Búseta á Íslandi er oft sögð vera hafinu að þakka. Hafið færir okkur fiskinn sem Íslendingar hafa lifað á og auðgast í gegnum aldirnar og hafið færir okkur mildara loftslag en við ættum kannski að búa við svo norðarlega á hnettinum.
Einfalt er að bera saman Ísland við eyjarnar í Beringssundi, sem liggja á svipuðum breiddargráðum og Ísland. Þar eru eyjarnar umluktar ís stóran hluta ársins sem gerir ferðalög og fiskveiðar erfiðar í framkvæmd, eðlilega. Sá hafís sem núorðið nær til Íslands hefur flotið mjög langan veg frá hörfandi ísrönd í norðri. Í skýrslu um hafís við Íslandstrendur má sjá hvernig jökum hefur snarfækkað á síðustu áratugum.
Þessi hörfandi ís á norðurhveli hefur skapað mikilvæg tækifæri fyrir Íslendinga. Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir auknum umsvifum þjóðarinnar á norðurslóðum, gert viðskiptasamninga við fjarlæg lönd í öðrum heimsálfum og undirbúa siglingar yfir Norðurskautið.
Hlýnun Jarðar hefur því að öllum líkindum skapað fleiri tækifæri fyrir okkar litlu þjóð en vandamál. Einhverjir hafa jafnvel gert að því skóna að hnattræn hlýnun muni gera loftslag hér enn mildara en það er nú þegar.
Golfstraumurinn (rauður) á upptök sín í Karabíahafi og rennur frá Flórídaskaga með austurströnd Bandaríkjanna og Nýfundnalandi. Þar tekur hann stefnuna austur og suður af Hvarfi tvístrast straumurinn. Kanarístraumurinn (gulur) rennur að ströndum Spánar og Afríku en Norður Atlantshafs-straumurinn (grænn) rennur norður. Hann dreifist svo að Bretlandseyjum, Noregi og Íslandi. Smelltu á myndina til að sjá hana stóra.
En það er víst ekki allt tekið út með sældinni. Hraðari bráðnun íss á Norðuskautinu og úr Grænlandsjökli hefur hægt mikið á hlýjum hafstraumum sem renna um Norður Atlantshafið. Fyrir þessu eru færð rök í nýlegri rannsókn sem birt var í hnatthlýnunarhefti tímaritsins Nature á dögunum.
Eftir að hafa rannsakað hafstraumana í Norður Atlantshafi og kortlagt hegðun þeirra margar aldir aftur í tímann komst Stefan Rahmstorf, ásamt fleiri fræðimönnum hjá rannsóknarstofnun um hnattræna hlýnun í Podstdam, að því að straumakerfið er nú veikara en það hefur verið í 1.100 ár, mögulega vegna blöndunar við ferskvatn úr bráðnandi Grænlandsjökli.
Fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir
Í líkönum sem gerð hafa verið um þær breytingar sem vænta má með aukinni hlýnun Jarðar hefur verið gert ráð fyrir breytingum á varma- og seltuhringrás hafanna. Þessar breytingar mundu hafa mest áhrif í Norður-Atlantshafi, sérlega á Norðurlöndum, Bretlandseyjum og Frakklandi þar sem loftslag mundi kólna. Golfstraumurinn, uppspretta milda loftslagsins sem við njótum hér á Íslandi, átti í þessum líkönum að veikjast mun hægar en nú virðist vera raunin.
Það mun halda áfram að hægjast á straumakerfinu hér í Norður Atlantshafi eins og líkönin gera ráð fyrir með aukinni hlýnun Jarðar en þau sýna þó engar hamfarir eða skyndilegar breytingar á þessari öld.
https://www.youtube.com/watch?v=3niR_-Kv4SM
Uppistaðan í hafstraumakerfi Norður Atlantshafs er hringrás þar sem hlýr sjór streymir norður, þar sem hann kólnar og verður saltari (meðal annars vegna ísmyndunar) með þeim afleiðingum að vatnið sekkur og streymir aftur suður á bóginn.
Rannsóknir á styrk Golfstraumsins ná aftur til miðrar 20. aldar. Síðan mælingar hófust hafa vísindamenn merkt nokkuð flökkt á styrk straumsins. Á áttunda áratugnum minnkaði styrkur straumsins mikið, þar til hann óx aftur á tíunda ártugnum. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hvort þetta flökkt (það mesta síðan mælingar hófust) sé eðlilegt í sögulegu tilliti. Rannsóknarteymi Rahmstorfs reyndi því að búa þessi gögn með fornloftslagsfræði. Með þau gögn til hliðsjónar sést að styrkur Golfstraumsins í sögulegu lágmarki.
Styrkleiki hafstrauma í Norður Atlantshafi samkvæmt fornloftslagsgögnum rannsóknarteymisns. Dökka línan lengst til hægri í línuritinu sýnir mældar niðurstöður.
Ein þeirra skýringa á þessu hrapi í styrk straumanna sem rannsóknarteymið leggur til er að hlýnun Jarðar eigi sök í máli. Í rannsókninni er bent á að Grænlandsjökull hefur verið að bráðna hratt undanfarna áratugi og að blöndun ferskvatnsins úr jöklinum komi í veg fyrir að sjórinn sem berst hingað norður úr Karabíahafi sökkvi og leiti aftur suður. Því hefur hægst á hringrásinni.
