Frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um stofnstyrki til félagslegra leiguíbúða var dregið til baka í lok apríl síðastliðins og hefur síðan verið í skoðun að setja fram nýtt frumvarp um málið með talsvert breyttri útfærslu.
Þó er ósennilegt að lokið verði við útfærslu á nýju frumvarpi á þessu þingi. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Kjarninn sendi fyrirspurn til ráðuneytisins vegna þeirra tveggja frumvarpa Eyglóar sem hafa verið í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu undanfarnar sjö vikur. Annars vegar var um að ræða frumvarp um stofnstyrki til félagslegra leiguíbúða og hins vegar frumvarp um breytt húsaleigubótakerfi, þannig að húsnæðisbætur séu greiddar til fólks úr sama kerfi óháð því hvort það leigir eða á húsnæði. Kostnaðargreiningar úr fjármálaráðuneytinu hefur verið beðið um talsvert skeið, enda hefur Eygló Harðardóttir talað um að það verði að klára húsnæðismálin á þessu þingi og jafnvel halda sumarþing til þess að klára þau. Hún hefur líka sagt að málin geti verið innlegg inn í kjaradeilur.
Engin niðurstaða um breytingar á kerfinu
Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að við frumgreiningu á frumvarpinu hafi vaknað margvísleg álitaefni sem tekin hafi verið til skoðunar og gerðar fyrirspurnir um til velferðarráðuneytisins. „Á því stigi féll velferðarráðuneytið frá því undir lok apríl síðastliðinn að leggja fram það frumvarp í þeirri mynd og hefur síðan haft til skoðunar að setja fram annað frumvarp um málefnið með talsvert breyttri útfærslu,“ segir í svari ráðuneytisins. Í kjölfar þess að frumvarpið var dregið til baka segist fjármálaráðuneytið hafa greint velferðarráðuneytinu frá því að til að fá umsögn um breytt frumvarp frá fjármálaráðuneytinu þyrfti að senda inn nýtt erindi þess efnis.
Þá segir fjármálaráðuneytið að málefni félagslegra leiguíbúða séu til umfjöllunar í samráðsnefnd um húsnæðismál, „og liggur ekki fyrir niðurstaða að svo stöddu um hvort eða hvernig breytingar stjórnvöld kunna að gera á fyrirkomulagi þeirra mála. Þótt vera megi að sett verði fram stefnumið um málaflokkinn á næstunni má telja ósennilegt úr því sem komið er að lokið verði við útfærslu á nýju frumvarpi um þennan málaflokk ásamt umsögn um fjárhagsáhrif til framlagningar á vorþinginu.“
Hitt frumvarpið kláraðist í gær
Hitt frumvarpið sem hefur verið til umsagnar í fjármálaráðuneytinu varðar breytt kerfi húsaleigubóta. Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að vinnsla á þeirri umsögn hafi tekið nokkurn tíma, „m.a. þar sem skorti mjög á talnalegar greiningar á grundvelli og áhrifum frumvarpsins sem þurfti því að vinna fyrir umsögnina. Af þeirri ástæðu hefur sú umsögn orðið óvenju umfangsmikil samantekt.“ Sú umsögn var þó tilbúin og send til velferðarráðuneytisins í gær, og er nú til skoðunar þar. „Næsta skref varðandi það frumvarp er þá væntanlega að þau málefni verði tekin til umræðu í ríkisstjórn.“
Nýbúin að segjast bjartsýn á að málin komi fram
Sem fyrr segir hefur Eygló Harðardóttir tjáð sig mikið um húsnæðisfrumvörpin öll, en tvö frumvörp hennar til viðbótar voru lengi í vinnslu og voru að lokum tekin inn í þingið með afbrigðum eftir að frestur til að leggja fram mál á vorþingi var liðinn.
Eygló tjáði sig síðast um þessi mál í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina. Þá sagðist hún bjartsýn á það að frumvörpin tvö myndu koma fram, að samstaða muni nást um þau og að þau hljóti brautargengi í þinginu. Hún sagði líka að frumvörpin tvö gætu orðið mikilvægur hluti af lausn þeirra hörðu kjaradeilna sem nú geisa á vinnumarkaði. „Ég held að þau geti verið mjög mikilvægur hluti af lausninni,“ sagði Eygló um helgina. Þá var hins vegar búið að draga annað frumvarpið til baka úr fjármálaráðuneytinu.