Þegar Íslandsbanki var skráður á markað í júní 2021, að undangengnu hlutafjárútboði þar sem 35 prósent hlutur ríkisins var seldur á 55 milljarðar króna, voru hluthafar bankans um 24 þúsund talsins, enda hafði þátttaka í útboðinu á meðal almennings verið sérlega góð. Þar skipti miklu að þeir sem skráðu sig fyrir kaupum upp á eina milljón króna eða minna voru ekki skertir, þrátt fyrir að eftirspurn eftir bréfum hafi verið níföld.
Auk þess þótti útboðsgengið, 79 krónur á hluti, að mati greiningaraðila vera lágt miðað við efnahagsreikning bankans og stöðuna á hlutabréfamarkaði á þeim tíma. Það kom enda á daginn að gengið hækkaði nokkuð skarpt. Á fyrsta degi viðskipta hækkaði það um tæplega 20 prósent.
Síðan þá hefur ríkið selt 22,5 prósent hlut til viðbótar í bankanum á 52,65 milljarða króna í lokuðu útboði þar sem 207 skilgreindir fagfjárfestar fengu að kaupa. Sú sala fór fram 22. mars á þessu ári og hefur haft mikla eftirmála. Í könnun sem Gallup lét framkvæma í vor kom fram að 88,4 prósent landsmanna töldu að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað við söluna og 83 prósent þjóðarinnar sögðust óánægð með framkvæmdina.
Sú gagnrýni sem sett var fram á söluferli Íslandsbanka gerði það að verkum að frekari áformum um sölu á hlut ríkisins í bankanum, en ríkið heldur enn á 42,5 prósent hlut, var slegið á frest um óákveðinn tíma.
Hluthöfum fækkað um 40 prósent á einu ári
Þegar Íslandsbanki birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í síðustu viku kom fram að hluthafar í bankanum séu nú 14.300 talsins. Þeim hefur því fækkað um 9.700 frá því í júní í fyrra, eða um 40 prósent. Kaupendur af þorra þeirra bréfa sem seld hafa verið eru íslenskir lífeyrissjóðir, í eigu íslensks almennings, sem eiga að minnsta kosti samanlagt um 28 prósent hlut í bankanum.
Á sama tíma hefur virði Íslandsbanka aukist gríðarlega, en virði bréfa í honum var í byrjun viku var 60,2 prósent hærra en skráningargengi bankans. Það þýðir að einstaklingur sem keypti fyrir eina milljón króna í fyrra, og heldur enn á bréfum sínum, á nú bréf sem er um 1,6 milljón króna virði.
Markaðsvirði bankans við skráningu var 158 milljarðar króna. Það var í byrjun viku 253,2 milljarðar króna og hefur því hækkað um 95,2 milljarða króna á því rúma ári sem liðið er frá skráningu. Sá 35 prósent hlutur sem ríkið seldi í fyrrasumar var í byrjun viku 33,6 milljarða króna meira virði en hann var þegar ríkið seldi hann.
Þeir sem keyptu 22,5 prósent hlut í mars gerðu það á genginu 117 krónur á hlut, sem var rúmlega fjögur prósent undir skráðu gengi bankans á þeim tíma. Sá afsláttur var rökstuddur með því að það væri alvanalegt alþjóðlega þegar stór hlutur í skráðu félagi væri seldur með tilboðsfyrirkomulagi að gefa afslátt.
Fyrir liggur að hluti þeirra fjárfesta sem var boðið að taka þátt seldu sig út úr bankanum skömmu eftir að hinu lokaða útboði lauk. Það hafa fleiri líka gert, enda hefur hluthöfum í Íslandsbanka fækkað um eitt þúsund talsins frá lokum marsmánaðar, þegar þeir voru 15.300 talsins.
Hlutabréf í Íslandsbanka eru nú nú 8,2 prósent meira virði en þau voru þegar ríkið seldi 22,5 prósent hlut í mars. Það þýðir að virði þess hlutar hefur aukist um 4,3 milljarða króna.
Hagnaðist um 11,1 milljarð króna á fyrri hluta árs
Íslandsbanki birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í síðustu viku. Þar kom fram að hagnaður bankans hafi verið 11,1 milljarður króna á fyrstu sex mánuðum ársins og arðsemi eigin fjár 10,9 prósent, sem er yfir tíu prósent markmiði bankans.
Hreinar þóknanatekjur jukust um 12,6 prósent milli ára og greinar vaxtatekjur um 17,2 prósent, Kostnaðarhlutfall bankans – en stærsti kostnaðarliðurinn er starfsmannahald – lækkaði úr 50,6 í 45 prósent milli ára en starfsfólki í fullu starfi hefur fækkað úr 768 í 740 á einu ári.
Vaxtamunur á síðasta ársfjórðungi var 2,9 prósent, sem er ívið hærra en hann var á öðrum ársfjórðungi 2021, þegar hann var 2,4 prósent.
Íslandsbanki greiddi 11,9 milljarða króna til hluthafa sinna í arð vegna frammistöðu síðasta árs. Þegar bankinn birti ársreikning sinn vegna ársins 2021 í febrúar kom fram að stjórn hans stefndi að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé á næstu 12-24 mánuðum. Sú vegferð hófst með því að aðalfundur bankans samþykkti að hefja endurkaup á bréfum fyrir 15 milljarða króna í ár.