Mynd: Samsett/Eyþór Árnason

Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna

Eitt verst geymda leyndarmál í íslenskum stjórnmálum er að Guðlaugur Þór Þórðarson hefur metnað til þess að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. Á síðustu vikum hefur ýmislegt gerst sem leitt hefur til þess að hann þarf að taka ákvörðun um hvort taki slaginn við Bjarna Benediktsson.

Það er raun­veru­legur mögu­leiki á því að for­manns­slagur verði í stærsta flokki lands­ins, Sjálf­stæð­is­flokki, á lands­fundi hans fyrstu helg­ina í nóv­em­ber. Verði af honum munu takast á tvær fylk­ingar sem hafa átt í inn­byrðis átökum um ítök og áhrif árum sam­an, án þess að hafa barist á um æðstu emb­ættin í flokkn­um.

Um er að ræða þá fylk­ingu sem fylgir Guð­laugi Þór Þórð­ar­syni, umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráð­herra, að málum og þá sem hverf­ist í kringum Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og for­mann Sjálf­stæð­is­flokks­ins frá árinu 2009. 

Það er eitt verst geymda leynd­ar­mál íslenskra stjórn­mála að Guð­laugur Þór hefur lengi haft metnað til þess að verða for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Fylk­ing hans hefur tek­ist hart á við hina þegar valið hefur verið á fram­boðs­lista flokks­ins í síð­ustu tveimur borg­ar­stjórn­ar­kosn­ingum og í próf­kjör­inu fyrir síð­ustu þing­kosn­ing­ar. Færa má rök fyrir því að fylk­ing Guð­laugs Þór hafi sigrað í tveimur af þeim lot­um, fyrir kosn­ing­arnar 2018 og 2021, og haft ívið betur í þeirri þriðju, þegar próf­kjör ákvað lista flokks­ins fyrir síð­ustu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar.

Þeir unnu gegn mér, þeir töp­uðu

Þessi átök hafa senni­lega aldrei opin­ber­ast jafn skýrt og í ræðu sem Guð­laugur Þór hélt fyrir stuðn­ings­menn sína eftir að hafa haft betur í próf­kjörs­slag við Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dóttur í Reykja­vík í aðdrag­anda síð­ustu þing­kosn­inga. Í þeim slag náði Guð­laugur Þór að verða odd­viti flokks­ins í höf­uð­borg­inni og helsti póli­tíski sam­herji hans, Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, náði þriðja sæt­inu á kostnað Hildar Sverr­is­dótt­ur, sem er hluti af fylk­ingu flokks­for­yst­unnar líkt og Áslaug Arna. 

Í ræð­unni sagði Guð­laugur Þór meðal ann­ars að mark­visst hefði verið unnið gegn sér í próf­­kjör­inu. „Þið skulið alveg átta ykkur á því að við höfum kannski haldið að þetta væri til­­­tölu­­lega ein­falt að því leyt­inu til að sá sem hér stendur hefur mælst vin­­sæl­­asti ráð­herra Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins, eini Sjálf­­stæð­is­­mað­­ur­inn sem hefur unnið erf­ið­asta kjör­­dæmi okk­­ar, Reykja­vík norð­­ur, ekki einu sinni, heldur þrisvar. Samt sem áður var lögð ein­hver gríð­­ar­­lega mikil áhersla á það að sjá til þess að sá sem hér stend­­ur, og það er ekki bara ég, heldur þið, myndi ekki fá að vera áfram odd­viti. Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töp­uð­u.“

Engum dylst að „þeir“ sem unnu gegn Guð­laugi Þór og töp­uðu eru fylk­ingin sem studdi Áslaugu Örnu, og styður Bjarna Bene­dikts­son. Á meðan að hann flutti ræð­una heyrð­ust stuðn­­ings­­menn kalla „los­­aðu þig við Bjarna“ og kalla til Guð­laugs Þórs: „for­­mað­­ur­inn“.

Margir bjugg­ust við því að Bjarni væri að stíga sinn hinsta dans

Guð­laugur Þór hefur hins vegar valið að sýna þol­in­mæði í for­mennsku­metn­aði sínum og sagt út á við að hann styðji for­yst­una eins og hún er. Taktíkin hefur gengið út á að reyna að bíða for­mann­s­tíð Bjarna Bene­dikts­sonar af sér. 

