Stjórn Twitter hefur samþykkt 44 milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboð Elon Musk, ríkasta manns heims, á samfélagsmiðlinum. Musk hefur lofað að draga úr ritskoðun á miðlinum, nokkuð sem hefur vakið upp ótal spurningar um hvaða þýðingu þessi nálgun mun hafa fyrir „stafræna bæjartorgið“, líkt og Musk lýsti miðlinum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á mánudag eftir að tilboð hans var samþykkt.
Musk keypti fyrst hlutabréf í Twitter í janúar og greindi frá því fyrr í þessum mánuði að hlutur hans í fyrirtækinu væri orðinn meira en níu prósent. Við það vöknuðu alls konar spurningar. Hvað ætlaði Musk sér að gera? Á þessum tímapunkti var hann orðinn einn stærsti hluthafi í Twitter og bauðst honum þá sæti í stjórn fyrirtækisins en afþakkaði boðið og sagði ljóst að samfélagsmiðillinn gæti hvorki dafnað né þjónað tilgangi sínum í núverandi formi.
44 milljarðar Bandaríkjadalir – 5.700 milljarðar króna
Twitter hafnaði tilboði Musk í fyrstu en eftir samþykki stjórnarinnar á mánudag kemur það nú í hlut hluthafa að ganga að tilboðinu. Heildarupphæð tilboðsins sem Musk gerði í Twitter er rúmir 44 milljarðar Bandaríkjadalir, eða sem nemur rúmlega 5.700 milljörðum íslenskra króna. Musk greiðir 54,2 Bandaríkjadali fyrir hvern hlut, sem er 38 prósentum hærra en núverandi hlutabréfaverð í fyrirtækinu.
Musk náði þeim áfanga í janúar í fyrra að verða ríkasti maður heims þegar hann tók toppsætið af Jeff Bezos, stofnanda Amazon. Musk er metinn á 273 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmum 35.577 milljörðum íslenskra króna.
Musk hefur gefið það út að hann ætli að taka Twitter af markaði, en fyrirtækið var skráð á markað 2013. Geri hann það verður það stærsta fyrirtæki sem tekið hefur verið af markaði í að minnsta kosti tvo áratugi, samkvæmt gögnum frá Dealogic.
„Tjáningarfrelsi er undirstaða virks lýðræðis og Twitter er stafræna bæjartorgið þar sem tekist er á um mikilvæg málefni sem varða framtíð mannkyns,“ er haft eftir Musk í yfirlýsingu sem gefin var út eftir að yfirtökutilboð hans var samþykkt. Musk segir möguleika Twitter gríðarstóra og hann hlakki til að vinna með fyrirtækinu og notendum miðilsins til að láta þá verða að veruleika.
Stóra spurning er einmitt: Hvernig ætlar Musk að nýta þennan gríðarstóra vettvang, sérstaklega þegar litið er til mál- og tjáningarfrelsis.
Sjálfur er Musk með um 85 milljónir fylgjenda á Twitter þar sem honum er nánast ekkert óviðkomandi, líkt og nýlegt dæmi sýnir þar sem hann birti samsetta mynd af Bill Gates og tjákni (e. emoji) af óléttum karlmanni. Túlki hver fyrir sig.
in case u need to lose a boner fast pic.twitter.com/fcHiaXKCJi
— Elon Musk (@elonmusk) April 23, 2022
Fyrirhugaðar aðgerðir Musk að minnka ritskoðun á Twitter munu að öllum líkindum leiða til aukins utanaðkomandi aðhalds, eða að minnsta kosti kröfu um það. Musk hefur gefið það út að hann ætli aðeins að banna ólöglegt efni á Twitter en ekki tekið fram hvernig hann ætli að taka á hatursorðræðu, kynþáttahatri eða netníði, svo dæmi séu nefnd. Þá hefur Evrópusambandið minnt Musk góðfúslega á að Twitter verði að fara eftir Evrópulöggjöf sem verndar notendur gegn hatursorðræðu, upplýsingaóreiðu og öðru skaðlegu efni sem ratar á miðilinn. Löggjöfin tekur gildi innan nokkurra mánaða en á aðeins við í Evrópu en ekki Bandaríkjunum, eðli málsins samkvæmt.
