Haukur Freyr Gylfason, sem framkvæmdi sykurpúðatilraunina svokölluðu í fyrsta þættinum af Ferð til fjár , framkvæmdi aðra tilraun í öðrum þætti Ferðar til fjár, þar sem hann rannsakaði hvernig hegðun annarra getur haft áhrif á hegðun annarra.
Haukur Freyr, sem er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, fékk til liðs við sig þau Siggu, Matta, Eyrúnu og Denna. Falinni myndavél var komið fyrir í lyftu í Háskólanum í Reykjavík og stilltu leikararnir sér upp í lyftunni. Eftir að saklaust fórnarlambið steig inn í lyftuna, þá snéru þau sér öll við samtímis til þess að kanna viðbrögðin.
Hvernig bregst „fórnarlambið“ við þegar allir aðrir í lyftunni snúa sér í hina áttina samtímis?
Það verður ekki séð að þessi herramaður láti hegðun annarra hafa áhrif á sína hegðun!
Það er ríkt í fólki að fylgja öðrum, sérstaklega þegar aðstæður eru óvissar. Að fylgja hegðun annarra getur komið sér vel. Það getur þó líka komið manni um koll, til dæmis þegar maður gerir eins og aðrir í fjármálum, hugsunarlaust og án þess að skilja hvað maður er að gera.
Í kaffiteríunni mynduðu leikararnir röð og athuðu viðbrögðin.
Bingó! Ef allir ætla að snúa í þessa átt, er þá ekki best að ég geri það líka? Ef til vill er það þó ómeðvitað, að gera eins og hinir.
Við prófuðum aðra útgáfu af tilrauninni þar sem leikararnir þóttust bíða í röð og snéru sér síðan í hina áttina, en fórnarlambið var staðsett í miðjunni.
Niðurstöðurnar voru í samræmi við fyrri rannsóknir. Nokkrir hegðuðu sér í takt við meirihlutann á meðan aðrir drógu sig út úr aðstæðunum.
Boðskapurinn þessarar einföldu tilraunar er sáraeinfaldur: Það þarf ekki að vera slæmt að gera eins og allir aðrir, jafnvel þvert á móti, en það er mikilvægt að hugsa sjálfstætt og taka ákvarðanir út frá eigin sannfæringu!
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.