Heim­ild­ar­menn Kjarn­ans sem tóku þátt í síð­ustu rík­is­stjórn­ar­myndun segja að í þeim hafi ýmsir innan sam­starfs­flokk­anna, Vinstri grænna og Fram­sókn­ar­flokks, fengið á til­finn­ing­una að Bjarni ætl­aði að stíga sinn hinsta dans í póli­tík á þessu kjör­tíma­bili. Til­færsla Þór­dísar Kol­brúnar R, Gylfa­dótt­ur, sem Bjarni er tal­inn styðja sem eft­ir­mann sinn á for­manns­stóli, í utan­rík­is­ráðu­neytið þótti vís­bend­ing um þetta og að Bjarni ætl­aði sér að skipta við hana um ráðu­neyti áður en kjör­tíma­bilið yrði á enda. 

Flestar bolla­legg­ing­arnar voru á þann veg að það myndi ger­ast í kringum fyrsta lands­fund Sjálf­stæð­is­flokks­ins frá því í mars 2018, sem hefst eftir rúma viku. Þá myndi Bjarni hætta sem for­maður og styðja Þór­dísi Kol­brúnu. Af því varð þó ekki. Bjarni til­kynnti í ágúst að hann ætl­aði að sækj­ast eftir áfram­hald­andi for­mennsku.

Við það þurfti Guð­laugur Þór, sem verður 55 ára í des­em­ber og hefur setið á þingi frá árinu 2003, að end­ur­meta aðferð­ar­fræði sína. 

Nýr ráð­herrakap­all boð­aður

Ákvörðun um það hvort Guð­laugur Þór ætl­aði að taka slag­inn við Bjarna, og láta reyna á hvort hann hefði stuðn­ing til að leiða Sjálf­stæð­is­flokk­inn, varð enn meira aðkallandi fyrr í þessum mán­uð­i.   

Þegar rík­is­stjórnin var mynduð greindi Bjarni Bene­dikts­son frá því að Jón Gunn­ars­son, eini ráð­herra flokks­ins sem er ekki odd­viti, myndi sitja sem dóms­mála­ráð­herra í að hámarki 18 mán­uði en að odd­viti Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Suð­ur­kjör­dæmi, Guð­rún Haf­steins­dótt­ir, myndi svo taka við hon­um. Jón lét hins vegar í það skína í við­tali við Hring­braut 13. októ­ber að hann vildi vera ráð­herra lengur og að ekki væri ákveðið að hann myndi stíga til hliðar til að rýma fyrir Guð­rún­u. 

Guð­rún brást við í ýmsum við­tölum með að segja að málið væri ákveðið og að hún myndi taka við Jóni á næstu mán­uð­um.

Þann 19. októ­ber síð­ast­lið­inn lét Bjarni hins vegar hafa eftir sér að það væri ekki úti­lokað að Jón Gunn­ars­son myndi halda áfram sem dóms­mála­ráð­herra þegar breyt­ingar yrðu gerðar á ráð­herra­liði flokks­ins á næsta ári. Það stæði þó enn til að Guð­rún kæmi inn í rík­is­stjórn­ina, senni­lega snemma á næsta ári.

Svika­logn getur breyst í svipti­byl

Stuðn­ings­menn Guð­laugs Þórs tóku þessum vend­ingum ekki fagn­andi. Fyrir liggur að ráð­herrum verður ekki fjölgað meir, enda þeir tólf sem stend­ur. Ef Jón situr áfram þegar Guð­rún á að koma inn í rík­is­stjórn­ina þá þarf ein­hver annar að víkja. Nokkuð borð­leggj­andi þykir að Bjarni taki ekki ráð­herra­emb­ætti af Þór­dísi Kol­brúnu, vara­for­manni flokks­ins, né Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, enda um að ræða tvær helstu von­ar­stjörnur hans arms í flokknum og nána sam­herja hans. Sá sem yrði lát­inn víkja yrði senni­lega Guð­laugur Þór.