Mannréttindasamtök hafa nú þegar viðrað áhyggjur sínar af því að yfirtaka Musk muni leiða til aukinnar hatursorðræðu á Twitter. Þannig hefur Amnesty International áhyggjur af þeim skrefum sem Musk hyggst taka sem grafi undan stefnu fyrirtækisins sem snýr að því að vernda notendur þess. Þá hafa mannréttindasamtökin Human Rights Watch áhyggjur af því að hatursorðræða fái að standa óáreitt á Twitter ef áætlanir Musk ganga eftir.
Two words: toxic twitter.
— Amnesty International (@amnesty) April 25, 2022
Trump ætlar að halda kyrru fyrir í „Sannleikssamfélaginu“
Twitter hefur verið gagnrýnt undanfarin ár fyrir að vera vettvangur upplýsingaóreiðu og fyrir að gera notendum kleift að dreifa falsfréttum. Twitter brást við með aukinni ritskoðun og en varð þá einnig fyrir gagnrýni, ekki síst frá einstaklingum á hægrivæng stjórnmálanna.
Meðal þeirra sem varð fyrir barðinu á þessari ritskoðun er Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, en aðgangi hans á Twitter var endanlega lokað tveimur dögum eftir innrás stuðningsmanna hans í þinghús Bandaríkjanna í janúar á síðasta ári. Fjölmargir hafa velt því fyrir sér hvort áform Musk greiði leið Trump að Twitter á nýjan leik.
Trump þaggaði niður í orðrómum þess efnis í samtali við Fox-fréttastofuna á mánudagskvöld þegar hann gaf það út að hann ætli að halda sig við sinn eigin nýstofnaða samfélagsmiðil, Truth Social. Sannleikssamfélag Trump hefur ekki gengið sem skyldi frá því að það kom út í febrúar. Almenningi gengur illa að fá aðgang að miðlinum og tveir reynslumiklir frumkvöðlar í tæknigeiranum hafa sagt skilið við Truth Social og Trump er ævareiður. Sjálfur hefur hann ekki birt „sannleik“ í tæpa tvo mánuði.
„Ég ætla ekki á Twitter,“ sagði Trump, sem vonast þó til að yfirtaka Musk á Twitter gangi endanlega í gegn þar sem hann trúir því að Musk geti bætt miðilinn umtalsvert. Þó hefur verið bent á að með kaupum Musk á Twitter hafi hann endanlega gert út um sannleikssamfélag Trump.
Repúblikanar eru jákvæðir í garð yfirtöku Musk á Twitter. Marsha Blackburn, öldungadeildarþingmaður fyrir Tennessee, segist vongóð að Musk muni binda endi á ritskoðun notenda sem hafi önnur og öðruvísi sjónarmið á málum.
Demókratar hafa efasemdir og Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, vildi ekki ræða tilboð Musk við fjölmiðla þegar eftir því var leitað en sagði Joe Biden Bandaríkjaforseta lengi hafa haft áhyggjur af þeim völdum sem gríðarstór vettvangur samfélagsmiðla veitir.
Er hægt að stjórna Twitter, Tesla og SpaceX samtímis?
Mörgum spurningum er enn ósvarað um framtíð Twitter og hvernig Musk hyggst haga málum. Hver á að leiða fyrirtækið og hversu mikil afskipti mun hann sjálfur hafa af starfsemi Twitter? Ríkasti maður heims hefur nefnilega mörgum hnöppum að hneppa, meðal annars sem forstjóri og stærsti eigandi rafbílafyrirtækisins Tesla og stjórnandi geimferðafyrirtækisins SpaceX.
Parag Agrawal, framkvæmdastjóri Twitter, hefur setið við stjórnvölinn síðan í nóvember. Hann segir allt óráðið ennþá, það verði ekki fyrr en gengið verður frá samningnum, sem stjórn Twitter hefur mælt með að hluthafar samþykki, sem koma muni í ljós í hvaða átt fyrirtækið mun stefna. Talið er að staða Agrawal sé tryggð fram að því, en hvað tekur svo við mun tíminn einn leiða í ljós.