Margir þekkja söguna um heimilisaðstæðurnar hjá henni Grýlu gömlu sem sópaði gólfin milli þess sem hún flengdi synina. Þótt í sögunni sé ekki sagt nánar frá ræstingagræjunum hjá Grýlu má líklega fullyrða að hún hafi notast við hrísvönd festan á heimagert kústskaft. Margar sögur eru til af nornum sem, löngu fyrir tíma flugvéla, geystust um himinhvolfið á kústskafti, í misjöfnum erindagjörðum. Þekktust norna, sem notast hafa við þennan ferðamáta er kannski hin rússnesk slavneska Baba Jaga en af henni eru til ótal „tilgátumyndir“ þar sem hún ferðast um heiminn.
Þegar skrifari þessa pistils var að alast upp, uppúr miðri síðustu öld var ein af hetjum hvíta tjaldsins, og síðar sjónvarpsins, Roy Rogers (iðulega borið fram Roji Roggers) sem kom ríðandi á hestinum Trigger og bjargaði málum þar sem þörf var á. Hann brast svo gjarnan í söng, við takmarkaðar vinsældir sumra áhorfenda sem frekar vildu hasar en söng og gítargutl.
Kústskaftið kom í stað Trigger
Þótt marga íslenska stráka hafi dreymt um að líkjast Roy Rogers, að frátöldum söngnum, var það hægara sagt en gert. Hestar voru ekki í hvers manns eigu og alvöru kúrekar með barðastóra hatta fyrirfundust ekki á Íslandi.
Flestir uxu uppúr þessari tegund hestamennsku og vinsældir Roy Rogers dvínuðu. Kústskaftshestarnir, eða reiðprikin, máttu dúsa í geymslum og enduðu gjarna á haugunum. Dagar þessa leikjar voru að mestu taldir, hér á landi.
Hobbyhorse Revolution
Eftirhermuleikurinn með kústskaftið var þekktur víðar en hér á landi. Og þótt hann hafi að langmestu leyti horfið úr íslensku leikjaflórunni er ekki alls staðar sömu sögu að segja. Í Finnlandi naut hann á árum áður mikilla vinsælda og árið 2002 öðlaðist hann fyrir alvöru nýtt líf. Það ár stofnaði áhugafólk um reiðprikið Suomi Keppehevosharrastajat ry, finnsku reiðprikasamtökin.
Í Finnlandi voru það ekki strákar með Roy Rogers drauma sem ánetjuðust reiðprikinu heldur stúlkur á aldrinum 10 – 18 ára. Þótt ýmsum þætti þessi leikur með reiðprikin bæði gamaldags og hallærislegur breytti það engu. Árið 2017 gerði finnski leikstjórinn Selma Vilhunen heimildamynd um þrjár stúlkur sem léku sér með reiðprik. Þær höfðu mætt ýmsum erfiðleikum í lífinu en fengu útrás í „hestamennskunni“.Myndin heitir Hobbyhorse Revolution, hún vakti mikla athygli í Finnlandi og einnig í nágrannalöndunum.
Mikill og vaxandi áhugi
Í Finnlandi eru nú starfandi mörg félög reiðprikaáhugafólks og sömuleiðis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi en í öllum löndunum er áhuginn, sem fer vaxandi eins og í Finnlandi, nær eingöngu bundinn við stúlkur. Starfsemi reiðprikafélaganna hefur ekki farið fram hjá hestamannafélögum í löndunum fjórum og Samtök danskra hestamanna hafa til að mynda sent aðildarfélögunum leiðbeiningar og ráðleggingar varðandi „Kæphesteridning“ eins og það heitir uppá dönsku.
Íþrótt eða leikur
Reiðprikaiðkendur hafa iðulega mætt fordómum. Fengið að heyra að þetta áhugamál geti ekki talist íþrótt heldur leikur fyrir börn og unglinga. Reiðprikafólk gefur lítið fyrir slíkt tal, segir reiðprikið sameina leik og líkamsrækt, slíkt sé öllum hollt.
Árlega eru haldin fjölmörg mót þar sem reiðprikafólk frá löndunum fjórum leiðir saman „hesta“ sína. Einnig landshlutamót fyrir utan innanfélagsmót Þar er keppt í ýmsum greinum sem sumar líkjast þeim sem tíðkast í hefðbundinni hestamennsku. Dómarar eru iðulega fyrrverandi knapar eða fólk sem vant er að dæma á hestamannamótum.
Hönnun og aukahlutir
Margir reiðprikaeigendur leggja mikið upp úr útliti haussins, sem alltaf skal þó líkjast hestshaus, burtséð frá stærðinni. Á allra síðustu árum hafa sprottið upp fjölmargar verslanir sem selja alls kyns hluti sem tengjast reiðprikamennskunni, fyrir utan reiðprikin sjálf, efni til hausagerðar, beisli o.s.frv. Fyrir reiðprikaeigendur sem hyggjast taka þátt í keppnum skiptir máli að „fákurinn“ sé sem léttastur og af praktískum ástæðum, til dæmis þegar stokkið er yfir hindrun skal skaftið ekki vera lengra en 40 – 45 sentimetrar.