Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru skömmu fyrir þrjú á föstudag, í karphúsinu, eftir átakamiklar viðræður mánuðum saman, fela í sér stórt og mikið veðmál um að miklir uppgangstímar séu framundan í íslensku efnahagslífi. Um það er viðmælendur Kjarnans sammála, en fyrirtækin eru sum hver þegar byrjuð að greina áhrifin. Bjartsýni ríkir þó um að fyrirtæki mun nú taka höndum saman um að reyna að vernda kaupmátt, og fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar. Þorsteinn Víglundsson, framvæmdastjóri SA, segir að það sem mestu skipti sé að vernda kaupmáttinn og þann árangur sem náðst hefur að undanförnu.
Samninganefndir Flóabandalagsins, StéttVest, Starfsgreinasambandsins, VR og Landsambands íslenskra verslunarmanna undirrituðu kjarasamningana við SA.
Skrifað verður undir þrjá mismunandi samninga, kjarasamninga VR og LÍV, kjarasamninga SGS og kjarasamninga Flóabandalagsins.
Samningarnir ná til meira en 65 þúsund vinnandi einstaklinga. Lægstu launataxtar VR hækka um 31,1% eða kr. 64.208 á samningstímanum. Lágmarkstekjur verða 300 þúsund krónur á mánuði frá maí árið 2018, en forsendur fyrir samningnum eru meðal annars að hann verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamningagerð á vinnumarkaði og að kaupmáttur aukist. Ekki sér til lands í deilum ríkisins og BHM, en viðræðum hefur nú verið slitið. Verkfallsaðgerðir hjá BHM halda því áfram, og hjá rúmlega tvö þúsund starfandi hjúkrunarfræðingum, en eins og forsendur kjarasamningana benda til þá vilja stjórnvöld að nýgerður kjarasamningur á almennum vinnumarkaði verði leiðarstefið í viðræðum við BHM. Þetta sættir samninganefnd BHM sig ekki við og vill öðru fremur að aukin menntun verði metin til hærri launa.
Verða að tala varlega
Kristín Friðgeirsdóttir, stjórnarformaður Haga, sagðist í samtali við Kjarnann í gær ekki geta tjáð sig um hvernig kjarasamningarnir horfðu við henni, og hvaða áhrif þeir kynnu að hafa á rekstur og verðlagningu hjá Högum, sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup. Ástæðan er sú að Hagar er skráð á markað, og því þurfi að tala varlega um þessi mál. Jafnframt sagði hún að stjórn og stjórnendur Haga hefðu gert ráð fyrir hóflegum launahækkunum, en nú tæki við að meta áhrif samningana á reksturinn.
Uppgangur forsenda þess að þetta gangi upp
Forsendan fyrir því að „hlutirnir gangi upp“ eins og einn viðmælenda komst að orði, er að launahækkanirnar leiði ekki til þess að verðbólgudraugurinn fari á stjá og vextir hækki það mikið, að allir hópi tapi. Til þess að þett geti orðið raunin þurfi uppgangstímar að taka við í hagkerfinu, sem stuðli að auknum kaupmætti. Eins og stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa ítrekað bent á, ekki síst Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur og Már Guðmundsson seðlabankastjóri, þá er djarflega teflt með þessum kjarasamningum þar sem ekki er víst að hagkerfið muni standa undir launahækkunum til lengdar litið, ef ekki kemur til umtalsverð framleiðniaukning frá því sem nú er.