Búið er að lofa Guðrúnu Hafsteinsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, ráðherraembætti á næstu mánuðum. Upphaflega átti Jón Gunnarsson að víkja fyrir henni. Nú er það með öllu óljóst hver það verður.
Mynd: Eyþór Árnason

Hingað til hefur fylk­ing hans gengið út frá því að þau séu nægi­lega sterk til að það sé ekki hægt að ganga fram hjá Guð­laugi Þór við útdeil­ingu ráð­herra­emb­ætta án þess að svika­lognið sem ríkt hefur í flokknum breytt­ist í svipti­byl. 

Heim­ildir Kjarn­ans herma að sam­hliða hafi ýmsir farið að skora á Guð­laug Þór að láta til skarar skríða og bjóða sig fram til for­manns. Óform­legur und­ir­bún­ingur undir slíkt hafi auk þess haf­ist með því að tryggja stuðn­ing lands­fund­ar­full­trúa víða að á land­inu ef til for­manns­kjörs kæmi. Það væri ein­fald­lega ekki hægt að vona að Bjarni myndi halda Guð­laugi Þór áfram á ráð­herra­stóli með end­ur­nýjað umboð. 

Morg­un­blaðið ýtir málum af stað

Á þriðju­dag, 25. októ­ber, fóru svo að ber­ast meld­ingar frá fólki innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins til fjöl­miðla um að Guð­laugur Þór ætl­aði í for­manns­fram­boð. Þær meld­ingar bár­ust helst frá fólki sem styður hina fylk­ing­una í flokknum og fólk í kringum Guð­laug Þór kann­að­ist ekki við að slík ákvörðun hefði verið tek­in. Að því sögðu þá hefur sama fólk gengið að því vísu að Guð­laugur Þór myndi á ein­hverjum tíma sækj­ast eftir for­mennsku. Spurn­ingin væri ekki hvort heldur hvenær. Þær aðstæður sem hefðu skyndi­lega skap­ast á síð­ustu vikum gætu flýtt þeim áform­um.

Morg­un­blaðið birti svo frétt dag­inn eft­ir, 26. októ­ber, sem skrifuð er af Andr­ési Magn­ús­syni, rit­stjórn­ar­full­trúa blaðs­ins sem hefur mikil tengsl við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Í frétt­inni sagði að „und­an­farna daga hafa verið miklir orða­sveimir um hugs­an­­legt fram­­boð Guð­laugs, sem m.a. hefur verið tengt umdeildu vali á lands­fund­­ar­­full­­trúum í stöku félag­i.“

Við birt­ingu frétt­ar­innar færð­ist kast­ljósið á Guð­laug Þór. Hann þurfti að játa því eða neita því hvort hann ætl­aði fram eða ekki. 

Sagði marga hafa miklar áhyggjur af stöðu flokks­ins

Guð­laugi Þór tókst að kom­ast hjá því í svara fyr­ir­spurnum um málið í gær. Stuðn­ings­menn hans fund­uðu svo með honum í Sjálf­stæð­is­hús­inu í Graf­ar­vogi, heima­velli Guð­laugs Þórs, í gær­kvöldi. Hátt í hund­rað manns mættu á fund­inn. Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að lík­urnar á fram­boði hafi auk­ist við ákvörðun Morg­un­blaðs­ins að birta frétt sína um málið á þriðju­dag og að við­brögðin sem Guð­laugur Þór og helstu stuðn­ings­menn hans hafi fengið við henni hafi verið mik­il.

Þá er það mat margra þeirra að staða Bjarna sé erfið um þessar mundir vegna mál­efna ÍL-­sjóðs og að hún geti mögu­lega orðið enn erf­ið­ari vegna yfir­vof­andi skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar um söl­una á Íslands­banka, sem fram­kvæmd var af Banka­sýslu rík­is­ins, stofnun sem heyrir undir ráðu­neytið Bjarna og lýtur stjórn sem Bjarni skip­ar. Þá meta þeir sem svo að upp­safnað óþol sé í garð Bjarna í flokknum vegna fjölda erf­iðra mála sem hann hefur ratað í á und­an­förnum árum og vegna þess að hann sinni gras­rót flokks­ins lít­ið.

