi Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður ASÍ, tölvupóst á alla miðstjórnarmeðlimi sem innihélt svar sem lögfræðingur ASÍ hafði sent 12. janúar til Ólafar Helgu þegar hún óskaði eftir áliti um hvort fara mætti inn í tölvupósta Sólveigar Önnu og Viðars.
Í þeim tölvupósti segir lögfræðingurinn að sitt álit sé „eftir að búið er að gefa þeim færi á að fara yfir pósthólfið (sem og þau gerðu) þá er restin eign félagsins og ber félaginu í raun skylda til þess að passa upp á þau gögn svo að mál ónýtist ekki o.s.frv. Að sjálfsögðu gilda ennþá reglur persónuverndar og friðhelgis um þær persónugreinanlegu upplýsingar sem þar er að finna, hvort sem um er að ræða upplýsingar er varðar þau sjálf eða einhverja aðra. Með vísan í allt framangreint tel ég enga þörf með vísan í viðeigandi réttarheimildir að fá leyfi frá fyrrverandi formanni og framkvæmdastjóra um aðgang að gögnum sem eru eign félagsins. Það er mitt álit sem bæði lögmaður hjá ASÍ og sem persónuverndarfulltrúi Eflingar-stéttarfélags.“
Segist bundin trúnaði
Kjarninn hafði samband við Ólöfu Helgu vegna málsins en hún er í dag ritari stjórnar Eflingar. Hún sagðist lítið geta sagt um málið þar sem hún væri ekki búin að kynna sér það í þaula og væri auk þess bundin trúnaði. „Þetta er mál sem ég get ekki talað um, ég er bundin trúnaði um það sem ég geri sem varaformaður þannig ég get hvorki talað um hvort þetta sé rétt eða ekki.“
Ólöf Helga var varaformaður Eflingar á umræddu tímabili, frá janúar fram í apríl á þessu ári. Þegar henni var sagt að Sólveig Anna ætlaði að leita til Persónuverndar vegna málsins sagði Ólöf Helga það vera gott hjá henni. „Það er bara frábært. Það er mjög eðlilegt að hún leiti til þess bærra aðila ef hún telur að eitthvað brot hafi átt sér stað, ég held að það sé bara mjög gott hjá henni, mjög mikilvægt skref.“
Kjarninn reyndi að ná tali af Agnieszku í morgun en hún gat ekki rætt við blaðamann á þeim tíma og sagðist ætla að hringja til baka. Hún hafði ekki haft samband þegar fréttaskýringin var birt.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
26. desember 2022Árið 2022: Húsnæðismarkaðurinn át kaupmáttinn
-
23. desember 2022Íslensk veðrátta dæmd í júlí
-
22. desember 2022Verðbólgan upp í 9,6 prósent – Einungis tvívegis mælst meiri frá 2009
-
21. desember 2022VR búið að samþykkja kjarasamninga – 82 prósent sögðu já
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
19. desember 2022Kjarasamningur SGS samþykktur hjá öllum 17 aðildarfélögunum
-
18. desember 2022Kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki dregist jafn mikið saman í næstum tólf ár