Aðrir vísindamenn sem hafa kynnt sér rannsóknina segja þarna vera merkilegar niðurstöður á ferðinni en setja þó fyrirvara við fornloftslagsgögnin og áreiðanleika þeirra. Vox.com hefur eftir Tom Delworth, vísindamanni hjá Haf- og loftslagsrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (NOAA) að allar skýringar rannsóknar Rahmstorfs byggist á þessum gögnum. „Ef þessi gögn eru áreiðanleg, þá er þetta nokkuð mikið afrek hjá rannsóknarhópnum. En sem vísindamaður vill maður alltaf sjá fleiri efnisgreinar með skýringum og heimildum.“
Ekki aðeins kaldara loftslag nyrst
Afleiðingar þess að mikið hægist á Golfstraumnum til lengri tíma er mun kaldara loftslag í Norður Atlantshaf, samkvæmt þeim líkönum sem hönnuð hafa verið. Þá mætti gera ráð fyrir því að fiskistofnar sem við hér á Íslandi reiðum okkur á, ásamt fleirum, haldi sunnar í Atlantshaf með augljósum afleiðingum fyrir íslenskan efnahag. Þá má gera ráð fyrir frekari breytingum á lífríki sjávar við strendur landsins enda bera hafstraumar með sér svif og aðrar lífverur.
Fyrir íbúa á austurströnd Bandaríkjanna mun hægari Golfstraumur þýða hærra sjávarborð, til viðbótar við það vatn sem verður til við bráðnun íss. Hafstraumar eru þess eðlis að fyrir þeim miðjum er yfirborð sjávar hærra en við jaðar þeirra. Til útskýringar mætti ímynda sér þverskurð hafstraums eins og staðlaða normaldreifingu í heimi tölfræðinnar. Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, bloggaði um þennan möguleika fyrir rúmlega tveimur árum og setti í samhengi við styrk straumsins hverju sinni.
„[...] árið 2000 var sjávarborð lægra og straumurinn nær landi og sterkari, en árið 2011 var sjavarborð við ströndina hærra og straumurinn veikari. [...] Þegar straumurinn hægir á sér þá rís sjávarborð við ströndina,“ skrifaði Haraldur og benti á að flóðin í New York og New Jersey sem fylgdu fellibylnum Sandy í október 2012 hafi verið tengd samskonar hækkun sjávarborðs.
Fellibylurinn Sandy olli því að sjór gekk á land víða á austurströnd Bandaríkjanna. (Mynd: EPA)
Hlýnun sjávar suður af Íslandi og Grænlandi gæti, með hægari hringrás sjávarstraumanna, orðið hægari en annarstaðar í heiminum. Það mundi hafa áhrif á veðurmunstur bæði í Evrópu og Norður-Ameríku vegna þess að það sem kallað er Norður-Atlantshafssveiflan mundi verða fyrir truflunum.
Norður-Atlantshafssveiflan er í raun það sem ber ábyrgð á ítrekuðum lægðum við Ísland yfir vetrarmánuðina og einn af aðalorskaþáttum breytilegs veðurfars í Evrópu. Sveiflan sýnir loftþrýsingsmun á milli Íslands og Asoreyja, sunnar í Atlantshafi, og segir til um stefnu og styrk vestanáttar yfir Norður-Atlantshafi.
En þó svæðisbundnar breytingar verði á hafstraumum í Norður Atlantshafi með tilheyrandi falli á hitastigi verður að reikna með þeim hnattrænu breytingum sem virðast hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, hafið þessar breytingar. Hlýnun Jarðar gæti þannig haldið hitastigi stöðugu yfir Norður-Atlantshafi.
Ófullkomin líkön og óvissa
Rannsóknin sem birtist í hnatthlýnunarhefti Nature kann að vera nýstárleg og varpa ljósi á veruleika sem talinn var vera í nokkuð fjarlægri framtíð. Niðurstöðurnar eru þó ekki hafnar yfir allan vafa. Rannsóknin hefur vakið athygli á hugsanlegum göllum í líkönunum sem gerð hafa verið af hnattrænni hlýnun og afleiðingum hennar.
Í tímaritinu er bent á að þau líkön sem stuðst hefur verið við gætu verið að fara á mis við mikilvæg öfl eins og hraða bráðnun ísbreiðunnar á Grænlandi; hraðari bráðnun íss en nokkur hafði gert sér grein fyrir. Michael Mann, einn höfunda greinarinnar í Nature, segir í samtali við Vox.com að niðurstöðurnar gefi enn aðra vísbendingu um að hnatthlýnunarlíkönin geri ráð fyrir of litlum og hægum breytingum.
Aðrir vísindamenn sem hafa kynnt sér rannsókn hópsins frá Podstdam segjast efast um að mikilla breytinga sé að vænta í nánustu framtíð. Gerald Meehl, hjá Loftslagsrannsóknarmiðstöð Bandaríkjanna, segist halda að líkönin fangi enn aðalatriðin. Delworth, hjá NOAA, tekur í sama streng og bendir á að enn séu óvissuþættir í nýju rannsókninni sem þurfi að skýra.
Það er því kannski ekki tímabært að lýsa yfir neyðarástandi í nánustu framtíð. Þeim mun mikilvægara verður að fylgjast með breytingum á hafstraumum enda gætu þeir mótað örlög Íslendinga, eins og þeir hafa raunar gert hingað til.