Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
Eitt verst geymda leyndarmál í íslenskum stjórnmálum er að Guðlaugur Þór Þórðarson hefur metnað til þess að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. Á síðustu vikum hefur ýmislegt gerst sem leitt hefur til þess að hann þarf að taka ákvörðun um hvort taki slaginn við Bjarna Benediktsson.
Það er raunverulegur möguleiki á því að formannsslagur verði í stærsta flokki landsins, Sjálfstæðisflokki, á landsfundi hans fyrstu helgina í nóvember. Verði af honum munu takast á tvær fylkingar sem hafa átt í innbyrðis átökum um ítök og áhrif árum saman, án þess að hafa barist á um æðstu embættin í flokknum.
Um er að ræða þá fylkingu sem fylgir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að málum og þá sem hverfist í kringum Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009.
Það er eitt verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála að Guðlaugur Þór hefur lengi haft metnað til þess að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. Fylking hans hefur tekist hart á við hina þegar valið hefur verið á framboðslista flokksins í síðustu tveimur borgarstjórnarkosningum og í prófkjörinu fyrir síðustu þingkosningar. Færa má rök fyrir því að fylking Guðlaugs Þór hafi sigrað í tveimur af þeim lotum, fyrir kosningarnar 2018 og 2021, og haft ívið betur í þeirri þriðju, þegar prófkjör ákvað lista flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Þeir unnu gegn mér, þeir töpuðu
Þessi átök hafa sennilega aldrei opinberast jafn skýrt og í ræðu sem Guðlaugur Þór hélt fyrir stuðningsmenn sína eftir að hafa haft betur í prófkjörsslag við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í Reykjavík í aðdraganda síðustu þingkosninga. Í þeim slag náði Guðlaugur Þór að verða oddviti flokksins í höfuðborginni og helsti pólitíski samherji hans, Diljá Mist Einarsdóttir, náði þriðja sætinu á kostnað Hildar Sverrisdóttur, sem er hluti af fylkingu flokksforystunnar líkt og Áslaug Arna.
Í ræðunni sagði Guðlaugur Þór meðal annars að markvisst hefði verið unnið gegn sér í prófkjörinu. „Þið skulið alveg átta ykkur á því að við höfum kannski haldið að þetta væri tiltölulega einfalt að því leytinu til að sá sem hér stendur hefur mælst vinsælasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins, eini Sjálfstæðismaðurinn sem hefur unnið erfiðasta kjördæmi okkar, Reykjavík norður, ekki einu sinni, heldur þrisvar. Samt sem áður var lögð einhver gríðarlega mikil áhersla á það að sjá til þess að sá sem hér stendur, og það er ekki bara ég, heldur þið, myndi ekki fá að vera áfram oddviti. Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu.“
Engum dylst að „þeir“ sem unnu gegn Guðlaugi Þór og töpuðu eru fylkingin sem studdi Áslaugu Örnu, og styður Bjarna Benediktsson. Á meðan að hann flutti ræðuna heyrðust stuðningsmenn kalla „losaðu þig við Bjarna“ og kalla til Guðlaugs Þórs: „formaðurinn“.
Margir bjuggust við því að Bjarni væri að stíga sinn hinsta dans
Guðlaugur Þór hefur hins vegar valið að sýna þolinmæði í formennskumetnaði sínum og sagt út á við að hann styðji forystuna eins og hún er. Taktíkin hefur gengið út á að reyna að bíða formannstíð Bjarna Benediktssonar af sér.
Heimildarmenn Kjarnans sem tóku þátt í síðustu ríkisstjórnarmyndun segja að í þeim hafi ýmsir innan samstarfsflokkanna, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, fengið á tilfinninguna að Bjarni ætlaði að stíga sinn hinsta dans í pólitík á þessu kjörtímabili. Tilfærsla Þórdísar Kolbrúnar R, Gylfadóttur, sem Bjarni er talinn styðja sem eftirmann sinn á formannsstóli, í utanríkisráðuneytið þótti vísbending um þetta og að Bjarni ætlaði sér að skipta við hana um ráðuneyti áður en kjörtímabilið yrði á enda.
Flestar bollaleggingarnar voru á þann veg að það myndi gerast í kringum fyrsta landsfund Sjálfstæðisflokksins frá því í mars 2018, sem hefst eftir rúma viku. Þá myndi Bjarni hætta sem formaður og styðja Þórdísi Kolbrúnu. Af því varð þó ekki. Bjarni tilkynnti í ágúst að hann ætlaði að sækjast eftir áframhaldandi formennsku.