Hansk­arnir voru svo teknir af í morgun í við­tölum við Vísi. Í fyrsta við­tal­inu sem Guð­laugur Þór tjáði sig um mögu­legt for­mennsku­fram­boð beindi hann athygl­inni að fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins í for­mann­s­tíð Bjarna og sagði marga í flokknum hafa miklar áhyggjur af stöðu hans.

Í þeim hefur flokk­ur­inn mest fengið 29 pró­sent fylgi árið 2016. Í hin þrjú skiptin sem Bjarni hefur leitt Sjálf­stæð­is­flokk­inn í gegnum kosn­ingar hefur hann fengið þrjár verstu nið­ur­stöður sínar í sög­unni, og fylgið verið á bil­inu 23,7 til 25,2 pró­sent. Fyrr á þessu kjör­tíma­bili mæld­ist fylgi flokks­ins svo í fyrsta sinn undir 20 pró­sentum í þjóð­ar­púlsi Gallup. Flokk­ur­inn hefur ein­ungis einu sinni fengið undir 30 pró­sent fylgi í þing­kosn­ingum utan þess tíma sem Bjarni hefur leitt hann og hug­mynd margra flokks­manna um hann er að hann eigi að vera skýr val­kostur fyrir 30-40 pró­sent kjós­enda. 

Guð­laugur Þór þyrfti að spyrja hvernig honum hafi gengið að ná í fylgi

Guð­laugur Þór sagði að það væri ekki hægt að sætta sig við að vera rúm­lega tutt­ugu pró­sent flokk­ur. „Það er ekki Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sem ég gekk í. Það hefur ekk­ert breyst að sú hug­mynda­fræði sem við stöndum fyrir er best. Það er ekk­ert að henni. Við þurfum að líta til þess hvernig við getum náð betri árangri.“ Hann bætti við að yfir­lýs­ingar Bjarna um breytta ráð­herra­skipan hefðu komið á óvart og að þær væru ekki í sam­ræmi við það sem for­mað­ur­inn hefði áður sagt. „Ég held það skipti máli að hafa enga óvissu í þessu.“

Bjarni svar­aði í við­tali við sama miðil og sagði að hver þyrfti að líta sér nær. „Til dæmis odd­vit­inn í Reykja­vík í þessu til­viki: hvernig hefur mér gengið að afla flokknum fylgis í borg­inni, í mínu kjör­dæmi?  Ég get svo sem sagt fyrir mitt leyti að fylgi við flokk­inn hefur verið ágætt þar sem ég hef verið að leiða. Svo getur bara hver svarað fyrir sig.“

Odd­vit­inn í borg­inni er Guð­laugur Þór, sem leiddi í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður í síð­ustu kosn­ing­um. 

Áslaugu Örnu gekk betur en Guð­laugi Þór í fyrra­haust

Það er rétt að Bjarna hefur gengið betur að afla fylgis í sínu kjör­dæmi en Guð­laugi Þór í því sem hann leið­ir. Þannig fékk Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn 30,9 pró­sent atkvæða í Suð­vest­ur­kjör­dæmi í fyrra­haust á meðan að Guð­laugur Þór náði ein­ungis í 20,9 pró­sent atkvæða í Reykja­vík Suð­ur. Áslaug Arna, sem tap­aði fyrir Guð­laugi Þór í próf­kjörs­bar­átt­unni í Reykja­vík, leiddi flokk­inn í Reykja­vík Suður og náði í 22,8 pró­sent atkvæða, sem skil­aði þremur þing­mönnum á móti tveimur úr kjör­dæmi Guð­laugs Þórs. Áslaug Arna náði þar að ná sama hlut­falli atkvæða og í kosn­ing­unum 2017 í kjör­dæmi sínu á meðan að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn tap­aði fylgi í Reykja­vík norð­ur. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur háð harðar baráttur við Guðlaug Þór Þórðarson í gegnum tíðina og áframhaldandi ráðherraseta Jóns Gunnarssonar er ein helsta ástæða þess að mögulega er formannsslagur framundan í Sjálfstæðisflokknum.
Mynd: Eyþór Árnason

