Í nýju samningslíkani aðila vinnumarkaðarins er gert ráð fyrir að lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði verði jöfnuð, meðal annars með því að iðgjöld á almenna vinnumarkaðinum verða hækkuð í úr um tólf prósentum í 15,5 prósent. Sú hækkun lendir að öllu leyti á atvinnurekendum, en hlutfallið sem þeir eiga að greiða fer úr átta prósent af launum í 11,5 prósent.
Atvinnurekendur greiddu samtals 61,3 milljarða króna í iðgjöld til almennra lífeyrissjóða á árinu 2014. Ef þær breytingar sem nú eru í pípunum hefðu verið komnar til áhrifa hefði sú upphæð verið 88,1 milljarðar króna, eða 26,9 milljörðum krónum hærri.
Til höfuðs "höfrunarhlaupinu"
Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu á þriðjudag undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Samkomulagið er afrakstur af vinnu svokallaðs SALEK-hóps, þar sem eiga sæti helstu viðsemjendur á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Hin breyttu vinnubrögð snúast um innleiðingu á nýju samningslíkani á íslenskum vinnumarkaði.
Í raun er líkanið tiltölulega einfalt. Í fyrsta lagi á svigrúm til launabreytinga að vera skilgreint út frá samkeppnisstöðu gagnvart helstu viðskiptalöndum. Þá eiga útflutningsfyrirtæki, eða fyrirtæki sem eru í samkeppni við innfluttar vörur og þjónustu, að móta svigrúm til launabreytinga. Þetta á að skila því að íslenska hagkerfið eigi alltaf innistæðu fyrir þeim launahækkunum sem ákveðnar verða.
Takist það munu kjarasamningar leiða af sér aukin kaupmátt og stöðugt gengi, í stað verðbólgu og óstöðugleika sem hið svokallaða „höfrungarhlaup“ veldur vegna víxlverkanna launahækkanna og verðbólgu. Þá eiga vextir, eina tæki Seðlabankans til að takast á við verðbólgu, að lækka, en þeir hafa að meðaltali verið þrisvar sinnum hærri hérlendis en á hinum Norðurlöndunum frá aldarmótum. Lægri vextir þýða lægri fjármagnskostnað heimila.
Það er því öllum í hag að innleiðing þessa líkans takist.
Vilja auðvelda tilfærslu milli markaða
Til þess að ná þeim áfanga þarf hins vegar að takast á við viðvarandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði, muninn milli opinbera og almenna markaðarins. Í einföldu máli hefur staðan verið þannig lengi að þeir sem starfa hjá hinu opinbera fá lægri laun en betri lífeyrisréttindi en þeir sem starfa á almenna markaðnum. Þessi staða hefur gert það að verkum að erfiðara er fyrir fólk að færa sig á milli slíkra starfa. Þ.e. opinberir starfsmenn færa sig síður yfir á einkamarkað til að verja lífeyrisréttindi sín og starfsmenn á almennum vinnumarkaði fara síður í opinber störf vegna þess að laun þar eru lægri.
Nýja samningslíkanið gerir ráð fyrir tvennum grundvallarbreytingum til að breyta þessari stöðu. Í fyrsta lagi á að tryggja opinberum starfsmönnum aukna hlutdeild í launaskriði á almenna vinnumarkaðnum. Þannig á að koma í veg fyrir að opinber störf verði skilin eftir í launaþróun og verði, líkt og því miður mörg mikilvæg slík störf eru orðin, láglaunastörf. Þetta verður gert með svokallaðri launaskriðstryggingu.
Í nýju samningslíkani er einnig gert ráð fyrir að lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði verði jöfnuð. Það verður meðal annars gert með því að iðgjöld á almenna markaðnum verða hækkuð í 15,5 prósent. Í dag er lágmark þeirra 12 prósent af launum.
Greiðsla þess skiptist þannig að atvinnurekendur greiða um átta prósent framlag en launþegar fjögur prósent. Nú stendur til að hækka framlag atvinnurekenda í 11,5 prósent og með því verði iðgjald á almenna markaðnum 15,5 prósent.
Tilgangurinn er meðal annars á að gera fólki auðveldara fyrir að færa sig á milli starfa hjá hinu opinbera og fyrirtækja á einkamarkaði.
Launahækkanir fara í iðgjöld
Þessari breytingu mun fylgja töluverður kostnaður fyrir atvinnurekendur. Í skýrslu sem Fjármálaeftirlitið gerði um stöðu lífeyrissjóðanna á árinu 2014 kemur fram að atvinnurekendur greiddu samtals 61,2 milljarða króna í iðgjöld á því ári. Ef hlutfall launa sem þeir greiða í sjóðina hækkar úr átta prósentum í 11,5 prósent, líkt og samningslíkanið gerir ráð fyrir, munu iðgjaldsgreiðslur atvinnurekenda aukast um tæp 44 prósent.
Ef breytingin sem nú er stefnt að hefði verið við lýði í fyrra þá hefðu atvinnurekendur greitt 88,1 milljarð króna í iðgjöld, eða 26,9 milljörðum króna meira en þeir gerðu í fyrra.
Tilgangur þessa er meðal annars að halda aftur af launahækkunum, sem skila sér iðulega í aukinni einkaneyslu sem leiðir af sér verðbólgu. Í stað hárra launahækkanna í formi ráðstöfunarfjár um mánaðarmót á launafólk á almenna markaðnum að fá stærri hluta af launahækkunum sínum í formi hærri lífeyris.
Viðmælendur Kjarnans innan lífeyrissjóðakerfisins segja þessa breytingu vera svo stóra, og að upphæðirnar sem um ræðir séu svo háar, að þær dragi verulega úr þörfinni fyrir að reka áfram séreignarlífeyrissparnaðarkerfi hérlendis, verði breytingarnar að veruleika.
Vilja klára samþættingu lífeyriskerfisins
Athygli vakti að ekki voru öll stéttarfélög tilbúin að skrifa undir rammasamkomulagið. Það nær ekki til 30 prósent launafólks í landinu. Þar ber helst að nefna BHM og Kennarasambandið, sem bæði eru með þúsundir opinberra starfsmanna innan sinna ráða. Sú ákvörðun tengist ekki með neinum hætti viljaleysi þessara stéttarfélaga gagnvart því að hætta „höfrungarhlaupinu“. Sá vilji er sannarlega til staðar.
Í samkomulaginu er hins vegar verið að biðja félagsmenn þeirra um að afsala sér tiltekinni launaupphæð sem þegar er búið að semja um gegn því að fá launaskriðstryggingu. Og það sem skiptir mestu máli fyrir opinbera starfsmenn er að stefnt er að jöfnun lífeyriskjara á næstu árum.
Unnið hefur verið að því að samþætta opinbera og almenna lífeyriskerfið frá árinu 2009 þannig að réttindavinnsla verði sú sama. Þessi vinna hefur farið fram í starfshópi sem allir sem að málinu koma sitja í. Þrátt fyrir að starfið hafi staðið yfir í sex ár hefur ekki tekist að landa niðurstöðu.
BHM og Kennarasambandið vilja klára þá vinnu áður en að félögin skuldbinda sig til þátttöku í nýja kjarasamningslíkaninu.