Við það þurfti Guðlaugur Þór, sem verður 55 ára í desember og hefur setið á þingi frá árinu 2003, að endurmeta aðferðarfræði sína.
Nýr ráðherrakapall boðaður
Ákvörðun um það hvort Guðlaugur Þór ætlaði að taka slaginn við Bjarna, og láta reyna á hvort hann hefði stuðning til að leiða Sjálfstæðisflokkinn, varð enn meira aðkallandi fyrr í þessum mánuði.
Þegar ríkisstjórnin var mynduð greindi Bjarni Benediktsson frá því að Jón Gunnarsson, eini ráðherra flokksins sem er ekki oddviti, myndi sitja sem dómsmálaráðherra í að hámarki 18 mánuði en að oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Guðrún Hafsteinsdóttir, myndi svo taka við honum. Jón lét hins vegar í það skína í viðtali við Hringbraut 13. október að hann vildi vera ráðherra lengur og að ekki væri ákveðið að hann myndi stíga til hliðar til að rýma fyrir Guðrúnu.
Guðrún brást við í ýmsum viðtölum með að segja að málið væri ákveðið og að hún myndi taka við Jóni á næstu mánuðum.
Þann 19. október síðastliðinn lét Bjarni hins vegar hafa eftir sér að það væri ekki útilokað að Jón Gunnarsson myndi halda áfram sem dómsmálaráðherra þegar breytingar yrðu gerðar á ráðherraliði flokksins á næsta ári. Það stæði þó enn til að Guðrún kæmi inn í ríkisstjórnina, sennilega snemma á næsta ári.
Svikalogn getur breyst í sviptibyl
Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs tóku þessum vendingum ekki fagnandi. Fyrir liggur að ráðherrum verður ekki fjölgað meir, enda þeir tólf sem stendur. Ef Jón situr áfram þegar Guðrún á að koma inn í ríkisstjórnina þá þarf einhver annar að víkja. Nokkuð borðleggjandi þykir að Bjarni taki ekki ráðherraembætti af Þórdísi Kolbrúnu, varaformanni flokksins, né Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, enda um að ræða tvær helstu vonarstjörnur hans arms í flokknum og nána samherja hans. Sá sem yrði látinn víkja yrði sennilega Guðlaugur Þór.
Hingað til hefur fylking hans gengið út frá því að þau séu nægilega sterk til að það sé ekki hægt að ganga fram hjá Guðlaugi Þór við útdeilingu ráðherraembætta án þess að svikalognið sem ríkt hefur í flokknum breyttist í sviptibyl.
Heimildir Kjarnans herma að samhliða hafi ýmsir farið að skora á Guðlaug Þór að láta til skarar skríða og bjóða sig fram til formanns. Óformlegur undirbúningur undir slíkt hafi auk þess hafist með því að tryggja stuðning landsfundarfulltrúa víða að á landinu ef til formannskjörs kæmi. Það væri einfaldlega ekki hægt að vona að Bjarni myndi halda Guðlaugi Þór áfram á ráðherrastóli með endurnýjað umboð.
Morgunblaðið ýtir málum af stað
Á þriðjudag, 25. október, fóru svo að berast meldingar frá fólki innan Sjálfstæðisflokksins til fjölmiðla um að Guðlaugur Þór ætlaði í formannsframboð. Þær meldingar bárust helst frá fólki sem styður hina fylkinguna í flokknum og fólk í kringum Guðlaug Þór kannaðist ekki við að slík ákvörðun hefði verið tekin. Að því sögðu þá hefur sama fólk gengið að því vísu að Guðlaugur Þór myndi á einhverjum tíma sækjast eftir formennsku. Spurningin væri ekki hvort heldur hvenær. Þær aðstæður sem hefðu skyndilega skapast á síðustu vikum gætu flýtt þeim áformum.
Morgunblaðið birti svo frétt daginn eftir, 26. október, sem skrifuð er af Andrési Magnússyni, ritstjórnarfulltrúa blaðsins sem hefur mikil tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Í fréttinni sagði að „undanfarna daga hafa verið miklir orðasveimir um hugsanlegt framboð Guðlaugs, sem m.a. hefur verið tengt umdeildu vali á landsfundarfulltrúum í stöku félagi.“
Við birtingu fréttarinnar færðist kastljósið á Guðlaug Þór. Hann þurfti að játa því eða neita því hvort hann ætlaði fram eða ekki.