Á móti getur Guð­laugur Þór bent á að í síð­ustu könnun á því til hvaða ráð­herra kjós­endur bera mest traust til, sem Mask­ína birti seint í apr­íl, hafi hann komið best út allra ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Þar sögð­ust 30,7 pró­sent aðspurðra treysta Guð­laugi Þór en 35,8 pró­sent van­treysta hon­um. Þór­dís Kol­brún kom skammt á hæla hans og naut trausts 29,7 pró­sent aðspurðra en 35,8 sögð­ust van­treysta henni. Alls sögð­ust 21,7 pró­sent treysta Áslaugu Örnu en 52,3 pró­sent að þau van­treystu henni. Flokks­for­mað­ur­inn Bjarni Bene­dikts­son naut ein­ungis trausts 18,3 pró­sent kjós­enda en 70,7 pró­sent sögð­ust van­treysta hon­um. Jón Gunn­ars­son, sá ráð­herra sem Bjarni vill halda í rík­is­stjórn­inni, var svo sá ráð­herra sem fæstir treystu, eða 17,8 pró­sent. Rúmur helm­ingur van­treystir Jón­i. 

Bjarni til í slag­inn

Guð­laugur Þór sagði í áður­nefndu við­tali við Vísi að hann ætl­aði ekki til­kynna um for­manns­fram­boð í fjöl­miðl­um. Hann myndi til­kynna Bjarna það fyrst. Heim­ildir Kjarn­ans herma að til standi að menn­irnir tveir fundi í dag eða á morgun og að loknum þeim fundi muni ákvörðun liggja fyr­ir. Til að Guð­laugur Þór fari ekki fram þurfi Bjarni að sann­færa hann um að staða hans í rík­is­stjórn­inni sé trygg og jafn­vel að hann eigi leið inn í áhrifa­meira ráðu­neyt­i. 

Að sama skapi segja ýmsir stuðn­ings­menn Bjarna að þeir fagni því að Guð­laugur Þór sé loks­ins að taka í gikk­inn og láta vaða. Löngu tíma­bært sé að láta á það reyna hvort hann hafi þann stuðn­ing sem hann telur sig hafa. Fylk­ingin í kringum for­mann­inn er þegar farin að hafa sam­band við lands­fund­ar­full­trúa til að athuga með stuðn­ing ef af verð­ur­. Bent hefur verið á að Bjarni hafi tví­vegis tekið harða slagi um for­manns­emb­ætt­ið, fyrst við Krist­ján Þór Júl­í­us­son 2009 og svo aftur við Hönnu Birnu Krist­jáns­dóttur 2011. Í bæði skiptin hafi Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verið í stjórn­ar­and­stöðu. Síðan 2013, þrátt fyrir sögu­lega lágt fylgi, hafi flokk­ur­inn hins vegar alltaf verið í rík­is­stjórn. Þrátt fyrir að staða flokks­ins á sveit­ar­stjórn­ar­stíg­inu hafi veikst kosn­ing­unum fyrr á þessu ári er hann enn með lang­flesta kjörna full­trúa allra flokka á því stígi.

Í við­tali við Dag­mál á mbl.is sem birt var í dag sagði Bjarni að for­maður ætti ekki emb­ætt­ið. „Maður þarf að vinna fyrir end­ur­nýj­uðu umboði á milli funda og maður þarf að koma á fund­inn með sýn fyrir flokk­inn inn í fram­tíð­ina. Það á við um þennan fund eins og alla aðra.“

Hann teldi hins vegar óhyggi­legt að hræra í flokks­for­yst­unni eins og sakir standa, með flokk­inn í rík­is­stjórn og eitt ár búið af kjör­tíma­bil­inu. End­ur­nýjað stjórn­ar­sam­starf við Vinstri græn og Fram­sókn­ar­flokk­inn hafi ekki síst byggst á góðu trausti milli for­ystu­manna flokk­anna. Það væri límið í rík­is­stjórn­inni. Það yrði því að koma í ljós ef breyt­ingar í for­yst­unni myndu hafa árif á rík­is­stjórn­ar­sam­starf­ið.

Í við­tali við RÚV í kvöld boð­aði Bjarni svo að Jón Gunn­ars­son muni fara úr rík­is­stjórn til að hleypa Guð­rúnu Haf­steins­dóttur að. Og kúventi þar þeim áformum sem hleyptu yfir­stand­andi atburða­r­ás, sem gæti endað með for­manns­slag, af stað.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar