Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 12. desember 2021.
Í ágúst árið 1937 greindu íslenskir fjölmiðlar (dagblöð og útvarp) frá því að Landsíminn hefði fest kaup á talvél frá sænska fyrirtækinu L.M. Ericsson. Þegar hringt yrði í tiltekið símanúmer (03) myndi rödd umsvifalaust tilkynna hvað klukkan væri. Þetta þóttu mikil tíðindi. Í nóvember þetta sama ár mátti lesa í dagblöðunum að Fröken Klukka, sem líka var kölluð Ungfrú Klukka, væri tekin til starfa. Halldóra Briem, sem þá stundaði nám í Svíþjóð, léði klukkunni rödd sína. Í umfjöllun Nýja Dagblaðsins mátti lesa að rödd ungfrú Halldóru væri bæði fögur og hrein og hún, ungfrúin, myndi vafalaust verða vinsæl meðal Reykvíkinga. Halldóra, sem var fyrst íslenskra kvenna til að læra arkitektúr bjó og starfaði í Svíþjóð að námi loknu en hún lést árið 1993, áttræð að aldri.
Frönsk uppfinning
Fyrsta talvélin var fundin upp í Frakklandi árið 1933. Tækið vakti mikla athygli og sérfræðingar símafyrirtækja í mörgum löndum lágu yfir þessu nýja tækniundri. Svíar voru fljótir að notfæra sér þessa nýju tækni og þar tók Fröken Ur til starfa árið 1934. Curt Ahlberg verkfræðingur hjá L.M.Ericsson í Stokkhólmi endurbætti árið 1936 frönsku uppfinninguna. Það var í höfuðstöðvum L.M.Ericsson sem áðurnefnd Halldóra Briem las inn á talvélina. Lesa þurfti inn 90 mismunandi upptökur, 24 klukkustundatölur, 60 mínútutölur og sex sekúndutölur, eina fyrir hverjar tíu sekúndur. Samtals 90 upptökur sem talvélin, með sinni tækni, gat spilað í 8640 mismunandi útgáfum. Það er athyglisvert að aðeins voru fjögur ár frá því að talvélstæknin var fundin upp þangað til Halldóra Briem gat upplýst Reykvíkinga um hvað tímanum liði.
Vinsæl og mikið notuð
Spá Nýja Dagblaðsins um vinsældir klukkunnar og ungfrú Halldóru reyndust réttar. Reykvíkingar kunnu sannarlega að notfæra sér að geta með einu símtali fengið að vita hvað klukkan væri. Sem dæmi um vinsældir Fröken Klukku má nefna að árið 1953 hafði hún svarað 22 milljónum upphringinga, það samsvarar um það bil hálfri annarri milljón á ári. Eitt dagblaðanna nefndi að meðal þeirra sem hvað ánægðastir voru með þjónustu Fröken Klukku á fyrstu „starfsárum“ hennar væru lögregluþjónar, úrsmiðir og slökkviliðsmenn, sem alltaf, eins og blaðið komst að orði, var verið að spyrja hvað klukkan væri.
Ekki gátu allir landsmenn tekið upp tólið og hringt í frökenina. Sá lúxus var í fyrstu bundinn við Reykjavík, sem einn staða hafði sjálfvirkan síma (kom 1932). Næst í sjálfvirku símaröðinni var Akureyri, árið 1950.
Þrjár konur, einn karl, fjögur símanúmer
Eins og áður var getið var það Halldóra Briem sem var fyrsta rödd Frökenar Klukku. Árið 1963 var upphaflegu glerplötunum sem geymdu hljóðið skipt út og samtímis skipti Fröken Klukka um rödd. Nú var það rödd Sigríðar Hagalín leikkonu sem upplýsti þann sem hringdi um réttan tíma. 1993 var enn skipt um búnað og rödd, sú nýja var rödd Ingibjargar Björnsdóttur leikkonu. Árið 2013 heyrðist í fyrsta skipti karlmannsrödd svara þegar hringt var í klukkuna, sú rödd tilheyrir Ólafi Darra Ólafssyni. Hann situr enn við símann, ef svo mætti að orði komast. Fröken Klukka er því orðin karlmaður.
Í upphafi var númerið hjá Fröken Klukku 03, síðar breyttist það í 04, enn síðar í 155 en í dag er númerið 511 0155. Þrátt fyrir tækninýjungar er íslenska klukkuþjónustan sem sé enn til staðar þótt þörfin fyrir hana sé ekki sú sama og áður fyrr.
Frøken Klokken
Árið 1939 hafði danska símafélagið Kjøbenhavns Telefon Aktie-Selskab, KTAS, keypt talvél hjá L.M.Ericsson. Ung kona, Anna Sommer -Jensen las þá inn á vélina í höfuðstöðvum L.M.Ericsson í Stokkhólmi. Danska útvarpið, Statsradiofonien (eins og það hét þá) hóf starfsemi árið 1925 og hafði frá upphafi sent út morsmerki á heilu tímunum, þegar fréttir voru sagðar. Fimm stutt „dut“ og eitt langt. Þegar Frøken Klokken kom til sögunnar hætti danska útvarpið að senda út morsmerkið en rödd Anna Sommer-Jensen tilkynnti Dönum oft á dag hvað tímanum liði, í upphafi frétta.
Árið 1970 var talvélinni frá 1939 skipt út og á sama tíma skipti Frøken Klokken um rödd og heyrðist nú aðeins einu sinni á dag í útvarpinu: í upphafi útvarpsfrétta klukkan átta að morgni. Nýja röddin tilheyrði Marianne Germer, sem um nokkurra ára skeið hafði verið þulur í danska útvarpinu. Í desember 1991 hætti rödd Frøken Klokken að heyrast í útvarpinu en áfram en áfram var vitaskuld hægt að hringja í 0055 og fá að vita, nákvæmlega, hvað klukkan væri.
Nú hefur Frøken Klokken lagt á, í síðasta sinn
Frøken Klokken, Fröken Klukka, Fröken Ur og hvað þær nú hétu allar komu í góðar þarfir á sínum tíma. En nú eru breyttir tímar, langflestir með farsíma í vasanum, eða á handleggnum og úr sem ganga rétt kosta lítið og fást víða.
Danska Frøken Klokken hætti að svara á miðnætti 30. nóvember sl. Í Noregi var hætt að bjóða upp á þjónustuna árið 2007, Fröken Ur í Svíþjóð svarar enn, Finnar hafa getað hringt í klukkuna frá árinu 1936 og fá enn svar og hér á Íslandi svarar klukkan þegar hringt er í númerið sem nefnt var framar í þessum pistli, 511 0155.