Sagði marga hafa miklar áhyggjur af stöðu flokksins
Guðlaugi Þór tókst að komast hjá því í svara fyrirspurnum um málið í gær. Stuðningsmenn hans funduðu svo með honum í Sjálfstæðishúsinu í Grafarvogi, heimavelli Guðlaugs Þórs, í gærkvöldi. Hátt í hundrað manns mættu á fundinn. Viðmælendur Kjarnans segja að líkurnar á framboði hafi aukist við ákvörðun Morgunblaðsins að birta frétt sína um málið á þriðjudag og að viðbrögðin sem Guðlaugur Þór og helstu stuðningsmenn hans hafi fengið við henni hafi verið mikil.
Þá er það mat margra þeirra að staða Bjarna sé erfið um þessar mundir vegna málefna ÍL-sjóðs og að hún geti mögulega orðið enn erfiðari vegna yfirvofandi skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka, sem framkvæmd var af Bankasýslu ríkisins, stofnun sem heyrir undir ráðuneytið Bjarna og lýtur stjórn sem Bjarni skipar. Þá meta þeir sem svo að uppsafnað óþol sé í garð Bjarna í flokknum vegna fjölda erfiðra mála sem hann hefur ratað í á undanförnum árum og vegna þess að hann sinni grasrót flokksins lítið.
Hanskarnir voru svo teknir af í morgun í viðtölum við Vísi. Í fyrsta viðtalinu sem Guðlaugur Þór tjáði sig um mögulegt formennskuframboð beindi hann athyglinni að fylgi Sjálfstæðisflokksins í formannstíð Bjarna og sagði marga í flokknum hafa miklar áhyggjur af stöðu hans.
Í þeim hefur flokkurinn mest fengið 29 prósent fylgi árið 2016. Í hin þrjú skiptin sem Bjarni hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum kosningar hefur hann fengið þrjár verstu niðurstöður sínar í sögunni, og fylgið verið á bilinu 23,7 til 25,2 prósent. Fyrr á þessu kjörtímabili mældist fylgi flokksins svo í fyrsta sinn undir 20 prósentum í þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn hefur einungis einu sinni fengið undir 30 prósent fylgi í þingkosningum utan þess tíma sem Bjarni hefur leitt hann og hugmynd margra flokksmanna um hann er að hann eigi að vera skýr valkostur fyrir 30-40 prósent kjósenda.
Guðlaugur Þór þyrfti að spyrja hvernig honum hafi gengið að ná í fylgi
Guðlaugur Þór sagði að það væri ekki hægt að sætta sig við að vera rúmlega tuttugu prósent flokkur. „Það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem ég gekk í. Það hefur ekkert breyst að sú hugmyndafræði sem við stöndum fyrir er best. Það er ekkert að henni. Við þurfum að líta til þess hvernig við getum náð betri árangri.“ Hann bætti við að yfirlýsingar Bjarna um breytta ráðherraskipan hefðu komið á óvart og að þær væru ekki í samræmi við það sem formaðurinn hefði áður sagt. „Ég held það skipti máli að hafa enga óvissu í þessu.“
Bjarni svaraði í viðtali við sama miðil og sagði að hver þyrfti að líta sér nær. „Til dæmis oddvitinn í Reykjavík í þessu tilviki: hvernig hefur mér gengið að afla flokknum fylgis í borginni, í mínu kjördæmi? Ég get svo sem sagt fyrir mitt leyti að fylgi við flokkinn hefur verið ágætt þar sem ég hef verið að leiða. Svo getur bara hver svarað fyrir sig.“
Oddvitinn í borginni er Guðlaugur Þór, sem leiddi í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum.
Áslaugu Örnu gekk betur en Guðlaugi Þór í fyrrahaust
Það er rétt að Bjarna hefur gengið betur að afla fylgis í sínu kjördæmi en Guðlaugi Þór í því sem hann leiðir. Þannig fékk Sjálfstæðisflokkurinn 30,9 prósent atkvæða í Suðvesturkjördæmi í fyrrahaust á meðan að Guðlaugur Þór náði einungis í 20,9 prósent atkvæða í Reykjavík Suður. Áslaug Arna, sem tapaði fyrir Guðlaugi Þór í prófkjörsbaráttunni í Reykjavík, leiddi flokkinn í Reykjavík Suður og náði í 22,8 prósent atkvæða, sem skilaði þremur þingmönnum á móti tveimur úr kjördæmi Guðlaugs Þórs. Áslaug Arna náði þar að ná sama hlutfalli atkvæða og í kosningunum 2017 í kjördæmi sínu á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi í Reykjavík norður.
Á móti getur Guðlaugur Þór bent á að í síðustu könnun á því til hvaða ráðherra kjósendur bera mest traust til, sem Maskína birti seint í apríl, hafi hann komið best út allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þar sögðust 30,7 prósent aðspurðra treysta Guðlaugi Þór en 35,8 prósent vantreysta honum. Þórdís Kolbrún kom skammt á hæla hans og naut trausts 29,7 prósent aðspurðra en 35,8 sögðust vantreysta henni. Alls sögðust 21,7 prósent treysta Áslaugu Örnu en 52,3 prósent að þau vantreystu henni. Flokksformaðurinn Bjarni Benediktsson naut einungis trausts 18,3 prósent kjósenda en 70,7 prósent sögðust vantreysta honum. Jón Gunnarsson, sá ráðherra sem Bjarni vill halda í ríkisstjórninni, var svo sá ráðherra sem fæstir treystu, eða 17,8 prósent. Rúmur helmingur vantreystir Jóni.
Bjarni til í slaginn
Guðlaugur Þór sagði í áðurnefndu viðtali við Vísi að hann ætlaði ekki tilkynna um formannsframboð í fjölmiðlum. Hann myndi tilkynna Bjarna það fyrst. Heimildir Kjarnans herma að til standi að mennirnir tveir fundi í dag eða á morgun og að loknum þeim fundi muni ákvörðun liggja fyrir. Til að Guðlaugur Þór fari ekki fram þurfi Bjarni að sannfæra hann um að staða hans í ríkisstjórninni sé trygg og jafnvel að hann eigi leið inn í áhrifameira ráðuneyti.
Að sama skapi segja ýmsir stuðningsmenn Bjarna að þeir fagni því að Guðlaugur Þór sé loksins að taka í gikkinn og láta vaða. Löngu tímabært sé að láta á það reyna hvort hann hafi þann stuðning sem hann telur sig hafa. Fylkingin í kringum formanninn er þegar farin að hafa samband við landsfundarfulltrúa til að athuga með stuðning ef af verður. Bent hefur verið á að Bjarni hafi tvívegis tekið harða slagi um formannsembættið, fyrst við Kristján Þór Júlíusson 2009 og svo aftur við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur 2011. Í bæði skiptin hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórnarandstöðu. Síðan 2013, þrátt fyrir sögulega lágt fylgi, hafi flokkurinn hins vegar alltaf verið í ríkisstjórn. Þrátt fyrir að staða flokksins á sveitarstjórnarstíginu hafi veikst kosningunum fyrr á þessu ári er hann enn með langflesta kjörna fulltrúa allra flokka á því stígi.
Í viðtali við Dagmál á mbl.is sem birt var í dag sagði Bjarni að formaður ætti ekki embættið. „Maður þarf að vinna fyrir endurnýjuðu umboði á milli funda og maður þarf að koma á fundinn með sýn fyrir flokkinn inn í framtíðina. Það á við um þennan fund eins og alla aðra.“
Hann teldi hins vegar óhyggilegt að hræra í flokksforystunni eins og sakir standa, með flokkinn í ríkisstjórn og eitt ár búið af kjörtímabilinu. Endurnýjað stjórnarsamstarf við Vinstri græn og Framsóknarflokkinn hafi ekki síst byggst á góðu trausti milli forystumanna flokkanna. Það væri límið í ríkisstjórninni. Það yrði því að koma í ljós ef breytingar í forystunni myndu hafa árif á ríkisstjórnarsamstarfið.
Í viðtali við RÚV í kvöld boðaði Bjarni svo að Jón Gunnarsson muni fara úr ríkisstjórn til að hleypa Guðrúnu Hafsteinsdóttur að. Og kúventi þar þeim áformum sem hleyptu yfirstandandi atburðarás, sem gæti endað með formannsslag, af stað.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars