Í síðasta þætti af Ferð til fjár fylgdumst við með Andreu ofurneytanda í baráttunni um að bæta kjör sín sem víðast og auka yfirsýn heimilisbókhaldsins. Hún fór meðal annars með falda myndavél í bankann og ræddi við þjónustufulltrúa í von um lægri kortagjöld og betri innlánskjör. Hér má sjá hvernig Andreu gekk. Það var sannarlega ferð til fjár!
Áður en Andrea hélt í bankann þá hitti hún Tinnu Björk Bryde, viðskiptastjóra hjá CreditInfo. CreditInfo er gagnafyrirtæki og reiknar meðal annars lánshæfi einstaklinga. Andrea fékk einkunnina B1 á skalanum A til E úr sínu lánshæfismati, þar sem áhættuminnstu Lántakendurnir fá A. Samkvæmt matinu eru líkurnar á að Andrea lendi á vanskilaskrá aðeins 0,7%. Með þessi gögn að vopni, auk góðra ráða frá Aðalsteini Leifssyni samninga-sérfræðingi, hélt Andrea á fund þjónustufulltrúans.
Frítt lánshæfismat
Með samstarfi Ferðar til fjár og CreditInfo, þá býðst öllum einstaklingum að fá lánshæfismat sitt að kostnaðarlausu til 28. febrúar næstkomandi. Það eina sem þarf að gera er að sækja um aðgang að þjónustuvef CreditInfo.
Við fengum Stefán B. Önundason, markaðsstjóra hjá CreditInfo, til að útskýra betur hvað býr að baki lánshæfismati. Hvað þýðir þetta allt saman og hvernig getur mat á lánshæfi hjálpað okkur? Hann bendir á að góða einkunn úr lánshæfismati megi t.d. nota sem rökstuðning fyrir því að fá lægri vexti ef einstaklingurinn er að taka til dæmis bílalán eða framkvæmdalán. „Það er minni áhætta að lána skilvísum einstaklingum,“ segir Stefán.
Hér að neðan má lesa það sem Stefán sagði um lánshæfismatið. Skýrt og fræðandi!
„Það getur skipt heilmiklu máli að vera meðvitaður um stöðu sína þegar samið er um kaup og kjör við lántöku. Einstaklingar með gott lánshæfismat standa betur að vígi og geta farið fram á betri kjör en ella, almennt stendur fólk betur að vígi ef það er með allar sömu upplýsingarnar og gagnaðili þegar samið er.
Þegar einstaklingur sækir um lán þá er lánshæfi hans og staða könnuð af lánveitanda í samræmi við neytendalög sem sett voru í lok árs 2013. Þá var fyrirtækjum í lánastarfsemi gert skylt að kanna lánshæfi umsækjenda áður en til láns kæmi, þ.e. að gera svokallað lánshæfismat. Einnig geta tryggingafélög, símafyrirtæki og fyrirtæki sem einstaklingar eru í reikningsviðskiptum við óskað eftir að gera lánshæfismat áður en samningur er gerður um viðskipti.
Misjafnt er hvernig lánveitendur gera lánshæfismat en það er alltaf byggt á einhverjum gögnum um þann sem sækir um lánið. Ef til er viðskiptasaga þá er hún gjarnan notuð en ef lánveitandinn á engin gögn um lántakann þá er hægt að nota lánshæfismat Creditinfo. Góðar og nákvæmar upplýsingar hjálpa lánveitandanum að meta áhættu á tapi og öðrum vandamálum.
Lánshæfismat er m.a. byggt á
- Sögulegum vanskilum
- Uppflettingum í vanskilaskrá
- Upplýsingum úr skattskrá
- Aldri og búsetu
- Hjúskaparstöðu
- Tengslum við fyrirtæki
Lánshæfismat er líkindareikningur þar sem líkurnar á því að einstaklingur lendi í vanskilum eru metnar. Lánshæfismat segir ekkert til um það hversu mikið einstaklingur getur greitt af láni, til þess er gert svo kallað greiðslumat.
Þú hefur aðgang að sömu upplýsingum
Creditinfo er gagnafyrirtæki sem býður fyrirtækjum upp á gerð lánshæfismats, en býður einstaklingum aðgang að sömu upplýsingum um sjálfa sig (ekki um aðra). Allir Íslendingar sem náð hafa 18 ára aldri geta því verið upplýstir um hvað eykur eða dregur úr þeirra persónulegu möguleikum á lántöku. Þeir sem eru með gott lánshæfismat eru líklegri til að hljóta fyrirgreiðslu heldur en þeir sem eru með slæmt mat.
Í tilefni af samstarfi Creditinfo við Stofnun um fjármálalæsi í þáttunum „Ferð til fjár“ býður Creditinfo nú öllum einstaklingum að fá lánshæfismatið sitt sér að kostnaðarlausu til 28. febrúar 2015. Það eina sem þú þarft að gera er að sækja um aðgang að þjónustuvef Creditinfo hér, þú færð lykilorð sent í heimabankann og getur sótt lánshæfismatið þitt.
Hvernig á svo að nota lánshæfismatið?
Ef þú færð góða einkunn og þarft t.d. að taka bílalán eða framkvæmdalán getur þú notað þær upplýsingar sem rökstuðning fyrir því að fá lægri vexti á lánið vegna þess að það er minni áhætta að lána skilvísum einstaklingum. Mikilvægt er að hafa í huga að lánveitendur hafa nokkurt frjálsræði um það hvaða gögn þeir nota við lánshæfismat og getur niðurstaðan verið breytileg eftir því.“
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.